Kaerleikshvetjandi blogg

föstudagur, október 21, 2005

Höldum vörð um viðreista

Ekki fer hjá því á langri ævi að einhvers konar kaflaskil séu tengd lífsgöngu okkar, sem geta verið misvitur og haft ólíkar, margflóknar afleiðingar í för með sér hvort heldur þær eru jálægar eða neilægar. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ef okkur um tíma hefur skrikað fótur og við höfum af ýmsum ástæðum vikið af þröngum vegi dyggðarinnar inná breiðan veg hvers kyns bölvunar og vesens, þá er það örugglega ekki lyftistöng sem við kjósum að flagga né sýna öðrum seinna meir þegar okkur tekst að komast aftur á beinu brautina.
Við nefnilega kærum okkur ekki um að undirstrika hvert við annað eða hina, að við kunnum að hafa villst af leið um tíma. Séð frá mér, er ekkert sérstaklega annarlegt við það þó að við þurfum, til að öðlast persónulegan andlegan þroska, að taka af og til einhvers konar drullupolladýfur á vegi vandræða ekkert síður heldur en að fljóta fallega með straumnum á björtum vegi dyggðarinnar.
Það er algjör grundvallarmisskilningur að gera lítið úr þeirri reynslu sem virðist veikja möguleika okkar til vegs og virðingar í samfélagi manna, sér í lagi ef reynslan er lituð einhvers konar myrkri að mati sérfróðra. Ástæðan er sú, að slík reynsla getur í raun verið mjög heppilegt viðmið þakklætis og löngunar í geislum velgengni, sem áminning um það að það skiptir máli að við náum að fóta okkur inní birtunni. En það vill oft gleymast þegar við erum komin þangað að kannski eigum við betra með að halda okkur á þeim stígum einmitt af því að við þekkjum hvað það er mikil þraut og pína, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur alla sem elska okkur, að vera á þeim vegi sem leiðir mögulega til hvers kyns glötunar.
Það sama á við afvegaleiðingu myrkurs og þegar við náum okkur upp úr hvers kyns veikindum eða slysum, að þegar okkur farnast vel og allt virðist okkur í haginn, þá kærum við okkur ekkert sérstaklega um að við séum minnt á það að við fengum 0,7 á síðasta prófi eða gátum ekki gengið vegna opins fótasárs. Það er nefnilega sammerkt með okkur öllum að þegar að vel gengur og allt opnast okkur varðandi jákæra framvindu og gleði, þá óskum við ekki eftir að muna að einu sinni var önnur tíð og miklu verri.
Mér hefur þótt afar sárt að fylgjast með því á stundum hvernig fólki sem hefur sigrað veikleika sína og persónuleg vandræði, hefur nánast verið gert ókleift af samferðarmönnum sínum að fá notið sín, miðað við innri gerð reynsluþekkingar og getu vegna þess að viðkomandi á fortíð sem að tilteknum aðilum nútíðar þykir þess eðlis að hún blindar þá á sjón sem er dýrmæt og mikils virði og liggur í því að það er mjög sérstakt að sigra sjálfan sig. Það er alrangt að hanga í fortíðarsýn skakkafalla og misbresta varðandi viðreista, ef þeim auðnast að halda sig á beinu brautinni og gerast sigurvegarar yfir sjálfs síns veikleikum.
Ef við skoðum það hvað það er að vera sigurvegari þá getur enginn orðið slíkur nema sá einn sem nennir að leggja á sig ómælt erfiði og vinnu og hefur eitthvað í innri gerð sinni sem er sérlega eftirtektarvert og liggur frekar í kostum heldur en göllum. Þetta gleymist stundum. Við nefnilega náum ekki tökum á lífi okkar nema að hafa eitthvað til að bera sem manneskjur. Það þýðir ekki að hafa einungis kosti heldur líka galla vegna þess að það er lítið varið í, ef við berum okkur saman við náttúruna, að upplifa frá vöggu til grafar, tengsl við náttúru sem er ein samfella rósa. Við viljum sjá í árstíðum og veðurfari, hvers kyns tilbreytingu sem gleður okkur, hryggir, örvar okkur og dregur úr okkur. Einmitt slíkar viðlíka umpólanir og sviptivindar hið innra gera okkur margflókin og fjölbreytt sem í raun þýðir að við eigum auðveldara með að skilja hvert annað, takast á við atvik og aðstæður, skapa og gefa, þiggja og njóta, auk alls annars sem gerist í innra lífi okkar ef við miðum við að það stjórnist af tilbreytingarríku hreyfiafli eins og allt annað í heiminum og okkur þykir sjálfsagt þó við gleðjumst stundum og hryggjumst líka og allt þar á milli.
Ef við íhugum þann viðreista sem hefur náð að yfirstíga veikleika sína, þá eigum við ekki að gera þá kröfur til viðkomandi með endalausum áminningum um það sem áður var, að sá hinn sami sé eins og eitt allherjarsólskin stöðugt. Ef að það dregur fyrir sólu, þá er ekki gott að viðkomandi sé stöðugt minntur á það að það hafi ekki verið nein gæfa því samfara að vera í skugganum. Þetta getur gerst á sama tíma og við sem ekki höfum afvegaleiðst erum að hlaupa upp og niður, út og suður, í alls kyns hreyfihvörfum sviptinga hið innra, sem kalla auðvitað á ýmis konar hvörf skemmtilegra og miður skemmtilegra þátta sem auðvitað búa inn í okkur öllum. En í okkar huga þá á hinn viðreisti að vera stöðugt eins og geislandi sól og ef dregur fyrir hana innra með viðkomandi þá erum við fljót að lýsa frati á þá persónu.
Það segir sig sjálft að svona afstaða okkar til hvers annars og sér í lagi til þeirra viðreistu, er algjörlega langt frá því að vera náttúruleg, því að þegar allt kemur til alls þá er uppbygging okkar og eðli afar skylt öllu því sem fer fram í náttúrunni sjálfri, sem þýðir að við hljótum að fara frá því hæsta til þess lægsta, frá svartasta myrkri til mestu birtu, og allt hlýtur að gerast innra með okkur sem má finna í hreyfihvörfum náttúrunnar, hvort sem það heitir fegurð eða ljótleiki, styrkur eða veikleiki eða annað.
Höldum því vörð um þá viðreistu og virðum þá sem hetjur sem sigrast hafa á veikleikum sjálfs síns og þannig orðið sigurvegarar vegna eigin kosta þó svo að einhver okkar hinna hafi verið svo heppin að fá tækifæri til að ýta undir að slíkt yrði mögulegt. Meðferð okkar á hetjum á að vera jákvæð, uppörvandi og hvetjandi en ekki lamandi, niðurrífandi og vanvirðandi eða lituð af einhvers konar afskræmdri afstöðu til þeirra sem hafa sýnt vilja og dug til að drífa sig inn á veg tækifæra, dugnaðar og löngunar til að láta gott af sér leiða. Mér hefur þótt sem að við sem ekki höfum verið villuráfandi um tíma svo eftir sé tekið, hafa haft tilhneigingu til að þvælast fyrir þeim viðreistu með alls konar fordómum og leiðindum og frekar draga úr þeim kraft og getu heldur en að hoppa hæð okkar yfir framgangi og sigurvilja þeirra sem hlýtur að verða aðdáunarverður.
Það sem er kannski enn þá sorglegra er að við höfum tilhneigingu til að mismuna viðreistum á þann hátt að það virðist vera algjör grundarvallarmunur á því að vera viðreistur karlmaður í íslensku samfélagi heldur en viðreist kona. Af einhverjum annarlegum ástæðum virðumst við sameinast ranglátlega um það að vera umburðarlyndari gagnvart karlmönnum sem taka á veikleikum sínum heldur en konum sem gera hið sama. Sökum þessa hefur framgangur viðreistra karla verið miklu meira áberandi í samfélaginu og þeir notið mun meiri velgengni heldur en konurnar sem mun frekar eru stimplaðar ævilangt vegna fortíðar sinnar. Þetta þýðir að framtakssamar og viðreistar konur sem hafa eitthvað til að bera sem við hin getum grætt á, halda sig til hlés, annars vegar af ótta við vandlætingu annarra og hins vegar vegna þreytu og vonbrigða vegna endalausra áminninga um að kvenmaður sem kemur úr brostinni fortíð geti haft lítið fram að færa og sé einskis virði. En karlmanni með sama bakgrunn er mun betur tekið heldur en konunni sem á nákvæmlega sömu reynsluþætti úr sinni fortíð og karlmaðurinn.
Ég vil því skora á okkur hin sem ekki höfum afvegaleiðst að sýna þeim viðreistu ekki bara virðingu heldur líka hollustu, minnug þess að það er enginn meðal Jón eða Gunna sem drífur sig upp úr drullunni og verður með dýrmæta reynsluþekkingu í farteskinu sem afleiðing, heldur fólk sem sannar svo um munar með því að sigra sjálft sig, að það er hetjur og manna líklegast til að verða ekki bara sjálfum sér heldur líka þeim sem mæta þeim, til gleði og hvatningar af alls kyns toga, ekkert síður en að geta pirrað og valdið leiðindum. Þá minni ég á að nákvæmlega það sama bjóðum við hin upp á, af því að þegar allt kemur til alls, þá erum við öll hluti þess sem lifir, sem þýðir að í hverju einu okkar býr eitthvert afbrigði náttúrunnar og sem slík hljótum við alltaf að vera á alls kyns innri hreyfingu sem ýmist gleður eða hryggir.
Húrra fyrir ykkur sem hafið náð tökum á lífi ykkar þannig að eftir er tekið og megi hetjulund ykkar verða okkur hinum, ekki bara góð og holl fyrirmynd heldur líka til þess að gleðja okkur og hvetja og auka skilning okkar á því að öll reynsla, hvernig sem hún er tilkomin, eykur ríkidæmi okkar. Þetta þýðir aukið frelsi og möguleika sem geta orðið blessunarríkir ef við viljum það sjálf og okkur er ekki gert ókleift að rísa upp til velgengni og aukins frama, af misvitru fólki sem sér ekki tilgang og dýrmæti það sem í því liggur að hafa ekki farið sléttan veg og beinan til að finna sig og kosti sína. Hunsum því ekki góðar afleiðingar hvers kyns myrkurs ef að það eykur í núinu birtu og yl. Við eigum engu af mannanna börnum að mismuna og því eiga viðreistar konur sama rétt og karlar til að fá að njóta sín án þess að verða fyrir fordómum og fyrirstöðum í þeim okkar sem ekki hafa þurft að fara sömu leið í átt til persónulegs þroska.
Munum að það er Guði þóknanlegt að gleðjast yfir því ef týndur sauður ratar inn í réttir ávinnings og árangurs, í burt frá myrkri og hvers kyns volæði. Gerum ekki viðreista að flóttamönnum sem velja að fela sig fyrir umheiminum í stað þess að ganga um mitt á meðal okkar og leyfa okkur hinum að skína undir reynslusól þeirra sem einhvern tíma hafa villst af leið og í millitíðinni nælt sér í aukna sólargeisla sem getur yljað okkur hinum og lýst upp líf okkar. Höfnum ekki hetjum fyrir misviturt hugvit.
Jóna Rúna Kvaran,
Blaðamaður og rithöfundur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home