Kaerleikshvetjandi blogg

föstudagur, október 28, 2005

...

HÖF:JÓNA RÚNA
FRIÐUR
Það skiptir okkur flest máli að finna til kyrrðar og jafnvægis í innri sem ytri aðstæðum okkar. Ef að við erum þess megnug að halda sálarró okkar og stillingu við sem flestar aðstæður eigum við auðveldara með að takast á við lífið og tilveruna. Við kaupum okkur ekki frið og sálarró. Við verðum að vinna fyrir þannig líðan með jákvæðu hugarfari og miklum viljastyrk.Þegar á móti blæs er nauðsynlegt að hafa löngun til þess að takast á við það sem okkur þykir örðugt ásamt því að óska og vilja sigrast á þrengingunum.Undir óhóflegu álagi er freisting að missa stjórn á geði sínu og hátterni.Slík viðbrögð gera okkur friðlítil og ókyrr.Við truflum jafnframt aðra með vanlíðan okkar og óyndi.Best er í friðarmálum að við virðum þörf hvers annars fyrir kyrrð og spekt hvort sem er í góðum eða slæmum aðstæðum.Þau okkar sem eru sífellt í ham útaf nánast engu skapa spennu ókyrrðar og vandræða í kringumaðstæðum sínum. Ágætt er að við leggjum áherslu á að temja okkur sem besta og mesta stillingu við sem flestar aðstæður. Næði er af hinu góða og það er þess virði að rækta það.Staðreyndin er að öllu venjulegu lífi fylgir erill og ákveðinn ófriður. Einmitt þess vegna er gott ef að við ætlum okkur á hverjum degi einhverjar þær stundir friðar sem byggja okkur upp og gera okkur hæfari til þess að takast á við það sem hver dagur krefst af okkur.Hyggilegt er að hafa í huga að of mikið félagslegt áreiti er lamandi og rífur niður góð tengsl á milli fólks.Þeir samfélagslegu straumar sem ýta undir ófrið og spennu eru þegar til lengri tíma er litið óæskilegir og leiða ekkert gott af sér. Makindi eru afslappandi og nauðsynleg þeim okkar sem telja það skipta máli að geta fundið til innri friðsældar og hvíldar.Ef að við spennum veraldlega bogann of hátt og ætlum okkur of mikið á of stuttum tíma er hætt við því að taugarnar þenjist og hugsunin riðlist í átt til ókyrrðar og óyndis einhvers konar. Þegar við lítum yfir líf okkar og íhugum þær stundir sem hafa verið friðsamlegar og rólegar þá minnumst við þeirra flest með söknuði og eftirsjá. Lífið er ekki svo flókið eða langt yfirleitt að það sé rétt­lætanlegt að við vinnum gegn friði í innra lífi okkar og þeirra sem okkur eru hjartfólgnir og kærir. Þrá okkar margra eftir tilgangslitlum og óþörfum hlutum getur ef við gáum ekki að okkur af og til leitt okkur á veg ókyrrðar og ósættis. Leit að friði fyrir utan okkur sjálf er ekki leit eftir ró og spekt. Við verðum að leita róta kyrrðar í innra lífi okkar sjálfra og reyna að rækta rósemd út frá því sjónarmiði. Á hinn bóginn er ekki víst að okkur auðnist það alltaf og síst ef að við erum ekki meðvituð um gildi og jálægan áhrifamátt friðsemdar.Höfnum þeirri vanspekt sem vinnur gegn andlegum þáttum tilveru okkar en eflum eftir föngum frið og ró við alla aðstæður.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home