Kaerleikshvetjandi blogg

miðvikudagur, maí 30, 2007

Höfundur:
Jóna Rúna Kvaran

Ofbeldi og drykkjusýki

Ég vona að þú lesir þetta bréf og gefir mér góð ráð, ég er ansi hrædd um að ég sé að bugast. Ég tók eftir að þú gafst manneskju mjög góð ráð í einu vikublaðinu, þannig að ég hugsaði með mér að þú gætir kannski hjálpað mér líka. Af ýmsum ástæðum á ég mjög erfitt með að skrifa þetta bréf, bæði er það að skólaganga mín var af sérstökum ástæðum takmörkuð, auk þess er vandi minn tengdur öðrum, sem ég óttast að kunni að lesa þetta.

Ég ætla samt að reyna að opna mig og reyna að greina þér frá vandræðum þeim, sem hafa þrúgað mig í mörg ár.
Þannig er að ég lifi mjög erfiðu fjölskyldulífi og er oftast miður mín. Eina manneskjan sem ég hef getað opnað mig við er amma mín, en nú finn ég að það nægir mér ekki lengur. Ég er alltof lokuð og finn að það virkar þannig t.d. á vinnufélaga mína, að þeim finnst ég frekar skrítin. Það er í sjálfum sér ekki undar­legt,því að oft kemur fyrir að ég er illa haldin í vinnunni og mæti jafnvel blá og marin.

Málið er nefnilega að faðir minn er mjög drykkfellur og er auk þess laus höndin, lætur skapillsku sína bitna á mér, mömmu og systkinum mínum líka, eins og við værum dauðir hlutir. Oft verðum við að flýja að heiman og þá oftast illa útleikin líkamlega sem andlega.

Ég er undir tvítugu og hætt í skóla, hef reyndar verið að vinna um nokkurra mánaða skeið. Það stendur til að ég fari í burtu um tíma og þá sem nemi. Það sem vefst fyrir mér er, að ég er svo hrædd við að skilja mömmu eftir eina hjá honum. Óttast að hann gangi frá henni. Hún hefur hvatt mig mjög til að fara og segir að ég eigi lífið framundan en ekki hún.

Sjálf er ég reglusöm fyrir utan það, að ég hef stöku sinnum smakkað vín. Ég finn að ég get ekki lifað þessu lífi öllu lengur. Oftast loka ég mig inni og hugsa og hugsa endalaust um þetta ömurlega ástand. Vonandi missi ég ekki þolimæðina og tek inn eitur til að deyfa mig frá þessu. Mér hefur ekki gengið að tengjast vinnufélögum og hvað þá, að ég sé með strák. Finnst reyndar að ég geti ekki blandað neinum í þetta ömurlega ástand.

Ég er hræðilega einmanna og vona, kæra Jóna, að þú getir gefið mér einhver ráð. Vonandi birtir þú ekki allt bréfið, því ég óttast að pabbi kunni að sjá það. Mér finnst bara að ég verði að leita hjálpar fyrir okkur. Það er hætt við að ofbeldið myndi aukast, ef honum yrði það ljóst að ég er að skrifa þér. Ég bíð eftir ráðum þínum, því ef þú getur ekki hjálpað mér getur það örugglega engin.
Ein í vanda.

Elskulega Ein! þakka þér innilega fyrir bæði einlægt og opinskátt bréf. Eins og þú sérð er ekkert að óttast, pabbi þinn getur engan veginn vitað að þú ert að skrifa mér, vegna þess að ég hef breytt öllu í bréfinu sem rekja mætti til ykkar. Vandamál þín og fjölskyldu þinnar er auk þess svo líkt erfiðleikum þeim sem fleiri hundruð einstaklingar eiga í, þannig að útilokað er að rekja slóðina til ykkar, þótt sjálfur Serloks Holmes kæmist í málið. Þakka þér líka traustið sem þú sýnir mér. Við skoðum þetta ástand með innsæi mínu og auk þess skoða ég táknin í skriftinni þinni til að átta mig betur á þér og því sem þrúgar þig.

Brenglað samskiptamynstur í uppvexti

Börn sem alin eru upp inn á heimili þar sem viðgengst óhófleg drykkja heimilsföður, auk ofbeldis eru í miklum vanda sem fullorðið fólk og nauðsynlegt að þau leiti sér viðunandi hjálpar sem allra fyrst. Á slíkum heimilum viðgengst sjúkt samkiptamynstur, sem mótar alranga afstöðu okkar bæði til sjálfra okkar og annarra, sem við ýmist tengjumst eða verðum að umgangast. Börn alkohólista eru sérfræðingar í að fela bæði tilfinningar sínar og ástandið heima fyrir. Þau eru fórnarlömb ástandsins og kunna fæst hjálparlaust að komast útúr þessu ömurlega mynstri, nema að hjálp þeirra sem slíkt ástand þekkja komi til. Við sem lendum í þessu heimilismynstri verðum ófær til að greina rétt frá röngu og þar af leiðandi er okkur hætt við að velja sem fullorðið fólk nákvæmlega sama mynstur í gegnum væntanlegan lífsförunaut af því, að við þekkjum ekkert annað en þessa sýkingu.

Misþroski og sektarkennd

Það er mjög sennilegt að sjálfsmat, sjálfsvirðing og væntingar flestar okkur til handa séu átakanlega mengaðar af þessu brenglaða fjölskylduþema. Ef þú, kæra ein, vilt annars konar líf þá leitaðu strax til AA samtakanna og fáðu góða leiðsögn um leið til lausnar og frekari skilnings á vandanum. Eins er ekki ósennilegt að þú gætir haft gott af tímum hjá nærgætnum og snjöllum sálfræðingi til að átta þig á hver þú ert og hvað í líðan þinni og afstöðu til sjálfrar þín, eru neikvæð áhrif drykkjuskapar föður þíns. Börn sem aldrei vita hvort allt er brjálað heima hvort sem er á nóttu eða degi, geta aldrei um frjálst höfuð strokið fyrir alls konar innri spennu og vanlíðan. Þessi börn þroskast mjög einkennilega, eins og sést á þér þú skrifar mér nánast eins og foreldri bæði mömmu þinnar og systkina. Þetta segir mér, að þú hafir verið neydd vegna erfiðleikana til að fullornast alltof fljótt, sem þýðir einfaldlega að ábyrgðin, sem leggst á þig er miklu meiri, en bæði aldur þinn og geta gefur möguleika á. Þú kvelst vafalaust af yfirþyrmandi sektarkennd út af öllu mögulegu og ómögulegu og finnst, að ef þú ekki heldur vörð um heimilið og þá einstaklinga sem þjást með þér muni allt hrynja til grunna á ömurlegan og óhuggulegan hátt.

Þekkingarleit er nauðsynleg

Ung stúlka eins og þú á rétt á annars konar líðan og verður að eignast hana. Það er nú einfaldlega staðreynd að þegar við erum farin að loka okkur inni og hugsa stanslaust um hvenær öfugstreymi það og óhugnaður dynur yfir okkur, sem óhóflegri áfengis­neyslu fylgir, erum við í ákveðinni hættu. Þessi tilhneiging kemur greinilega fram hjá öllum þeim, sem þurfa að búa við ömurleika þann sem þetta skelfilega ástandi óneitanlega bíður uppá. Þarna erum við óaðvitandi orðin fórnarlömb óæskilegra aðstæðna.
Það nær ekki nokkurri átt að sjúkur einstaklingur geti með rangri afstöðu sinni til annarra fjölskyldumeðlima í orðsins fyllstu merkingu, skapað stanslausan ótta og jafnvel uppgjöf líka. Með því að draga þig í hlé ert þú óaðvitandi að fallast á að þú eigir ekkert betra skilið.
Þú átt þitt líf sjálf

Þú ert ung og átt lífið fram undan og verður að koma þér útúr þessu ranga fjölskyldumynstri. Þú finnur sjálf að þú þolir ekki öllu meir af óréttlæti án þess að bugast. Þú verður að kynnast heilbrigðu fólki og um leið leita þér hjálpar eins og ég benti á áðan.

Hvað varðar mömmu þína, þá getur þú ekki passað hana fyrir föður þínum endalaust. Hún veit þetta og er þess vegna að hvetja þig til að drífa þig burt og jafnvel bæta við þekkingu þína um leið. Hún er sennilega mjög brotin og á einhvern hátt vorkennir hún manninum, sem auðvitað henni getur þótt vænt um þrátt fyrir allt, þó erfitt sé að skilja það eftir allt sem á undan er gengið. Vafalaust á hann sína kosti þó þeir séu langt frá honum í dag vegna þess, að hann er sjúkur og þarf að fá viðunandi meðferð við áfengissýki sinni.

Sjálfsmorð leysir ekkert

Þú talar um að þú sért svo þreytt að það hafi hvarlað að þér að taka jafnvel inn eitur og binda þar með enda á þjáningar þínar. Veistu það að við verðum aldrei meira lifandi en eftir líkamsdauðann og hætt er við þegar við vöknum í nýjum heimi , að við myndum fyllast óbærilegri skelfingu yfir að hafa látið slíkan misskilning sem þessi verknaður óneitanlega er eftir okkur. Eftir dauðan höldum við hugsun okkar og persónuleika fullkomlega óskertum og það er sennilegt að sektarkennd sú sem myndi grípa okkur eftir að okkur verður ljóst að við lifum þrátt fyrir allt yrði svo mögnuð, að okkur yrði nánast ókleift að aðlagast nýjum heimkynnum. Þjánigar þær sem við sköpum þeim sem elska okkur er virkilegt alvörumál og það er gott að athuga áður en gripið er til slíkra órþrifaráða sem sjálfsvíg hljóta að vera.

Við getum ekki svo auðveldlega snúið við þegar við erum komin yfir landamæri jarðneska lífsins og getum jafnvel fylgst með hvaða sár við höfum skapað innra með þeim sem vildu okkur vel, eins og t.d. mamma þín. Það hryggilega líf sem hún lifir er nógu erfitt fyrir hana, þó hún þyrfti ekki að burðast með það í ofanálag að hafa svikið þig og þess vegna hafir þú kosið að binda enda á líf þitt kannski. Þá er betra, kæra Ein að leita fremur lausnar hér og nú á þessum mikla vanda sem þú lifir við og þið öll.

Lífið er skóli

Ef við teljum að lífið sé einhvers konar skóli sem okkur er ætlað að læra í, er hyggilegt, að reyna að klóra sig í gegnum hann, þó okkur falli ekki alltaf bæði við kennarana og námsgreinarnar, sem vissulega er getur verið erfitt, þegar hvoru tveggja er okkur ekki að skapi. Eins er það að bekkirnir eru misþungir líka og mjög auðvelt að falla á milli bekkja og fá kannski tvo á prófunum þeim, sem eru í skóla lífsins eins og öllum öðrum skólum.

Við verðum að líta svo á, að öll reynsla hversu sár og erfið sem hún getur reynst okkur sé þroskandi þegar til seinni tíma er litið, þó óskemmtileg og erfið geti verið á meðan á henni stendur. Svo reyndu, elskuleg, að herða upp hugan og gefast ekki svona auðveldlega upp, því það er greinilega heilmikið í þig varið og það þarftu að sjá líka.

Ekkert er útilokað

Við verðum að forðast að eyða öllum okkar kröftum í tilgangslausar vangaveltur eða hugsanir um ástand það sem við erum tengd hverju sinni og við getum bersýni­lega ekki breytt. Við getum nefnilega ekki fengið aðra persónu til að breyta afstöðu sinni til rangrar breytni sinnar, ef viðkomandi sér ekkert rangt eða neikvætt við framkomu sína. Þess vegna er miklu viturlegra að leggja aðaláherslu á að reyna, að kynnast sjálfum sér og vinna sig frá því ástandi sem við bersýnilega getum ekki sætt okkur við.
Það er til ótrúlegt magn alls kyns sjálfsstyrkjandi bóka, sem gott getur verið að grípa í þegar við getum ekki fundið viðunandi lausnir sjálf á því sem við teljum að sé að. Eins er bók bókanna mjög góð og holl yfirlestrar og þá er átt við Biblíuna. Það lokast aldrei alveg öll sund fyrir okkur og í þínu tilviki eru möguleikarnir til varnar þó nokkuð margir. Í skriftinni þinni kemur fram þessu til staðfestingar, að þú ert tiltölulega þroskuð andlega, virðist hafa mjög sterka réttlætis­kennd, ert sveigjanleg og víðsýn. Það er bersýnilegt að þú ert jákvæð að upplagi, fíngerð tilfinnigalega, auk þess að vera nösk á manngerðir annarra. Þér hættir við að safna upp reiði og vonbrigðum sem gerir þig óþarflega þunga og lokaða í framkomu við aðra.

Í innsta eðli þínu virðist þú þurfa að hafa markmið og einhvert keppikefli til að vinna úr í lífinu. Nældu þér í góða starfsþjálfun. Þú yrðir t.d. frábær í líknarstörfum einhvers konar. Þú ert með sterkan vilja, þess vegna þolir þú ekki yfirgang þann sem ofríki föður þíns fylgir, því hann hefur áhrif á réttlætiskennd þína. Eðlið er fórnfúst, svo passaðu þig á þeim sem vilja notfæra sér velvilja þinn. Sennilega ertu nokkuð næm á hljómfall og gætir haft ánægju af tónlist og söng ýmis konar. Þú sérð, kæra Ein, að þér er vorkunnarlaust að byrja nýtt líf ef þú nennir og vilt.
Eða eins og svekkta unga skvísan sagði eitt sinn við þá, sem voru að gera lítið úr henni: "Elskurnar mínar
Það koma ekki allir dagar í einu, en þeir koma hver á eftir öðrum. Það er fátt sem snigl­inn getur ekki, þó hann virðist fara sér hægt, því hann kemst oftast það sem hann ætlar sér hvað sem hver segir eða gerir".

Guð verndi þig og styrki í aukinni trú þinni á sjálfa þig og tilgangsríkt líf þér og fjölskyldu þinni til handa.
Með vinsemd
Jóna Rúna

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home