Kaerleikshvetjandi blogg

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Barnið

Í gylltum sólargeisla sigurofnum
stoltir foreldrar í sælu fagna ögn.
Gleðiloga í brennandi trúarglóð
kveikir gulleldur ástarbáls ævióð.

Í roðagylltu skauti lífslindar ljúft
lifir vissa um eilífðargöngu sálar.
Ef mamma tárast eða kímir glatt
undrakrílið í samhyggð tekur þátt.

Um tíma ósýnileg sál í elskuhreiðri
unaðar í kyrrð og yl vex og dafnar.
Með von og vísi að ævisögu í anda
veraldar einbúans af hug og hjarta.

Nú er lítil stjarna í örmum foreldra
umvafin ljómandi kærleiksneistum.
Í okkar veröld með undrun og spurn
opnar lífstakt ævintýraþels framtíðar.

Höf. Jóna Rúna Kvaran

Ort 11-9-2004

mánudagur, júlí 03, 2006

Ágreiningur

Í sjálfu sér er ekkert skrýtið þó að við séum ekki sammála um alla hluti. Skilningur okkar og viðhorf eru mismunandi og mat okkar á mönnum og málefnum getur verið á ýmsa vegu. Flest erum við þó sammála um að óþarfa þrætugirni og sundurlyndi eru samskiptatengsl sem eru þreytandi og neigjörn.

Alls kyns aðstæður og framkvæmdir geta verið hvati að sundrung og ósætti manna á milli. Ef við viljum örva góð og gegn samskipti verðum við að temja okkur umburðarlyndi og málamiðlanir gagnvart hvert öðru frekar en dómhörku og árekstra. Við verðum jafnframt að temja okkur að hlusta og ígrunda vel sjónarmið hvert annars, sérstaklega ef við viljum komast hjá ágreiningi og ósamlyndi.

Misþokki og deilur eru hvimleið og hefta þægileg og ánægjuleg samskipti. Smá karp gerir lítið ógagn en illskeyttar þrætur og vanvirðandi þref veikir mátt mannúðlegra og mildra samskipta og eru því ekki ákjósanleg. Við eigun ekki að vera tvídræg og ósamþykk af engu tilefni af því að það virkar leiðinlega og neirænt á þá sem fyrir verða.

Best er að við reynum að forðast ágreining og sundurlyndi. Temjum okkur frekar áhuga og alúð ef við stöndum frammi fyrir því að þurfa að karpa um menn og málefni. Við sem unnum friðkærum samskiptum höfum reynt að temja okkur að bregðast jálægt við því sem okkur þykir lítils virði og lítt spennandi. Við erum hreinskilin og opnum umræðuna um ágreiningsefnin frekar en að þrefa um þau og skapa þannig óeiningu og leiðindi. Við viljum all vinna til þess að sem flest samskipti okkar við aðra séu drengræn og réttlát.

Við forðumst misþokka og ágreiningsefni. Komi þau upp reynum við á jágjarnan og hyggilegan hátt að velta upp ýmsum hliðum mála í von um viturlegar niðurstöður og viðunandi samkomulag.

Það er enginn hagur í því að vera ósanngjarn og óvarkár gagnvart því sem er öðruvísi en við vildum. Þannig aðstæður og atburðarás bjóða upp á ósamlyndi og ágreining. Við verðum því að vera vel vakandi gagnvart öllu því sem ögrar og egnir aðra gegn okkur.

Við sem erum friðkær og glögg á aðalatriði lífsins, auk þess að vera sáttvís og sanngjörn, eigum sjaldan í langvinnum deilum við þá sem eiga samneyti við okkur. Við höfnum öllum óþarfa ágreiningi og ósætti en leggjum frekar áherslu á gildi þess að ræða málin í bróðerni. Við kjósum að gera slíkt án þess að grípa til sundurlyndis og þrefs.

Óeindrægni og ósamlyndi tengjast neikærum og svartsömum samskiptum. Það skiptir auðvitað máli að vinna bug á þeim þrætuefnum sem geta komið sér illa fyrir okkur. Ágætt er að við séum á verði gagnvart ómaklegum deiluefnum. Hyggilegt er að við reynum frekar að uppræta þau en efla. Við ættum að hafna ómaklegum deilum og þrefi en efla frekar þau samskipti sem eru jákær og friðræn og laus við óþarfa sundurþykkju og ágreining.
jrk