Kaerleikshvetjandi blogg

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Regn

Hlý sólofin ský hverfa í skuggan og gráta ljúf
silkimjúk falla og tár sefa og enduróma.
Ótrúlegt hvað himnaregnið gefur og yljar
og heitt strýkur bæði kinn og lund án orða.

Í hljómi sem endurómar er ástúð og kyrrð
og elska sem fellur aldrei úr gildi en bætir.
Regndropar eru vonarmildi og gefa gleði
öllu gangverki lífsins bæði mönnum sem og láði.

Furðulegt hvað vatn af h imni veitir ókyrrum,
vingjarnlegt er, verður og fylllir allt vissu um nánd.
Ormar sem umlykja allt eru kraftaverk
unaðar sem ávallt þreyjir sigur enda altækur.

Blómi regnsins yljar blóma hugans
og börnum líka, fer um allt og drýpur hljóðlega.
Allir og allt þarg vökva og sólarbirtu hlýja
án jarðarlinda hverfur líf úr öllu og allt fyrnist.

Í dagsbirtu og í skjóli myrkurs koma þau
og umvefja hvaðeina sem þau sverta án skilyrða.
Ekkert lífsafl er sem drjúpandi regnið sem
elskuhvetjandi umlykur og væntir einskis.

Í andartaki eilífðarinnar er von
og eitthvað undurfallegt líka og fallandi skúrar.
Daggardropar sem örva vöxt og strjúka vanga
og vinalega fá gróðurinn til að óma og mennina til að þakka.

Hvert fer svo allt þetta vatn sem lifandi lífgar?
Upp lágdeyða svo ótrúlega hljótt en sigurvisst.
Suddi himins sem bara gefur en ekkert tekur
og sýnir í verki að það lifir sem allt kveikir.

Höf. Jóna Rúna Kvaran, 14. ágúst 2006.

Hamingja

Hamingja og elska umvefja allt sem lifir
Og ekkert jafnast á við það sem gefur hvetjandi.
Vonarhvati sá sem í ástarelskunni býr er öflugt
Undratæki sem umlykur allt og óskar einskis.

Hallar þreyttum augum aftur lítil rós og hugsar
Undrandi býr vonareldur í vitund minni.
Án afláts hverfa hryggðartár af hvörmum
Í haf þess liðna og koma ekki aftur sé þess óskað.

Við verðum að þrá og trúa á yl vonar
Því vissan um athygli og unað kemur sé kallað.
Minnast má að einungis vonarvilji fær líf
Og margfaldast í óð til ástúðlegra orða ef þráð er.

Í fyllingu tímas eflist og dafnar allt og grær
Og ekkert sem ekki uppfyllir vonarneistann sterkan.
Af hverju að kvíða og bíða ef að lifandi ylur er nærri
Sem ljúflega umvefur og hvetur fallega áfram.

Orð sem gefin eru af afli ýta undir kraft
Uppörvunar og óskaflóðs sem gefur og heftir ekki.
Óskýrður undraheimur býður þeirra sem vilja
En unaðseldar virðast færri en eru þó svo nærri.

Ekkert í heimi gefur og veitir sem ylríkur faðmur
Sem orðum umleikur og nálægð hans er svo velkomin.
Vonarvilji er afl sem ýtir undir söng sálar
Sem ljómandi brosir en segir fátt en veit um nálægðina.

Í vonaryl fæst vissa um allt sem óskað er
Og víkur aldrei á burt enda eilíf og öðruvísi.
Hvar er ómur unaðar og elskuafls nema
Í undraverðum elskufaðmi sem ávallt er orðvana.

Höf. Jóna Rúna Kvaran, ort 15.ágúst 2006.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home