Kaerleikshvetjandi blogg

sunnudagur, júní 25, 2006

Dapurleiki
Af gefnu tilefni getum við flest af og til fundið fyrir einhvers konar gleðileysi. Þegar þannig árar innra með okkur er hentugt að finna leið út úr depurðinni með því að gera eitthvað sem grípur huga okkar og sál föstum tökum og gefur okkur um leið góðar tilfinningar og heppilegar hugsanir.
Þegar við erum máttlítil og leið er jafnframt viturlegt að við gefum líf jákvæðum samskiptum við þá sem eru uppörvandi og glaðir. Hvers kyns vonbrigði í aðstæðum okkar og samskiptum við aðra eru vitanlega verkefni sem við þurfum að vinna úr og leysa af kostgæfni ef mögulegt er. Við eigum ekki að láta vonbrigði draga okkur niður í hyldýpi örvæntingar og ótta við líf sem við erum þrátt fyrir allt knúin til að lifa. Með þó nokkurri fyrirhöfn er hægt að temja sér gleði og yl hið innra ef við viljum það og þráum slíka líðan af einlægni og ákveðni.
Ekkert í innra lífi okkar er í raun svo snúið eða flókið að ekki sé hægt að takast á við það með ákveðnum aðgerðum ef við viljum og kjósum það í raun og veru. Tíma- bundin, ókát afstaða til tilverunnar og fólks er líkleg til þess að draga dilk vandræða á eftir sér ef við þjálfum okkur ekki í að bregðast rétt við henni. Það er auðvitað eðlilegt að heilbrigðir geta orðið vondaufir um tíma og þá sérstaklega er þeir sjá t.d. öll sín markmið fara fyrir lítið eða verða fyrir höfnum eða einhvers konar missi.
Öll sammannleg reynsla er margþætt og flókin auk þess að tengjast jafnt sorg sem gleði. Eftir því sem við höfum meiri þekkingu á innra eðli okkar því mun meiri líkur eru á að við getum unnið á dapurleikanum. Best er að við ákveðum að temja okkur gleði og þakklæti við sem flestar aðstæður og forðums að láta tímabundin vandræði gera okkur óvíg og leið. Dapurleiki er ekki óyfirstíganlegt ástand. Þess vegna er mikilvægt að við eflum í mæðunni nánast eingöngu það atferli og þær hugsanir sem ýta undir tiltrú okkar á betri og réttmætari líðan. Bjartsýni borgar sig í viðkvæmum aðstæðum og þá ekki síst í þeim sem okkur þykja gleðisnauðar eða óviðunandi um tíma.
Ef vilji er fyrir hendi getum við stjórnað afstöðu okkar til alls þess sem hendir okkur. Ágætt er því og eðlilegt að við einsetjum okkur fremur að velja að bregðast við örðugleikum með tiltrú á tilgang þeirra heldur en að láta þá í langan tíma gera okkur angurvær og hljóð. Við sem viljum getum líka breytt afstöðu okkar til þess sem við fáum ekki breytt og gerir okkur vondauf og döpur. Það gerum við t.d. með því að vera uppörvandi og jákær gagnvart sjálfum okkur og öðrum, hverjar svo sem aðstæður okkar eru.
Hyggilegast er að breyta dapurleika og lumbru í gleði og bjartsýni. Þannig afstaða auðveldar okkur að njóta þess sem er það dýrmætasta sem við eigum og það er lífið sjálft-þrátt fyrir að við gleymum því stundum af ómaklegu tilefni.
JRK

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home