Kaerleikshvetjandi blogg

föstudagur, ágúst 04, 2006

Ástin

Óður friðar fyllir sálina gleði og kyrrð
því fundin er elska sem lifir og gefur.
Í örmum kærleika er undur sem hvetur
og ástúð sem aldrei dvín og hrífur fagurlega.

Í undraveröld yls og máttar breytast
ástarheit sálarinnar ljúfleg og kossar falla.
Og ástin samofin orðum og athöfnum
umvefur allt og hlýja svo undurblíðlega.

Í skjóli atlota sem gleðja er vissa og þrá
um að sorgarferli hverfi og hlýja orni.
Samofin eldum ástarhita og glóð opinberast hlý
og ósvikul og krefst einskis í þögn.

Fáir án unaðar ástar og elsku þrífast
eins fagurlega og þeir sem einlægir orna.
Hvergi er ómur undra og tákna eins ljúfur
og mildi ástarþels sem umvefur og ann.

Hvar er vonarþel og trúaróður nema í armi
elskuríkrar ástúðar sem dvelur í hjartanu.
Undravissa sem árvökul horfir inní eldinn
sem ylríkur umvefur þá sem unna og þrá.

Fellur einlæg, uppljómuð vitund um elskuríkan
óð sem allt umvefur og ekkert þarf enda algóður.
Unaðsþrá sem aldrei hverfur og allt umkringir í orði
án skilyrða veitir vonarvissu og trúarþel.

Ástin er ósk um að öfund og úlfúð víki
úr hjarta sem þráir kyrrð og trúir á vonina.
Án undrakrafts þess óðs sem elsku ávallt fylgir
er ekkert neins virði nema blómi ástarylsins.

Höf: Jóna Rúna Kvaran, ort 4.ágúst 2006.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home