Kaerleikshvetjandi blogg

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Móðir mín

Oftast þegar maður lítur til baka yfir líf manns eru menn og konur mismunandi mikilvægar. Margir eru það í mínu lífi sem skipt hafa sköpum vegna framtíðar minnar, nútíar og jafnvel fortíðar. Ég nenni ekki til að tina til mjög marga en langar til að minnast á einstakling sem að mínu mati var engill í orðsins fylltstu merking í jarðneskum líkama. Svo ótrúlega góð, falleg, gáfuð og sérstök, í raun afburðaeinstaklingur sem gat gert allt, bæði til hugar og handar, enda var faðir hennar húsgagnasmiðameistari og allt hennar fólk meira og minna mjög sérstakt. Hún var komin af Bergsætt. Þar eru einir mestu listamenn þjóðarinnar, málarar, skáld, söngvarar, smiðir, fiskimenn og bændur. En innan um og saman við, ótrúlegir drykkjumenn, menn með frábæra lygakennda frásagnagáfu, semsagt einstaklingar sem voru fyrir neðan allar hellur fyrir flestra hluta sakir en gátu jafnt sem áður innihaldið í eðli sínu eitthvað af því stórtæka sem ég taldi upp áðan. Í þessu tilviki er ég bara að tala um eina ætt en auðvitað stóð fleira fólk að þessum einstaka aðila. Til dæmis má segja að allt Kjalarnesið hafið verið skylt viðkomandi. Þar var bærinn Lykkja og þaðan voru mestar ræturnar. Þar bjuggu systkin, ótrúlega furðuleg og sérvitur, einkennilega gerð og í sjálfu sér ekki mjög heillandi, þannig að vera í sveit hjá slíku fólk fyrir afburða einstakling hlýtur að hafa verið mikil raun. En viðkomandi lét sig hafa það og var í nokkur ár vistuð á viðlíka slóðum.

Þegar Jóna Rúna nálgaðist unglingsárin fór hún í sveit í stuttan tíma, helgi og helgi, á umræddan stað og verð ég að segja að fátt í umhverfinu hreif mig, hvorki aðstæður né fólk. Þessi aðili átti mjög fjölskrúðilega æsku og lagðist í lömunarveiki mjög ungur, og lá í viku fullkomalega meðvitundarlaus milli heims og helju og óttuðust margir að viðkomandi myndi látast. En svo reyndist ekki. Þetta var hún mamma mín eins og flestum er farið að renna grun í. Hún reis upp úr lömunarveikinni og átti eftir margflókið líf og hryllilega erfitt, sér í lagi fram að fimmtugu. Eftir það átti hún sorglegan feril sjúkdóma og armæðu sem aldrei buguðu hana. Í uppvextinum kom mjög snemma fram ótrúlegir listrænir hæfileikar sem mátti finna og sjá í mögnuðum listaverkum hannyrða sem mamma sinnti alla ævina. Í dag hjá okkur öllu systkinunum, og annars staðar, eru listaverkin hennar upp um alla veggi, svo ótrúlega sérstök, falleg og engu lík.
Til dæmis er ég með langan klukkustreng sem hannaður er alfarið af henni sjálfri, þar sem ég og hún sátum nótt eftir nótt, ogbiðum eftir einum drykkjumannana sem mamma var gift, og hafði lagst út og ekki látið sjá sig svo dögum skipti. Jafnframt honum, þurftum við líka að bíða eftir systur minni sem var örfáum árum eldri en ég og var illa haldin af alvarlegri drykkjusýki og öllu því sem slíku fylgir. Þessi stúlka eignaðist þrjá syni, sá elsti er læknir, næsti er í afburðamyndlistamaður og háskólanemi, en fátt veit ég um þann yngsta en vona svo sannanlega að hann hafi ekki fetað í fótspor móður sinnar og þess lífs sem hún hefur lifað, en getur ekki í dag sökum þess að hún er gjörsamlega búin að skemma sig andlega og líkamlega. Fram að tveggja ára aldri var þessi stúlka hreinn unaður gáfna og fjölhæfni, enda mikill músikant og margflókin að auki. Hún spilaði til að mynda afburðavel á gítar. Þegar hún var lítil þurfti mamma að láta hana í dagvistun á Grænuborg og einn daginn þegar hún kom til að sækja hana hafði hún breyst. Allir sem hlut áttu að máli leyndu mömmu minni hvað hafði gerst. En hún hafði augljóslega fengið höfuðhögg og skaddast á heila. Þetta breytti henni þannig að þegar á unglingsárin kom var afar auðvelt að plata hana upp úr skónum og hafa hana út í líferni sem í raun var langt frá eðli hennar og mannkostum, en lá í gegnum drykkju og allt það sem því fylgdi og var hræðilegt.

Oftar en ekki þurfti að kalla til lögreglu, ekki bara til að sinna henni, heldur líka þeim drykkjumönnum sem mamma mín því miður tengsdist tímabundið. En móðir mín var 100% reglusöm, notaði aldrei vín eða tóbak og lifði mjög grandvöru og heilbrigðu lífi sem sást best á því ða hún örvaði börnin sín til þess sama. Hún var svo góð móðir að unun er að líta til baka og minnast þess sem hún gerði bæði fyrir mig og systkini mín. Við vorum mjög mörg systkini mín og alltaf fullt af aukabörnum því að þessi elska hreinlega unni börnum, sama hvort það voru hennar eigin eða önnur. Hún til að mynda ól upp þrjú barnabörn auk þess að fóstra mörg önnur börn mismunandi lengi. Hún var til dæmis svo mikill vinur minn að ég trega hana stórlega enn, því að hún var svo heillandi, skemmtileg, fyndin og góð í sér. Til dæmis lét hún mig lesa ógrynni bóka og hlusta á öll útvarpsleikrit og flest það sem var fréttnæmt í útvarpi og síðar sjónvarpi. Hún fór með okkur krakkana í risagöngutúra og bæði tíndum við ber og blóm á leiðinni. Hún rakaði hey á bóndabæ sem var skammt frá heimili mínu og sinnti flestu því sem viðkom bæði húshaldi og öðru sem til féll utandyra. Hún var fyrsti kvenmaðurinn sem ég veit um, sem átti hjól og hjólaði um alla Reykjavík. Hjólið smíðaði afi minn og var það min stærra en gekk og gerðist því þessi elska var átanlega efnismikil og stór svo að henni veitti ekkert af að hafa risahjól til að komast leiðar sinnar. Á þessu hjóli reiddi hún okkur systkinin á víxl og elskuðum við að sitja fyrir aftan hana og þeysast áfram af auga.

Hún var mjög pjöttuð, alltaf skreytt gulli eða silfri, fallega greidd og mjög fínt klætt, í öllum litum og sást aldrei á almannafæri öðruvísi en að vera vel til höfð. Þegar ég lít til baka í líf mitt og hennar þá undrast ég mest hvernig hún fór að því að sinna börnunum sínum eins vel og raun bar vitni miðað við þá hrikalegu erfiðleika sem hún stóð frammi fyrir. Ég og hún vorum mjög miklir vinir og bárum til dæmis út blöð saman og fórum á hverjum morgni til þess arna og hlógum og göntuðumst á meðan við vorum að drífa blöðin á leiðarenda. Af því að við fórum svo snemma á fætur, þá var Jóna Rúna, af því að hún var að vaxa, dálítið þreytt um miðjan daginn, og þá bara dreif múttí hana úr fötunum, upp í rúm og lét hana hvíla sig í um klukkutíma og lesa eitthvað alveg ofboðstlega spennandi og jákvætt.

Þegar svo Jóna fullorðnaðist, varð samband hennar og mömmu, allt öðruvísi en samt í mjög nánu skyldleikasambandi við fortíðina. Við fórum til að mynda mikið út saman og keyrðum á milli staða, því þó að mamma mín væri ein fyrsta konan til að taka ökupróf á Íslandi, hjá löggu sem hún þekkti, á gerði hún lítið af því að keyra síðustu árin, eða frá því að glæsilegur bíll sem hún eignaðist og var seldur af óráðvöndnum einstakling sem tengdist mömmu sinni sem sá mestan tilgang í því að svíkja og pretta. Hann reyndi síðar á lífsleiðinni að reynast henni vel en þá var það bara of seint því mamma var farin að heilsu og það aðþrengt líkamlega að hún hafði lítinn tíma til og tækifæri til að taka við framréttum höndum. Ásgeir Bjarnþórsson listmálari, sagði við mömmu mína að hún gæti orðið besti portrett-málari á Íslandi. Hún hafði ekki áhuga á að mála, bara á hannyrðum. Klukkustrengurinn sem ég minntist á áðan var gerður fyrir mig á meðan við biðum eftir vandræðafólkinu.

Hún hét Guðbjörg Rúna, en var alltaf kölluð Rúna. Þetta nafn hefur gengið í erfðir í fjórar kynslóðir og er það vel. Það er skemmtilegt til þess að vita, þegar svona nöfn ganga frá manni til manns. Eitt er það í forsögu Rúnu sem er dálítið sérstakt of situr fast í minningunni, en fyrir nokkrum árum, þá var ég á tali við bróður minn og hann sagði við mig: ,,Jóna, það er svo furðulegt, ef ég geri eitthvað rangt þá líður mér svo einkennilega og fer alltaf að hugsa til baka, aðallega um bænirnar hennar mömmu sem voru mjög sérstakar og vísuðu á að ég yrði sem allra sannastur og heiðarlegastur í öllum samskiptum mínum við aðra. Þegar ég hugsa um þetta þá hætti ég oftast við að gera ranga hluti og langar ekki til þess, minnugur þess sem mamma kenndi mér í den.” Rúna var afar bænheit og hafði alltaf við hendina risatalnaband sem hún notaði grimmt. Hún trúði staðfastlega á guðlega forsjá og svo mikil var trú hennar að ef eitthvað kom upp sem hún réði ekki við, þá jókst bænheyrslan og öll börnin hennar voru krossuð í bak og fyrir þessu til staðfestingar. Við vorum svo lítil að við héldum vart höfði þegar vinkonan byrjaði að kenna okkur bænir. Við vorum látin fara með Faðir vorið og annað viðlíka, og enda svo á langri klásúlu sem lá meðal annars í því að við myndum aldrei drekka brennivín, reykja sígarettur (eitthvað sem ég hef augljóslega g´roflega brotið), aldrei taka það sem við áttum ekki, alltaf vera góð við þá sem minna máttu sín, eiga sem best samskipti við aðra og rétta þeim hjálparhönd sem þurfandi voru. Þetta ásamt öðru sögðum við á hverju einasta kvöldi alla okkar æsku og uppvöxt og það er nokkuð ljóst að það sem bróðir minn sagði hafði sömu áhrif á mig, því ef ég geri eitthvað sem stendur gegn því sem kom fram í óskum mömmu, (nema með retturnar, hún fyrirgaf mér það og leyfði mér að reykja inni hjá sér þó hún ræki aðra út með harðri hendi og sagði: ,,Það er svo skrýtið Jóna að ég finn ekkert fyrir því þegar þú reykir”.) þá fæ ég svo einkennilegar tilfinningar yfir mig og niðurstaðan verður sú að mig langar ekki að gera rangt af því að mamma mín elskaði mig svo heitt að ósjálfrátt eru öll hennar orð og óskir lög í mínum huga.
Ég veit ekki hvað ég á að segja meira um hana en ég gæti talað endalaust um mömmu mína. Hún seldi egg einu sinni viku þegar hún var orðin fullorðin og farin að heilsu, bar út blöð árum saman, passaði börn árum saman, las gríðarlega mikið. Hún var í raun svo hrífandi og skemmtileg og stór og feit og undurfalleg, með kolsvart hár, liðað, kolsvartar, bogadregnar augnabrúnir, himinblá augu, tvo djúpa spékoppa og hökuskarð, og ótrúlega mikinn barm. En lamaðann fót eftir lömunarveikina sem ég minntist á. Hún hafði ótrúlegar hendur sem voru fullar af gulli og gersemum. Ó, elsku mamma mín hvað ég sakna þín mikið.

JRK

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home