Kaerleikshvetjandi blogg

miðvikudagur, maí 30, 2007

Höfundur Jóna Rúna
Óhófleg græðgi
" Svar til Nonna undir tvítugu"
Elsku Jóna Rúna!
Það er ótrúlega langt síðan mig langaði að setjast niður í rólegheitum og skrifa þér. Ég hef lesið allt sem þú skrifar í Vikuna og langar að nota tækifærið og þakka þér fyrst af öllu kærlega fyrir. Ég held að ég sé ósköp venjulegur strákur, kannski einum of venjulegur og ef svo er þá er það bara í góðu lagi.

Ég er að læra í fjölbrautarskóla og ætla mér að verða hárskeri eða eitthvað álíka eftir stúdentinn. Ég hef furðu mörg áhugamál, svo sem knattspyrnu, frímerkja­söfnun, kvikmyndir og svo hjóla ég mikið. Ég á hund, hest og einn stóran fugl mjög sérstakan sem mér þykir mjög vænt um. Ég hef svo sem ekki yfir miklu að kvarta, en þó einu og það eru foreldrar mínir satt best að segja. Þau valda mér miklum áhyggjum og hafa gert lengi. Mér finnst líf þeirra ganga út á peninga, skemmtanir og snobb.

Þau eru frekar ung alla vega áttu þau mig þegar þau voru langt undir tvítugu. Þau vinna bæði úti og eru sjaldan heima. Við erum þrjú systkinin og hin eru yngri en ég, þó ekki mjög. Við fáum allt sem hægt er að kaupa fyrir peninga og höfum örugglega farið oftar til útlanda heldur en margir sem eru komnir á grafarbakkann. Við búum í flottu húsi og eigum bæði hjólhýsi, bát og sumarbústað. Það eru þrír bílar á heimilinu og allar græjur sem hægt er að nefna.

Auðvitað er svo sem ágætt að hafa það gott en, mér finnst það ekki vera þess virði að láta allt eftir sér, ef aldrei er neitt gott í gangi tilfinningalega á milli okkar. Það eru t.d. um fimm ár síðan annað hvort þeirra hefur faðmað mig eða kysst.Ég er ekki að ýkja Jóna Rúna. Allt sem ég geri er eitthvað svo sjálfsagt finnst þeim, auk þess sem þau láta oft í ljós við okkur systkinin að við séum mjög heppin að hafa það svona gott. Þau voru bæði alin upp í frekar mikilli fátækt og virðast bæði halda að peningar og hlutir lækni allt.

Þau tala mjög sjaldan við mig eins og jafningja og stundum hvarlar að mér að þeim sé nákvæmlega sama um mig, nema þegar ég fæ góðar einkunnir og stend mig vel í einhverjum áhugamálum. Það mætti halda að þeim þætti ekkert vænt um okkur krakkana, vegna þess að þau eru nákvæmlega eins við systkini mín. Ég held að græðgin sé að drepa þau. Þau fá aldrei nóg af peningum og eru stanslaust að reyna að eignast meira og meira. Vinir þeirra virðast hugsa mjög svipað finnst mér.

Ég ligg oft andvaka og hugsa um hvað þetta líf okkar er tilgangslaust og ætla mér ekki að hafa hlutina svona hjá mér, ef ég á eftir að eignast heimili og börn. Þau voru áður fyrr bæði hippar og friðarsinnar, en það er ekki að sjá að þannig mál séu í gangi hjá þeim núna. Ég hef mikinn áhuga á öllu sem tengist trúmálum og andlegir hlutir höfða mjög til mín. Mér líður vel þannig hugsandi.

Hvað á ég að gera Jóna Rúna til að reyna að komast inná á þau? Get ég keppt um athygli þeirra við þessa ömurlegu græðgi sem þau eru haldin? Á ég að segja þeim álit mitt á því lífi sem þau lifa? Er algengt að foreldra séu svona áhugalaus um börnin sín sem manneskjur? Á ég að fara að heiman í mótmælaskyni? Trúir þú á að við endurholgumst? Eru draumar bara rugl? Mig dreymir rosalega.Hver heldur þú að sé lífstilgangurinn? Kæra Jóna Rúna það er miklu meira sem ég vildi spyrja þig um en læt þetta duga. Vonandi ertu ekki að drukkna í bréfum þannig að þú getir ekki svarað mér.
Bið að heilsa með fyrirfram þakklæti, Nonni.

Elskulegi Nonni! Það er aldeilis að þú tappar af þér. Auðvitað stytti ég bréfið heilmikið eins og þú sérð og vona að þér líki það vel. Ég skal reyna að svara þér eins og mér einni er lagið og vonandi geta ábendigar mínar reynst þér einhvers virði sem tímabundin leiðsög í þessu sem er að valda þér hugangri. Takk fyrir hlýju í minn garð. Ég minni enn og aftur á að mitt hlutverk hér í blaðinu er að styðja heilbrigða eins og þig og reyna af einlægni að gefa leiðsögn sem er runnin undan rifjum innsæis míns og reynsluþekkingar, auk þess sem hyggjuvit mitt notast auðvitað jafnframt. Fagfólk tekur á vandamálum en ég mögulega á eðlilegu veseni sem heilbrigðir fara í gegnum og tengist sammannlegri reynslu. Við sjáum hvernig okkur gengur í umfjöllun þessari sem vissulega tengist því sem plagar margan ágætismanninn og það er taumlaus græðgi á kostnað jákvæðra og skynsamlegra mannlegra samskipta.

Foreldrahlutverk
Eitt vandasamasta hlutverk sem við getum þurft og óskum flest að takast á við í lífinu er mögulega foreldra­hlutverkið. Vissulega er dásamlegt að vera pabbi eða mamma barns sem Guð hefur treyst okkur fyrir. Það fylgir því t.d. að vera foreldri að við verðum fram á fullorðins ár barna okkar að vera þeim sú fyrirmynd andlega sem efnislega, sem notast þeim best siðferðislega bæði í foreldrahúsum xcog síðar á lífsleiðinni.

Það er því ekki óvitlaust að eignast bara ekki börn, ef við höfum ekki löngun til að standa öllum stundum með þeim á jákvæðan hátt. Sem sagt erum ákveðin í að bregðast þeim aldrei. Barnauppeldi er nefnilega meiriháttar mál, þó yndislegt geti verið líka og engin sérstök ástæða til að klúðra því. Við getum ekki ætlast til að börnin okkar ali sig upp sjálf. Við verðum að leiðbeina þeim og hvetja, auk þess sem við verðum að umvefja þau miklum kærleika og öðrum ylstraumum til að þau þrífist rétt og njóti sín vel.
Börn eru af holdi og blóði
Það sem víða viðgengst í samskiptum foreldra og barna þeirra er nákvæmlega sú staðreynd sem þú talar um og er, að samskiptin ganga meira en hollt má teljast útá gjafir, flottar aðstæður og endalaust ferðalög heima og erlendis ásamt innihaldslitlum skemmtunum öðrum sem varla geta talist hentugar, nema einungis í sæmilega góðu hófi. Aldrei er tekist á við sterkar og nauðsynlegar tilfinningar svo sem sorg og gleði. Hvaða gagn er af sandi af seðlum heima hjá þér, ef þú færð ekki þá tilfinningalegu og andlegu næringu sem þú átt rétt og þarfnast sárlega.

Varla er gagnið mikið af einhverju óhófi, ef það er á kostnað þægilegra og uppbyggilegra tilfinningalegra samskipta sem meðal annars gætu legið í því að þú fáir kærleikshvetjandi faðmlag af og til.Nokkuð sem staðfestir jafnframt veraldlegu aðhlynningunni væntumþykju foreldra þinna til þín. Það hefur verið sannað vísindalega og ekki fyrir löngu þó það hljómi hallærislega að engin mannvera getur þroskast og dafnað eðlilega ef hún er ekki umvafin nokkuð reglulega ást og ylstraumum henni skyldum.

Mikilvægi ylstrauma
Vissulega væri óskandi að við legðum metnað í aukinn umsvif heilbrigðra ylstrauma tengdum umvefjandi kærleika. Það ætti ekki að þurfa að stiðjast við niðurstöður vísindamanna í þessum efnum blíðunnar sem frá aldaöðli og löngu fyrir fæðingu svokallaðra vísinda var staðreynd sem flestum var meira að segja kunn. Blíða er öllum nauðsynleg og ætti sá sannleikur ekki að vefjast fyrir neinum, þrátt fyrir að verið sé að gefa annað í skyn víða.

Við erum öll byggð upp með tilhneigingu til að umvefja t.d. afkvæmi okkar og aðra ástvini sem betur fer. Þú þarft að fá notalegt faðmlag og slatta af kossum af og til frá foreldrum þínum og ættir svo sannarlega ekki að þurfa að minna þá á slíkt. Aftur á móti ef þau finna ekki hjá sér lögun til að knúsa þig smá, þá bara knúsar þú þau og hellir slatta af ylstraum yfir þau að sjálfsögðu.

Óhófleg græðgi
Þú talar um að foreldrar þínir séu haldnir ótæpilegri græðgi í peninga, skemmtanir og lúxus. Græðgi í hvað myndum sem er er engum til góðs og allra síst líkleg til að auka lífshamingju okkar eða stuðla að breytum og bættum samskiptum okkar hvert við annað. Öll umfram auðsöfnun fram yfir það sem dugar til að okkur líði vel er óþörf. Við getum vel við unað ef við eigum gott húsaskjól, fatnað og mat, auk aura til að borga skatta og skyldur samfélagsins.

Ekkert er athugavert við það að láta eftir sér dálítinn lúxus ef við höfum efna á slíku. Aftur á móti er eitthvað mikið siðlaust við það að draga að sér fjármuni og eigur langt umfram það sem notast okkur á sama tíma sem um það bil átta tíu prósent þess fólks sem á jörðinni lifir býr við einhvers konar skort.

Græðgi er kannski það afl í veröldinni sem hvað mestan skaða vinnur í augnablikinu í sammannlegum samskiptum. Græðgin getur verið tengd óþarfa löngu í völd, frama, kynlíf, hégóma og peninga. Allt einskis virði ef samfara þannig græðgi eru ekki langanir í kærleikshvetjandi lífsviðhorf sem ýta undir mannúð og mildi, ásamt áhuga fyrir mannsæmandi lífsskilyrðum fyrir öll börn jarðar.

Tilgangslaus auðsöfnun
Það er satt best að segja ákaflega ánægjulegt til þess að vita að unglingur eins og þú sért ósáttur við að í gangi sé heima hjá þér óþarfa auðssöfnun á sama tíma sem tilfinningalegir og sálrænir þættir tilveru ykkar allra eru gróflega vanvirtir. Það verður að vera heilbrigt og hyggilegt jafnvægi í þessu tvennu annað er óviturlegt og kannski jafnframt ómannúðlegt.

Þessa óþægilegu þróun í samskiptum á milli ykkar heima verður að bæta og þá helst þannig að foreldrar þínir sjái mikilvægi þess að rækta ykkur systkinin með persónulegri nálægð við ykkur sem byggist jafnframt öðru upp á tilfinningalegri hlýju og öðrum álíka hvötum.

Ef foreldrar þínir sjá um þessar þarfir ykkar systkinanna getur enginn og þar með talinn þú meinað þeim að vinna fyrir eins miklum auð og þau kjósa. Auð sem breytir þó ekki þeirri staðreynd að allt sem fella má undir meiriháttar græðgi í þeim efnum er engum hollt og hlýtur alltaf að valda vandræðum fyrr eða síðar hvað sem hver segir.
Lífstilgangurinn
Vegna spurningar þinnar og annarra reyndar um hver mögulega mætti teljast líftilgangurinn er þetta að segja. Tilgangur tilvistar okkar gæti verið fyrst og fremst sá að rækta andlegar þarfir okkar ekki síður en þær veraldlegu, auk þess að styrkja manngildi okkar og efla það þannig andlega að það reynist okkur sjálfum og öðrum lyftistöng manneskjulega. Sem sagt að við eyddum tíma meðal annars í að hlú að því sem er gott og göfugt í eigin fari og annarra líka og einmitt á sama tíma og við værum að hlú að veraldlegum framgangi okkar. Þannig kæmi gott jafnvægi fram í þessu tvennu sem örugglega myndi gera okkur bæði hamingjusöm og heilsteypt á endanum.

Við lifum líkamsdauðann og hinu megi grafar kemur sér mun betur að eiga dálítinn innri auð. Satt best að segja notast veraldlegur auður einungis hérna megin grafar, sem segir okkar að hann er þrátt fyrir mismunandi ágæti sitt fall valtur og getur ekki gert okkur gagn nema rétt á meðan við erum háð líkamanum. Við getum því auðveldlega verið gjörsamlega sneydd öllum tilhneigingum til andlegrar auðsöfnunar þrátt fyrir að úr vösum okkar fljóti peningar og annað sem rekja má til gulls. Við verðum að reikna með að við lifum vegna tilgangs sem krefst ákveðinna fórna af okkar hendi. Þannig hugsandi göngum við ekki í gegnum lífið nánast blind og möguleikar okkar verða óneitanlega meiri báðum megin grafar.

Fyllirí fáránleg
Hvers kyns fyllirí eru afleidd fyrir fyrirmyndar fólk eins og okkur, þess vegna má segja að það sé ágætt að hanga sem mest þurr. Það er nefnilega hægt að fara á margs konar fyllirí. Strangt til tekið má því segja að enginn sérstakur grunndvallarmunur sé á andlegu eða efnislegu fylliríi, vegna þess að bæði leiða óneitanlega til hvers kyns vanrækslu og tilheyrandi vandræða og eru því fáránleg.

Það er því mikilvægt í öllum málum sem varða velferð okkar að við séum jákvæð og elskuleg hvert við annað.Þau okkur sem erum með óskaddaða heilastarfsemi er ekki stætt á hegðun eða framkomu sem veldur vandræðum í samskiptum okkar hvert við annað. Dómgreindarlaus einstakligur virkar á samferðafólk sitt eins og bílstjóralaus bíll sem rennur hindrunarlaust áfram. Hann getur einfaldlega skaðað þann sem síst skildi.

Best að tala um það sem svekkir mann
Hvað varðar spurningar þínar um annars vegnar hvort þú átt að tala um óánægju þína eða ekki við foreldra þína og hins vegar um hvort þú átt að flytja af heimilinu eða ekki er þetta að segja. Auðvitað er rétt að tala um allt sem við erum ósátt við í fari og framkomu foreldra okkar og ekkert síður eiga þau að gera það sama við okkur. Skortur á möguleikum á að tala saman af einlægni og tæpitungulaust er bagalegur. Ef atvikin sem henda og okkur finnast slæm eru aldrei rædd, er hætt við misskilningi og reiði sem getur fjötrað mjög öll önnur og hugsanlega ekkert síður mikilvæg samskipti okkar við okkar nánustu.

Þú segir auðvitað foreldrum þínum frá áhyggjum þínu og leiða, vegna þess hvernig þau velja að lifa lífinu að þínu mati. Eins er ágætt að hafa reglulega heimilisfundi þarf sem allir koma saman og hver og einn heimilisfastur, gefur skýslu um gang mála að mati viðkomandi inná á heimilinu. Þannig má örugglega koma í veg fyrir mörg og miður skemmtileg samskipti. Við höfum sem deilum heimili með öðrum ýmsar sameiginlegar skyldur og það verður öllum að vera ljóst. Við verðum að tala saman og helst sem oftast og mest þannig lærum við smátt og smátt hvert á annað og minni misskilningur verður til.

Nauðsynlegt að nota innri gírana
Hreinskilni borgar sig alltaf, þó óþægilegt geti verið að tala um sumt sem viðkemur möguleikum á betri samskiptum. Við verðum bara átta okkur á því, að þó að um skyldleika sé að ræða á milli fólks hugsar ekkert okkar og framkvæmir nákvæmlega eins. Það er því mun eðlilegra ef á að útkljá ágreinisefni að við reiknum með þeim möguleika, að ekki er hægt að fallast á og fara eftir öllum okkar hugmyndum eða uppástungum um hvað mætti að skaðlausu betur fara í samskiptunum.

Þú spyrð hvort þú átt að fara að heiman eða eitthvað álíka, vegna þess að þú ert ósáttur við foreldra þína. Málið er að það er sjaldnast nein lausn samfara þannig breytingum nema náttúrlega að við séum fullorðin og aldeilis einfær um að bera ábyrgð á okkur án stuðnings foreldra okkar. Þú ert nokkuð mikið undir tvítugu og heppilegast væri að þú færir ekki að heiman á næstunni.
Það er flókið mál að sjá alfarið fyrir sér sjálfur jafnvel fullorðin hvað þá þegar við erum ennþá óharnaðir unglingar. Ykkar vandi er ekki þess eðlis að þú þurfir að flytja frá foreldrum þínum. Þú þarft einfaldlega að breyta um innri gír í samskiptum við þau og gætur hugsanlega þurft að hreyfa þig býsna skart á milli innri gírana á meðan þú vinnur þetta verk nýrra og öllu notalegri samskipta þér og vonandi þeim í hag á endanum.

Endurholdgun
Vissulega er vandi að svara spurningu þinni um hvort við höfum lifað áður. Í gangi hafa nefnilega verið alltof lengi ósæmilegar umræður og fullyrðingar sem látnar eru fjúka ábyrgðarlaust um mögulega fyrrilífa reynslu fólks. Miðað við að við búum yfir mismunandi þroska og mismunandi hæfni til skilnings á lífinu og tilverunni, þá má auðveldlega segja sem svo að við eins og komum inn í þennan heim með alls kyns reynslu í farteski sálarkimans sem mögulega má fella undir líkur á að reynsluna höfum við fengið í fyrri jarðvistum. Flest sem rannsakað hefur verið í þessum viðkvæmum efnum bendir til að við höfum einmitt átt okkur forveru einhvers staðar.

Hitt er svo annað má að slíkt er eins og er ekki beinlínis hægt að sanna og satt best að segja heldur ekki hægt að afsanna. Svo með tiliti til þessa ber kannski að fara varlega í allar fullyrðingar á hvorn veginn sem er. Sjálfri þykir mér mjög sennilegt að ég hafi lifað áður og hef ég nokkuð gild rök í huga því til staðfestingar, sem ég mun síðar ræða á öðrum vettvangi til gamans, en þó til einhvers gangs vona ég satt best að segja.

Venjulegur Jón
Öll umhugsun um forveru sálarinnar er sættanleg svo fremur sem þannig umfjöllun ruglar ekki ágætasta fólk í ríminu og fær það til að hegða sér asnalega eða fyllast einfaldlega fyrirlitningu annars vegar eða ofmati hins vegar á sjálfs síns persónu eða bara á öðru fólki. Með tilliti til mannkynssögunar virðast dulrænar fullyrðingar svokallaðra " forverusjáanda " ekki standast, sér í lagi vegna þess að það hefur aldrei þrifist eða verið til það magn af höfðingjum og fyrirfólk sem sagt er að sé í dag að skila sér hingað á jörðina við ýmsar aðstæður. Í öllum þeim tilvikum sem vísindamenn hafa rannsakað möguleika á forveru fólks hefur með dáleiðslu komið í ljós að líf eftir líf hefur fólk bara verið ósköp venjulegt fólk og fátt sem ekkert breyst með það öldum saman.

Málið er nefnilega hvað sem hver segir að hinn venjulegi Jón hefur alltaf verið í algjörum meiri hluta á jörðinni sem betur fer verð ég að segja með ákveðnum létti og verður það bara að teljast kostur þegar á allt er litið. Hvað svo sem fólki kann að dreyma mikið um aðra möguleika sjálfum sér til huggunar eða annars konar uppörvunar. Jón hefur nefnilega hefur ekki valdið eins miklum og vafasömum vandræðum í gegnum aldirnar eins og þeir sem talið hafa sig öðru fólki æðra. Þetta læt ég duga í bili og ræði þetta væntanlega eins og áður sagði síðar við aðrar aðstæður. Vonandi verður enginn spældur.

Draumar og sjálfsvörn sálarinnar
Umfjöllun um drauma hefur oft borið á góma hér á síðum Sálrænna Sjónarmiða og vafalítið má ræða gildi þeirra og áhrif á líf okkar ennþá ítarlegar og oftar og þá geri ég það sérstaklega við tækifæri. Í stuttu máli vegna spurniga þinna um hvort draumar séu rugl er þetta að segja. Nei svo sannarlega ekki og sem betur fer verð ég að segja.

Draumar eru algjörlega nauðsynlegir fyrir okkur og án þeirra myndum við sennilega alls ekki þrífast hið innra sem skildi. Það hafa verið gerðar mjög ítarlegar kannanir og rannsóknir bæði á dýrum og mönnum á gildi draumlífsins fyrir alla. Rannsóknir sem segja ótvírætt þá sögu, að ef okkur dreymdi ekki myndum við mjög sennilega verða nokkuð mikið viðkvæmari og geðslappari en við erum á meðan okkur dreymir reglulega. Hitt er svo annað mál að margur telur sig dreyma nánast ekki neitt sökum þess að viðkomandi man ekki drauma sína. Það er bara alls ekki rétt, því þó við vöknum ekki með vitund um hvað okkur hefur dreymt, þá eru draumar samt í gangi þegar við sofum, eftir því sem allar til þess gerðar rannsóknir benda tvímælalaust til og segja sína sögu um. Vísindalegar rannsóknir sem gerðar hafa verið með alls kyns til þess gerðum mælitækjum og sóst vísindamönnum vel.
Draumlífið er margslungið
Til glöggvunar fyrir þig má segja að þrenns konar draumar séu algengastir hjá okkur flestum og það erum ber- og tákndraumar sem innihalda leiðsögn og forspá. Svo eru það draumar sem eru martraðakenndir sem oftast innihalda samansafnaðar erfiðar tilfinningar og hugsanir tengdar þeim sem dreymir og hans nánustu. Einhver tilfinnigaleg reynsla sem dreymandanum hefur ekki reynst mögulegt að takast á við í vöku.

Nú síðan eru draumar sem eru alltaf að endurtaka sig á sama hátt jafnvel árum saman. Þannig draumar eru oft tengdir annað hvort einum erfiðum áhrifavald í lífi okkar eða einhverri reynslu sem hefur reynst okkur þung í vöfum og við varla getað tekist á við, en óttumst mjög ómeðvitað kannski að endurtaki sig aftur þrátt fyrir að okkur kunni vakandi að finnast annað. Vonandi getur þú íhugað eitt og annað úr þessum svörum mínum og mögulega notað sjálfum þér til leiðsagnar og stuðnings. Eða eins og dapri strákurinn sagði eitt sinn við pabba sinn og aðra. "Elskurnar mínar það má segja að ég sé meira en lítið spældur þessa dagana, vegna þess að mig vantar ekki fleiri fótbolta frá pabba, heldur frekar og miklu frekar smá vissu um að hann raunverulega elski mig. Vitið þið það að það er svo langt síðan hann hefur tekið utan um mig og sagt mér að honum þyki vænt um mig að ég myndi sennilega fá áfall ef hann tækir uppá á því núna. Endalausar gjafir eru að drepa mig en smá hlýja frá pabba myndi örugglega vekja mig alvarlega til lífsins.

Vonandi fer fyrir þér elsku Nonni eins og dapra stráknum og miklu betur þannig að þú verðir með góðri reglu knúsaður duglega.
Með vinsemd
Jóna Rúna

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home