Kaerleikshvetjandi blogg

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Nína skrifar um Jónu Rúnu

Hún mamma er mjög sérstök persóna. Hún var frábær móðir og þá sérstaklega á þann hátt að hún lét manni alltaf finnast að maður lifði við fullkomið öryggi. Ég efaðist aldrei um það að mamma myndi getað leyst öll vandamál, sama hve flókin þau yrðu. Það var svo gott að hafa þessa öryggiskennd, að vita að maður gæti alltaf komið heim og þar yrði mamma eins og klettur sem aldrei bifaðist. Eflaust var hún stundum óörugg sjálf í móðurhlutverkinu, eins og allir eru á einhverjum tímapunkti sem upplifa það að verða foreldrar, en aðalatriðið er að hún lét mig aldrei finna það og mér fannst hún alltaf vera algjörlega alvitur og áreiðanleg.

Hún var líka afskaplega kærleiksríkt foreldri. Það leið ekki sá dagur að manni væri ekki sagt hve heitt maður væri elskaður og ég veit ekki hvað oft hún sagði mér söguna af minni eigin fæðingu og aðdraganda hennar. Hún kallaði mig ,,kærleiksbarn" af því að hún sagði mér að ég hefði verið svo innilega velkomin í heiminn og þráð. Hún minntist líka oft á erfiða meðgönguna þar sem læknar hefðu sagt henni að hún myndi líklega missa fóstrið en að hún hafi ekki hlustað á slíkt og lagt á sig að liggja fyrir nánast í 7 mánuði til þess að geta haldið mér. Það er ekki amalegt veganesti út í lífið að vita að svona mikið var fyrir manni haft og mamma vissi alveg hvað hún var að gera þegar hún sagði mér þessa sögu, því auðvitað hefur þetta haft góð áhrif á sjálfstraustið.

Hún mamma var líka óskaplega skemmtileg og mikill húmoristi. Vinkonur mínar í barnæsku minntust á það hve vinalegt væri að heyra í henni hláturinn þegar hún sat og talaði í símann og þær voru í heimsókn hjá mér. Við göntuðumst mikið og áttum alveg sérstaklega góðar stundir þar sem ég var alveg dekruð, farið á veitingastaði, í bíó og fleira skemmtilegt. Ef til vill var hún að bæta mér eitthvað upp, ég átti auðvitað mjög veikan föður, en hvað sem öllum ástæðum leið, þá sit ég uppi með yndislegar minningar. Það var líka merkilegt hvernig hún lagði á sig að leyfa mér að halda óteljandi mörg gæludýr af öllum stærðum og gerðum, þrátt fyrir að vera sjálf mjög áhugalaus, ef ekki beinlínis hrædd, við dýr. En svona meðal annars sýndi hún ást sína á mér.

Mamma var líka aðdáunarverð að því leitinu hvernig hún var alltaf tilbúin til þess að rétta fram hjálparhönd til þeirra sem þurftu á að halda. Það hlýtur að vera stórkostleg blessun að hafa öðlast að hjálpa svo mörgum bágstöddum sálum eins og mamma hefur gert og ég öfunda hana í raun af því. Hún átti það kannski til, sem var galli, að hjálpa fólki svo mikið að það var á hennar eigin kostnað, en margir hafa notið góðs af því sem hún gerði. Ég í raun man ekki eftir henni öðruvísi en að hún hafi verið með einhvern ,,skjólstæðing" upp á sína arma, og suma hverja í mörg ár. Þessi viðleitni hennar til þess að hjálpa öðrum átti líka við um eigin fjölskyldu sem hún hefur stutt í gegnum alls kyns erfiðleika allt sitt líf. Þá sérstaklega mömmu sinni sem hún reyndist betri en nokkur annar og stóð við hlið hennar í gegnum súrt og sætt alveg til hinsta dags, og voru það oft á tíðum ekki nein smáátök sem voru þar í gangi og miklir erfiðleikar. Á sama hátt stóð hún sem klettur við hlið pabba í gegnum öll hans miklu og langdregnu veikindi. Það er henni að þakka að hann þurfti ekki að enda lífdagana á stofnun heldur gat haldið virðingu sinni allt til endaloka hér heima hjá okkur.

Það sorglega er að mamma hefur þurft að kljást við ótrúleg veikindi á undanförnum árum eftir að hafa hlotið skaða á skurðarborðinu ásamt öðru. En hún tekst á við þetta af hugrekki og dugnaði eins og hverjuj öðru hundsbiti. Það er virkilega aðdáunarvert að fylgjast með henni og vonandi á hún eftir að ná einhverjum bata í náinni framtíð.

En hvað sem öllu öðru líður þá hlýtur manneskja sem er svona af Guði gerð, eins og hún mamma er, að eiga öruggan samastað á himnum, svo mikið er ég viss um.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home