Kaerleikshvetjandi blogg

laugardagur, nóvember 05, 2005

Höfundur:
Jóna Rúna


Eftirtektarvert draumlíf
(Svar til Snúlla 16 ára)
Elsku Jóna Rúna! Ég verð að skrifa þér og vona svo sannarlega að þú svarir mér sem fyrst. Ég er 16 ára strákur, sem er gjörsamlega að verða brjálaður, vegna þess að mig dreymir svo rosalega mikið. Frá því að ég var lítill hefur mig dreymt furðulegustu drauma og heilu næturnar nokkurn veginn stanslaust.

Ég er elstur af fjórum systkinum og heima hjá mér er oftast allt á útopnu. Foreldrar mínir eru ágætir, en málið er að þau eru ekki mjög trúuð á dulræna hluti og finnst mér það mjög mikill galli, vegna þess að ég get eiginlega ekkert rætt við þau um þessa sérstöku drauma. Stundum kemur þó fyrir að þau fá áhuga, vegna þess að það hefur sýnt sig að draumarnir mínir gerast næstum nákvæm­lega eins og mig dreymdi þá kannski nokkrum dögum eða vikum seinna.

Ég er þó svolítið hræddur við þetta, því fyrir þó nokkru dreymdi mig að einn vinur minn hefði lent í bílslysi og nokkrum vikum seinna gerðist það, að hann lendir í umferðarslysi alveg á sama stað og mig var áður búið að dreyma. Ég fór alveg í kerfi, vegna þess að ég hafði ekki sagt vini mínum drauminn. Fannst það svo hallærislegt eða eitthvað. Svo þegar hann slasaðist mikið í raunveru­lega slysinu eins og í draumnum, fékk ég svo rosalega bakþanka og einhverja óþægilega tilfinningu innra með mér, sem reyndar er enn þá til staðar.

Ég ræddi þetta við foreldra mína, en þau virðast ekki skilja hvað þetta er óþægilegt fyrir mig. Segja bara að þetta eldist örugglega af mér. Pabbi sagði að enginn geti trúað á drauma, þeir séu ekki tengdir raunveruleikanum. Hann hefur þó sjálfur lent í draumi hjá mér og sá draumur kom fram nákvæmlega eins og mig dreymdi hann. Mig dreymdi að hann væri á spítala og gæti ekki gengið. Tveim mánuðum seinna lenti hann einmitt á spítala, af því að hann gat ekki gengið vegna baksins og það varð að skera hann upp.

Sundum er ég svo hræddur við að sofna, útaf þessum draumum, að ég ligg bara andvaka heilu næturnar. Einu sinni dreymdi mig, að Jesú Krist hann kom til mín og faðmaði mig að sér og setti ljós yfir höfuðið á mér. Ef mig dreymir langa drauma eru þeir eins og heil saga sumir. Stundum finnst mér líka í draumi að ég sé þar sem þeir dánu eru. Það er örugglega rétt hjá mér, vegna þess að stundum hefur afi minn sem er dáinn komið í byrjun draumsins og farið með mig í umhverfi sem er ótrúlega fallegt og friðsælt. Eftir svoleiðis drauma er ég ekkert hræddur, líður bara vel og vildi helst sofa lengur.

Elsku Jóna Rúna hvað á ég að gera? Stundum hef ég á tilfinn­ingunni, að enginn strákur á mínum aldri standi í þessu draumaveseni og það gerir mig svo óvissan, asnalegan og einmanna. Ég hef svo ofboðslega þörf fyrir að tala um þetta. Ég var víst mjög skyggn, þegar ég var undir sex ára aldri og stundum kemur fyrir að ég sé þá sem eru dánir, en ekki oft í seinni tíð. Ég man þó ekki mikið eftir því tímabili sem mest bar á þessari skyggni hjá mér. Sumt man ég þó greinilega.

Viltu hjálpa mér að reyna að skilja, af hverju ég er svona, en ekki t.d. félagar mínir og systkini? Kæra Jóna eru allir miðlar svona skilningsríkir og eins spes og þú? Ekki hætta að svara bréfum í Vikunni, því ég veit að margir félagar mínir liggja í bréfunum sem þú svarar. Það er alveg öruggt mál að við unglingarnir stöndum með þér, þó við og segjum stundum í gríni: " Ætli manneskjan sé alltaf hinumegin?" Eða: " Getur verið að gellan sé göldrótt eða eitthvað?
Þinn einlægur aðdáandi Snúlli

PS. Hvernig gæi heldur þú að ég sé? Viltu aðeins kíkja á manngerðina og kannski hugsanlega möguleika mína? Dreymir þig mikið? Ástarþakkir fyrir allt.

Kæri Snúlli! Mikið var bréfið þitt skemmtilegt. Við skoðum að sjálfsögðu drauma og mögulegt gildi þeirra í svari mínu til þín. Vonandi verður það til að auðvelda þér þetta eitthvað og hugsanlega til að auka skilning þinn á þessum sérstaka hæfileika sem þú sýnilega hefur. Það er gleðilegt að heyra að þið unglingarnir séuð sátt við svörin mín, því ég er mjög "sátt" við ykkur. Sennilega er ég göldrótt á einhvern hátt eins og ykkur hefur svo skynsamlega dottið í hug, ég fer bara vel með það eða þannig. Kærar þakkir fyrir uppörvunina elskan.

Þú spyrð hvort mig dreymi mikið. Sannleikurinn er sá að þetta síðasta ár í lífi mínu hefur mér dreymt ótrúlega nákvæmlega öll aðalatriði í lífi einstaklings, sem hefur verið að kljást við mjög sérkennilegar aðstæður. Þessir mögnuðu draumar hafa ýmist verið berir eða táknrænir, auk þess að hafa innihaldi mjög mikilvæga leiðsögn eða ábendingar fyrir viðkomandi, ýmist í formi hvatningar eða umvöndunar. Ég segi eins og þú, að það getur verið þrautafullt að vera meira en í meðallagi dreymin og ekki síst á dulrænan máta eins og ég og sennilega þú. Við notumst við innsæi mitt, reynslu­þekkingu og hyggjuvit í allri umfjöllun um þig og það sem íþyngir þér.
Draumar nauðsynlegir fólki
Ef við til að byrja með íhugum drauma yfirleitt, þá verð ég að segja, að án þeirra væri tilvera okkar heldur fátækleg a.m.k. stundum. Vísindamenn hafa eytt miklum tíma og fjármunum til þessa að rannsaka draumlíf fólks og gera trúlega enn. Flest í þeim rannsóknum bendir til að draumar séu fullkomlega nauðsynlegir fólki og án þeirra geti skapast hvers kyns sálrænn vandi, sem erfitt getur verið að henda reyður á hvernig kemur fram.

Þær tilraunir sem hafa verið gerðar með tækjum og til þess gerðum útbúnaði á t.d. dýrum hafa gefið mjög mikilvægar vísbendingar. Hafi þau t.d. verið áreitt á byrjunarstigum draumlíf hafa þau brugðist mjög neikvætt við öllu utanaðkomandi áreitt og sérílagi því sem hefur orðið til að vekja þau af svefni, sem inniheldur draumferli á fyrstu stigum. Sum hafa við endurteknar tilraunir fengið tímabundin geðræn vandamál, sem talin eru benda til að í draumi sé einhvers sú útrás nauðsynleg sem ekki fæst í vöku og þá tilfinningaleg og sálræn. Margt í okkar vökulífi okkar er þess eðlis að það samræmist ekki þeim siðgæðiskröfum t.d. sem flest heilbrigt fólk setur sér eða þjóðfélagsstaða þess krefst af því, en kveikir samt ákveðnar þrá og langanir sem við bælum með okkur, af ótta við höfnun eða umvöndu.

Þegar þannig er ástatt fyrir fólki, getur myndast mikil sálræn- og tilfinningaleg spenna, sem verður að fá útrás ef viðkomandi á að halda góðri geðheilsu. Sjálfsvarnar­kerfi þannig ástands virðist vera hvers kyns útrás þessara forboðnu tilfinninga eða langana í draumum sem síðan eru afgreiddir sem rugl, ef eðli þeirra og innihald er óhentugt okkur í vöku. Svokallaðar martraðir eru oftar en ekki af þessum toga. Eins er mannssálin svo margslungi og oftar en ekki hjá ágætasta fólki er eitt og annað sem blundar í sálartetrinu, sem við viljum afneita og horfa framhjá, en krefst samt sem áður einhvers konar léttis eða lausna og eins og áður sagði og af þessum ástæðum er draumlífið oftar en ekki vetvangur tímabundinna úrlausna
okkur til sáluhjálpar.

Berdreymi eða tákdreymi
Mikill eðlismunur er því á þeim draumum sem kallast berir eða táknrænir og áður sögðu draumlífi. Ef við íhugum þitt draumlíf þá ert þú sýnilega það sem kallað er berdreyminn og það meira en í meðallagi, vegna þess að þú virðist eiga nokkuð stöðugt og magnað draumlíf. Draumar sem eru berir koma eins og í þínu tilviki koma nokkuð nákvæmlega fram, mismunandi hratt eftir atvikum þó. Í þannig draumum eru staðhættir, fólk og atburðarrás venjulega nákvæmlega eins og síðar endurtekur sig í raunveruleikanum. Vissulega er á ferðinni í þessum tilvikum forspá sem rætist fyrr eða síðar.

Það er því hægt að fullyrða að þú sér forspár með þessum sérstaka hætti. Aftur á móti er ágætt að að átta sig á, að ekki koma allir draumar fram og sumir þinna drauma geta auðveldlega fallið undir það sem áður sagði eða það sem nauðsynlegt er að fá útrá fyrir. Vissulega getur það verið nokkur áþján, að fá upplýsingar un það sem framtíðin ber í skauti sér með þessum ómeðvitaða hætti.

Tákndreymi mun algengara
Tákndreymi er mun algengara fyrirbæri og mjög marga dreymir fyrir hinu og þessu á táknrænan máta. Þannig draumar eru oftast nokkuð stuttir og fremur skýrir. Í þeim eru oft nöfn mjög mikilvæg og oftar en ekki þarf að ígrunda vel staðhætti, hluti, atburðarás og fólk í tákndraumum og vanda vel alla skoðun og mögulegt gildi þessara tákna.

Sumir verða mjög færir fyrir eða síðar að túlka þannig drauma. Ef okkur dreymir t.d. snjó gæti slíkt verið fyrirboði tímabundinna erfiðleika og þá snjódraumar okkar alltaf vitað á slíkt. Í sumum tilvikum er til fólk sem verður að kallast bæði tákn og berdreymið og dreymir þá jöfnum höndum þessar tvær ólíku tegundir drauma, sem þó hafa svipað gildi og tengjast báðir forspám með þessum sérstaka hætti.

Sálfarir en ekki draumar
Ef við veltum aftur á móti fyrir okkur þessum draumum, sem þér finnst þig vera að dreyma, þar sem afi þinn sækir þig og fer með þig á áður ókunna staði, þar sem þér finnst vera heimkynni þeirra látnu, er ekki um draum að ræða heldur það sem fella mætti undir sálfarir. Vegna þess að sálfarir fólk fara oft fram í tengslum við svefn þá ruglum við þessu tvennu iðulega saman. Sennilegt er að þegar afi þinn birtist þér í svefni, þá sé hann að leiða þig á vit þeirrar veraldar, þar sem hann á heimkynni sín í, en það er ríki Guðs.

Í húsi föðurins eins og Kristur sagði eru margar vistaverur og af þeim ástæðum er ekki ólíklegt að þú kunnir í þessum ferðum með afa, að koma víða við. Hvað varðar það að þú finnir vellíðan og innri frið grípa um sig á hugskoti þínu á meðan og á eftir undirstrikar bara að þú ert á ferðalagi í þessum sálförum þínum á ferð um kærleiksveröld drottins, þar sem við öll eigum vísan sama stað að loknu jarðlífinu enn þó í mismunandi vistar­verum. Nokkuð sem við getum haft áhrif á með breytni okkar hér á jörðinni.

Það er því engin ástæða fyrir þig til að óttast þessa tegund upplifunar í svefnástandi og enn síður þar sem afi þinn leiðir þig og verndar fyrir öllu því sem mögulega gæti valdi þér óþægindum. Það sem virkilega undirstrikar að draumlíf þitt er sérstök náðargáfa, sem þér er ætlað að lifa með og umbera er t.d. draumurinn um Jesú Krist. Hann bendir ákveðið til þess að þú njótir Guðlegrar forsjár, þrátt fyrir eðlilegan ótta þinn og óöryggi vegna alls þessa, en sem komið er.

Sektarkennd og skilningsleysi
Hvað varðar drauminn um vin þinn er þetta að segja. Það er alrangt að fyllast sektarkennd vegna þess sem þú í draumi sást fyrir og síðar varð að veruleika í lífi hans. Þó þú hefðir sagt honum drauminn, er heldur ósennilegt að þú hefðir forðað vanda hans. Það má alveg eins segja í þessu tilviki, að trúlega hafi hann átt að eignast þá reynslu sem slysinu fylgdi. Það er alls ekki víst hvort sem þér líkar að heyra það eða ekki, að vini þínum hefði þótt nokkur þægð í þeim upplýsingu sem þú bjóst yfir vegna vætanlegs slys. Honum eins og þér gæti hafa fundist óviðeigandi að velta sér uppúr þannig möguleika og ekkert óeðlilegt við að gefa sér það að hann hefði hreinlega ýtt þessum möguleika út í hafshauga, þó ekki væri nema vegna ungdóms síns.
Greinilega framsýnn
Hitt er svo annað mál að í þessu tilviki var greinilega um framsýni eða forspá þína að ræða í gegnum þennan bera draum, en hvernig á ungur strákur eins og þú að hafa fullt traust á sérkennilegu draumlífi sínu, þegar hann skortir bæði þekkingu og trú á eigin hæfni á þessu makalausa sviði. Það er elskulegur margra ára fyrirhöfn að þjálfa fullan eigin skilning á því sem tengist draumlífi okkar og þar af leiðandi mjög ósanngjarnt af þér, að refsa sjálfum þér, þó þú hafir séð í draumi fyrir ókomin atburð. Ef þú hefðir verið fullkomlega viss um sannleik þann sem draumurinn innihélt, þá hefðir þú örugglega beitt öllum tiltækum ráðum til að reyna að afstýra slysinu.

Á þessum vangaveltum sérðu, að það er engin ástæða fyrir þig til að vera með sektarkennd. Hún er tilgangslaus núna, vegna þess að slysið hefur átt sér stað og við breytum ekki því sem þegar hefur gerst. Eins veit maður alls ekki nema eins og áður sagði, að það kunni að vera einhver tilgangur á bak við þennan atburð, sem getur orðið til góðs fyrir vin þinn, þegar betur er að gáð og síðar kann að koma í ljós.

Einsemd dreymanda
Þú átt í ákveðnum erfiðleikum vegna þessa draumlífs og ekki síst hvað varðar þína nánustu, vegna þess hvað fráhverf þau eru því yfirskilvitlega og er það hryggilegt sérstaklega með tilliti til þess að það er svo mikilvægt þegar við erum ung og ómótuð, þó við séum ólík foreldrum okkar að eðlisþáttum og upplagi, að þeir beri gæfu til að virða það sem okkur er eiginlegt. Þar sem þau hafa orðið vitni að því að þú hefur reynst sannspár í gegnum drauma, væri eðlilegra að þú gætir rætt þessa sérgáfu þína við þau.

Öll umræða um það sem annars vegar vekur vellíðan okkar eða ótta er mikilvæg og ekki síst til að auka líkur á frekari skilningi okkar sjálfra á fyrirbærinu. Ef útilokað er að vænta skilnings af foreldrum þínum verður þú að finna einhvern, annað hvort skyldan eða óskylda til að tala um þessa þætti í þér um. Vertu viss þú ert örugglega ekki einn um það að þurfa að létta á hjarta þínu hvað varðar drauma. Alla dreymir en fáa þannig að það sé mjög mikils virði, en nógu marga þó, til að einhver þeirra verði á vegi þínum, ef þú ert ófeiminn, við að þreyfa lítilega fyrir þér. Mögulega gæti það bæði orðið gagnlegt fyrir þig og þann sem þess heiður verður aðnjótandi að fá að kynnast því sem þú ert að upplifa á nóttunum.

Manngerð og möguleikar.
Þú spyrð hvernig gæi þú sért og ég segi bara eins og mamma gamla hefði sagt af sinni alkunnu speki: " Góður náttúrlega". Þú virðist mjög marþættur og fellur sennilega undir það sem kalla mætti að skaðlausu fremur flókna manngerð. Styrkur þinn gæti þó fremur legið á sviðum tækni og jafnvel uppgötvana, en öðru. Þú virðist nokkuð skapstiltur, en ert trúlega langrækinn og hefur þörf mikla þörf fyrir athygli og persónulega ást. Metnaður þinn mætti að skaðlausu vera ögn meiri fyrir eigin hönd. Spenna og ósamlyndi á trúlega mjög illa við þig og hætt við að þú leggir á flótta við þannig aðstæður.

Það tímabil í uppvextinum sem virðist hafa haft mest mótandi áhrif á þig, er tímabilið á milli fimm og tólf ára. Á því tímabili kannt þú að hafa eignast mikinn innri styrk, vegna aðstæðna og fólks sem hefur verið þér mikilvægt og náið. Þú verður sennilega einnar konu maður, sem verður að varast ótæpilega eigingirni í tilfinninga­málum. Þú virðist hafa tilheigingu til að slá eign þinn á þann sem þú kemur til með að elska. Þannig stráka eigum við stelpurnar sérlega erfitt með að þola, svona til viðvörunar fyrir þig. Mikilvægasti tími ævi þinnar verður sennilega um eða eftir fertugt. Þar gætu trúlega orðið feikilegar og margþættar breytingar í lífi þínu, sem sennilega munu gjörbreyta viðhorfum þínum til góðs fyrir þig og samferðarfólk þitt.

ÞÚ gætir haft nokkrar leti tilhneigingar og því afar mikilvægt fyrir þig að rækta vel innra líf þitt og aga þig ögn til. Þú virðist fyndinn og skemmtilegur og átt sennilega mjög auðvelt með að sjá spaugilegu hliðar sjálfs þíns og annarra. Þennan eiginleika mætti virkja og leyfa sem flestum að njóta góðs af. Hyggilegt er fyrir þig að krækja þér í starfs,þjálfun vegna þess að þú átt sennilega erfitt með að láta aðra drottna yfir þér og þarft þar af leiðandi að vera sem sjálfstæðastur. Það er jafnframt augljóst að þú ert með sérkennilega dulargáfu, sem gæti síðar á ævinni tekið á sig mun þægilegri myndir en draumarnir gera núna. Best er því að efla sem jákvæðast hugsun að staðaldri og staðfast trú á Guð og tilgangsríkt líf. Eða eins og saklausi sveitagæinn sagði einu sinni af alvarlega gefnu tilefni: " Elskurnar mínar eftir að ég fluttist í blæinn hef ég kynnst ýmsu, en trúlega best sjálfum mér. Ég var nefnilega einmanna um tíma og fékk þá gott tækifæri til að rækta eigið sjálf. Málið er þegar við sitjum ein að reynslu okkar, er eins og við verðum miklu meðvitaðri og vissari í vilja okkar til að halda meiriháttar vörð um það, sem verður að teljast sérstakt í upplagi okkar og manngerð".

Guð gefi þér aukna trú á eigið ágæti og vissu um gildi þess að vera öllum stundum einungis þú sjálfur.
Með vinsemd Jóna Rúna
+++
Höfundur:
Jóna Rúna Kvaran
Áhrifamáttur reiðinnar

Kæra Jóna Rúna!
Ég hef lengi leItað að einhverjum, sem gæti leiðbeint mér á þroskabrautinni, og marga hef ég hitt sem lagt hafa mér lið, en samt er ýmislegt sem ég vildi gjarnan fá skýringar á ef hægt væri. Ég sæki lítið venjulega skemmtanir en þrá að upplýsast meir um andlegverðmæti ef kostur er. Ég hef sótt töluvert miðilsfundi og aðrar andlegar samkomur. Ég er rúmlega sextug og hef haft fyrir heimili að sjá og geri enn auðvitað hefur gengið á ýmsu eins og gengur. Móðurfólkið mitt er næmt fólk og við börnin vorum alin upp í einlægri trú á almættið og tilheyrðum þjóðkirkjunni. Við lásum bænir og vers og var kennt að vera heiðarlegur í hvívetna. Heima var mikil fátækt og börnin fleiri en tugur og komust á legg. Af því að mér finnst þú Jóna afskaplega hreinskilin og líkleg til að segja álit þitt beint út ætla ég að opna hug minn. Þegar ég var um þrítugt fór ég að taka eftir því ef ég reiddist einhverjum, og sárnaði verulega , og fannst um hróplegt óréttlæti væri, þá mátti ég eiga víst að eitthvert óhapp henti við - komandi. Þegar ég áttaði mig á þessu fyrst, hélt ég að þetta væri einungis tilviljun og gaf þessu ekki gaum sérstaklega. Þegar þetta gerðist svo ítrekað þá fór ég verulega að passa mig og nú er langt síðan nokkuð hefur skeð, sem ég get tengt við hugsanir mínar á þennan sérkennilega hátt. En hvernig er þetta með reiðina Jóna er það virkilega þannig að við með reiði okkar getum með eða ómeðvitandi gert öðrum illt? Hvað með vernd Guðs t.d. ef einhver út í bæ getur hugsanlega gert kunningja sínum illt, bara ef viðkomandi kannski neitar persónunni um greiða og hún reiðist og bregst ókvæða við, vegna þess að hún telur neitunina ósann - gjarna? Hvernig er þetta með illskuna yfirleitt, og sjálf býst ég við að hún hitti mann sjálfan fyrir ef áhrif hennar eru manni ókunn? Getur hún virkilega leikið lausum hala og gert fólki alls konar óskunda? Kæra Jóna Rúna það hefur ýmislegt fyrir mig borið á lífsleiðinni eins og gengur ég les allt sem ég get um dulspeki, svörin við sumu finn ég þar, sumt segir minn innri maður mér en að lokum langar mig að spyrja þig dálítils. Get ég hjálpað þeim sem bágt eiga með því að hugsa hlýlega til þeirra, hvernig er hægt að gera þann farveg opnari? Hvernig get ég varið sjálfa mig fyrir of miklum sársauka sem hættir við að taka inn á mig stundum? Hef ég einhvern snefil af hæfileikum í þessa átt, eða er þetta kannski einhver tilhneiging til að upphefja sjálfa sig . Ég hef verið svo lánsöm að hafa kynnst nokkrum af merkilegustu miðlum landsins sem sumir eru dánir núna. Ég hefði getað spurt þá ítarlegar um eitt og annað en það er eins og maður verið svo vitur eftir á, því miður. Í framhjáhlaupi þetta eitt er atvik í lífi mínu hefur nagað mig í um tuttugu ár, ég var eitt sinn stödd á spítala að heimsækja sjúkling sem ekki var mikið veikur . Á stofunni lá fársjúkur maður sem yfir sat mjög sorgmædd og þreytt kona . Hún brá sér frá eitt augnablik og ég fór að rúminu eins og dregin af einhverju ókunnugu afli, og signdi manninn og bað góðan Guð af öllu hjarta að gefa honum hvíld, strauk honum um vangann og fór svo. Morguninn eftir frétti ég lát hans. Mér var brugðið, gat verið að ég hefði flýtt óaðvitandi fyrir andláti hans, gerði ég rangt, ég bað um hvíld ekki bata og hann var ekki mjög aldraður. Ef þú kæra Jóna getur eitthvað liðsinnt mér væri ég mjög þakklát.
Friður Guðs sé með þér.
Þóranna
Kæra Þóranna mér er ljúft að reyna að svara þér og vona svo sannarlega að það geti komið að gagni. Þakka þér traustið sem þú sýnir mér og eins góðan hug til mín. Við reynum að nota innsæið mitt og hugsanlega skriftina þína sem stuðning og hvata að góðum skýringum og einhvers konar ábendingum ef hægt er.
Þroskabrautin
Þegar verið er að tala um leit okkar að dýpri verðmætum er ágæt að við höfum það í huga að eitt og annað sem hendir okkur er vissulega snúið og jafnvel er þess eðlis að okkur skortir kannski skilning og þroska til að átta okkur mikilvægi umburðarlyndis gagnvart okkur sjálfum þegar við einfaldlega skiljum ekki ástandið eða aðstæðurnar. Þegar þannig atvikast í lífi okkar er gott að leita sér hugsanlegra leiðsagnar þeirra sem við trúum að geti auðveldað okkur aukin skilning. Ef við íhugum þroska möguleika okkar er alveg ljóst að leiðirnar eru margar og torsóttar að þroska markinu þótt auðvitað sé eitt og annað verulega ánægjulegt á þessari annars óendanlegu braut. Öll mannleg samskipti verða beint eða óbeint til að til þess að gera okkur kleift að þroskast eða ekki. Hver persóna er hér á jörðinni til að læra eitt og annað sem færir hana nær því guðlega í henni sjálfri eða að þeim andlegu lögmálum sem við óneitanlega verðu öll fyrir eða síðar að lúta en það eru lögmál Guðs. Þegar við eldumst erum við gjörn á að líta yfir farin veg og reynum eftir fremsta megi að breyta og bæta það sem við teljum að hefti þroskamöguleika okkar, ef við finnum ekki leiðir til einhvers konar samkomulags eða jafnvel getum upprætt það sem tefur okkur að markinu stóra, líður okkur illa og við verðu hrædd og vonlaus. Ef við erum sanngjörn í þessum uppgjörum þá gerum við okkur fljótt grein fyrir því að flest okkar gerðum við það sem við höfðum, vit til hverju sinni. Spurningin er því er hægt að ætlast til að við séum fær um að leysa allt það sem hendir okkur eins og við værum alvitur eða jafnvel gallalaus , örugglega ekki. Ef við gerðum aldrei mistök er hætt við að við stæðum kirfilega í stað andlega og hreinlega rykfellum þannig fyrr eða síðar. Mistök og heimskupör eru ekkert til að hafa áhyggjur af, svo fremur sem við reynum að læra og þroskast frá þeim. Hætt er við allt venjulegt líf yrði heldur leiðinlegt ef allir væru nánast gallalausir og þverslaufulegir í athöfnum sínum og hugsunum. Af þessum ástæðum verðum við að losa okkur við allar óþarfa áhyggjur vegna þeirra atvika í lífi okkar þar sem við í hjartans einlægni töldum okkur ekki vera að gera neitt syndsamlegt eða neikvætt þó klaufaleg höfum verið eftir á séð. Aðalatriðið er að vilja vel aukaatriði hvort það tekst endilega alltaf eins og hæfileikar okkar gefa tilefni til að árangurinn ætti að vera. Við erum hreinlega mannlega og þarf af leiðandi ófullkomin og það er einmitt svo yndislegt.
Reiði er orkuuppspretta
Ef við íhugum í framhaldi af þessum vangaveltum reiðina og hugsanlega kosti og galla hennar er öruggt mál að margs er að gæta í þessum efnum sem mörgum öðrum. Til er fólk sem kannast við það sama og þú ert að tala um kæra Þóranna og flest orðið eins klumsa við eins og þú, þegar því var ljóst að reiðin getur haft ákveðnar neikvæðar afleiðingar, og stundum jafnvel afdrífaríkar því miður. Við verðum öll að gera okkur grein fyrir því að reiðin er lifandi afl sem hefur ekki bara áhrif á okkur heldur líka aðra. Ef t. d. manneskja er sálræn hefur hún umfram orku sem hægt er að beita bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Þegar við verðum reið vegna óréttlætis sem við erum beitt eru ýmsar tilfinningar sem losna úr læðingi innra með okkur. Þessar tilfinningar geta verið sem dæmi smæðarkennd, stolt, vonbrigði og óþarfa viðkvæmi. Þegar við erum að leita eftir stuðningi annar á einhverju sem við finnum okkur ekki getað leyst eða skilið hjálparlaust, væntum við sanngjarnra viðbragða og skilnings, en ekki kulda eða hrokafullra athugasemda sem jafnvel fylgja niðurlægjandi ábendingar. Við fáum í framhaldi af þessum leiðinlegu viðbrögðum óþægilega innri tilfinningu sem kallast reiði en er blönduð einu og öðru. Við verðum eins og ein eitt augnablik og upplifum okkur ýmist eins og kjána eða finnst eins og við höfum gert eitthvað rangt bara með því að fara fram á þokkalega framkomu þeirra sem við ýmist leitum til eða óskum eftir stuðningi og ábendingum frá. Við hugsum eitt og annað í þessu ástandi og flest frekar neikvætt og fyllumst ótrúlegum pirringi út í viðkomandi jafnvel óskum persónunni eitt augnablik alls þess versta sem við getum hugsað okkur henni til handa fyrir ónærgætnina. Þar með er orka komin að stað sem hverfur frá okkur og ef við í huganum erum með ákveðna persónu er mjög líklegt að viðkomandi finni einhverja breytingu á líðan sinni, en tengir það sjaldnast atvikinu sem tengdist samskiptunum við þann sem persónan var að koma ódrengilega fram við. Viðkomandi verður í framhaldi af þessari líðan kannski veikar fyrir áföllum og öðru sem tilfellur í kringum hann. Þegar fólk fær yfir sig reiði annarra og vonbrigðasúpu og sjálft kannski illa fyrir kallað og neikvætt bætir þessi kraftur sem sá sem telur sig hafa verið órétti beittur sendir vanhugsað til viðkomandi örugglega ekki sálarástand persónunnar sem upphaflega kom leiðinlega fram. Vissar er að gæta varurðar í þessu sem öðru sem tengist innra lífi okkar og innri manni. Hvað þig snertir kæra Þóranna er gott til þess að vita að þú hefur gert þér grein fyrir þessum möguleika og varast að verða til þess að veika þá sem gera á hlut þinn, þarna held ég að þú hafir raunverulega óaðvitandi komið af stað afleiðingu sem þú sérð svo smátt og smátt við endurtekningu að hefur meir en lítil áhrif og hreinlega gætir að þér.
Sálrænt næmi
Ef við reynum að íhuga hvers við erum svona misjafnlega næm fyrir einu og öðru er ágæt að íhuga mikilvægi jákvæðra lífsviðhorfa í því sambandi. Hver persóna er á einhvern hátt næm, og eru jafnvel ýmis tímabil í lífi okkar mikilvægari hvað næmleika snertir. Í þínu tilviki held ég að ekki sé efi á að þú býrð á einhvern hátt yfir sálrænunæmi og hætt er við í framhaldi af því að þú takir eitt og annað inná þig sem hefur ákveðin áhrif. Hver einasta persóna sendir frá sér áhrif sem stundum er kölluð útgeislun viðkomandi, þetta er eitthvað sem við sum finnum þó við vitum ekki alltaf í hverju tilfinningin liggur sem við verðum gripin nálægt sumu fólki. Stundum líður okkur illa nálægt einhverjum og finnst við þurfa að þrífa okkur burt frá viðkomandi, ekki þarf að fylgja þessari niðurstöðu neitt ákveðið, bara slæm líðan. Blikið sem er í kringum okkur og stundum er kallað ára eða litrof er sífellt á hreyfingu og frá því stafar annars vegar orkuflæði neikvætt eða jákvætt og hins vegar er það allt í litum sem eru mis fallegir. Hugsanir okkar stjórna áhrifum bliksins á aðra og valda auk þess breytingum á orkuflæðinu og litum þess. Ég hef grun um að þú getir t.d. haft mjög létt orkusvið og kannski er það annars vegar afleiðing af þreytu móður þinnar á meðgöngu tímanum þegar þú ert í móðurkviði, og hinsvegar ertu með einhverjar dulargáfur og slíkur aðili er venjulegast með tiltölulega létt orkusvið. Þetta getur haft það í för með sér að þú takir áhrif annars vegar umhverfis og hins vegar hugsanna annarra óþarflega mikið inn á þig. Ef þetta er rétt niðurstaða er ekki ósennilegt að þér geti liðið illa allt í einu á sýnilegrar ástæðu og getur bæði verið að einhver sé í hugsanasambandi við þig það augnabliki sem líður ekki vel, eða að eitthvað sé í loftinu sem tengja mætti fyrirboða einvers konar, þetta skýrist oft eftir á sem betur fer. Það að vita kannski ekki af hverju manni líður svona eða hinsegin er oft þess eðlis að það gerir okkur óróleg og við það tilfinningasamari, auk þess sem okkur hættir við að leita hugsanlegra skýringa í okkur sjálfum eða aðstæðum okkar. Þegar þannig stendur á verða oft til hugsanir og vangaveltur sem ekki eiga við nein rök að styðjast og gerir það okkur enn óvissari og við jafnvel ímyndum okkur að eitthvað sé að okkur sjálfum. Ef verja ætti þig fyrir sársauka sem kannski á rætur sínar í öðrum er hætt við að yrði að loka fyrir næmi þitt með ákveðnum aðgerðum sem hefðu þá í för með sér að þú myndir tapa einu og öðru sem ég er alls ekki viss um að þú værir fús til að tapa. Þú yrðir nefnilega andlega fátækari á flestum sviðum.
Máttur bænarinnar
Hvað varðar vangaveltur þínar um hvort þú getir komið örum að liði og þá hvernig skapað sem best skilyrði á að gera slíkt mögulegt er eitt og annað sem hafa þarf í huga. Vegna þess sem við töluðum um fyrr í þessu bréfi og tengist reiðinni er sú orka sem myndast við reiði af sömu uppsprettu og önnur sálræn innri orka. Ef þú notar hugann rétt það er að segja ert jákvæð sem þú greinilega ert og biður góðan Guð um að leiðbeina þér og ert ekki sjálf að ákvarða hvernig sú þjónusta sem í gegnum þinn sálræna kraft nýtist öðrum, heldur biður um að mega verðaverkfæri í þjónustu kærleikans og lætur í öllum tilvikum vilja Guðs verða afdráttar lausan er öruggt að þú færð innan frá alla þá leiðsögn og uppörvun sem þú þarf á að halda. Hvað varðar það að þú sért haldin einhverjum óþarfa metnaði vísa ég frá á þeirri forsendu að það kemur skýrt fram í skriftinni þinni að ef eitthvað er þá vantar þig meiri metna og trú á sjálfa þig. Það kemur líka fram að þú ert viðkvæm og auðsæranleg auk þess að vera óþarflega hrekklaus. Kostir þínir eru greinlega meiri en gallar og þeir eru þess eðlis að engin vafi er á að þú getur látið feikilega gott af þér leiða. Bænin er eitt dásamlegasta form kærleikans og kostar ekkert nema einlægan vilja til að beita henni öðrum til blessunar og sjálfum sér til uppörvunar og aukins innra lífs. Útbúðu þér lítið afdrep og finndu góðan stól að setja í og gefðu þér 3 til 5 mínútur á hverjum degi til að biðja fyrir öllum þeim sem þrautir og vonbrigði þjaka. Ekki væri verra að um betri og jafnari hlutskipti í skiptingu auðlinda heimsins og að þjáning þeirra sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér tæki enda.
Atvik úr fortíðinni
Ef við að lokum skoðum það sem þú upplifðir sem ung kona í heimsókninni á spítalann er ágætt að gera sér grein fyrir aðalatriðum en láta öll auka atriði lönd og leið. Á þessum árum ert þú ung og óþroskuð eins og gengur, með takmarkaða reynslu í andlegum efnum, þó kærleiksrík og leitandi sért. Þegar þú verður vör við þá óbærilegu líðan sem sjúklingurinn á viða stríða fyllist þú óstöðvandi löngun til að hjálpa honum og velur einfaldlega þá leið sem þér fannst sú eina rétta í þessari annars aumkunarverðu stöðu og lái þér hver sem vill. Þú fannst að ástand viðkomandi sjúklings var sársaukafullt ekki einungis fyrir hann heldur konuna hans líka sem vakti yfir honum dag og nótt og einfaldlega baðst um hvíld fyrir hann. Ekki er ástæða að ætla að þú hafir flýtt fyrir láti mannsins vegna þess að slíkt væri vanmat á Guði, hann er almáttugur og hlýtur að velja okkur rétt skapadægur. Vegna þess að maðurinn dó daginn eftir þá hefur þetta kvalið þig. Ef við íhugum hvað raunverulega gerðist, þá er aðalatriðið að á þessu erfiða augnabliki á leiðarlokum mannsins var ókunnug ung kona fyrir tilviljun stödd í sama herbergi og þau hjónin og sem meira er og mikilvægara en allt annað var að þessi elskulega kona þú áttir í hjarta þínu nógan kærleika til að biðja um hvíld fyrir manninn. Ekki er vafi á því að þú hefur með þessum fyrirbænum gert óhemju mikið gagn og örugglega átt þátt í því beint og óbeint að umskiptin urðu sennilega mun léttari manninum og eftirstöðvarnar konunni. Það eru ekki endilega þau orð sem við notum sem skipta máli heldur hugurinn, sem í þínu tilviki var bæði óeigingjarn og elskuríkur og það er aðalatriði þessa máls kæra Þóranna. Eða eins og hugprúða hárgreiðslukonan sagði fyrir stuttu að gefnu tilefni" Elskurnar mínar þó hárið sé farið að þynnast og grána er ekkert víst að við séum endilega vitrari. Við verðum bara að vera sjálfum okkur samkvæm og kærleiksrík, þá verða allar athafnir okkar og hugsanir einhvers virði, hvers svo sem þiggur þær og á hvaða aldri sem við erum."
JRK

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home