Kaerleikshvetjandi blogg

föstudagur, júní 30, 2006

Skrifað sumarið 2004

Elsku mamma mín!

Ég ákvað í leiðindum mínum og óléttueinkennum, að skrifa þér örstutt bréf. Ég uppgötvaði það nefnilega við nána naflaskoðun, að ég fékk í raun aldrei mörg tækifæri til þess að skrifa þér bréf, enda aldrei send í sveit eða heimavistarskóla. (Fyrir utan vikudvöl á Uxahrugg fyrir austan, þaðan sem ég hrökklaðist með heiftarlegt ofnæmi).

Þar sem ég er nú von bráðar að verða mamma sjálf, bæði stjúpmamma fyrir börnin hans Lazaro þrjú, og svo mamma litla krílisins sem er í mallanum á mér, þá fór ég að hugsa um hvernig mamma þú hefur verið og hver mín reynsla af þér er. Það var ekkert nema gott sem kom upp í hugann. Við áttum svo margar skemmtilegar stundir saman að ég get ekki talið þær allar upp hér. En það sem stendur helst upp úr er þessi tilfinning sem þú gafst mér, að það væri ekkert sem skipti þig jafn miklu máli og ég. Ég var gulleplið! Ég hafði líka alltaf þá tilfinningu að ég væri elskuð heitar en nokkurt annað barn og að sama hve alvarlegum vandræðum ég lenti í eða erfiðleikum, þá stæðir þú alltaf við bakið á mér og gætir leyst allann vanda, sama hve stór eða flókinn hann væri. Enda var það alltaf raunin. Þú varst sem klettur í mínu lífi og ert enn þá þrátt fyrir að sjálfsögðu hafi samskiptin breyst að einhverju leyti, þar sem núna á ég mína eigin fjölskyldu og mann.

En þó að samskiptin séu kannski ekki alveg eins tíð og áður, eru þau ekki ómerkilegri eða fyllt minni kærleika. Ég elska þig jafn heitt (og kannski meira ef það er hægt?) og áður, og þegar allt kemur til alls, ert það alltaf þú, þú, þú sem ég treysti á í öllum málum, þó að ég sé á þrítugsaldri. Ég þakka góðum Guði fyrir að hafa leyft mér að fæðast hjá þér en ekki einhverri annarri móður, þó eflaust séu þær flestar ágætar. En engin er eins og þú.

Kossar og kveðjur,
þín ástkær dóttir,
Nína Rúna.

fimmtudagur, júní 29, 2006

A Thought
The enticing presence
of unknown entities
calls for unity
with the primal force.
Alas, matter
embraces the longing
and smothers the spirit
in the gardens of memories.
And the years go by
in the rustle of time.
jrk

miðvikudagur, júní 28, 2006

Ljóð II
Hugmyndir

Ópin læðast um hugann og hverfa
hægt inn í þögn sálar sem grætur.
Allt svo undurhljótt sem lifir hér
og ekkert sem hvetur eða örvar hugann.

Að horfa í spurn og líta heiminn
er hamingja um stund og yljar.
En óttin kemur og hvergi hlífir
og hönd sorgar umvefur einan.

Það er alltaf spurn hvar hugmyndir eru
sem hvetja áfram veg gleði og vonar.
Kannski í skjóli sem leynist í birtu
sólar opinberast ef beðið er af afli.

Ekki er von á létti í bráð þó ætíð
sé óskað alls sem örvar og hlýjar þreyttum.
Ef skimað er yfir völl undra sem leynast
og ógna þögul þá eflist og magnast vonarvissa.

Án gleði sýna vaknar leiði og líkn
er langt frá þeim heimi sem blasir við.
Ó, að allt verði sem nýtt og notist
án neikvæðis í hafi synda og vondeyfðar.

Ögrandi ógnir vissu um uppgjöf
æpa mót kvíða og drungatrega.
Allt ljómar er litið er lengra fram
á ljóshaf sigra sem blasa við í hryggð.

Ó, að horfa af gleði inn í trúarvissu
er huggun óttaslegnum sem trega.
Ef kvöl er nærri þá kalla á hjálp
og kallið heyrist og allt verður svo bjart.

Höf. Jóna Rúna Kvaran.
Ort á Hjálpræðishernum 29.janúar 2006.

mánudagur, júní 26, 2006

Komnar inn nýjar myndir sem Rosario ömmustelpa tók á sína myndavél, sem var fermingargjöf frá ömmu Jónu. Smellið á "Myndirnar hennar Rosario".
Ljóð I
Ævintýri

Hvar er þögn án hafsjós vandræða
er hvolfist yfir án birtu og yls.
Þegar ríkir sorg og sólarleysi
sefur andinn og grætur án orða.

Opnast hugur og horfir inn í tómið
hvergi neins að vænta, bara myrkur.
Allt svo kalt sem krefst vonar og trúar
í krafti elds sem lifir djúpt í sálinni.

Þegar allt er hljótt, hlýr andvari logar
og heitur strýkur grátbólgna kinn trega.
Í heimi hörku og spennu þrífst tæpast
hugur bjartrar sýnar ævintýra án tals.

Óljóst sér og vonar vanmáttug hið góða
er voldugt breiðir faðminn mót skuggum.
Í afkimum dökkar myndir leynast og tifa
er láta hrærast í skjóli eymdar og vonleysis.

Að hafa ótta af vanmætti ógnar
öllum sem lifa í skjóli hryggðar án athafna.
Að finna frelsi er hvatning sem gleður
því frjáls horfir glaðbeitt fram á veg.

Sól bjartsýni og kærleika er sterkt
sigurtákn sem hrífur gleðivana sál.
Að halla sorgbitnu hjarta að þeim
sem hafa styrk sem ornar í kvíða.

Það er fátt sem fæst án vilja
fegnum án leiða depurðar sem lamar.
Ó, að allt verði gott og gefandi
er grípur hið innra og gleður dapra.

Höf. Jóna Rúna Kvaran
Ort á Hjálpræðishernum sunnudaginn 22.janúar 2006

sunnudagur, júní 25, 2006

Dapurleiki
Af gefnu tilefni getum við flest af og til fundið fyrir einhvers konar gleðileysi. Þegar þannig árar innra með okkur er hentugt að finna leið út úr depurðinni með því að gera eitthvað sem grípur huga okkar og sál föstum tökum og gefur okkur um leið góðar tilfinningar og heppilegar hugsanir.
Þegar við erum máttlítil og leið er jafnframt viturlegt að við gefum líf jákvæðum samskiptum við þá sem eru uppörvandi og glaðir. Hvers kyns vonbrigði í aðstæðum okkar og samskiptum við aðra eru vitanlega verkefni sem við þurfum að vinna úr og leysa af kostgæfni ef mögulegt er. Við eigum ekki að láta vonbrigði draga okkur niður í hyldýpi örvæntingar og ótta við líf sem við erum þrátt fyrir allt knúin til að lifa. Með þó nokkurri fyrirhöfn er hægt að temja sér gleði og yl hið innra ef við viljum það og þráum slíka líðan af einlægni og ákveðni.
Ekkert í innra lífi okkar er í raun svo snúið eða flókið að ekki sé hægt að takast á við það með ákveðnum aðgerðum ef við viljum og kjósum það í raun og veru. Tíma- bundin, ókát afstaða til tilverunnar og fólks er líkleg til þess að draga dilk vandræða á eftir sér ef við þjálfum okkur ekki í að bregðast rétt við henni. Það er auðvitað eðlilegt að heilbrigðir geta orðið vondaufir um tíma og þá sérstaklega er þeir sjá t.d. öll sín markmið fara fyrir lítið eða verða fyrir höfnum eða einhvers konar missi.
Öll sammannleg reynsla er margþætt og flókin auk þess að tengjast jafnt sorg sem gleði. Eftir því sem við höfum meiri þekkingu á innra eðli okkar því mun meiri líkur eru á að við getum unnið á dapurleikanum. Best er að við ákveðum að temja okkur gleði og þakklæti við sem flestar aðstæður og forðums að láta tímabundin vandræði gera okkur óvíg og leið. Dapurleiki er ekki óyfirstíganlegt ástand. Þess vegna er mikilvægt að við eflum í mæðunni nánast eingöngu það atferli og þær hugsanir sem ýta undir tiltrú okkar á betri og réttmætari líðan. Bjartsýni borgar sig í viðkvæmum aðstæðum og þá ekki síst í þeim sem okkur þykja gleðisnauðar eða óviðunandi um tíma.
Ef vilji er fyrir hendi getum við stjórnað afstöðu okkar til alls þess sem hendir okkur. Ágætt er því og eðlilegt að við einsetjum okkur fremur að velja að bregðast við örðugleikum með tiltrú á tilgang þeirra heldur en að láta þá í langan tíma gera okkur angurvær og hljóð. Við sem viljum getum líka breytt afstöðu okkar til þess sem við fáum ekki breytt og gerir okkur vondauf og döpur. Það gerum við t.d. með því að vera uppörvandi og jákær gagnvart sjálfum okkur og öðrum, hverjar svo sem aðstæður okkar eru.
Hyggilegast er að breyta dapurleika og lumbru í gleði og bjartsýni. Þannig afstaða auðveldar okkur að njóta þess sem er það dýrmætasta sem við eigum og það er lífið sjálft-þrátt fyrir að við gleymum því stundum af ómaklegu tilefni.
JRK