Kaerleikshvetjandi blogg

miðvikudagur, maí 30, 2007

Höfundur: Jóna Rúna

Barsmíðar á börnum afsiðun
( Svar til sextán ára stráks)
Þægilega Jóna Rúna! Ég á nú frekar erfitt með að skrifa þér og sennilega vegna þess að bæði er ég óvanur og svo að ég veit varla hvernig hægt er að tala um það sem ég þarf að bera undir þig svo vel fari. Þannig er mál með vexti að ég er sextán ára strákur sem er að springa í loft upp af sársauka og reiði. Ég á mömmu sem hefur barið mig hvað eftir annað frá því að ég man fyrst eftir mér. Ég er úr stórri fjölskyldu og á bæði yngri og eldri systkini en ég er sjálfur. Pabbi og mamma eru gift, en hann vinnur mikið og er sjaldan heima. Kannski er hann að flýja mömmu, sem er mjög erfið í skapi og verður öllu að ráða.

Við eigum allt af öllu og ef eitthvað er alltof mikið. Eins förum við oft út og eigum nóg af seðlum. Tilefni þessa bréfs er að ég kæri mig ekki um að vera til lengur og alls ekki að láta berja mig hvenær sem hún er ekki sammála mér. Ég get alveg viðurkennt að ég ríf kjaft á móti þegar hún er að stressa mig með endalausu nöldri og kjaftæði. Maður má bara ekki hafa skoðanir. Það má segja að ég sé frekar lokaður en skapmikill og þoli alls ekki að aðrir stjórni mér.
Mér gengur ágætlega í skóla, nema að mér leiðist leikfimi rosalega. Ég er oft lengi úti á kvöldin og hef svolítið smakkað vín en finnst það vont. Ef hún mætti ráða ætti ég að vera komin heim klukkan átta og helst ekki að eiga neina félaga. Henni finnst þeir allir svo spilltir og er sífellt að benda mér á hvað bæði ég og þeir séum heimskir og spilltir og kunnum ekkert gott að meta.

Mig langar að verða læknir en ég er ekkert viss um að ég nenni að lifa mikið lengur, ef hún ætlar að halda áfram að niðurlægja mig með endalausum aðfinnslum og svo ber hún mig og lemur, ef hún fær bara ekki að ráða öllu. Meira að segja notar hún kertastjaka og annað dót til að hræða mig og hleypur þá á eftir mér með hendurnar á lofti og gripinn í lófanum og er þá alveg eins líkleg til að láta gripinn vaða á mig eða eitthvað.

Hún er t.d. alltaf að setja ofan í við mig og gagnrýnir flest í fari mínu, alveg eins og hún þoli mig bara alls ekki. Hún hatar mig örugglega. Einstaka sinnum getur hún verið góð, en mér finnst það eiginlega líka óþægilegt af því að þá er ég alltaf að hugsa um hin skiptin sem hún er leiðinleg og ofbeldisgjörn. Ég get engum sagt frá þessu vegna þess að ég skammast mín svo fyrir þetta og hún er nú einu sinni mamma mín. Hvað á ég að gera kæra Jóna mér vex þetta allt svo í augum að stundum get ég ekki sofnað fyrr enn þá seint og síðar meir.

Ég spila svolítið á munnhörpu og svo les ég mikið og horfi á kvikmyndir. Mér finnst líka alltof mikið um stress og læti bæði í skólanum og heima, eiginlega er alls staðar svo mikill hraði á öllum og öllu. Þakka þér fyrir það sem þú ert að gera mér líkar það vel. Vonandi nennir þú að svara þessu og gefa mér einhver ráð. Ég er svo viss um, að ef þú getur það ekki þá geta það fáir.
Takk fyrir
Einn spældur og uppgefinn

Elskulegi Spældur! Mér þykir þú aldeilis sitja í erfiðri súpu og svo sannarlega nenni ég að íhuga ástandið með þér. Það vill svo til að mér hafa á undanförnum árum borist allmörg bréf frá börnum og unglingum, ekki síður en fullorðnum sem öll eiga það sameiginlegt að tengjast líkamlegu eða andlegu ofbeldi hvers konar. Það verður þó að segjast eins og er að flestir bréritarar kvarta yfir barsmíðum karla á konum og börnum, en færri undan líkamsmeiðingum kvenna, en þó nokkuð virðist vera um slíkt meðal barna sem það verða að þola og fela. Auðvitað mun ég reyna að svara sem flestum þeirra en sumum safna ég saman og svara við tækifæri með einni ýtarlegri hug­leiðingu. Öllum bréfum er reynt að svarar þó það dragist eitthvað.
Enn og aftur minni ég á að mitt hlutverk er fremur að veita heilbrigðum leiðsögn og ábendingar og íhuga með innsæi mínu og hyggjuviti eðli og möguleg áhrif þess sem bréfritarar bera undir mig, en ég mun aldrei leysa nein vandamál, eignungis benda á mögulegar leiðir út úr hvers kyns tímabundnu ástandi eðlilegra en kannski erfiðra reynsluþátta sem heilbrigt fólk verður að takast á við í lífsins ólgu sjó. Við eigum sérstaklega þjálfað fagfólk til að taka á við og leysa með okkur hvers kyns vandamál og ættum við að sjálfsögðu eftir atvikum að notfæra okkur þá aðstoð. Hvað um það kæri Spældur við sjáum hvernig þitt ástand virkar á mig og hvernig mín viðhorf kunna að notast þér. Það kemur bara í ljós elskan eða þannig.


Óþjál börn réttlæta ekki ofbeldi
Vissulega er niðurlægjandi að upplifa sig umkomulausan vegna barsmíða foreldris og af því er virðist af engum eða alla vega takmöruðum ástæðum. Vart verður skökk framkoma barns að mati foreldris til að réttlæta valdníðslu á því. Þar sem þú hefur mátt sæta þannig afgreiðslu á sjálfum þér í uppvexti þínum, er vart hægt að ímynda sér að þú munir ekki uppskera einhvern hnekk af á því sálarlega, þó það megi kannski hjálpa þér með að uppræta brenglið og ósóman ef rétt er á haldið og fagmaður tekur í taumana og vinnur að sálarlegri uppbyggingu þinni um tíma.

Vegna þess að þú bendir á að þú sért fremur skapmikill og kannski frekur er ágætt til að byrja með að íhuga það sérstaklega einmitt með tilliti til þess að búast má við að einmitt þeir þættir skaphafnar þinnar henti mömmu þinni ekki, ef ykkur verður sundurorða og getið ekki notað samræður til lausnar ágreinisefna sem upp koma á milli ykkar af ýmsum tilefnum.

Vissulega er engin vandi að vera þolimóður uppalandi, ef börnin okkar eru eins og við kjósum nokkurn veginn. Aftur á móti reynir því mun betur einmitt á þann þátt skaphafnar okkar, ef við erum að kljást við erfið og uppátektarsöm börn. Hvað sem öllum erfiðum og óþjálum einstaklingum líður, þá gefur erfitt barn foreldri engan rétt til að beita það ofbeldi hvorki andlega eða líkamlega.

Valdníðsla röng en máttur mikilvægur
Ef við notum skakka valdbeitingu til að neyða börnin okkar til að fylgja reglum þeim og bönnum sem við kjósum að þau lúti erum við á mjög varhugaverðum leiðum hvað varðar hentugt og kærleiksríkt uppeldi, auk þess sem við erum með þannig afstöðu að fyrirgera möguleikum okkar á því að reynast þessum börnum heilbrigðar og friðsamar fyrirmyndir. Valdbeiting í einhverjum myndum virðist vera hjá okkur sumum það sem vilji okkar og markmið snúast um, jafnvel þó valdafíknin í flestum tilvikum reynist miður líkleg til að gefa af sér annað en vonbrigði, ótta, reiði og kuldabiturð þeirra sem fyrir verða.

Til eru einstaklingar sem telja lífið harla lítils virði, ef þeim hlotnast ekki einhver völd og þá helst yfir öðrum og óverulegri einstaklingum eða kannski aðstæðum. Það getur verið mun erfiðara fyrir barn en fullorðinn sem verður bitbein þess valdasjúka að verjast misbeitinu eða ofnotkunn þess valds sem gerandi tekur sér í lífi þess. Staðreynd sem valdasjúkir ættu að ígrunda og reyndar allir sem kunna að ofnota vald með einhverjum hætti.

Einstaka fólk ruglar saman því sem kalla mætti " mátt" einstaklingsins sem er innra afl sem verður að teljast gagnlegt og oftar ekki líklegt til að skapa skilyrði á framförum og auknum listrænum ávinningi þeirra sem þannig innra afl rekur til framkvæmda og sköpunnar. Máttur manna framkallar oftar en ekki skilyrði á stórkostlegum umskiptum og margtþættum menningarlegum sem mannlegum framkvæmdum sem geta orðið lyftistöng fyrir samfélög og mannleg samskipti á hinum ýmsu sviðum. Nauðsynlegt er að sjá og greina mismun á þessu tvennu, það er valdi og mætti.
Kúgunarferli harðstjóra
Valdbeiting er ekki óalgeng inná heimilum og oftar en ekki verður skökk valdbeiting til að fjötra fólk. Hjón geta átt í miklum samskipta erfiðleikum ef annar sambandsaðilinn er gjarn á að fá fram vilja sinn með ofbeldi sem er venjulegast byggt á kúgunaratferli sem er drottnunarkennt og niðurlægjandi á einhvern hátt fyrir þann aðilann sem fyrir verður. Það hefur sýnst sig svo um munar að öldum saman hefur skökk valdbeiting haft í för með sér í mannlegum samskiptum ótrúlega erfiðleika og niðurlægingu. Valdníðsla verður alltaf afsiðun á einhvern hátt hvað sem hver segir.

Valdasjúkir harðstjórar hafa fótum troðið góðan vilja þeirra sem þeir með misnotun valds hafa neitt eða þvingað til framkvæmda sem alls ekki hefur orðið mannkyninu til framdráttar. Sannleikurinn aftur á móti er sá að ekkert vald hvorki hvorki í himni eða jörðu er það sterkt í raun að það sé í innsta eðli sínu líklegt til að gera mannfólkið betra eða fullkomara, hvað þá siðmenntaðra.

Röng valdbeiting er böl
Vald veldur ótta og kann um tíma sé því beitt til að halda aftur að neikvæðum tilhneigingum okkar sem eru afsiðaðar og slæmar. Málið er bara að framkoma sem er tilkomin vegna ótta við hugsanlegar refsingar er og verður aldrei rétt eða með öðrum orðum siðferðilega styrkjandi eða á annan hátt líkleg til að reynast göfgandi.

Þess vegna ætti enginn að eiga að markmiði að komast í þá aðstöðu eða til þeirra áhrifa í lífi annarra að fá tækifæri til að misnota vald. Hvers kyns valdbeiting eða valdatogstreita er á marga vegu vísir að einhvers konar böli og arðmæðu í líf þeirra sem annað hvort misnota það eða vera bitbein þannig atferlis.

Sandur af seðlum dugar skammt
Eins og kemur fram í bréfi þínu þá átt þú við mikla samskiptaörðuleika við móður þína að stríða og hún er mjög vanstillt sýnist mér. Það vanstillt að hún lemur þig eins og harðfisk ef henni sýnist svo. Pabbi þinn er fyrir utan þetta að mestu, enda gagntekinn af eigin frama virðist vera. Þú gefur jafnvel í skyn að hann kunni að vera að flýja það atferli mömmu þinnar sem þú mátt sætta þig við.

Ekki væri verra að þú segðir honum frá vandlætingu þinni og reiði vegna barsmíðanna og bentir honum jafnframt á að seðlarnir sem hann safnar ótæpilega munu ekki bæta þér þann skaða sem þú kannt að hljóta vegna ofbeldisins sem móðir þín beitir þig. Honum ber skylda til að styðja þig og verður að gera sér grein fyrir að í þessu tilviki duga peningar skammt enda virðast þeir ekki hafa gert fjölskylduna hamingjusamari eða samheldnari. Þú virðist nefnilega vera nokkuð afskiptur og einn í þessum vanda þínum og ekkert talar þú um í bréfinu að systkini þín sæti sömu meðferð og þú þó mig gruni að svo kunni að vera.

Seðlasöfnun dugar þér skammt ef afsiðun sem liggur í ofbeldi móður þinnar á þér þrífst á bak við fín föt, utanlandsferðir og dýran húsbúnað og kannski stórhýsi. Þú værir betur settur í tjaldi og laus við barsmíðarnar. Auk þess er afleitt að þú skulir vera á báðum áttum um hvort mamma þín elskar þig eða hatar. Foreldrar eiga alls ekki að berja börnin sín alveg sama hvað á dynur. Eins er að það er fáránlegt ef foreldri verður til að grafa sjálft undan trú barnsins síns á að það sé elskað af foreldum sínum og eigi bókstaflega rétt á að vera elskað og virt, en alls ekki vanvirt og hunsað, hvað þá barið eða misþyrmt með öðrum hætti af ástvinum sínum.

Ofbeldi og reglur
Hvað varðar mömmu þína þá reikna ég með að þú hafir oftar en ekki látið hann heyra að þú óskir ekki eftir vera barinn vegna skoðana þinna eða hátternis og sér í lagi vegna þess að það er sannanlegt að ofbeldi hefur aldrei orði til að efla kosti þeirra sem fyrir því hafa orði þvert á móti ef eitthvað er. Þú finnur líka hvað þú ert orðinn reiður og niðurlægður sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt enda af eðlilega gefnu tilefni.

Hitt er svo annað mál að vitanlega verður að reyna í öllum samskiptum að komast að samkomulagi og ekki síst þegar um er að ræða grundavallar atriði eins og að virða mikilvægi þess að allir heimilisfastir verða að muna að enginn einn þar sem fleiri búa saman getur lifa einungis eftir þeim hugmyndum, reglum og framkomu sem honum er eðlileg og kannski fellur best.

Eðlilegra væri ef þú og mamma þín gætuð náð að ræða saman af einlægni og hreinskilni þannig að báðum tækist að halda virðingunni og fá að einhverju leiti fram vilja sinn án hávaða eða barsmíða. Það er nefnilega alveg sama hvað mikið að veraldlegum gæðum þig eigið, ef þið getið ekki náð sæmilega þægilega friðsömu andrúmslofti og ögn af skilningi á hvers annars þörfum er hætt við innri togstreitu og svo í framhaldi af því hver skyns afsiðun mögulega í framkomu ykkar hvert við annað.

Togstreita og afsiðun
Málið er nefnilega að vart er hægt að ætlast til að þú sem piltur sem ert að vera fullorðinn karlmaður innan tíðar getir sætt þig við að vera mun lengur meðhöndlaður af eins mikilli valníðslu eins og barsmíðar alltaf eru hver sem framkvæmir þær. Sennilegt er, að hyggilegt væri fyrir þig jafnframt að reyna að leyta þér hjálpar með aðstoð neyðarlínu Rauðakrossins. Símanúmer hjá Rauakrossheimilinu er fremst í símaskránni. Starfsfólk í Rauðakrosshúsinu hefur á sýnum snærum alls kyns möguleika á að veita þér upplýsingar um leiðir sjálfum þér til styrktar út úr þessu kvalræði eftir því sem mínir heimildarmenn segja. Þú verður að leyta réttar þíns og það sem fyrst.

Vitanlega veistu að þú hefur sjálfur eignast það mikinn líkamlega styrk að tiltölulega auðvelt væri trúlega fyrir þig næst þegar mamma þín ræðst á þig að taka hendur hennar rólega aftur fyrir bak hennar og leggja hana þegjandi yfir hné þér og hreinlega rasskella hana af sæmilegri hófværð og festu hnitmiðað á þjóhnappana.
Þetta læt ég fljóta með sem möguleika í algjörri neyð og alls ekki hugsaðan til að mæla ofbeldi bót. Málið er bara ef fýkur í flest skjól verður stundum að tala á annars konar tungumáli en okkur er tamt. Jafnt sem áður er sú skoðun mín enn óhagganleg að ofbeldi er rangt atferli og alls ekki til eftirbreytni enda fátt í mannlegum samskiptum ömurlegra.

Málið er bara elskan að ofbeldi á ekkert skylt við siðfágun og því heldur hæpið að henni lærist að hegðun hennar er afsiðun ef hún neitar öllum sakagiftum og hunsar ábendingar og rökræður fullkomlega sem tengjast hegðun hennar. Atferli hennar er reyndar náskylt siðblindu, auk þess að vera mögulega á einhvern hátt geðvillutengd. Þó svarað yrði í sömu mynnt, er það staðreynd málsins jafnt sem áður, að það á engan að lemja og allra síst þá sem minni máttar eru og alls ekki hina náttúrlega, þó vissulega geti innibirgð reiði framkallað furðuleg viðbrögð og umdeilanleg.

Sjálfsvíg eru alröng
Hvað varðar það að kjósa ekki að lifa lengur er þetta að segja. Það að deyja vegna eigin ákvörðunar er rangt. Sjálfsvíg eru vá sem ekkert hafa í för með sér annað en aukinn vanda þeirra sem þau framkvæma. Hvort sem fólk trúir því eða ekki er líf að loknu þessu og við komum í ríki Guðs í því andlega ástandi sem við vorum í þegar við yfirgáfum líkamann og sennilegast að okkur verði fljótt ljóst við breyttar ytri aðstæður að við gerðum rangan hlut með því að ákveða sjálf okkar skapadægur.

Vissulega má fullyrða að léttirinn er enginn við aðgerð sem þessa, mun líklegra er að til viðbótar fyrra ástandi verði sektarkenndin vegna sjálfsmorðsins óbærileg. Hertu því upp hugann elskan og leitaðu þér stuðnings og hjálpar hjá faglærðu fólki það borgar sig.

Hvað varðar framtíðarþrár þínar svo sem löngunar til að læra læknisfræði, þá segi ég bara hér og nú vonandi fæ ég að verða fyrsti skjólstæðingur þinn alveg sama hvað sérgrein þú velur ha, ha. Það er kannski rétt að þú vitir að ég er frekar fráhverf tannlæknum eiginlega hrædd við þá. Finnst þeir reyndar margir ágætir þegar þeir eru ekki í vinnunni. Veistu það að lífið er það dýrmætasta sem þú átt og engin sérstök ástæða til að láta ófullkomið fólk, þó skylt manni sé veikja tiltrú manns á að það geti verið bæði gleðilegt og friðsamt.

Eða eins og kúgaði strákurinn sagði eitt sinn í góðra vina hópi." Elskurnar mínar vissulega vafðist mér tunga um háls þegar manneskjan bara vatt sér að mér og sló mig. Málið er bara að mér þótti þessi hegðun hennar svo heimskuleg að ég ákvað að svona hallærishátt myndi ég aldrei ástunda, jafnvel þó aðrir væru ekki öllum stundum mér að skapi. Ég leit því bara á hana og sagði: " Vá hvað verður um gullhringina ef puttarnir fjúka af eða þannig."

Elsku strákurinn minn trúlega áttu án vesens og mikilla vandræða lífið framundan og megi Guð vísa þér veg þess góða og friðsama hér í frá. Með vinsemd, Jóna Rúna

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home