Kaerleikshvetjandi blogg

sunnudagur, mars 18, 2007

Nína skrifar um Jónu Rúnu

Hún mamma er mjög sérstök persóna. Hún var frábær móðir og þá sérstaklega á þann hátt að hún lét manni alltaf finnast að maður lifði við fullkomið öryggi. Ég efaðist aldrei um það að mamma myndi getað leyst öll vandamál, sama hve flókin þau yrðu. Það var svo gott að hafa þessa öryggiskennd, að vita að maður gæti alltaf komið heim og þar yrði mamma eins og klettur sem aldrei bifaðist. Eflaust var hún stundum óörugg sjálf í móðurhlutverkinu, eins og allir eru á einhverjum tímapunkti sem upplifa það að verða foreldrar, en aðalatriðið er að hún lét mig aldrei finna það og mér fannst hún alltaf vera algjörlega alvitur og áreiðanleg.Hún var líka afskaplega kærleiksríkt foreldri. Það leið ekki sá dagur að manni væri ekki sagt hve heitt maður væri elskaður og ég veit ekki hvað oft hún sagði mér söguna af minni eigin fæðingu og aðdraganda hennar. Hún kallaði mig ,,kærleiksbarn" af því að hún sagði mér að ég hefði verið svo innilega velkomin í heiminn og þráð. Hún minntist líka oft á erfiða meðgönguna þar sem læknar hefðu sagt henni að hún myndi líklega missa fóstrið en að hún hafi ekki hlustað á slíkt og lagt á sig að liggja fyrir nánast í 7 mánuði til þess að geta haldið mér. Það er ekki amalegt veganesti út í lífið að vita að svona mikið var fyrir manni haft og mamma vissi alveg hvað hún var að gera þegar hún sagði mér þessa sögu, því auðvitað hefur þetta haft góð áhrif á sjálfstraustið.Hún mamma var líka óskaplega skemmtileg og mikill húmoristi. Vinkonur mínar í barnæsku minntust á það hve vinalegt væri að heyra í henni hláturinn þegar hún sat og talaði í símann og þær voru í heimsókn hjá mér. Við göntuðumst mikið og áttum alveg sérstaklega góðar stundir þar sem ég var alveg dekruð, farið á veitingastaði, í bíó og fleira skemmtilegt. Ef til vill var hún að bæta mér eitthvað upp, ég átti auðvitað mjög veikan föður, en hvað sem öllum ástæðum leið, þá sit ég uppi með yndislegar minningar. Það var líka merkilegt hvernig hún lagði á sig að leyfa mér að halda óteljandi mörg gæludýr af öllum stærðum og gerðum, þrátt fyrir að vera sjálf mjög áhugalaus, ef ekki beinlínis hrædd, við dýr. En svona meðal annars sýndi hún ást sína á mér.Mamma var líka aðdáunarverð að því leitinu hvernig hún var alltaf tilbúin til þess að rétta fram hjálparhönd til þeirra sem þurftu á að halda. Það hlýtur að vera stórkostleg blessun að hafa öðlast að hjálpa svo mörgum bágstöddum sálum eins og mamma hefur gert og ég öfunda hana í raun af því. Hún átti það kannski til, sem var galli, að hjálpa fólki svo mikið að það var á hennar eigin kostnað, en margir hafa notið góðs af því sem hún gerði. Ég í raun man ekki eftir henni öðruvísi en að hún hafi verið með einhvern ,,skjólstæðing" upp á sína arma, og suma hverja í mörg ár. Þessi viðleitni hennar til þess að hjálpa öðrum átti líka við um eigin fjölskyldu sem hún hefur stutt í gegnum alls kyns erfiðleika allt sitt líf. Þá sérstaklega mömmu sinni sem hún reyndist betri en nokkur annar og stóð við hlið hennar í gegnum súrt og sætt alveg til hinsta dags, og voru það oft á tíðum ekki nein smáátök sem voru þar í gangi og miklir erfiðleikar. Á sama hátt stóð hún sem klettur við hlið pabba í gegnum öll hans miklu og langdregnu veikindi. Það er henni að þakka að hann þurfti ekki að enda lífdagana á stofnun heldur gat haldið virðingu sinni allt til endaloka hér heima hjá okkur.Það sorglega er að mamma hefur þurft að kljást við ótrúleg veikindi á undanförnum árum eftir að hafa hlotið skaða á skurðarborðinu ásamt öðru. En hún tekst á við þetta af hugrekki og dugnaði eins og hverjuj öðru hundsbiti. Það er virkilega aðdáunarvert að fylgjast með henni og vonandi á hún eftir að ná einhverjum bata í náinni framtíð.En hvað sem öllu öðru líður þá hlýtur manneskja sem er svona af Guði gerð, eins og hún mamma er, að eiga öruggan samastað á himnum, svo mikið er ég viss um.


Poema V

Si algún día me marchara de
Tu lado, no será porque lo halla
Deseado, quisiera ser tu hombre
Amado, aunque no esté a tu lado.

Mis palabras no han cambiado
Aunque tú lo hallas pensado
Juro que sigo enamorado
Por el tiempo que a pasado.

Si algún día te extraviaras
Indagaré por todo el mundo
Corriendo como un vagabundo
Hasta quedar moribundo.

Autor: Lázaro Luis Núñez Altuna


Fyrsta vinnan
Stundum er því þannig farið í lífinu að eins og fyrir röð af tilviljunum dettum við inní einhvers konar vinnu sem síðan verur stór hluti lífs okkar sem getur varað í mörg ár. Þegar ég var sex ára gömul þá hitti ég óvart bónda í bíl skammt frá húsinu mínu. Þessi bóndi hét Gísli og var Hannesson og var bóndi í Auðsholti í Ölfussi. Síðar kom í ljós að viðkomandi var náskyldur mér í Bergsætt enda andlitsfall, hár og augnabrúnir nauðalíkt móður minni. Þessi maður var stórgáfaður, hámenntaður kennari sem hafði valið að flytjast í sveit sökum barnmergðar, en hann átti átta stykki af börnum, ótrúlegt en algengt í þá tíð því lítið var um getnaðarvarnir.Þessi bóndi kom í bæinn einu sinni í viku til þess að selja egg og losa sig við heilu bakkana fyrri part dags til hinna ýmus bakaría. Síðan plantaði hann sér skammt frá húsinu mínu og beið eftir því að börnin í kring kæmu að bílnum og byðu sig fram sem sölumenn fyrir Gísla og eggin hans.Þegar ég var bara sex ára eins og áður sagði, þá stóð ég í bílgættinni hjá honum, þá spurði ég hvort ég mætti selja fyrir hann. Hann kvað já við, og litla stúlkan í fallegu, heimaprjónuðu, bláu peysunni sem mamma hennar hafði gefið henni skömmu áður, trítlaði af stað með heil fimm kíló í leðurtösku sem afi hennar gaf henni, því hann saumaði sjálfur leðurtöskur og gaf mömmu og litlu sílunum. Skilyrðið fyrir eggjasölunni var að hver skaffaði sína tösku. Svo undarlega vildi til að Jóna Rúna seldi í fyrstu ferðinni öll kílóin fimm, og í kjölfarið var farið af stað í bílnum, gömlum Landrover sem heyrðist töluvert í, fimm krakkar niður í Álftamýri sem var næsti sölustaður. Enn fór vinkonan af stað með leðurtöskuna og seldi skömmu seinna aftur fimm kíló. Þegar krakkarnir fóru upp í bílinn og aftur átti sér stað flutningur á milli staðar, núna í Safamýrina, þá lýstu þau upp vandlætingu sinni og pirring, sökum þess að þeim þótt eitthvað einkennilegt við það að Jóna Rúna skyldi selja öll þessi kíló. Vinkonuna setti hljóða og tók hún þá ákvörðun að láta krakkana í næstu viku, fara á sömu staði og reyna að sýna sama árangur. Þetti gerði hún, og hvað kom í ljós? Krakkarnir bara seldu ekki eins og Jóna Rúna. Málið var að litla stúlkan var svo falleg, sjarmerandi, hlý og brosmild að hún töfraði fólk upp úr skónum svo að því fannst eins og sjálfgefið að kaupa af henni egg. Sama sjarma og aðdráttarafl höfðu ekki hinir krakkarnir. Þau urðu því að bíta í það súra epli næstu tíu árin, einu sinni í viku, að selja einungis brotabrot af því sem að sú sæta seldi og við því var ekkert að gera. En í langan, heilan áratug, alltaf á föstudögum, fór sú stutta í bílferð í Landrovernum, seldi egg og kom síðan með afraksturinn til að hjálpa við að reka heimilið. Í fyrstu ferðinni seldi hún svo mikið að hún kom heim með heilar fimmtíu krónur, borgaðar í einum seðli, sem var risafjárupphæð í den. Allan þann eftirmiðdag og kvöld, sveif Jóna Rúna eins og á bleiku skýi, alsæl og glöð yfir frábærum árangri og ótrúlega sölumennsku aðeins sex ára gömul og geri aðrir betur.

Þegar ég var lítil þá var ég ráðin í vist sem barnapía í gegnum móðursystur mína hana Dagbjörtu Guðmundssdóttur bankafulltrúa. Barnið sem ég passaði var átakanlega leiðinlegt en það var þó bónus við vistina sem fólst í hádeginu. Amman á heimilinu var heimavinnandi og komst alltaf í roknastuð við að útbúa glæsilegan málsverð fyrir alla fjölskylduna. Afinn sem var úrsmiður, og foreldrar barnsins komu heim og ég passaði mig á því að vera alltaf um tólfleytið komin með stúlkuna fyrir utan dyrnar í þeirri von að vera boðið inn. Þarna var alltaf á boðstólum svo girnilegur matur sem ekki fannst heima hjá mér í fátæktinni. Þetta góða fólk bauð mér alltaf inn og eru þetta sælar minningar.
JRK


Afhjúpun lygarans:
Listin að koma upp um lygalaupa

Í kvikmyndinni ,,True Romance”, rétt áður en Christopher Walken skýtur Dennis Hopper í höfuðið fyrir að skrökva, þá heldur hinn illi Walken fyrirlestur yfir fórnarlambi sínu um hinar 17 aðferðir Sikileyinga til þess að sjá hvort að maður er að ljúga. Hvort þetta er sikileysk staðreynd eða aðeins uppspuni handritshöfundarins Tarantino skiptir kannski ekki sköpum, en það er aftur á móti staðreynd að það er hægt að koma upp um lygalaupa.
Fylgist með handahreyfingum
,,Lygarar reyna alltaf að leggja áherslu á orð sín með ýktum handahreyfingum. Það dregur athyglina frá andlitinu og gerir orðin áhrifameiri”, segir David Taylor sálfræðilegur ráðgjafi. ,,Þetta er ósjálfrátt varnarkerfi sem á að vinna gegn því að upp um fólk komist en er í raun mjög uppljóstrandi ef menn eru meðvitaðir um það.”
Hlustið á takt orðræðunnar
Þegar fólk lýgur þá afbakar það vanalega á einn eða annan hátt sína eigin vanalegu orðræðu. ,,Setningar sem leiða að lyginni eru oft sagðar í flýti þar sem fólk er oftast óþreyjufullt að koma sér að sjálfri lyginni”, segir Diane Kingsley talmeinafræðingur. ,,Að lyginni lokinni fellur taktur orðræðunnar aftur í eðlilegt horf.”
Prófið minnið
,,Tilgangur lyganna er að koma fólki úr vandræðum og þegar lygin er sögð þá á hún það til að falla fljótt í gleymsku”, segir þjónustufulltrúinn Alice Mulcahy. ,,Ef mig grunar að fólk sé að ljúga í viðtölum hjá mér, þá legg ég atvikið á minnið og varpa því síðan fram seinna og bið fólk að segja mér nánar frá því. Ef viðkomandi var að ljúga þá man hann oftast ekkert eftir því sem ég er að tala um.”
Hlustið á raddblæinn
Diane Kingsley talmeinafræðingur segir enn fremur: ,,Þegar fólk lýgur þá er því hættara við að vera meðvitað um sína eigin rödd og þá er sterk tilhneiging fyrir því að raddblærinn breyti um tónhæð, þó ekki sé nema í sekúndubrot. Það að tala er okkur vanalega svo eðlislægt að við tökum ekkert eftir því, en augnabliksálag með þurrk í munni og örari hjartslátt getur haft djúpstæð áhrif á röddina og valdið því að hún titrar örlítið eða brotnar jafnvel alveg.”
Leiddu lygarann í gildru
,,Við beitum okkar eigin blekkingum”, segir Simon Newman. ,,Þegar ég var í Devon & Cornwall lögreglunni þá þurftum við stundum að eiga við náunga sem komu frá London til þess að selja fíkniefni. Ef við tókum þá niður á stöð tiil yfirheyrslu þá áttu þeir það til að gefa okkur fölsk heimilisföng í nágrenninu til þess að sleppa. Þá sögðum við stundum: ,,Já, ég veit hvar þetta er, þarna rétt hjá keiluhöllinni?” Og þeir sögðu: ,,Já, einmitt” og vissu náttúrulega ekki að það var engin keiluhöll í bænum.”
Fylgist með augnsambandi
Það er óvenjulegt þegar fólk á í samræðum við einhvern og myndar ekki augnsamband, jafnvel þó ekki sé nema af og til og það staðfestir toll-og landamæravörður nokkur sem er orðinn gamall í hettunni: ,,Það er alltaf tilefni til tortryggni ef fólk myndar ekki augnsamband. Einu sinni lenti ég í því að maður sem ætlaði að keyra sendibíl í gegnum hliðin hjá okkur, bara myndaði alls ekkert augnsamband þegar ég talaði við hann. Hann virtist undrandi þegar við stoppuðum hann og báðum hann að fylgja okkur inn í tollskýlið en þegar málið var rannsakað frekar þá fundum við heilan farm af kössum fullum af tequila í bílnum”.
Varist flóttalegt augnaráð
,,Mitt starf felst mikið í því að hlusta á lygarnar í fólki”, segir einkaspæjarinn Tony Barnes, ,,en ég er með nánast 100% öruggt próf til að koma upp um það. Um leið og menn fara að skjóta augunum til vinstri þá veit ég að þeir ljúga. Fólk reynir að þykjast vera upptekið við að horfa á eitthvað en í raun er það bara að koma upp um sig.”
Hlustið eftir óhóflegum smáatriðum og staðreyndum
Simon Jodrell lögreglusálfræðingur hefur þetta að segja um málið: ,,Undir venjulegum kringumstæðum þá flæða staðreyndir eins og nöfn og staðarheiti eðlilega og hóflega fram í samtali. En í samræðum sem byggjast á blekkingum þá ræður lygarinn ekki við þörfina til þess að skreyta frásögn sína með einhverjum áþreifanlegum staðreyndum. Þannig að það sem þú heyrir er oft algjörlega ofskreytt og fullt af ónauðsynlegum upplýsingum sem troðið er inn í lygina til þess að gefa henni raunveruleikablæ.
Varist ofnotkun orðatiltækja
Með þessu er átt við að menn ættu að taka eftir mikilli notkun orðatiltækja eins og : ,,Þú veist hvað ég meina”, ,,sko” og ,,eða þannig”. Þau eru notuð til þess að fylla upp í þá þögn sem getur myndast þegar lygarinn tapar þræðinum vegna truflana eða skorts á þekkingu á því sem hann lýgur um. Þegar fólk lýgur og bullar þá vantar það oft þann grunn sem liggur í því að segja sannleikann og þarfnast tíma til þess að hugsa upp lygina og þann tíma fyllir það upp með tilgangslausum orðatiltækjum.
NRK