Kaerleikshvetjandi blogg

laugardagur, maí 26, 2007

Höfundur: Jóna Rúna Sálræn Sjónarmið
Dáinn afi minn gengur aftur
( Svar til Steinu undir tvítugu)

Elsku Jóna Rúna! Ég hef fylgst með næstum öllum skrifum þínum og hef haft bæði gagn og gaman af. Satt best að segja átti ég síst von á að ég þyrfti sjálf að skrifa til þín. Svona er nú einfeldningshátturinn í manni stundum. Ég geri mér grein fyrir að þú ert afar dulræn og miðill að auki. Ég vil þess vegna fá þína skoðun á þeim vanda sem ég tel mig vera í þessa stundina. Ég er undir tvítugu og frekar raunsæ, enda ætla ég mér að verða lögfræðingur þegar ég hef lokið háskólanámi, sem ég stefni á að byrja eftir að ég hef nælt mér í hvíta kollinn. Ég bý heima hjá foreldrum mínum ásamt kærasta mínum og við höfum það mjög gott öll saman. Ég á ekki slæma fortíð að baki eða yfirleitt nein sérstök vandræði.Fyrsta verulega áfallið sem ég varð fyrir átti sér stað í fyrra og tengist láti afa míns sem mér þótti mjög vænt um.

Einmitt þetta mál með afa er það sem er að gera mér lífið leitt í augnablikinu. Það er bráðum ár síðan hann dó. Eitthvað um tveim vikum eftir lát hans, fór mig að dreyma hann stöðugt og ég náttúrlega hugsaði mikið um tilgang draumana. Oftast fannst mér eins og hann vildi segja mér eitthvað sem virtist valda honum erfiðleikum.Því miður hef ég ekki getað áttað mig á hverju hann er að reyna að koma til mín. Hann var mjög sterkur persónuleiki á meðan hann lifði og hafði komið sér einstaklega vel fyrir. Hann var auðugur og vel metinn. Hann hugsaði ekkert um trúmál og hafði mjög þrönsýnar pólitískar skoðanir. Samt var hann alltaf mjög góður við mig og við ræddum um allt mögulegt saman. Hann þverneitaði að trúa á að líf væri að loknu þessu og sagði oft ef framlíf bar á góma: "Þegar í kistuna er komið á jörðin mann endanlega." Ég hafnaði þessu alltaf vegna þess að ég hef verið skyggn af og til frá því ég var um tveggja ára og veit og trúi að við lifum líkamsdauðann.

Það sem er að gerast núna Jóna Rúna, er að ég sé hann stanslaust eins og hann væri lifandi, hingað og þangað um íbúðina og stundum heyrist umgangur því samfara. Það hafa fleiri séð hann og mér og hinum finnst hann mjög hryggur og vansæll að sjá. Hvað eigum við að gera? Getur verið að hann sé svona illa staddur að hann þurfi einhverja hjálp? Hann virðist verða hér hjá okkur öllum stundum, en við getum ekkert gert. Fyrst hélt ég að þetta væri einungis ímyndun mín og leyndi þessu fyrir hinum. Núna veit ég að svo er ekki því að meira segja kærasti minn sem hlær að öllu dulrænu, hefur bæði heyrt í afa og séð hann. Hann varð svo hræddur að það hafði þau áhrif á hann að hann harðneitar að vera einn í íbúðinni síðan. Hvernig get ég hjálpað honum yfir óttann? Er ekki tekið á móti þeim sem deyja? Er fólk í einhverju reiðileysi hinum megin? Amma mín, konan hans, er enn þá lifandi og hún segist vera viss um að hann sé ónánægður með eitthvað, sem geri það að verkum að hann sé alltaf að birtast okkur. Hérna heima eru allir dauðhræddir og við erum alltaf með ljós allan sólahringinn, vegna þess að það er í gangi umgangur, hljóð og annað óútskýranlegt sem við höldum að tengist afa og við getum ekkert ráðið við. Ég verð þó fyrir mestum óþægindum af þessu og finnst mér ég vera að klikka, því ég bókstaflega sé afa alls staðar eins og hann sé að hlægja að mér eða eitthvað. Viltu kæra Jóna Rúna leiðbeina mér og segja mér hvað þú telur að hægt sé að gera í þessu með afa.

Með kærum kveðjum og innilegu þakklæti
Steina

Kæra Steina!Ég þakka þér innilega fyrir bréfið og veit að það er mikilvægt að ég svari því á minn hátt ekki seinna en strax. Ég notast við hyggjuvit mitt, innsæi og reynsluþekkingu eins og áður, til að leiðsögnin komist sem best til skila. Vissulega er þetta mál þitt sérstakt, en þó eru í augnablikinu í gangi þó nokkur svipuð mál í Reykjavík sem ég hef orðið að blandast inní vegna dulargáfna minna og þeirra möguleika sem þeir þættir í mér gefa þeim sem fyrir áþekkri reynslu hafa orðið og þú. Við reynum því í þessu stutta svari að ígrunda meðal annars hvað mögulega kann að vera í gangi og hvernig heppilegast væri að leiða þetta viðkvæma mál til lykta. Þannig geta svör mín bæði orðið þér og öðrum í svipaðri aðstöðu mögulegur vegvísir að ögn betri skilningi á því yfirskilvitlega í tilverunni, þó ekki verði svörin mín til að leysa beint ástandið.

Óuppgerðir hlutir

Ekki er ósennilegt vegna þess hvað þig í byrjun dreymir afi þinn mikið, að hann telji að hann þurfi að koma einhverjum skilaboðum sem hann telur nauðsynleg til ástvina sinna og velur þig sem heppilegan millilið til þess arna. Það þýðir ekki að hann kunni ekki að vera búinn að reyna ýmsar aðrar leiðir til að létta á sér, þó þær kunni að hafa farið fullkomlega framhjá hans nánustu. Þar sem hann núna er í annari vídd í þeim heimi látinna sem heitir Guðsríki, er honum að vonum vorkunn sé það einlægur ásetningur hans að koma boðum til sinna nánustu um eitthvað sem honum láðist að gefa líf á meðan hann var enn í jarðheimi. Það að koma boðum á milli þessara tveggja heima er meira en að segja það, því venjulegast er það óframkvæmanlegt nema með hjálp manneskju sem býr yfir yfirskilvitlegum eiginleikum sem vissulega falla alltaf undir það sem á mæltu máli er kallað sjötta skilningarvitið. Þetta er meðal annars ástæða þess að dulargáfur miðilsins notast lifendum ekkert síður en látnum, ef einhverra hluta vegna á að brúa bilið á milli þessara tveggja ólíku heima. Heimar sem verða að teljast tilheyra tveim ólíkum víddum, en eru þó furðu nálægt hver öðrum í raun og það vita þeir sem búa m.a. yfir skyggnigáfum. Hvað nákvæmlega hann vill láta fara frá sér er náttúrlega ómögulegt fyrir mig að segja til um, því ég hef hvorki heyrt draumanna þína né séð afa þinn eftir lát hans. Eitthvað er það þó sennilega eins og amma þín heldur, úr því að hann sækir svona fast eftir því að komst í samband við ykkur.

Látnir stundum óþarflega jarðbundnir

Með tilliti til þess sem þú segir um afa þinn og viðhorf hans á meðan hann lifði og það er að að hann afneitaði með öllu að við ættum von á meira lífi eftir líkamsdauðann, er ekkert skrýtið þó vandi hans verði tímabundið umtalsverður við vistaskiptin. Sérstaklega þegar hann uppgötvar að hann lifir þrátt fyrir allt.Það er í sjálfum sér mjög eðlilegt að hann lendi í einhverjum tímabundnum þrautum. Ef við við líkamsdauðann vöknum upp í ríki Guðs og uppgötvum að við erum jafn lifandi sem áður, utan að okkur vantar einungis efnislíkamann, þá er mjög rökrétt að álykta sem svo að vegna þess að við afneituðum fyrirfram möguleika á framlífi að við teljum að ekkert hafi í raun breyst annað en að við erum stödd í aðstæðum sem á engan hátt henta okkur, með tilliti til þess að við héldum að með dauðanum værum við endanlega horfin sjálfum okkur og öðrum.

Sækjum á fornar slóðir

Það liggur því í hlutarins eðli að við hljótum að sækja á fornar slóðir, þanngað til okkur skilst með hjálp þeirra sem hafa þroska og skilning á þessu ástandi, að við munum aldrei fara aftur til jarðarinnar á fyrri forsendu. Sé þetta það sem er að þrúga hann, er ákaflega mikilvægt að reyna að leiðbeina honum með hjálp bæna og óska þess að honum verði veitt öll sú aðstoð sem möguleg er hinum megin grafar, jafnframt aðhlynningu upplýsinga til að öðlast skilning á því, hvernig hans málum í dag er í raun háttað.Það kunna að vera fleiri skýringar á vanda hans í dag en endilega þær að honum kunni að hafa láðst að ljúka einhverjum hlutum áður en hann fór af jörðinni. Hugsanlega er hann ekki sáttur við eitthvað sem þið eruð að gera. Hann getur líka verið tímabundið ósáttur við tilveru sína í þessum nýju heimkynnum í ríki Guðs, vegna þess að fyrirfram vænti hann þess að endir alls lífs væri þegar í kistuna væri komið.

Þjónustubundnir englar og bænir

Þú spyrð hvernig þið geti hjálpað honum best. Ég segi með því að óska honum velfarnaðar á nýjum leiðum og biðja engla sem eru í þjónustu kærleikans að umvefja hann elsku sinni og hjálpa honum til skilnings á breyttum aðstæðum. Englarnir eru þroskaðar verur í þjónustu Drottins sem eru þess umkomnir með kærleikshvetjandi nálægð sinni að auðvelda okkur sem yfir förum, að nálgast á réttan hátt Guð almáttugan og finna okkur pláss í ríki hans. Þess vegna áttu að biðja fyrir honum og minnast hans jafnframt eins og hann sé lifandi. Með þeim hætti eykur þú vinningslíkur hans í nýjum heimkynnum og auðveldar honum jafnframt að sættast á umskiptin þó erfið séu tímabundið.Þannig afstaða til hans mun umvefja hann ljósi því sem líklegt er til að auka hagsæld hans á nýjum og fullkomnari leiðum þess guðlega í tilveru manna við vistaskipin. Þetta svarar í raun spurningu þinni um hvort hann kunni að vera illa staddur. Ég á ekki von á því að svo sé. Hann kann bara ekki enn þá að leita sér hjálpar sjálfur og þess vegna verðið þið að auðvelda honum það á meðan augu hans eru að opnast fyrir þessum miklu breytingum, með því að biðja um að náð Guðs og kærleikur verði þau öfl sem muni gera hann að lokum sáttan við sinn hlut.

Ástæðulaust að óttast látna ástvini

Vegna þess hvað þessar heimsóknir látins afa þín hafa haft mikil áhrif t.d. á kærasta þinn og þig, þá vil ég segja þetta. Það er enginn sérstök ástæða til að óttast þá sem við elskum, þó þeir séu ekki lengur á venjulega máta mitt á meðal okkar. Þú sagðir í bréfi þínu að á milli þín og afa þíns hefðu ríkt þægileg tengsl áður en hann fór af jörðinni. Sé það rétt þá liggur í hlutarins eðli að engin breyting ætti að verða á þeirri væntumþykju og því trausti sem ríkti á milli ykkar, þó hann sé núna hinum megin. Hann lifði af líkamsdauðann af því að sál hans yfirgaf líkamann við andlátið. Í sálinni er manngerð hans og persónuleiki, sem þýðir að hugur hans til þín getur ekki hafað breyst, þó þú kunnir að efast um það, vegna þess að leiðir þær sem hann núna notar til að nálgast þig eru vitanlega ekki hefðbundnar séð frá lifendum eins og þér.

Dauðinn einungis til í hugum eftirlifenda

Aftur á móti séð frá honum núna, ætti honum loksins að vera fyllilega ljóst að dauðinn er ekki til nema í hugum þeirra sem eftir lifa. Hann hefur sjálfur uppgötvað það, vegna þess að hann dó líkamlega, en hefur sannanlega sannað bæði þér og öðrum nánum að hann er jafnt sem áður á lífi þrátt fyrir áður sagða hluti. Eitthvað sem hann fullyrti á meðan hann var hér hjá okkur á venjulega máta, það er í efninu. Þetta var auðvitað bara fullyrðing manns sem var jarðbundinn og trúlaus eða trúlítill og honum er sjálfum að verða ljóst að stenst ekki, því hann lifir, sem betur fer verð ég að segja. Því segi ég að kærasti þinn þarf ekkert illt að óttast sem mögulega getur komið frá afa þínum. Afi þinn sannaði sjálfur á meðan hann var á jörðinni að hann unni þér, sem þýðir að þrátt fyrir vistaskiptin gerir hann það enn. Þess vegna m.a. verður hann svona oft á vegi þínum hinum megin frá. Sé þessi ályktun rétt sem full ástæða er til að fallast á, þá mun honum að sjálfsögðu þykja vænt um alla þá sem þér eru kærir og þar með er náttúrlega kærasti þinn meðtalinn.

Margar vistarverur í húsi föðurins

Réttast væri að þú ræddir þessi mál við kærasta þinn með tilliti til þessara sjónarmiða sem örugglega eru verð íhugunar. Því ef hann er kristinn þá veit hann að Jesú fullyrti að við lifðum líkamsdauðann. Það sem meira var, hann fullyrti líka að við myndum njóta okkar í ríki Guðs ef við fylgdum honum að málum á jörðinni. Hann tók þó fram að í húsi föðursins væru margar vistaverur. Fullyrðing sem vissulega hlýtur að þýða að með breytni okkar fyrir líkamsdauðan, hér og nú erum við sjálf, af því að við höfum frjálsan vilja, að ákvarða í hvaða vistarverum við komum til með að eiga okkar heimkynni að lokum. Kannski einmitt af því að afi þinn hafnaði þessu sjónarmiði og fyrirheiti Krists gengur honum stirðlega að ákvarða sínar vistarverur. Hann lifði nefnilega á jörðinni með tilliti til þess að hann kæmist aldrei að eilífu þaðan. Svo allur undirbúningur hans var fátæklegur og efniskenndur. Þú sérð því sjálf að það er í raun fátt undarlegt að gerast annað en það, að þeir sem ekki reikna með að lifa líkamsdauðann, hljóta af gefnu tilefni að eiga erfitt með að átta sig á breyttum aðstæðum og þar er afi enginn sérstök undantekning.

Guð hjálpar þeim sem hjápar sér sjálfur

Best væri því að bæði þú og kærastinn bæðuð saman fyrir velferð afa þíns og létuð ekki ástæðulausan ótta verða ykkur þar fjötur um fót. Afi þinn varð ekki verri maður við það eitt að deyja. Enginn verður verri en hann vill sjálfur. Það er því mjög ósennilegt að þannig breyting eigi sér stað eftir dauðann, vegna þess að möguleikarnir á því að við verðum betri manneskjur eru svo miklu meiri en orð fá lýst með allan þann kærleika í kringum okkur sem óneitanlega byggir upp tilveruna í Guðsríki. Hitt er svo annað mál að Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir sem þýðir að ef afi þinn vegna eðlislægra fordóma, er ekki í augnablikinu fær um að biðja sér hjálpar, þá verðið þið að hjálpa honum til þess að gera það mögulegt. Hann getur varla slitið sig frá ykkur á jörðinni mögulega vegna þess að hann finnur sig óöruggan og hjálparvana. Það er því ekkert óeðlilegt að láta sér detta í hug að allir sem eftir lifa og þykir vænt um hann sameinuðust fremur í því að óska honum þess að augu hans mættu opnast á réttan hátt í nýjum og öðruvísi heimkynnum, í stað þess að óttast hann og forðast tímabundið samneyti við hann, sem er ástæðulaust með öllu.Hann getur ekkert neikvætt gert ykkur og kærir sig auðvitað ekkert um slíkt.

Auðvitað er tekið á móti látnum

Þú spyrð hvort ekki sé tekið á móti þeim sem látast og jafnframt hvort þeir séu í einhverju reiðileysi hinum megin. Ég fullyrði að það sé vel tekið á móti öllum sem deyja líkamsdauða. Í öllum frásögnum af fólki sem hefur líkamlega dáið en lifnað við aftur, kemur skýrt fram að þann stutta tíma sem þetta einkennilega ástand líkamans þar sem hann er óstarfhæfur varir, er eitthvað nýtt og áður óþekkt í gangi. Þá virðast nefnilega eins og látnir ættingjar og þá sérstaklega þeir allra nánustu, séu eins og í biðstöðu við landamæri lífs og dauða tilbúnir til að umvefja og styðja þá sem eru að losna frá jörðinni inn í breyttar aðstæður himnaríkis. Jafnframt, eins og áður sagði, eru líka þjónustubundnir englar á vakt sem hlú að og umvefja þann sem kemur kærleika sínum og leiða fyrstu skrefin inn í ríki Guðs.

Reiðuleysi þess sem er hjálparvana

Aftur á móti megum við ekki gleyma því að persónuleiki viðkomandi er eins og hann var fyrir breytinguna og viljinn jafn frjáls. Enginn er tilneyddur til að þiggja meiri hjálp þarna megin grafar en hann vill og teystir sér til sjálfur. Líklegt er því að ekki sé mikið reiðuleysi í gangi hvað afa þinn varðar, fremur hæfileikaleysi hann í augnablikinu til að annars vegar þiggja þá hjálp sem hann á kost á og hins vegar erfiðleikar hans við að biðja um eitthvað sem hann trúir sýnilega ekki ennþá á. Hann virðist nefnilega vera svona innilega jarðbundinn af því að hann trúði því og trúir sennilega ennþá, að hann eigi að vera ofan í jörðinni í sinni kistu en alls ekki á hreyfingu um óræðna stigu himnaríkis eins og hann er nú, þó hann heimsæki ykkur jafnframt stöðugt eins og þegar er augljóst. Sú breyting sem hefur átt sér stað í tilveru hans, mun verða honum ljós fyrr en síðar en þó ögn fyrr ef þið sem eftir lifið biðjið um að hann fái þrek og löngun til að þiggja þá hjálp sem ég trúi að þegar sé í gangi honum til uppörvunar og sálarléttis ef hann bara vildi og gæti séð það fyrir fordómum og þröngsýni.

Skyggni eða geðfötlun

Ef við að lokum íhugum ótta þinn við að þú kunnir að vera að klikka þá er þetta um það að segja: Þú hefur að eigin sögn verið skyggn frá barnsaldri og ert að einhverju leyti enn þá. Þessi staðreynd upplýsir það að þú sért á einhvern máta búin dulrænum hæfileikum.Þú sérð í dag látinn afa þinn og það gera ýmsir aðrir í kringum þig.Bara það að þið sjáið hann svona mörg bendir alfarið til þess að á ferðinni sé dulrænt fyrirbæri en ekkert sem er í tengslum eða skyldleika við geðfötlun neins konar. Þeir sem ekki sjá hann heyra hin og þessi hljóð, sem þið virðist telja að séu honum og hans ferðum heim til ykkar viðkomandi. Þetta huglæga ástand fellur alls ekki undir neins konar geðfötlun, fremur undir það sem kallast dulræn reynsla.Eins og við vitum þá verðum við til að getað lifað eðlilegu lífi saman hér á jörðinni, að vera fær um að skynja vissa þætti jarðlífsins á svipaðan máta, annars náum við ekki saman. Þetta skiljum við augljóslega öll. Ef að það er snjór úti, sjá það allir sem ekki eru blindir. Aftur á móti ef þannig veðurfar væri sjáanlegt og einhver reyndi að sannfæra okkur um að það væri þvert á móti sól og þurr jörð úti, myndum við að sjálfsögðu mótmæla kröftuglega auk þess sem við myndum sennilega efast eitt augnablik um geðheilsu viðkomandi.

Ofskynjanir eða sjónvilla

Ef að viðkomandi heldur áfram að telja okkur trú um að það sé ekki snjór úti, þá enda málin venjulega þannig að við teljum hann ekki vera með öllum mjalla. Jafnvel sjáum ástæðu til að kalla til lækni, ef vera kynni að slegið hefði útí fyrir viðkomandi. Nú hugsanlegt og afar eðlilegt væri að læknirinn segði að viðkomandi væri haldinn tímabundinni sjónvillu sem auðveldlega mætti flokka undir einhvers konar ofskynjun. Við hin myndum að sjálfsögðu fallast á þetta álit. Við erum ekki tilbúin að viðurkenna að það sé ekki snjór úti, bara að því að einhver einn aðili heldur því fram. Styrkinn í sannfæringu okkar sækjum við jafnframt í þá staðreynd að það eru aðrir á sömu skoðun og við, og telja þann sem alls ekki sér snjóinn ekki vera með öllum mjalla eða eitthvað enn þá verra.

Skynjun að innan eða utan?

Hvers kyns þannig ofskynjun kemur að innan og verður að teljast sjúkleiki en alls ekki eðlilegur raunveruleiki. Þetta ástand lýsir sér meðal annars í upplifunum skynfæra á hinni og þessari sjónvillu sem skapast getur af vegna geðrænna vandamála eða jafnvel lyfjaneyslu. Ástand sem er öðrum og heilbrigðum með öllu óskiljanlegur óraunveruleiki. Þess vegna hafna þeir honum með ytri skynfærum sínum, af því að þau upplifa aðra staðreynd. Það sem ég er að reyna að segja er, að þar sem þið verðið öll heima meira og minna vör við látinn afa þinn, er heldur ósennilegt að þú sért ein að klikka.Ef svo væri þá myndu hinir ekki verða varir við hann eins og þú fullyrðir. Heldur er ósennilegt að heil fjölskylda sé haldin tímabundinni sjónvillu eða ofskynjunarferli einhvers konar. Vissulega er til í dæminu að þeir sem verða að teljast algjörlega heilbrigðir reynist samt geta þrátt fyrir allt einhver tíma ævinnar af ýmsum ólíkum ástæðum, upplifað einhvers konar skammlífa ofskynjun. Eitthvað sem getur gerst þrátt fyrir að venjulegast tengist slíkt sjúkdómnum "Hallucination" eins og áður sagði.

Vitbrekkurnar og sjötta skilningarvitið

Það má svo sem endalaust hártoga það hver og hverjir sjái og lýsi hinum raunverulega veruleika rétt eða ekki. Þess vegna er ástæðulaust að fella allar skynjanir sem ekki teljast nákvæmlega tengjast skilningarvitunum fimm. Það er fáránlegt að hafna þeim veruleika sem er sjáanlegur og heyranlegur þeim sem telst vera eins og ég, þ.e.a.s. segja einstaklingur sem er með skynjun á tvöfaldan veruleika eða sjón á báða heimana vegna þess að ég bý yfir sjötta skilningarvitinu og telst því dulræn. Ég er dulræn sem er heilbrigt huglægt ástand fyrir þann sem þannig er fæddur. Nokkuð sem telst áhugaverð og sérstök sérgáfa, en alls ekki geðfötlun, þó öðrum og mér meiri "vitbrekkur" gæti þóknast að telja að svo sé. Mér er eðlilegur jafnframt öðrum venjulegum veruleika sá veruleiki sem getur ekki orðið raunverulegur nema þeim sem hafa það sem oftast er kallað sjötta skilnigarvitið og virðist í sumum tilvikum vera mun fullkomnara í eðli sínu en öll hin fimm, þó þau væru lögð saman. Enn þá fráleitara væri þó að afgreiða heila fjölskyldu eins og ykkar, þó ekkert ykkar byggi yfir sjötta skilningarvitinu og þið mynduð öll skynja eða sjá afa þinn á sama tíma eða í sitt í hvoru lagi eftir lát hans, sem geðfatlaða einstak­linga.Eðlilegra væri að álykta sem svo að hann, vegna sterkrar þráar til ykkar og afar jarðbundinna viðhorfa fyrir líkams­dauðann, sé svo nálægur ykkur huglægt, að jafnvel einmitt það geti haft áhrif á að hann sé annars vegar svona ofarlega í hugum ykkar og hins vegar birtist ykkur sem lifandi.

Ímyndun eða raunveruleiki

Þarna er erfitt að greina á milli þess sem í raun er afleiðing af sterkri huglægri nærveru hans og svo aftur hreinlega því sem gæti tekið á sig hans myndir, vegna ótæpilegs ímyndunarafls ykkar og ótta í kjölfar vissu um að hann sé afar nálægur ykkur, þrátt fyrir umskiptin. Hvað nákvæmlega af öllu þessu er í gangi skiptir kannski ekki öllu máli. Það sem skiptir mestu máli er að þið séuð óttalaus og að honum takist þrátt fyrir einhverja tregðu að átta sig á að eðlilegra væri að hann sættist á vistaskiptin og hefði ykkar fremur í huga sér sem elskulega ástvini sem hann vissulega saknar. Ástvini sem að lokum munu komast í hans heimkynni og sameinast honum eins og áður á jörðinni. Þannig er gangur lífsins og líka þess lífs sem bíður við líkamsdauðann. Einmitt þannig afstaða er öllum holl. Það er aftur á móti engum hollt sem farinn er af jörðinni að festast í viðjum vanda þess sem getur ekki þrátt fyrir líkamsdauðann slitið sig frá jörðinni og ástvinum sínum. Jafnvel þó hans bíði ekki síður og kannski enn þá fullkomnara líf í ríki Guðs. Þar sem kærleikurinn er fullkominn.

Eða eins og og draugurinn sagði eitt sinn stundarhátt í annarra draugahópi."Elskurnar mínar ég er ósköp ánægður með mig síðan ég sveif síðast frá jörðinni og áttaði mig á að mér hentaði betur það líf sem er hérna megin grafar. Enda meiningin að fá vængi. Nokkuð sem var ekki séns að fá á jörðinni, þó ágætur hafi ég verið þar sem hér í himnaríki."Gangi þér vel að átta þig á hvað er hvað og vonadi fá mál afa þíns og elskuleg minning hans góða lausn sem fyrst.

Með vinsemd Jóna Rúna