Kaerleikshvetjandi blogg

sunnudagur, mars 11, 2007

Nína skrifar um Jónu RúnuHún mamma er mjög sérstök persóna. Hún var frábær móðir og þá sérstaklega á þann hátt að hún lét manni alltaf finnast að maður lifði við fullkomið öryggi. Ég efaðist aldrei um það að mamma myndi getað leyst öll vandamál, sama hve flókin þau yrðu. Það var svo gott að hafa þessa öryggiskennd, að vita að maður gæti alltaf komið heim og þar yrði mamma eins og klettur sem aldrei bifaðist. Eflaust var hún stundum óörugg sjálf í móðurhlutverkinu, eins og allir eru á einhverjum tímapunkti sem upplifa það að verða foreldrar, en aðalatriðið er að hún lét mig aldrei finna það og mér fannst hún alltaf vera algjörlega alvitur og áreiðanleg.Hún var líka afskaplega kærleiksríkt foreldri. Það leið ekki sá dagur að manni væri ekki sagt hve heitt maður væri elskaður og ég veit ekki hvað oft hún sagði mér söguna af minni eigin fæðingu og aðdraganda hennar. Hún kallaði mig ,,kærleiksbarn" af því að hún sagði mér að ég hefði verið svo innilega velkomin í heiminn og þráð. Hún minntist líka oft á erfiða meðgönguna þar sem læknar hefðu sagt henni að hún myndi líklega missa fóstrið en að hún hafi ekki hlustað á slíkt og lagt á sig að liggja fyrir nánast í 7 mánuði til þess að geta haldið mér. Það er ekki amalegt veganesti út í lífið að vita að svona mikið var fyrir manni haft og mamma vissi alveg hvað hún var að gera þegar hún sagði mér þessa sögu, því auðvitað hefur þetta haft góð áhrif á sjálfstraustið.Hún mamma var líka óskaplega skemmtileg og mikill húmoristi. Vinkonur mínar í barnæsku minntust á það hve vinalegt væri að heyra í henni hláturinn þegar hún sat og talaði í símann og þær voru í heimsókn hjá mér. Við göntuðumst mikið og áttum alveg sérstaklega góðar stundir þar sem ég var alveg dekruð, farið á veitingastaði, í bíó og fleira skemmtilegt. Ef til vill var hún að bæta mér eitthvað upp, ég átti auðvitað mjög veikan föður, en hvað sem öllum ástæðum leið, þá sit ég uppi með yndislegar minningar. Það var líka merkilegt hvernig hún lagði á sig að leyfa mér að halda óteljandi mörg gæludýr af öllum stærðum og gerðum, þrátt fyrir að vera sjálf mjög áhugalaus, ef ekki beinlínis hrædd, við dýr. En svona meðal annars sýndi hún ást sína á mér.Mamma var líka aðdáunarverð að því leitinu hvernig hún var alltaf tilbúin til þess að rétta fram hjálparhönd til þeirra sem þurftu á að halda. Það hlýtur að vera stórkostleg blessun að hafa öðlast að hjálpa svo mörgum bágstöddum sálum eins og mamma hefur gert og ég öfunda hana í raun af því. Hún átti það kannski til, sem var galli, að hjálpa fólki svo mikið að það var á hennar eigin kostnað, en margir hafa notið góðs af því sem hún gerði. Ég í raun man ekki eftir henni öðruvísi en að hún hafi verið með einhvern ,,skjólstæðing" upp á sína arma, og suma hverja í mörg ár. Þessi viðleitni hennar til þess að hjálpa öðrum átti líka við um eigin fjölskyldu sem hún hefur stutt í gegnum alls kyns erfiðleika allt sitt líf. Þá sérstaklega mömmu sinni sem hún reyndist betri en nokkur annar og stóð við hlið hennar í gegnum súrt og sætt alveg til hinsta dags, og voru það oft á tíðum ekki nein smáátök sem voru þar í gangi og miklir erfiðleikar. Á sama hátt stóð hún sem klettur við hlið pabba í gegnum öll hans miklu og langdregnu veikindi. Það er henni að þakka að hann þurfti ekki að enda lífdagana á stofnun heldur gat haldið virðingu sinni allt til endaloka hér heima hjá okkur.Það sorglega er að mamma hefur þurft að kljást við ótrúleg veikindi á undanförnum árum eftir að hafa hlotið skaða á skurðarborðinu ásamt öðru. En hún tekst á við þetta af hugrekki og dugnaði eins og hverjuj öðru hundsbiti. Það er virkilega aðdáunarvert að fylgjast með henni og vonandi á hún eftir að ná einhverjum bata í náinni framtíð.En hvað sem öllu öðru líður þá hlýtur manneskja sem er svona af Guði gerð, eins og hún mamma er, að eiga öruggan samastað á himnum, svo mikið er ég viss um.

Poema V

Si algún día me marchara de
Tu lado, no será porque lo halla
Deseado, quisiera ser tu hombre
Amado, aunque no esté a tu lado.

Mis palabras no han cambiado
Aunque tú lo hallas pensado
Juro que sigo enamorado
Por el tiempo que a pasado.

Si algún día te extraviaras
Indagaré por todo el mundo
Corriendo como un vagabundo
Hasta quedar moribundo.

Autor: Lázaro Luis Núñez Altuna

Þýtt og endursagt af Nínu Rúnu Kvaran:
Sjónarmiðið hans:
Hin líffræðilega klukka karlmannsins

Vera má að það komi konum á óvart, en karlmenn eru líka með innbyggða líffræðilega klukku. Reyndar mætti frekar kalla hana eins konar sálarlíffræðilega klukku. Með því er átt við, að þrátt fyrir að karlmenn standi ekki frammi fyrir neinum líkamlegum hömlum til þess að geta börn, þá finnst mörgum þeir hafa frestað barneignum of lengi þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri.
Kannski átta konur sig ekki á því, en að hafa tímamörk á barneignarárum getur verið blessun. Hin líffræðilega klukkuhringing konu fer af stað tiltölulega snemma og því verður spurningunni um barneignir ekki frestað lengi. Karlmenn hins vegar eiga það til að fara í gegnum lífið í þeirri trú að þegar þeim henti, þá geti þeir hvenær sem er plantað sér niður og stofnað fjölskyldu án þess svo mikið sem að velta því fyrir sér að barnauppeldi henti ef til vill betur yngra fólki en þeim sjálfum.
Hér á eftir fer lýsing ónefnds karlmanns á besta aldri á sinni eigin reynslu af þessum málum:
,,Ég ræði þessi mál nú bara vegna þess að ég finn að ég er að eldast. Það lengsta sem ég hef komist í að nálgast giftingu er þegar ég var í kjólfötum í brúðkaupi vinars míns. Upp á síðkastið hef ég þó tekið eftir því að hugur minn snýr í auknum mæli að hjónabandi og börnum. Ekki það að ég sé orðinn örvæntingarfullur að kvænast, en ég vil eignast börn. Held ég.
En það er einmitt hérna sem aðal klikkunin í þessu öllu byrjar. Ég hef áttað mig á því að ef ég byrja ekki á barneignum núna strax (sem er afar ólíklegt, þar sem fyrst þarf að ganga frá ,,smáatriðum” eins og að hitta réttu konuna og verða ástfanginn), þá verð ég eini pabbinn sem þjálfar fótboltaliðið með göngugrindina mér til halds og trausts.
Síðan líffræðilega klukkan mín hringdi fyrst hefur ýmislegt breyst í mínu lífi á mjög undarlegan hátt. Ég horfi ekki á konur með sömu augum og áður. Ég var alltaf hrifinn af svona horuðum Kate Moss týpum, en ekki lengur. Núna virðast þær vera...vannærðar. Ég var alltaf mikill fótleggjamaður en núna er það mikilvægara að fótleggirnir leiði upp að almennilegum barnsburðarmjöðmum. Og brjóstin, þau eru ekki lengur metin eftir kynferðislegum stöðlum heldur eftir mögulegu gildi þeirra sem næringaforðabú framtíðarinnar.
Á stefnumótum er hætt við að samræður fari að líkjast atvinnuviðtölum. Hvort að hún hefur séð nýjustu sýninguna í Listasafninu eða hvort að hún er búin að kíkja á nýjasta næturklúbbinn verður aukaatriði, en áríðandi verða spurningar eins og: eru ættgengar geðveilur í fjölskyldunnu þinni? Kemurðu úr bakgrunni áfengis-eða fíkniefnamisnotkunar? Hvaða einkunnir fékkstu á stúdentsprófi? Leikurðu á hljóðfæri? Ertu nokkuð atvinnulaus?”
Ættu karlmenn að hafa samviskubit yfir þessu? Í raun ekki. Þeir hafa allir mátt þola sömu yfirheyrslur á stefnumótum liðinna ára og hafa oftar en ekki fallið á prófum sem konur nota til að meta hentugleika þeirra til undaneldis. Staðreyndin er sú að þegar konur leita eftir mönnum til undaneldis, þá falla plúsar eins og “góð kímnigáfa” og “sjarmi” á botn listans yfir æskilega kosti mannsefnis. Konur sem heyra lífklukkuna tifa vilja tvo launaseðla á mánuði og líftryggingu. Þessa hluti er ekki hægt að gera málamiðlanir með.
En hverjir eru þá möguleikar hins ókvænta og barnslausa karlmanns sem óðum nálgast miðjan aldur? Kostur A væri að finna sér mjög unga konu. Í augum fólks á þrítugsaldri er stöðugleiki það að standa í fæturna eftir tvö tequila skot og “að eilífu” þýðir a.m.k. fram í næstu viku. Konur á þessum aldri eru enn nógu barnalegar til að telja lífstíl hins einhleypa ,,eldri” karlmanns vera rómantískan. Margar þeirra hafa nýlokið námi og því er pínulítil íbúð og engir peningar hið eðlilegasta mál. Eini gallinn við þessa ,,lausn” er að hinn örvæntingarfulli karlmaður væri að ræna stúlkuna æskunni. Þrítugsaldurinn er dásamlegur tími og ung kona ætti ekki að þurfa að neyðast til að standa í barnauppeldi nema hún virkilega vilji það. Jafnvel þó að sumum karlmönnum þyki þessi kostur freistandi, þá er hann ef til vill ekki sá skynsamlegasti. Það leiðir okkur að kosti B: að finna konu sem er jafnaldri. Málið er að þær eru oftar en ekki fráteknar. Á þrítugsaldrinum sigrar ástin allt, á síðari hluta fertugsaldursins er ástin allt í lagi en arðsemi er betri. Það eru margar konur sem hafa skotið rótum og stofnað fjölskyldu eingöngu vegna þess að þær gátu ekki beðið lengur. Þær segja með ákveðnum þótta að eiginmennirnir séu góðir menn og góðar fyrirvinnur og að þær séu hamingjusamar en...og á þessum punkti verður raddblærinn daufur og augnaráðið fjarrænt og maður áttar sig á því að raunveruleg ástríða og ást, þetta eitthvað sem fær hjartað til að slá hraðar og fær fólk til að skreppa til Parísar í augnabliksbrjálæði, eru fyrstu fórnarlömb líffræðinnar.
Valkostur C er að gera það sama og margar konur gera, að finna sér góða fyrirvinnu. Þrátt fyrir að samkvæmt hefðinni hafi starf fyrirvinnunnar verið í höndum karlmanna, þá hafa reglurnar breyst þökk sé kvenréttindabaráttunni. Hugtakið Hótel Pabbi er ekki lengur svo fjarstæðukennt. Það eru margar konur sem þéna vel, njóta þess virkilega að eiga starfsferil og þarfnast þess að hafa heimavinnandi húsföður með börnunum á meðan þær fara í viðskiptaferðir til Hong Kong. Manns sem getur fundið góð leikskólapláss og tapar ekki glórunni þó að hann þurfi að horfa á “Tubbana” í hundraðasta skipti.
Sama hver lokaniðustaðan verður, þá þarf karlmaðurinn að taka ákvörðun fljótt. Á hann að vera barnslaus eða skella sér á pakkann? Hverjir eru kostirnir við að eignast krakka? Það er nú alltaf hugmyndin um að hafa eitthvern til að halda uppi arfleifðinni í framtíðinni. Hafa einhvern til að hugsa um sig í ellinni. Einhvern sem hægt er að kenna leyniuppskriftina að sinni eigin Bloody-Mary.
Ókostirnir væru auðvitað mikil og erfið vinna, andvökunætur, áhyggjur af framtíðinni og svo framvegis. En það væri kannski ekki svo mikil breyting þegar öllu er á botninn hvolft?



KVEÐJA

Í SKÚGGAHÚMI SÁLIN DÖPUR
SYRGIR HARMI SLEGIN.
OFIN GLEÐIBLIKI GÆSKUMYNDA
GÖNGUSPORANNA LIÐNU.

Í SORGARBIRTU Í STÖRNULJÓMA
SÓLARGEISLA HRYGGÐAR
ER HAMINGJUTÁR Í HJARTATREGA
Í HVARFAFLÓRU FORTÍÐAR

Í ENGLAVERÖLD HNÝPINN GENGUR
UMVAFIN ELSKURÍKUM YL.
Í FÖÐURARMI FINNUR ÞRAUTALÍKN
FRJÁLS AF ÆVIVIÐJUM.

Höf. Jóna Rúna Kvaran

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home