Kaerleikshvetjandi blogg

þriðjudagur, júní 13, 2006

Tónlistarskólinn í Reykjavík Kennari: Anna M. Magnúsdóttir
Tónbókmenntir II

Píanósónata eftir Beethoven nr.29 í B-dúr
Op.106 “Hammerklavier”
IV.Largo-Allegro risoluto

Nína Rúna Kvaran 3.maí 2000

Tónlist fyrir hljómborðshljóðfæri eins og píanó er gífurlega stór og mikilvægur þáttur í ævistarfi Ludwig van Beethoven sem tónskálds. Það er kannski ekki að undra þar sem hann var sjálfur píanisti og kom í fyrsta skipti fram opinberlega sem slíkur. Áhorfendur þess tíma gerðu nokkuð aðrar kröfur en tíðkast í dag og það þótti sjálfsagt og jafnvel skylda að píanistar flyttu sín eigin verk ef þeir voru á annað borð að semja. Krafan um að heyra allt það nýjasta sem tónskáldið hafði unnið að var sjálfsagður hluti tónlistarmenningar. Hinn ungi Beethoven hafði þegar skapað sér nafn sem mikil píanóleikari þegar hann flutti til Vínar árið 1792. Hann varð einn fyrsti maðurinn til þess að stunda tónsmíðar í lausamennsku (“freelance”) í stað þess að vera með fasta stöðu hjá einhverjum aðalsmanni eða við hirð. Því miður varð hann að draga sig í hlé frá opinberum píanóleik árið 1815 vegna vaxandi heyrnaleysis og beitti hann eftir það öllum sínum kröftum í tónsmíðar og hljómsveitarstjórnun.
Píanósónata op. 106 var samin á árunum 1817-1818 við lok tímabils sem hafði einkennst af afskaplega fáum og stuttum tónsmíðum hjá Beethoven. Sónatan var gefin út árið 1819 undir nafninu:”Grand Sonata für die Hammerklavier”. Hún er ein af mikilvægustu píanósónötum tónskáldsins og eflaust sú erfiðasta tæknilega séð. Eða eins og Beethoven sagði sjálfur þegar hann rétti útgefanda sínum verkið:,, Hér hefur þú sónötu sem mun virkilega verða framtíðarpíanistum umhugsunarefni þegar þeir leika hana eftir fimmtíu ár!”
Í ritgerð þessari verður fjórði kafli píanósónötu op.106, Largo-allegro risoluto greindur, rannsakaður og gerð grein fyrir uppbyggingu hans í megindráttum.

Tekið skal fram að undirrituð mun eftir fremsta megni reyna að greina þetta verk og nota við þá greiningu hefðbundin tónlistarhugtök en stundum er gripið til heimatilbúinna skýringa á því sem er að gerast í verkinu sem vonandi munu ekki ofbjóða þeim sem les.
Fjórði þáttur sónötunnar er í raun þriggja radda fúga og hefur allt til að bera sem þess konar tónverk ef ekki bara meira. Sónatan er skrifuð í B-dúr eins og áður hefu komið fram en fjórði þáttur hefst á mjög spennuþrungnum en samt blíðlegum kafla í F-dúr. Fyrst koma nokkrir hljómar og síðan tekur við eins og örstutt þriggja radda fúga. Að henni lokinni (í 2.línu) koma aftur svipaðir hljómar og áður sem leiða hlustandann inn í Fís-dúr og er þá eins og allt annað verk sé að hefjast en það er í raun ný tveggja radda fúga sem er eins og hin fyrri afar stutt. Þá taka aftur við svipaðir rólegir og magnþrungnir hljómar og áður og svo enn ein smáfúga í allegro sem endar eins og hinar fyrri, jafn snögglega og hún byrjaði. Þá koma aftur þessir hægu hljómar og færa þeir hlustandann yfir í A-dúr. Þá tekur við runa af nótum sem hreyfast niður á við í tríólu- og sexóluhreyfingum og enda svo á trillu sem leiðir laglínuna upp í stigvaxandi ofsa sem er dottinn niður áður en hlustandinn veit af og þá hefst framsagan í B-dúr. Ofangreind trilla er eins konar sporgöngutrilla því að hún á eftir að gegna meginhlutverki í kaflanum sem á eftir kemur. Eins má segja að mörg þeirra “mótíva” sem koma fyrir í þessum forleik eða inngangi (eins og undirrituð kýs að kalla það) gefi óljóst til kynna það sem koma skal.
Reyndar hefst hin þriggja radda fúga sjálf tæknilega ekki fyrr en í næstneðstu línu á bls.541, það sem á undan er, er bara eins konar forsmekkur að fúgunni. Undirrituð telur því fúgustefið (dux) ekki koma fyrst fram í fullri mynd og í upphafstóntegund (B-dúr) fyrr en í næstneðstu línu bls.541. Eftir miklar vangaveltur komst undirrituð að þeirri niðurstöðu að fúgustefið hlyti að enda á eftir 2.slagi í 2.takti síðustu línu bls.541 vegna þess að eftir annað slagið eru sextándapartsnótur sem ekki koma fyrir aftur í nákvæmlega þessari mynd þegar fúgustefið kemur fyrir í öðrum röddum. Undirritaðri fannst nauðsynlegt að fúgustefið kæmi fyrir einu sinni í hverri rödd í framsögunni. Ef að því er haldið fram að stefið sé lengra en hér hefur verið sagt, þá kemur það í raun aldrei fyrir á sama hátt í hverri rödd. Undirrituð kýs því að kalla sextándapartsrununa sem kemur á eftir 2.slagi í 2.takti síðustu línu bls.541, eins konar framlengingu á stefinu og lýkur framlengingunni á 3.slagi í 3.takti bls.542. Í þessum sama takti í efstu rödd kemur fúgustefið fyrir aftur en þá er það kallað svar (comes) og er það í F-dúr sem er forhljómstóntegund B-dúrsins. Svarinu lýkur síðan á 2.slagi 1.takti 3.línu á bls.542 og sextándapartsrunan sem á eftir kemur og endar á 3.slagi 1.takti 4.línu, er þá eins konar framlenging svarsins og er hún töluvert ólík framlengngu upphaflega fúgustefsins. Á meðan þetta er að gerast í efri rödd hefur fylgistef fúgustefsins hafist í neðri rödd á 1.slagi 4.takti 1.línu bls.542. Lýkur fylgistefinu í 4.takti 2.línu og kýs undirrituð að kalla það sem á eftir kemur framlengingu af því af sömu ástæðu og gert var við fúgustefið. Að lokinni þessari framlengingu kemur fúgustefið(svar) fyrir í þriðja sinn á 2.slagi 1.takti í 4.línu og er í B-dúr. Lýkur því á 2.slagi 3.takti í 5.línu og er framsagan þar með fullkomnuð. Fylgistefið kemur reyndar fyrir aftur á 1.slagi 2.takti 4.línu og endar það í 2.takti 5.línu.
Á eftir framsögunni tekur við millispilskafli á 3.slagi 3.takti 5.línu bls.542. Þessi stutti kafli einkennist af sextándapartsrunum í neðstu rödd en í efstu rödd er notað punkterað “mótív” úr fylgistefi fúgustefsins. Í lok 1.takts 1.línu bls.543 lýkur millispilinu og við tekur gegnumfærslukafli þar sem notast er við fyrri hluta fúgustefsins.Fyrst kemur það í miðrödd í F-dúr, síðan í neðstu rödd í B-dúr, miðrödd í G-dúr, neðstu rödd í C-dúr. Þá kemur fúgustefið aftur í neðstu rödd í Des-dúr en núna er það nánast í fullri lengd og við þetta eiga sér stað tóntegundaskipti og erum við þá komin í As-dúr. Fúgustefinu Des-dúr lýkur á 2.slagi 3.takti 3.línu bls.543 og á 3.slagi í sama takti en í efstu rödd tekur við hluti af síðari hluta fúgustefsins og lýkur honum á 2.slagi 2.takti 4.línu. Þá tekur við mótív úr fylgistefi fúgustefsins sem byrjar í efstu rödd og kemur svo til skiptis í efstu og neðstu rödd þar til á 3.slagi 1.takti 6.línu en þá tekur við fúgustefið í efstu rödd í As-dúr, er það nokkuð stytt og lýkur á 2.slagi 3.takti 1.línu bls.544. Vert er að taka fram að í þessum gegnumfærslukafla hefur fúgustefið iðulega komið fyrir á öðrum stöðum innan taktsins en það var upphaflega þannig að aðrar áherslur koma í því en þegar það kom fyrir í framsögunni. Frá 2.takti 1.línu bls.544 taka við “mótív” úr s.hl.fylgistefs og s.hl.fúgustefs og skiptast þau á að koma fyrir í efstu-mið- og neðstu rödd (sjá nánar í nótur).
Í lok 4.takts 4.línu bls.544 lýkur gegnumfærslu og tekur þá við það sem undirrituð kýs að kalla brú. Einnig skiptum við um tóntegund og erum nú komin frá As-dúr yfir í Ges-dúr. Í brúnni koma fyrir ný og mjög stutt stef sem verða kölluð A og B. A hefst á annarri sextándapartsnótu í efstu rödd 5.takti 4.línu og lýkur því á 3.slagi þess takts. B stef kemur fyrir á annarri sextándapartsnótu 2.slags í 5.takti 4.línu og lýkur því á 3.slagi þess takts. Nú koma stef A og B fyrir til skiptis í öllum röddum (sjá nánar í nótur) og þegar á líður kemur A fyrir í styttri útgáfu.
Á 3.slagi 2.takti 1.línu bls.545 lýkur brúnni og við tekur ný gegnumfærsla sem byrjar á fúgustefinu í miðrödd en er það skrifað í tvisvar sinnum lengri lengdargildum en það var í upphaflega. Eftir því sem það heldur áfram er það skrifað samstígt í efstu og neðstu rödd. Lýkur því á 2.slagi 4.takti 3.línu. Þá tekur við tveimur efstu röddum seinni hluti fúgustefsins en nokkuð stílfærður þó og lýkur honum á 2.slagi 1.takti 5.línu og erum við þá komin í Des-dúr. Síðan er fúgustefið notað óspart í öllum röddum en í 6.takti 2.línu kemur örstuttur kafli í þrjú slög sem má kalla millispil en að því loknu tekur við áframhaldandi vinnsla á f.hl. fúgustefsins. Í 3.takti 1.línu bls.546 erum við aftur komin í As-dúr og heldur áfram vinnsla á fúgustefinu og líka fylgistefi þess (sjá nánar í nótum).
Í lok 2.takts 2.línu bls.546 lýkur gegnumfærslu við við tekur önnur brú. Í henni kemur fyrir sama A stefið og í fyrri brúnni í bæði styttum og lengdum útgáfum og jafnvel speglað líka (sjá nánar í nótum). Í 2.takti 2.línu bls.547 erum við komin í D-dúr en brúnni lýkur ekki fyrr en í 3.takti 4.línu og hefst þá ný gegnfærsla. Í henni er unnið úr fúgstefinu og fylgistefi þess og er þeim breytt á ýmsa vegu, lengd, tónbreytt og spegluð(sjá nánar í nótum). Á bls.548 er mest unnið úr einu “mótívi” úr fúgustefinu sem er eins konar sextándapartsrunu og leikur tónskáldið sér að því að láta þetta “mótív” hlaupa á milli radda, speglað, gagnstígt, lengt og samstígt (sjá nánar í nótur). Á 2.slagi 3.takti 1.línu bls.549 kemur fúgustefið fyrir í neðstu rödd en nokkuð breytt. Síðan kemur það aftur á 2.slagi 4.takti 4.slagi en nú tónbeygt og lýkur því í 3.takti 3.línu. Á 2.slagi 4.takti 4.línu kemur fúgustefið en nú tónbeygt og speglað. Á 3.slagi 4.takti 6.línu er fúgustefið í miðrödd, speglað og síðari hluti þess er skrifaður í tveimur röddum sem hreyfast í samstígum sexundum. Á bls.550 er unnið að mestu úr fyrri hluta fúgustefsins þar til á 2.slagi 1.takti 4.línu en þá kemur fúgustefið í neðri rödd bæði speglað og tónbeygt og er það byrjunin á öngfærslu þar sem stefið kemur fyrir í nokkrum röddum en er komið nokkuð frá upprunalegri mynd sinni, stundum speglað og sextándapartsrununum breytt á annan hátt. Nú erum við líka komin í Es-dúr. Á bls.551 heldur þetta sama fúgustefsferli áfram þar sem unnið er með byrjun fúgustefsins í neðri rödd en í efri rödd eru spilaðar sextándapartsrunur sem leiða til þess sem undirrituð hefur kosið að kalla niðurlag gegnumfærslunnar en í þessu niðurlagi er farið í F-dúr og síðan hefst þriðja brúin í D-dúr í 4.línu bls.551. Í þessari brú kemur fyrir alveg nýtt stef sem verðu kallað stef C en það hefst á 2.slagi 1.takti 4.línu og lýkur á 2.slagi 5.takti. Næsta innkoma stefsins skarast í þá fyrstu og þriðja innkoma þess skarast í þá sem á undan því kom. Því má kalla þetta öngfærslu ef enn er gert ráð fyrir að við séum í þriggja radda fúgu. Það sem eftir er af bls.551 er C stef notað í öllum röddum og koma fyrir ýmsar útgáfur af því (sjá nánar í nótum).
Á bls.552 erum við aftur komin í B-dúr og kýs undirrituð að kalla það sem eftir er af þættinum coda eða niðurlag. Það skal tekið fram að undirrituð mun áfram tala um gegnfærslur og millispil en innan niðurlagsins. Fyrst í niðurlaginu er aðallega unnið úr hinu gamalkunna fúgustefi og síðan brúarstefinu C. Er þá bætt við stefin ýmsum aukanótum og þau látin fléttast saman. Á 3.slagi 2.takti 4.línu bls.552 byrjar eiginlega nýr kafli innan gegnumfærslunnar þar sem eingöngu er unnið úr fúgustefinu og kemur það fyrir speglað, gagnstígt og breytt á hina ýmsu vegu (sjá nánar nótur). Það er ekki fyrr en á öðru slagi 2.takti 4.línu að fylgistefið kemur til sögunnar á ný í efstu rödd og síðan kemur það í tveimur neðstu röddum og hreyfist í samstígum áttundum. Það þarf varla að taka það fram að á þessu stigi málsins er stefið orðið mjög stílfært frá upprunalegri mynd sinni. Í síðasta takti bls.553 er svo gegnfærslu lokið og millispil hefst. Millispilið er reyndar frekar stuttur kafli og lýkur því á 1.slagi. 3.takti 2.línu bls.554 og við tekur önnur gegnfærsla þar sem unnið er úr fúgustefinu. Í raun tekur því ekki að lýsa því nákvæmlega hvernig þessi vinnsla fer fram, nóg hefur verið gert af því hér að ofan. Nóg er að segja að það komi fyrir hinum ýmsu myndum. Á 2.slagi 3.takti 4.línu bls.555 kemur “mótív” úr fylgistefinu í tveimur neðstu röddum en annars má segja að það sem eftir er af niðurlaginu sé ein risastór áminning um fúgustefið. Lýkur verkinu á sérstaklega kröftugum lokahljómum sem eru spilaðir á fortissimo.

Þegar verkið kom út á prenti árið 1819 má segja að tónlistarheimurinn hafi klofnað. Sumir gagnrýnendur virtust ekki kunna að meta sónötuna á meðan aðrir sögðu að þetta verk skæri sig frá öðrum verkum Beethovens að því leyti að í því væri ímyndunarafl ,,meistarans” á hápunkti frjósemi sinnar. Einnig væri það einstakt sökum strangs kontrapunktísks stíls og listrænnar fullkomnunar. Þessum hópi manna sem líkaði svo vel við sónötuna fannst hún vera upphaf nýs og stórkostlegs tímabils í sköpun píanóverka.
Orðið “Hammerklavier” er nafn á hljóðfæri sem var forveri nútímapíanósins og var gætt eiginleikum sem gerðu píanistanum í fyrsta sinn í sögunni kleift að breyta styrkleika þeirra nótna sem slegnar voru. Sónatan var tileinkuð nemanda Beethovens, Archduke Rudolph.
Hammerklaviersónatan er sú lengsta af 32 hljómborðssónötum Beethovens. Lokaþátturinn sem hér hefur verið fjallað um, er sérstaklega heillandi. Hann byrjar á hægri kynningu en verður síðan að mikilfenglegri fúgu sem er svo sannanlega meistaralega vel samin. Beethoven fer aftur í gamalt form í sónötunni, barokkfúgunnar, en á sama tíma fer hann á róttækan hátt frá hefðbundnum tónsmíðaháttum. Fúgan er ekki bara full af........heldur er hún líka full af tilbreytni og undantekningum frá reglunum svo að útkoman verður eins konar fúga með tilbrigðum. Beethoven sagði sjálfur að það væri ekkert vandamál að semja fúgu, en það væri ekki nóg. Það yrði að vera einhver verulega listrænn og ljóðrænn eiginleiki í verki auk valds á hinu hefðbundna formi.

_________________________
Nína Rúna Kvaran




.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home