Kaerleikshvetjandi blogg

miðvikudagur, maí 30, 2007

Höfundur: Jóna Rúna SÁLRÆN SJÓNARMIÐ
Ég er ekki hóra!
( Svar til Steinu undir tvítugu)
Elsku Jóna Rúna!
Ég hef lesið dálkanna þína lengi og þakka þér fyrir þá. Ég er í miklum leiðindum og langar að fá hjá þér ráð. Þú verður að passa að ég þekkist ekki og breyta bréfinu eins og hægt er. Þannig er að ég er rétt undir tvítugu og er gjörsamlega að brjálast. Ég veit að þú er eina manneskjan sem ég get treyst fyrir þessu og getur gefið mér einhver ráð. Ég hef búið með strák sem er aðeins eldri en ég. Hann er frekur og andstyggilegur við mig, en ég get alls ekki losnað út úr þessu. Við eigum eitt barn saman sem er mjög ungt. Sambýlismaður minn er fyrrverandi eiturlyfja­neytandi. Hann er brjálaður af afbrýðisemi út í alla mína vini og ættingja. Hann er líka afbrýðisamur út í barnið okkar. Hann hefur bæði barið mig oft og ausið yfir mig hrottalegustu ónöfnum.

Ég get engan veginn gert honum til geðs. Ég má engan tala við og síðasta aðgerðin sem hann gerði var að taka símann í burtu. Hann telur mig sofa hjá öllum sem bara eru karlkyns og segir að ég sé ekkert annað en hóra. Hann hamrar stöðugt á því að ég sé hóra og aumingji sem eigi ekki skilið að eiga svona góðan mann eins og hann. Hann virðist hata mig og allt miðast samt við að gera mig eins háða honum og hægt er á allan hátt. Vissulega eigum við barn saman, en mér er alveg sama, ég get þetta ekki meira. Ég er vinalaus og má ekki tala við ástvini mína. Ég á varla föt og fæ nánast aldrei peninga hjá honum.Ef ég ætla að fara að vinna má ég það ekki. Ég finn að ég er að gefast upp og það er sennilega það sem hann vill. Hann vill helst brjóta mig niður og niðurlæga mig eins og hægt er finnst mér.

Elsku Jóna, hvað get ég gert. Á milli ætlar hann að éta mig bókstaflega með öllu mögulegu. Hann er mjög ágengur kynferðislega og virðist aldrei fá nóg. Hann er sérlega spenntur að vera með mér eftir svona ömurleg reiðiköst, jafnvel eftir miklar barsmíðar.Næstum nauðgar mér á efir. Finnst þér þetta ekki eitthvað sjúkt? Mér aftur á móti flökrar við þessu. Ég skil ekki hvernig hægt er að kalla manneskju sem maður segist elskar hóru af öllum þeim ónöfnum sem maður er látin heyra. Mér finnst þetta svo ógeðslegt að ég bara þoli þetta ekki.

Ég var alin upp við vandamál. Pabbi var ofdrykkjumaður. Hann lamdi okkur öll ef því var að skipta. Ég spyr verð ég endalaust í svona erfiðleikum? Get ég að þínu mati á einhvern hátt varið mig? Mér svíður sárast þetta kaftæði um að ég sé lauslát og í ofanálag hóra. Ég hef aldrei verið með öðrum manni satt að segja. Getur verið að ég sé svona mikill asni, að það sé hægt að fara með mig eins og gólfklút og ég geti ekki varið mig? Sjálfri finnst mér hann ömurlegur harðstjóri og ekkert annað, þó það sé mjög erfitt fyrir mig að tala svona um manninn sem ég elska eða hef trúað því að ég elskaði. Ég get svarið það ég veit ekki lengur hvort ég geri það eða ekki. Viltu ræða þetta með afleiðingar eiturlyfjanna og kynlífið, ásamt þessu með yfirganginn.Eins bið ég þig að ræða þetta með peningana og samskiptin yfirleitt.Ég er svo örvæntingarfull og teysti því að þú skiljir mig elsku Jóna Rúna.Ég er að gefast upp held ég. Vonandi svarar þú mér sem fyrst.Ég veit að þú ráðleggur mér bara það besta.
Takk fyrir að vera til.
Steina
Elskulega Steina! Mér þykir þú aldeilis eiga í erfiðleikum og er þá kannski vægt til orða tekið. Eins og þú sérð sjálf gjörbreytti ég öllu því í bréfinu sem hefði mátt rekja til þín. Það er því ekkert að óttast í þeim efnum. Kærar þakkir til þín frá mér fyrir áhuga þinn á því sem ég er að gera.Það er óneitanlega mjög uppörvandi. Við skoðum það sem þú spyrð um og ég íhuga ástandið og gef þér mögulega einhverja þá leiðsögn sem getur verið hentug í þessu viðkvæma og vandmeðfarna ástandi vandræða sem þú í augnablikinu býrð við. Áfram nota ég til handleiðslunnar innsæi mitt, hyggjuvit og áunna reynsluþekkingu. Rétt er að benda á að ég kem ekki í stað sérfróðra eða fagfólks innan heilbrigðisgeirans. Mitt hlutverk er að gefa heilbrigðum handleiðslu og veita þeim mögulegar ábendingar eða leiðsögn eins og sagt er. Þeir sem eiga við vandamál að kljást snúa sér náttúrlega til sérfræðinga með þau og nýta sér að sjálfsögðu hefðbundnar leiðir til hjálpar í vanda.
Nautnasjúkur harðstjóri
Það er því miður þó nokkuð til í því sem þú segir sjálf um manninn, þegar þú nefnir hann harðstjóra og segir hann ömurlegan.Eins eftir að hafa lesið bréfið þitt hvarlar að manni að drengurinn sé alvarlega nautnsjúkur á siðlausan hátt því miður. Það er og hefur aldrei verið rétt atferli þegar samskipti byggjast uppá að annar aðilinn kúgar hinn, eins og bersýnilega er að gerast í ykkar samskiptum. Hann kúgar þig. Meira að segja niðurlægir þig gróflega. Auðvitað má segja það nokkuð sjálfgefið að það hlýtur að teljast mikil huglæg brenglun og tilfinningaleg fötlun að halda það að hægt sé að rækta elskuna með því að fótum troða það sem þeim sem maður elskar er kærast og það er í þessu tilviki þú sjálf sem ég er að tala um.

Hann niðurlægir og óvirðir manngildi þitt og reynir að skapa innra með þér óheppilega útskúfun þína á sjálfri þér.Þú er dýrmæt, vegna þess að það mikilvægasta og eigulegasta sem við eigum hvert og eitt okkar erum við sjálf. Satt best að segja okkar eigið líf. Það leiðarljós tiltrúar okkar á okkur sjálf á ekki að vanvirða eða aflaga ef kostur er á öðru og betra viðhorfi til okkar sjálfra sem auðvitað ætti alltaf að vera.
Siðblinda er andlegur sem líkamlegur óþrifnaður
Ef honum finnst eðlilegt að gera lítið úr þér er eitthvað mikið að honum sjálfum augljóslega sem verður að athugast af sérfræðingi ekki seinna en strax og ekki síst með tilliti til þess að honum virðist í augnablikinu frámunað að sjá þessa aflögun sína sjálfur. Allt atferli hans við þig virðist gefa vísbendingu um alvarlega siðblindu hans og benda til þess að pilturinn sér ekki mun á réttu eða röngu atferli. Eins er alveg augljóst að hann er tengdur inná nautnaferli sem er virkilega sjúklegt og ömurlegt til þess að vita að hann skuli getað komist upp með að flytja slíkan óþrifnað andlega sem líkamlega yfir á manneskju sem er eins ágæt og þú annars ert elskuleg.
Valdníðsla og pyntingar
Auðvitað er alltaf óeðlilegt að úttúða öðrum. Það er skrýtin ást sem liggur í því að kvelja og pína, auk þess að niðurlægja ástvin sinn. Það sem þú ert að kljást við í sambúðinni við manninn er það sem kallað er andlegt og líkamlegt ofbeldi, sem notað er af mikilli ófyrirleitni af harðstjóra sem ástundar grófa valdníðslu til að ná fram vilja sínum í öllum samskiptum ykkar. Á bak við slíkt atferli liggur vissulega sjúkleiki sem kallaður er drottunarþörf meðal annars og er því jafnframt aflagað nautnaferli sem getur aldrei annað en skaðað, fái það að viðgangast óáreitt.Svona samskipti bjóða uppá að annar aðili sambandsins verði algjört fórnarlamb sem á allt undir geðþótta þess aðilans sem valdið sýnilega tekur sér og virðir ekkert nema sjálfs sín vilja og langanir.

Þú býrð sem sagt við andlegt og líkamlegt ofbeldi sambýlings þíns, sem getur aldrei annað en skaðað þig og aflagað gróflega sjálfsmat þitt, auk þess að vera bæði geðheilsu þinni og líkama stórhættulegt. Ef þú ekki leitar þér viðeigandi hjálpar sem allra fyrst er hætti við frekari vandræðum og viðbótar vanda því pilturinn sér sýnileg ekkert athugavert við fáránlega og neikvæða hegðun sína.
Kvennaathvarfið og Vibbarnir
Ef ég væri sem þú myndi ég leita aðstoðar í Kvenna­athvarfinu og biðja um hjálp og ábendingar um hvernig í raun og veru væri viturlegast að taka á þessum sérstaka og ömurlega vanda sem viðgengst í tilveru þinni í augnablikinu. Honum þykir sýnilega ekki mikið athugavert við framkomu sína, úr því að hann lætur eins og svona "Vibbagangur" sé eðlilegur og þér beri að sættast á hann. Á götumáli alþýðunnar er þessi tegund manna stundum kallaður "Vibbi" og er það sennilega af eðlilega gefnu tilefni og ekkert verra heiti á þessum fuglum en hvað annað. Samanber "graftarversi" sennilega á betra máli. Svona "Vibbar" eru sem betur fer ekki algengir, en afar óheppilegir í samskiptum, vegna þess að þeir eru neikvæðir og ófyrirleitnir siðblindingjar og sjá það sjálfir, en telja sig ekki þurfa að breyta hegðun sinni.Menn sem fótum troða allt sem er gott og göfugt í öðrum og skilja ekki nema með hjálp hvað má og hvað ekki. Þeirra vilji er sá vilji sem því miður verður altækur í samskiptum við aðra ef þeir fá markmiðum sínum og neikvæðum tilhneigingum framgengt.
Tvö algeng hlutverk harðstjórana
Þeim er satt best að segja ekkert heilagt. Ekki einu sinni sjá þeir ástæðu til að hlífa börnunum sínum við sjálfs síns ósóma. Þeir vaða bara áfram í skjóli peninga, líkamsburða og slægðar, auk þess sem þeir ná iðulega að blekkja ókunnuga og geta þess vegna komið sér sjáanlega veraldlega vel fyrir, á sama tíma og þeir ástunda þennan subbuhátt heima. Jafnvel komið sé þokkalega vel fyrir í mannvirðingarstiganum, þó ömurlegt sé að segja frá svona nokkru. Málið er nefnilega að fólk er iðulega fært um að leika tvö ólík hlutverk á nákvæmlega sama tíma fyrir ólíka áhorfendur náttúrlega, sem hafa mismunandi afleiðingar í för með sér, án þess að vera taldir geðklofar eða eitthvað enn óþægilegra.Margur hefur augljóslega farið flatt á samneyti við slíka aðila og kannski ekkert undarlegt. Vibbar eru þeir sem sjá eigin breyskleika en neita að horfast í augu við afleiðinga af graftarkenndri hegðun sinni, þó þeim sé bent á að hún sé viðurstyggð og öllum til kvalar.Þeir eru venjulegast ófyrirleitnir og siðblindir og sjá fyrirstöður í öllum öðrum en sjálfum sér.Menn sem eru með brenglaða sjálfsímynd og telja sig í eymd sinni og volæði öðru fólki mikilvægara og meira spennandi.Menn sem er í reynd ekki neitt. Oftast lítilmenni og hugleysingjar sem þrífast ekki nema þeir geti valdið öðrum sem mestri þjáningu virðist vera. Sorglegt en satt.
Hóran ástundar niðurlægjandi sölumennsku
Eins og þú veist er hóra kona sem selur líka líkama sinn hverjum sem hann vill kaupa. Slík kona hefur oft lifibrauð sitt af sölu á blíðu sinni. Hún er í viðskiptum sem einungis miðast við að selja fyrir aura kroppinn sinn og er því í mjög sérkennilegum viðskiptum sem vægast satt fyrir siðfágaða eru ömurleg og sér í lagi ef þau eru leið að verðmætasköpun sem á að styrkja stöðu hennar veraldlega. Það er niðurlægjandi og siðferðislega alrangt að stunda þannig viðskipti og sölumennsku sem tengist eigin líkama. Varla er hægt að ímynda sér að nokkur kona kjósi sér þannig líf og þaðan af síður er ástæða til að ætla að slíkt líf sé nokkuri manneskju eðlilegt.
Hvaða persónuleg vandamál fá konu til að grípa til slíkra óyndis afarkosta fyrir sjálfa sig skal látið ósagt, enn eðlilegt og rökrétt er að gefa sér að slíkir afarkostir sjálfum sér til handa séu tilkomnir í lífi viðkomandi konu vegna mjög erfiðra og flókinna innri sem ytri aðstæðna. Aðstæðna sem eru þannig að konan getur að eigin mati enga eðlilega og heilbrigða lausn fundið á eigin vandamálum og afkomu aðra en selja eigin líkama.
Afsiðuð viðurstyggð
Hóra er því nafn sem ætti ekki að hafa í flimtingum og allra síst að klína því á konu sem er ráðvönd og laus við bæði lauslæti og siðblindu sem tengist kynlífi. Þú ert ekki hóra og verður það ekki, þó að hann í afsiðun sinni sé að koma þannig brenglun inn hjá þér. Ég er ekki hissa þó þér falli nafngiftin illa. Hún er viðurstyggð sem enginn ætti að láta út úr sínum ágæta munni og þaðan af síður til þess að skreyta manneskju með sem maður trúir að maður elski eins og sambýlingur þinn heldur að hann geri við þig. Nafngift sem ber þegar í stað að hafna og vísa til höfundar síns með það sama.

Svo ef við viljum milda áhrif þessa orðs á þig, þá má segja sem svo að hann noti orð óvarlega yfirleitt og velji af ásetningi einmitt þá nafngift á þig hverju sinni sem honum er fyllilega ljóst að er fullkomlega óþolandi fyrir þig að sitja undir.Þá í því skyni að gera þig orðlausa og miður þín og til að herða og undirstrika veiklaðan mátt sinn og vald yfir þér, Þannig eflir hann að hann telur sjálfs síns styrk í samskiptunum sem eru vegna hans hegðunar ömurleg og þér óbærileg. Hvort hægt er að benda honum á að nota vinsamlegast annað orðalag er ég ekkert viss um, vegna þess einfaldlega að honum þykir sýnilega styrkja stöðu sína að nota þau orð og það orðfæri í samskiptum ykkar sem valda þér hvað mestum geðshræringum og sársauka. Þannig telur hann sennilega að dottunargjarnt stjórnferli sitt sé sem öruggast.
Peningar notaðir sem stjórntæki
Þú segir að að hann láti þig ekki hafa aura. Ekki einu sinni fyrir nauðþurftum. Það er einmitt eitt megin einkenni á kúgaranum og það er að gera sig að þessu leiti gjörsamlega ómissandi fyrir konuna. Hann telur að þannig geti hann stjórnað því hvað þú afhefst. Best er náttúrlega að við stelpurnar höfum vit á því undir öllum venjulegum kringumstæðum að krækja okkur í starfsþjálfun og starfsreynslu sem getur gert okkur kleyft ef við viljum bera sjálfar ábyrgð á sjálfum okkur, að losa okkur einmitt úr samböndum sem eru ofraun fyrir okkur eins og þetta er þér. Og þá án þess að allur efnahagslegur grundvöllur okkar sjálfar hrynji.

Í þínu tilviki má vera að þú hafir slíka möguleika, en þeir augljóslega notast þér ekki enn sem komið er ,því hann vill halda um budduna sjálfur um leið og hann kýs að fylla hann einn jafnframt. Þetta getur stafað af ótta við að ef þú gætir aflað fjár, að þá yrði honum að minnsta kosti ofaukið sem stjórnanda yfir þér og þínum hugsan­legu löngunum og þrám sem tengjast veraldlegum efnum. Þú þarft í þessu tilviki líka að fá faglega hjálp þeirra sem svona vanda í samskiptum þekkja og eru færir um að veita þér stuðning og vísbendingar um mögulega úrlausn vandans.

Eiturlyf og persónuleikabreytingar
Þú segir að piltur sé fyrrverandi eiturlyfjaneytandi. Það þýðir að hann hefur í einhvern tíma notað efni sem breyta starfsemi heilans og hafa í för með sér sem afleiðing af því umtalsverðar persónuleikabreytingar sennilega. Ef um slíkt er að ræða má búast við að þó hann sé ekki í neyslu einmitt núna, að þá hafi orðið á honum persónuleika­breytingar sem geta valdið hegðun og framkvæmdum sem ekkert er víst að hefðu komið fram í fasi hans og framkomu t.d. við þig, ef hann hefði aldrei nota vitundarbreytandi lyf sjálfum sér til skaða.

Það liggur í hlutarins eðli að það er engin hemja fyrir fólk sem fætt er inn í þennan heim heilbrigt að leyfa sér þá aflöguðu örvitatengdu hegðun að fylla líkama sinn af eitri árum saman og halda svo að það sé nóg að hætta notkun og þar með sé allt komið í lag og viðkomandi eins og hann var áður. Svo er að sjálfsögðu ekki. Það er því miður sannanleg staðreynd að sá sem eiturlyf hefur notað má búast bæði við heilaskaða sem er ólæknanlegur og svo auðvitað persónuleikabreytingum sem afleiðingu hans.
Heilaskaði eiturlyfjaætunnar
Viðkomandi eiturlyfjaæta hefur með mismikilli notkun beinlýnis skapað skilyrði á að skaða starfsemi t.d. stjórntækis hugans sem hefur náttúrlega áhrif á hugsanagang viðkomandi og tilfinningalíf, ekkert síður en dómgreind og félagslega hæfni. Þetta tæki sem heitir heili verður þó erfitt geti verið jafnvel fyrir læknisfræðina að sanna slíkt á einhvern hátt fatlað sem afleiðing af eituráti.

Heilaskaði þó í smáu sé getur aldrei annað en valdið vandræðum fyrir þann sem hann hefur eignast og þá ekki síður fyrir þá sem viðkomandi verða að upplifa og deila kjörum og elsku með.Þennan ömurlega möguleika væri kannski hollt fyrir alla sem ánetjast hafa eiturlyfjum að íhuga smávegis, áður en þeir halda hiklaust áfram að skaða heilastarfsemi sína, þannig að ekki verði hún bætt aftur svo vel fari. Einungis smávægilegur heilaskaði getur haft mjög víðtæk og varanleg aflöguð hegðunar og framkvæmdar vankvæði í för með sér ævilangt ef því er að skipta. Fyrrverandi eiturlyfja fíkill verður að gera sér grein fyrir einmitt þessum augljósu staðreyndum. Vissulega má kannski eftir meðferð afeitrunar megi byggja á mjög löngum tíma upp bærilegan nokkuð heilsteyptan persónuleika aftur og áður kunnungan viðkomandi, ef bæði vilji og áhugi, ásamt skilningi á einmitt þessum lúmska möguleika vandræða er ljós þeim sem hættir fyrri notkun hinna ýmsu stórhættulegu efna. Málið er bara að um er að ræða þvílíka fyrirhöfn eftir á séð að flestum vex hún það mikið í augum að þeir nenna ekki að æxla hana og því fer sem fer í vandræðum þessum einstaklingum tengdum oft á tíðum löngu eftir að allri afeitrun líkur.
Kynlíf og ofbeldi
Hvað varðar kynlífshegðun mannsins og þá sér í lagi eftir að hann er búinn að valda þér hugarangri og kvöl er þetta að segja. Kynlíf og það sem því viðkemur er með öllu óréttlætanlegt nema báðir óski þess. Eins og þú bendir á langar þig í flest annað eftir ofbeldi en kynmök við gerandann og þykir mér það ekkert skrýtið. Aftur á móti er ef maðurinn væri ekki siðblindur furðulegt að hann skuli telja slík velkomið frá þinni hendi eftir alla valdníðsluna. Líta verður svo á að um sé að ræða ásetning hans og grófa og óréttmæta framlenging hans á valdníðslu þeirri sem hann ástundar á þér. Kynlíf á ekki að einkennast af neins konar ofbeldi eða öðrum augljósum þvingum. Það er alveg ljóst að kynlíf verður því unaðslegra því dýpri og kærleiksríkari sem þær tilfinningar eru sem vissulega eiga að liggja á bak við löngun okkar til kynmaka. Það er alrangt siðferðislega að ástunda kynlíf sem er meiningarlaust og subbulegt. Betra er hreinlega að sleppa öllu kynlífi, ef við treystum okkur ekki til að sýna hvert öðru virðingu og tillitsemi í þeim samskiptum.Kynlíf nefnilega getur verið yndislegt og spennandi satt best að segja ef rétt og elskulega er að því staðið.Kynlíf og valdníðasla fara aldrei saman, jafnvel þó einhverjir "Vibbar" láti sig dreyma um slíkt. Þeir sem ekki treysta sér í heilbrigt og heiðarlegt kynlíf ættu einfaldlega að láta allt kynlíf eiga sig og snúa sér að öðrum efnum.Þeir augljósleg geta enga kynferðislega ánægju veitt öðrum og njóta hennar tæplega sjálfir ef hugafarið er rangt og öðrum ógeðfellt.
Fórnarlömb valdníðslu þvingaðir til kynmaka
Það gefur auga leið að kynlíf í framhaldi á ofbeldi við maka er með öllu rangt og þolanda slíks algjör ofraun og hreinn viðbjóður sennilega. Við eigum ekki að hafa mök hvert við annað til að undirstrika hegðun sem er siðlaus og frekjuleg. Harðstjórar og drottunargjarnir menn eiga einmitt til að nauðga hreinlega fórnarlömbum ofbeldis síns eftir að þeir eru kannski búnir í orðum og höggum að vanvirða viðkomandi.Þeir enda iðulega valdníðsluna á mökum við viðkomandi þvert á það sem er sæmandi, án tillits til að þolandinn í þessu tilviki þú hefur alls engan áhuga, né nokkra einustu þörf fyrir kynlíf eftir svona framkomu.Þetta undirstrikar bara enn þá meira að að um valdníðslu er að ræða, sem alls ekki búa réttar tilfinningar á bak við. Reyndar bara þær tilfinningar sem tengjast sjúklegri drottunarþörf og fullkomnu vanmati á vilja, þörfum og þrám hins aðilans og í þessu tilviki þín. Hann er sterkari líkamlega en þú og veit það, auk þess sem honum er jafnframt kunnugt um að ótti þinn um eigið líf er til staðar og þess vegna er honum ljóst að þú getur ekki svo vel fari varist harðstjórn hans.
Veiklaður tilfinningalegur bakgrunnur.
Vegna þess hvað þú átt ófullkominn tilfinningalegan bakgrunn, ertu einmitt í hættu í tilfinningasamböndum og ekki síst af þessari tegundinni. Þú ert alin uppá heimili þar sem faðir þinn var ofbeldishneigður og beygði með harðstjórn hvers konar þig og aðra heimilisfasta undir sinn vilja. Þetta þýðir að bakrunnur þinn í nálægum samskiptum og persónulegum er mjög veiklaður vægast sagt.
Hafir þú ekkert enn þá gert til að leita þér hjálpar frá þessum aflöguðu fortíðar fjötrum, er ekki seinna vænna að gera það. Ég tel að það sé jafnframt viðkomu í "Kvennaathvarfinu" mikilvægt fyrir þig að fá staðgóða geðlæknishjálp eða fá sálfræðing eða hugsanlega félagsráðgjafa til að opna augu þín fyrir því hver þú ert í öllu þessu. Jafnframt er náttúrlega mikilvægt fyrir þig að byggja upp með hjálp sérfróðra eins góða þekkingu þína og hægt er á því hvað eru heilbrigð samskipti og hvað aflöguð. Mér sýnist ekki veita af.Þú mátt alls ekki rugla þessu siðblinda framferði mannsins við þig saman við manngildi þitt. Hans hugmynd um þig er tilkomin úr huga sem stýrir framkvæmdum sínum neikvætt á kostnað þess sem síst skyldi og í þessu tilviki ert þú augljóslega fórnarlamb eins og þú segir sjálf í bréfi þínu ógeðfellds harðstjóra sem skilur sýnilega ekki hvað er rangt í eigin framkomu og fasi. Tilfinningasambönd eiga vera metnarfull á jákvæðan og kærleiksríkan máta,en ekki óttablandin áþján og annar álíka hryllingur þeim sem í þeim eru.
Vonandi getur þú unnið eitthvað úr þessum vangaveltum mínum þér tengdum og það væri satt best að segja afar ákjósanlegt að þú byggir þig undir það sem fyrst að leita á náðir "Kvennaathvarfsins" og þiggja þá ráðgjöf sem það ágæta stuðningsheimili fyrir vegalausar konur um tíma veitir. Eða eins og óhamingjusama konan sagði eitt sinn af gefnu tilefni í góðra vina hópi."Elskurnar mínar ,ég er nokkurn vegin eins og ný síðan ég ákvað að hætta að vera þessi endemis undirlægja og velja bara hér í frá, að láta rigna duglega uppí nefið á mér. Sá einhver hvað rosalega ég rak nefið uppá loft? Vá. Ég finn að það rignir nánast stöðugt uppí nasirnar á mér auknu sjálfstrausti og heilu flóði af sjálfsást. Enda má segja að ég hreinlega geisli þessa daganna af auknum lífsvilja og frábærri tiltrú á eigið ágæti. Reyndar án þess að nokkur fá við það ráðið. Meiriháttar, ekki satt?"

Guð gefi að þér gangi vel á nýjum og jákvæðum leiðum aukins baráttuvilja til að frelsa sjálfa þig frá þessum ömurleika sem þú býrð við núna. Með vinsemd Jóna Rúna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home