Kaerleikshvetjandi blogg

miðvikudagur, maí 30, 2007

HÖF:JRK

ÁGIRND

Eins og við vitum, þá erum við mörg bæði sérdræg og ágjörn. Auður er afstæður og það er hægt að tala um ytri og innri verðmæti og söfnun þeirra jafnframt.Ef að við sjáum tilgang í auðsöfnun,þá er heppilegt að við leggjum jafn mikið upp úr því að safna innri verðmætum eins og þeim ytri. Ágirnd í hvaða mynd sem er telst löstur og er því hnekkur fyrir manngildi okkar.Verst er þó sú girnd sem liggur í því, að þrá að fá það sem aðrir eiga, þó að við eigum nóg fyrir og svífast einskis til að ná því.Við getum valdi öðrum tjóni, ef við göngum á rétt þeirra og hrifsum gráðug til okkar það sem er þeirra. Þegar við verðum þess áskynja að við göngum of langt í ágirndinni, er ágætt að við endur­skoðum viðhorf okkar til gullsins. Það kostar okkur svipaða vinnu og fyrirhöfn að afla ytri og innri gæða. Innri verðmæti eru ekkert síður mikilvæg en þau ytri og við getum aldrei eignast of mikið af þeim.Haldist þetta tvennt ekki í hendur, þá líður okkur fyrr eða síðar illa. Það er því sorgleg staðreynd, ef dýrkun á gulli gengur of langt.Ekki síst ef hún er á kostnað innri verðmæta­sköpunar. Hyggi­legt er, að við venjum okkur á að íhuga af hverju og til hvers við girnumst meira en við þörfnumst. Best er, að við vinnum sjálf fyrir ávinn­ingum okkar, hvort sem þeir eru andlegir eða verald­legir.Jafnframt er viturlegt að við venjum okkur á að deila með öðrum því sem okkur áskotnast. Maura­púkar og féfíklar eru óáhuga­verðir og frá­hrind­andi.Við sem þannig erum,girnumst venjulega meira en okkur ber.Það er því slæmt og varhugavert, að við séum ágjörn og gróðafíkin. Við getum t.d.ekki keypt það sem er mest virði og það er m.a. góð heilsa, friðkær samskipti og eftir­sóknarvert manngildi. Sérdrægni og auðhyggja er neigjarnt atferli og veldur sökum þess glundroða og ill­indum í samskiptum. Það er siðleysi að ágirnast umfram fé og óþarfa lúxus.Það er óviturlegt af okkur að ýta undir aurasótt og síngirni í eigin fari. Við eigum heldur að örva í hugsun okkar og athöfnum, auðmýkt og lítillæti gagnvart auði og ytri verðmætum. Það er áríð­andi að við gerum okkur fulla grein fyrir kostum og göllum ytri verð­mæta.Ágætt er, að við séum með­vituð um það, að við þurfum að umgangast allan auð hyggilega, jafnframt því sem við þurfum að kunna að deila honum réttlátlega. Græðgi í hvað myndum sem er, er óæskileg og óásættanleg. Höfnum því aura­hyggju og gull­græðgi, en eflum fremur áhuga okkar og löngun í þau verðmæti sem ekki eru hverful og óþörf. Það er þess virði að uppræta og vinna bug á ágirnd og sér­drægni. Það er gott að eiga nóg fyrir sig og sína.Það er á hinn bóginn óviturlegt að safna auði og öðrum verð­mætum, þjóni sú þrá þeim tilgangi,að ýta undir eign ágirnd og mammonsdýrkun.Við verðum ekkert hamingju­samari, þó að við eignumst allt sem hugur okkar þráir og girnist.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home