Kaerleikshvetjandi blogg

sunnudagur, apríl 08, 2007

Bréf til Velvakanda:
Jóna Rúna Kvaran

Ég vil lýsa yfir hneykslan minni og undrun, og í raun ógeði á þeirri meðferð sem systir hans Lalla Johns varð fyrir frá þriggja ára aldri eins og hún upplýsti í fjölmiðlum. Hún var misnotuð heima fyrir og síðan illa farið með hana í fósturumsjón. Fósturbörn eru ekki neitt nýtt af nálinni í íslenskri menningu og í Íslendingasögunum finnum við dæmi um ótrúlega ást og aðdáun fósturforeldra á þeim börnum sem þeim var trúað fyrir. Þess vegna get ég ekki sætt mig við hvers konar harðæði og viðurstyggð hefur átt sér stað er varðar börn sem voru svo ólánsöm að lenda á upptökuheimilum eða í fóstri hér á landi.

Ég hef sjálf ekki haft kynni af systur hans Lalla en hef orðið svo farsæl að kynnast honum eina myrkvaða nótt þar sem ég var á leið erinda minna að bera út Morgunblaðið. Ég bauð Lalla far með mér þar sem hann bíllaus og umkomulaus. Við áttum saman mjög sérstaka stund þar sem spjallað var um allt milli himins og jarðar. Svo bað hann mig að setja sig af á tilteknum stað, sneri sér svo að mér og tók úr vasa sínum það fallegasta nisti sem ég hef séð, með mynd af engli. Ekki er ósennilegt að Lalli hafi borið þetta innanklæða árum saman. Hann brosti svo fallega og hvarf út í nóttina.

Um árabil hef ég farið á tiltekinn stað í bænum þar sem samansafn alls kyns fólks hittir mann fyrir. Í hvert einasta skipti þegar ég læt sjá mig og viss maður er á vettvangi þá umvefur hann mig ástúð og kærleika og lætur mig finna það að ég sé ekki bara dýrmæt heldur ótrúlega mikils virði. Síðan eftir að hafa rabbað saman lítillega þá fer hann sína leið og ég mína og ég horfi með vissum trega á smágerða manninn með sérkennilega hattinn. Þessi maður er Sævar Cielski sem er fórnarlamb harðræðis fortíðar sem skapað hefur, að því er virðist, forherta einstaklinga sem eru þegar grannt er skoðað og rétt er að farið, hinir ágætustu menn. Það þarf ekki spámannlega vitsmuni til að geta sér til um það að sá sem ofurseldur hvers kyns ólyfjan hlýtur á einhverjum augnablikum í lífi sínu að þurfa að beita fyrir sig aðferðafræði sem hentar ekki okkur hinum, eins og að fara ránshendi um hlutina til þess að fjármagna fíkn sína.

Þegar litið er til fortíðar þessara þriggja einstaklinga sem um er getið og hafa þurft að þola viðlíka harðræði, þá er algjörlega getið þá er algjörlega ljóst að sum börn sem siðferðislega eru alin upp og ýtt inn í framtíðina af viðlíka harðræði og siðferðisaflögun, geta illa þegar upp er staðið greint á milli rétt og rangs atferlis í sammannlegum samskiptum. Svo ég segi bara, elskulega þjóð mín sem verður að taka á fólki, gagnrýnið þið og dæmið þá sem fremja glæpi glæpanna vegna en ekki þá sem þurfa hjálpar og stuðnings við til þess að geta mögulega rétt úr kútnum einhvern tíma. Við verðum að styðja alla þá sem í fortíðinni hafa verði rangindum beittir vegna þess að persónuleiki og vit manna mótast á fyrstu árunum svo það segir sig sjálft að lengi býr að fyrstu gerð, en ég er viss um það að samt er von fyrir alla þótt síðar verði.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home