Kaerleikshvetjandi blogg

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Höf jrk BÖRNIN OKKAR Það er nú einhvern veginn þannig þegar verið er að fjalla um börn að umræðan takmarkast við þau börn sem ná að fæðast. Börnin sem eru mitt á meðal okkar og við getum notið samvista við. Fáir leiða hugann að þeim börnum sem aldrei sjá dagsins ljós og kannski af því að lífi þeirra hefur verið eytt strax í móðurkviði. Þetta eru mannslífin sem hverfa nánast sporlaus af yfirborði jarðar og fylgir brottför þeirra enginn hátíðleiki og útfararræða. Þetta eru börnin sem láta lífið í skurðstofum landsins vegna t. d. félagslegar aðstæðna. Hver spyr um þessi börn. Hvers eiga þau að gjalda. Þessi ófæddu börn eiga sinn rétt og hver gætir hans, hvarlar kannski að einhverjum. Kannski ég og þú eða kannski ekki neinn? Sem betur fer er til félagsskapur sem heitir lífsvon og er einungis hugsaður og stofnaður til að gæta réttar ófæddra, barna sem meiningin er hugsanlega að nema á burt með fóstureyðingu að þeim forspurðum nátturlega, því enginn spyr fóstur hvort það vilji lifa og væntanlega njóta alls þess sem lífið hefur að gefa því.Í fróðlegu viðtali í útvarpinu fyrir áratug við Huldu Jensdóttur ljósmóður kom fram sá skelfilegi sannleikur að lauslega áætlað voru þá framkvæmdar 687 fóstureyðingar það ár og þar af 95 prósent af svokölluðum félagslegum ástæðum, hverjar sem þær nú eru í sumum tilvikum. Hulda upplýsti þá einnig að stór hópur sem fóstureyðingar framkvæmdu væru nemar í framhaldsskólum landsins. Ef ég man rétt voru um það bil 3 til 4 prósent vegna veikinda ýmis konar, ótrúlegt en satt. Hulda var spurð ýmissa frábærra spurninga og þar á meðal hvort ekki væri réttara, að þessi varnarlausu börn fengju frekar að lifa og þá alast upp hjá fósturforeldrum sem ekki gætu sjálf átt börn, en væru tilbúnir að leggja allt í sölurnar fyrir þessi. Eins var hún spurð hvort ekki væri viturlegra að gefa þessum börnum líf í stað þess að flytja kannski inn þeldökk börn sem yrðu fyrir landlægum kynþáttafordómum þeirra sem fyrir væru í landinu. Hulda var þessu fyllilega sammála og ekki furða. Spyrilinn hélt áfram og fór að velta því fyrir sér, hvort nægilega væri gætt að sálarheill þeirra stúlkna sem svo ólánsamar væru að þurfa að fara í gegnum þessa þungbæru reynslu að láta framkvæma á sér fóstureyðingu. Hulda benti á í framhaldi af þessar spurningu að ekki væru sambærileg eftirköst af því fyrir konur til dæmis að gefa barnið sitt eða að láta hreinlega eyða því. Hún sagði að algengt væri að þessar konur sem færu í fóstureyðingu lentu oft í alvarlegum andlegum erfiðleikum síðar á ævinni. Aftur á móti benti hún á að konur sem gæfu börnin sín vegna ýmiskonar félagslegra erfiðleika vissu þá að barnið ætti framtíð fyrir sér og gæti hugsanlega nýtt sér velvilja fósturforeldra og sú hugsun væri visslega léttbærari þrátt fyrir allt. Ekki er vafi á því að Hulda Jensdóttir, með stuðningi sínum við þessi réttlausu og varnalitlu börn, hefur unnið frábærlega göfugt starf og "Lífsvon" félagsskapurinn sem hún stofnaði, og er væntanlega enn við lýði, er mjög athyglisverður og þarfur félagskapur og væri óskandi að sem flestir styddu þetta þarfa framtak af alefli. En frá ófæddum að fæddum og þá þeim börnum sem við ætlum að gera svo mikið með í sumar. Brátt líður að því að skólunum fer að ljúka, einum af öðrum og langur og þægilegur vetur senn að baki. Það er yndislegt að sjá gleði og tilhlökkun skína út úr hverju barnsandlitinu á fætur öðru. Kannski er hægt að fara upp í sveit, og jafnvel ennþá lengra ef buddan leyfir. En ef til vill er bara gott að vera heima og skemmta sér við eitt og annað sem til fellur eins og gengur. Börn eru yndisleg og full af lífsgleði flest sem betur fer. Þegar litið er til baka í eigin æsku man maður eftir öllum góðu leikjunum eins og brennibolta, snú snú og teygjutvist. Þegar hugurinn hvarflar með þessum hætti finnst manni eitt augnablik maður vera orðin barn að nýju og vera á leið í langan göngutúr eftir hitaveitustokknum upp í Öskjuhlíð með nesti og bros á vör einungis vegna tilhlökkunar ef vera kynni nú að einhver ævintýri biðu manns við stóru vatnsgeymana í Öskjuhlíðinni. Vafalaust fara börn nútímans ekki í sína göngutúra með heita mjólk á gamalli tómatflösku eða rúgbrauð með smjörlíki á en eitthvað þó. Það hefur oft hvarlað að mér hvort börn dagsins í dag séu eins hamingjusöm með prinspólóið sitt og gosflöskuna óviss um að einhver yrði nú heima, þegar ferðinni væri lokið. Sannleikurinn er nefnilega sá, að þegar viðgengust ekki tímar lyklabarna og flestir ytri hlutir af skornum skammti voru þó á þessu landi virkilega hamingjusöm og nánast streitulaus börn sem áttu alltaf einhvern vísan heima, þótt fátæk væru. Ykkar JRK+++
Höf. JRk
BÆN
Ó Drottinn það er svo gott að vita af návist þinn alls staðar þar sem við erum go vita að þú yfir gefur okkur aldrei .Vita að þú velskar okkur eins og við erum ófullkomin og breysk. Þú verður að leiðbeina okkur því án þín og þinnar ráðgjafar frá degi til dags megnum við ekki að takast á við lífið á þann hátt sem þér er þóknanlegt. Viltu góði Faðir opna augu okkar fyrir öllu því sem betur má fara í okkar daglega lífi. Okkur langar að vera sönn og heiðarleg og eins langar okkur til að vera auðmjúk og lítillát. Við kjósum ekki að valda Föður okkar á himnum vonbrigðum Við viljum í hvívetna fara eftir þeim lögmálum sem þú hefur fyrir öldum gefið börnum þínum til eftirbreytni. Stundum fýkur í flest skjól og við erum svo vondauf og smá. Viltu á slíkum stundum Kæri Skapari gefa okkur aftur aukna trú á lífið og opna augu okkar fyrir þeim tækifærum til aukinna ávinninga sem við sjáum ekki þegar við erum óhamingjusöm og dauf. Það er svo góð tilhugsun að vita að þú bregst aldrei og ert alltaf til staðar fyrir okkur börnin þín til að hvetja okkur áfram og láta okkur vita að heilög þrenning er svo nálægt okkur að hún umvefur anda okkar og efni þannig að flestum örðugleikum léttir af okkur Elsku Drottinn megum við ávallt vinna öll verk þannig að þú getir vel við unað og á þann hátt að það verði öðrum til eftirbreytni Þakka þér fyrir allt sem þú hefur fyrir okkur gert og megum við kunna að meta þínar góðu gjafir okkur til handa. Enn og aftur hjálpaðu okkur til að gleðja þig og það sem eru beygðir og eiga örðugt með að hjálpa sér sjálfir. Í Jesú nafni. Amen +++
+++
VANGAVELTUR
Getur skilningur breitt angist í vonarþel? ++++++++++++++++++++++++++++++++ Getur samúðarlogi tendrað ilglóð í sársauka? +++++++++++++++++++++++++++++++++ Getur gæskusól líknað í harmi sálartrega? ++++++++++++++++++++++++++++++++ Getur kærleiksstjarna kveikt ljós í myrkri? ++++++++++++++++++++++++++++++++ JRK +++ Skoðun: Nauðganir í skjóli friðhelgi heimilanna Knúin til viðbragða Eins og þjóðinni er kunnugt um, hef ég undangengna áratugi átt því láni að fagna að hafa geta orðið að mannúðar- og kærleiksástæðum, mjög sterkur áhrifavaldur hvatningar, verndar og skilnings í lífi samborgara minna sem hafa í örvæntingu og vanlíðan snúið sér til mín af ýmsum ástæðum hlekkja eða fjötra fortíðar eða nútíðar í von um stuðning og skjól í mínu farteski bæna, reynsluþekkingar og dulargáfna. Stundum hefur tekist að opna augu fólks og létta því lífsgönguna og er það vel. En í ákveðnum tilvikum, þar sem kemur að leyndarmálum sem liggja í skjóli friðhelgi heimilanna, er þraut, pína, misskilningur og skammar- og sektaráþján þess sem ásjár leitar vegna óréttlætanlegs athæfis náinna, svo kvalafullt að viðkomandi notar ekki bara mjög undarlegar og annarlegar leiðir til að leita stuðnings heldur getur tæplega, jafnvel eftir ávinninga sér í stað, horfst í augu við að slíkt hafi í raun gerst. Svo rosaleg er annars vegar reiði viðkomandi og hins vegar sú gríðarlega skömm og vandlæting á að hans eigið hold og blóð skuli geta beitt sér gegn einstaklingnum varnarlausum og gert hann að kynlífsþræli fyrir ástvini. Hér er ég að tala um sifjaspell. Það vill þannig til, að á undangegnum tveimur árum hef ég í miðjum afleiðingum vinnuslyss sem hefur reynst mér þrautinni þyngra, flækst inní, eins og fyrir tilviljun, þrjú mjög erfið tilvik hrottafenginnar kynferðislegrar misnotkunar barna í heimahúsum af hendi náinna. Í dag eru þessi börn fullorðnir einstaklingar og áratugir liðnir frá atburðum fortíðarinnar. Um er að ræða þrjá stórvel gefna og athafnasama einstaklinga og viljasterka, sem virðast í fljótu bragði færir í flestan sjó. Einn þessara þriggja stendur þó upp úr vegna afburðavits, sérgáfna og alls sem prýða má þann sem er meira virði en við hinir vegna mannkosta og framskarandi upplags. Allir eiga það sameiginlegt að hafa náð umtalsverðum starfsárangri og vera sérlega vel settir í samfélaginu bæði hvað varðar virðingu, áhuga annarra á þeim og ekki síst vegna augljósra mannkosta. En hvers virði er slík mannleg höll þegar grunnurinn er veiklaðri en ekkert vegna stórfelldra glæpa sem framdir voru á viðkomandi fórnarlömbum áratugum áður, í skjóli ástar og trausts þeirra á foreldrum sem síðan reyndust þeirra hættulegustu óvinir, hreinir sakamenn, níðingar og nauðgarar? Ást og traust nýtt til svika Þar sem ég hef eins og fyrir tilviljun eða fyrir ásetning æðri máttarvalda, gerst áhrifavaldur í lífi þessara fórnarlamba og málin hafa verið misflókin og erfið til úrlausnar og léttis fyrir fórnarlömb, tel ég það siðferðilega skyldu mína, ekki síst sem aðila sem aldrei hefur orðið fórnarlamb viðlíka viðbjóðs og sem móðir og amma væntanlegra barna sem munu þurfa að geta treyst fullorðnum, ekki síst foreldrum, að upplýsa þjóðina um hvað mikill stórglæpur er samfara þeim níðingshætti sem liggur í hvers kyns nauðgunum, þar sem gerandi er ekki látinn taka afleiðingum gerða sinna, heldur getur ótruflaður í skjóli friðhelgi heimilisins, haldið áfram að valda sínu eigin holdi og blóði slíkri kvöl og þjáningu sem slíkt athæfi felur í sér sem framið er af grimmd, samviskuleysi og hrottaskap þess sem barnið elskar, treystir og dáir umfram aðra. Það segir sig sjálft að viðlíka stórglæpir eru miklu flóknari og varhugaverðari og leyndari heldur en afleiðingar þeirra ófyrirgefanlegu nauðgana sem fara fram á öðrum vettvangi og eru þjóðinni ljósari og réttarkerfið tekur á. Uppeldishlutverk foreldris hlýtur að liggja að stórum hluta í skynsamlegri og réttlátri forræðishyggju sem vegvísi að framtíð sem hlýtur að fela í sér þjálfun til samskipta við hvort kynið sem er, sem eru heilbrigð og sönn og kærleiksrík. Heilbrigt samband foreldris og barns á ekki að liggja í svikum, vanhelgun, lygum, óheiðarleika, feluleikjum og leyndarmálum sem innifela í eðli sínu skjól fyrir ódæðisverk, framin á barni af foreldri. Heilbrigt samband á heldur ekki að liggja í því að búa um í sálarlífi barns sjálfsútskúfun, stórfelldan ótta og kynferðislegan undirlægjuhátt og óeðlilega þræls- og þjónustulund. Það sem ég á við, er að þau óeðlilegu og óheilbrigðu samskipti sem barn lærir sem bundið er í viðjum sifjaspells, eiga það til að færast yfir á önnur sambönd seinna meir í lífi fórnarlambsins. Við eigum ekki, eins og gerist í tilvikum sifjaspella, að þjálfa upp viljalausar undirlægjur í höndum allra þeirra óprúttnu einstaklinga sem barnið getur hitt síðar á lífsleiðinni, sem geta viljað endurtaka leik fortíðar af því að fórnarlambið er niðurbrotið vegna fortíðarreynslu sinnar og ber ekki hönd yfir höfuð sér. Á fyrstu stigum fullorðinsára eru fórnarlömb sifjaspella sérstaklega berskjölduð fyrir deyfandi áhrifum vímuefna, sem tímabundið geta breitt yfir þá óbærilegu sorg og þjáningu sem nagar þau að ósekju, þar sem þau ekki bara útskúfa sjálfum sér vegna synda annarra og glæpa heldur líka vegna þess að þau finna og verða þess áskynja að notagildisviðhorf annarra virðist vera altækt undir vissum kringumstæðum og því heldur kynlífsþrælkunin oft áfram í gegnum aðra. Einstaklinga sem eru óprúttnir og velja frekar að misnota varnarlausa heldur en að styðja þá til sjálfshjálpar og aukinnar sjálfsvirðingar. Við sem köllum okkur kristinn vitum að við misnotum ekki náungann heldur reynum að hjálpum honum eftir bestu getu. Öll börn elska foreldra sína. Líka þau sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi heima fyrir. Samband foreldris og barns er byggt á algjöru trúnaðartrausti og kærleika sem gerir það að verkum að sjúkir foreldrar geta auðveldlega nýtt sér sakleysi barnsins til þess að fremja ólýsanlega glæpi sem aldrei verða teknir aftur. Þegar barn er misnotað kynferðislega eru afleiðingarnar skelfilegar. En þegar níðingurinn er foreldri barnsins eru þær ólýsanlega skelfilegar. Stærra trúnaðarbrot og meiri svik er ekki hægt að ímynda sér og afleiðingarnar eru margflóknari en margur getur, jafnvel með skáldaleyfi, skilið. Það er ekki nóg með að barn sé látið taka þátt í algjörlega óviðeigandi kynferðislegu athæfi, heldur er barnið í flestum tilvikum látið standa í þeirri trú að það sé á einhvern hátt sjálft ábyrgt fyrir því sem gerst hafi. Ólíkt því athæfi sem á sér stað þegar ókunnugir kippa varnarlausum börnum upp í bíla og nauðga þeim og myrða með ofsafengunum hætti, þá fer kynferðislegt ofbeldi í heimahúsum sjaldan fram með offorsi eða barsmíðum. Mun algengara er að gerandinn hafi hvort eð er sem foreldri, það mikil sálfræðileg tök á barni sínu að auðvelt sé að tala það til og tæla til athæfis sem það hefur ekki skilning á að er óviðeigandi og rangt. Þegar barnið smám saman eldist og skilningur þess á sjúkleika þess sem hefur gerst hellist yfir það, fyllist það yfirþyrmandi sektarkennd yfir því að hafa ekki mótmælt eða stöðvað athæfið, krafa sem í raun er ómannúðleg og engan veginn hægt að leggja á saklaust barn sem treystir foreldri sínu fullkomlega án nokkurra efasemda. Því eru afleiðingar sifjaspells margflókið sálfræðilegt fyrirbæri sektarkenndar, skammar, viðbjóðs, sjálfsafneitunar og sjálfsásakana. Niðurstaðan er að fórnarlambið er algjörlega vanmáttugt og getur engar bjargir veitt sér við aðstæður sem framkalla vegna viljaleysis, afturhvarf til tilfinningalegrar og sálrænnar reynslu þeirrar valdníðslu sem sifjaspellið þjálfaði þau í. Þau eru því tilvalinn fórnarlömb hvers kyns níðingsháttar þeirra sem af samviskuleysi og forherðingu í skjóli valds, aflsmuna eða fagurgala, níðast á viðkomandi fórnarlambi bjargarlausu. Liggur líkn og lausn hjá okkur? Hvernig getum við verndað börnin okkar fyrir vanhelgun og vanvirðingu sifjaspella? Við getum ekki sæst á það að í friðhelgi heimilanna þrífist stórskaðlegir verknaðir framdir af glæpamönnum og að landslög verndi slíka hegðun með því að rjúfa ekki friðhelgina þannig að refsa megi slíkum gerendum án þess að ætlast til að barnið beri persónulega ábyrgð á þeim framkvæmdum. Það sem mér dettur í hug til ráða er að það séu sett landslög til verndar börnum sem liggja í því að þau séu uppfrædd í leikskólum og barnaskóla, um góða snertingu og slæma snertingu. Jafnvel væri hægt að koma á fót innan menntakerfisins eins konar samskiptakennslu fyrir börn, þar sem farið væri yfir helstu þætti heilbrigða samskipta við aðra. Leggja þyrfti áherslu á að við eigum að vera góð hvert við annað og alltaf að virða skoðanir og vilja hvers annars. Hluta þessarar kennslu yrði þá beint sérstaklega að óviðeigandi samskiptum og hægt væri að kenna börnum hvaða hluta líkama þeirra sé óviðeigandi að leyfa öðrum að snerta og öfugt. En fyrst og fremst yrði að leggja áherslu á að hvetja börn til þess að segja einhverjum fullorðnum frá því ef þau grunar að eitthvað sé ekki með felldu í samskiptum þeirra við aðra, hvort sem það eru skólafélagar, ókunnugir, kunningjar eða foreldrar. Ef að ekki er á þau hlustað á fyrsta stað sem leitað er til, þá þarf að kenna þeim að gefast ekki upp heldur leita til einhvers annars. Fólk sem vinnur með börnum eins og kennarar, þarf auk kennslufræðinnar að læra að taka eftir hegðun barna þannig að hægt sé að greina þau börn úr sem sýna einkenni þess að eitthvað sé stórlega að heima fyrir sem mögulega mætti tengja misnotkun eða viðlíka valdníðslu. Ef að grunur lægi fyrir að eitthvað væri að, þá væri fyrsta skref að kalla foreldra á fund vegna þessa og meta viðbrögð þeirra út frá þeim fundi. Þá mætti spyrja foreldra hvort þeir hefðu orðið varir við breytingar á hegðun barnsins heima fyrir og færi allt slíkt fram án ásakanna. Í kjölfarið yrði útskýrt fyrir foreldrum að ástæða þætti til að rannsaka mál barnsins nánar þar sem alla hegðun sem benti til kynferðismisnotkunar bæri að skoða nánar og komast að rót vandans hvar sem svo hún gæti legið. Það þarf að útskýra fyrir fólki að óeðlileg kynferðishegðun barna (umfram eðlilega forvitni og læknisleiki) sé ekki meðfætt né eðlilegt athæfi heldur lært fyrirbæri og því verði að beita öllum ráðum til að finna ,,kennarann”. Ef að í ljós kemur að barnið hefir lært slíkt af öðru barni, þá væri eðlilegast að rannsaka hagi þess barns örlítið nánar og fá forráðamenn þess til liðs við þá rannsókn til að finna út hvar upphaf slíkrar þjálfunar liggur. Í allri baráttu gegn kynferðismisnotkun barna af hendi foreldra, má segja að um sé að ræða Davíðs og Golíatsbardaga, þar sem hlutur Davíðs virðist heldur vondapur og vart líklegur til sigurs sem þó reyndist verða eins og þeir vita sem þekkja Biblíuna. Þessi mál eru vandmeðfarin og viðkvæm og hjúpuð leyndardómshulu sem gerir það að verkum að erfitt er að ráða bót á þeim. En við verðum að berjast gegn þessu ekki síst sökum þess að um er að ræða óbærilegt víti fyrir fórnarlambið vegna þess djúpa ástar- og trúnaðarbrots sem það verður fyrir. Dæmin sýna því miður að fullorðnir einstaklingar sem eiga þennan sársaukafulla bakgrunn taka ekki bara út óbærilegar þjáningar á meðan framferðið á sér stað heldur jafnvel áratugum saman eftir að því lýkur, sem liggja ekki síst í sektar- og skammarkennd sem náttúrulega er alröng því fórnarlamb verður aldrei ábyrgt fyrir syndum gerandans þó það sé neytt til þátttöku í slíku athæfi. Ég sem foreldri og kristinn einstaklingur neita að trúa því að börnin okkar sem Faðirinn gefur okkur til að hlúa að og hvetja á kærleiksríkan og jákæran hátt, séu skikkuð, í framhjáhlaupi alls sem er heilbrigt og kærleikshvetjandi, inn í þann hremmingarheim mannfyrirlitningar þar sem réttur friðhelginnar er svo mikils virtur að jafnvel nauðgun foreldris fær líf og þróast sem sannleikur í sálarlífi þess barns sem fyrir slíkri sorg og þjáningu verður. Hinir verða að vera tiltækir í lífum ekki bara sinna barna heldur annarra líka, gruni þá að eitthvað í lífi viðkomandi sé honum ofraun og falli undir einhvers konar valdníðslu eða vanhelgun sem við getum ekki varist sem börn vegna umkomu- og þekkingarleysis okkar á eðli ódæðanna. Allra síst ef að versti óvinur okkar og sá hættulegast reynist vera þeir sem við elskum og treystum best, þ.e. foreldrar okkar eða þeir sem ganga okkur í foreldrastað. Höf:Jóna Rúna Kvaran, Blaðamaður og rithöfundur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home