Kaerleikshvetjandi blogg

mánudagur, mars 27, 2006

Þýtt og endursagt af Nínu Rúnu Kvaran

Afhjúpun lygarans:
Listin að koma upp um lygalaupa

Í kvikmyndinni ,,True Romance”, rétt áður en Christopher Walken skýtur Dennis Hopper í höfuðið fyrir að skrökva, þá heldur hinn illi Walken fyrirlestur yfir fórnarlambi sínu um hinar 17 aðferðir Sikileyinga til þess að sjá hvort að maður er að ljúga. Hvort þetta er sikileysk staðreynd eða aðeins uppspuni handritshöfundarins Tarantino skiptir kannski ekki sköpum, en það er aftur á móti staðreynd að það er hægt að koma upp um lygalaupa.
Fylgist með handahreyfingum
,,Lygarar reyna alltaf að leggja áherslu á orð sín með ýktum handahreyfingum. Það dregur athyglina frá andlitinu og gerir orðin áhrifameiri”, segir David Taylor sálfræðilegur ráðgjafi. ,,Þetta er ósjálfrátt varnarkerfi sem á að vinna gegn því að upp um fólk komist en er í raun mjög uppljóstrandi ef menn eru meðvitaðir um það.”
Hlustið á takt orðræðunnar
Þegar fólk lýgur þá afbakar það vanalega á einn eða annan hátt sína eigin vanalegu orðræðu. ,,Setningar sem leiða að lyginni eru oft sagðar í flýti þar sem fólk er oftast óþreyjufullt að koma sér að sjálfri lyginni”, segir Diane Kingsley talmeinafræðingur. ,,Að lyginni lokinni fellur taktur orðræðunnar aftur í eðlilegt horf.”
Prófið minnið
,,Tilgangur lyganna er að koma fólki úr vandræðum og þegar lygin er sögð þá á hún það til að falla fljótt í gleymsku”, segir þjónustufulltrúinn Alice Mulcahy. ,,Ef mig grunar að fólk sé að ljúga í viðtölum hjá mér, þá legg ég atvikið á minnið og varpa því síðan fram seinna og bið fólk að segja mér nánar frá því. Ef viðkomandi var að ljúga þá man hann oftast ekkert eftir því sem ég er að tala um.”
Hlustið á raddblæinn
Diane Kingsley talmeinafræðingur segir enn fremur: ,,Þegar fólk lýgur þá er því hættara við að vera meðvitað um sína eigin rödd og þá er sterk tilhneiging fyrir því að raddblærinn breyti um tónhæð, þó ekki sé nema í sekúndubrot. Það að tala er okkur vanalega svo eðlislægt að við tökum ekkert eftir því, en augnabliksálag með þurrk í munni og örari hjartslátt getur haft djúpstæð áhrif á röddina og valdið því að hún titrar örlítið eða brotnar jafnvel alveg.”
Leiddu lygarann í gildru
,,Við beitum okkar eigin blekkingum”, segir Simon Newman. ,,Þegar ég var í Devon & Cornwall lögreglunni þá þurftum við stundum að eiga við náunga sem komu frá London til þess að selja fíkniefni. Ef við tókum þá niður á stöð tiil yfirheyrslu þá áttu þeir það til að gefa okkur fölsk heimilisföng í nágrenninu til þess að sleppa. Þá sögðum við stundum: ,,Já, ég veit hvar þetta er, þarna rétt hjá keiluhöllinni?” Og þeir sögðu: ,,Já, einmitt” og vissu náttúrulega ekki að það var engin keiluhöll í bænum.”
Fylgist með augnsambandi
Það er óvenjulegt þegar fólk á í samræðum við einhvern og myndar ekki augnsamband, jafnvel þó ekki sé nema af og til og það staðfestir toll-og landamæravörður nokkur sem er orðinn gamall í hettunni: ,,Það er alltaf tilefni til tortryggni ef fólk myndar ekki augnsamband. Einu sinni lenti ég í því að maður sem ætlaði að keyra sendibíl í gegnum hliðin hjá okkur, bara myndaði alls ekkert augnsamband þegar ég talaði við hann. Hann virtist undrandi þegar við stoppuðum hann og báðum hann að fylgja okkur inn í tollskýlið en þegar málið var rannsakað frekar þá fundum við heilan farm af kössum fullum af tequila í bílnum”.
Varist flóttalegt augnaráð
,,Mitt starf felst mikið í því að hlusta á lygarnar í fólki”, segir einkaspæjarinn Tony Barnes, ,,en ég er með nánast 100% öruggt próf til að koma upp um það. Um leið og menn fara að skjóta augunum til vinstri þá veit ég að þeir ljúga. Fólk reynir að þykjast vera upptekið við að horfa á eitthvað en í raun er það bara að koma upp um sig.”
Hlustið eftir óhóflegum smáatriðum og staðreyndum
Simon Jodrell lögreglusálfræðingur hefur þetta að segja um málið: ,,Undir venjulegum kringumstæðum þá flæða staðreyndir eins og nöfn og staðarheiti eðlilega og hóflega fram í samtali. En í samræðum sem byggjast á blekkingum þá ræður lygarinn ekki við þörfina til þess að skreyta frásögn sína með einhverjum áþreifanlegum staðreyndum. Þannig að það sem þú heyrir er oft algjörlega ofskreytt og fullt af ónauðsynlegum upplýsingum sem troðið er inn í lygina til þess að gefa henni raunveruleikablæ.
Varist ofnotkun orðatiltækja
Með þessu er átt við að menn ættu að taka eftir mikilli notkun orðatiltækja eins og : ,,Þú veist hvað ég meina”, ,,sko” og ,,eða þannig”. Þau eru notuð til þess að fylla upp í þá þögn sem getur myndast þegar lygarinn tapar þræðinum vegna truflana eða skorts á þekkingu á því sem hann lýgur um. Þegar fólk lýgur og bullar þá vantar það oft þann grunn sem liggur í því að segja sannleikann og þarfnast tíma til þess að hugsa upp lygina og þann tíma fyllir það upp með tilgangslausum orðatiltækjum.

Óvirðing

Við sem höfum verið smáð og vanvirt á auðmýkjandi hátt vitum hvað það er óviðkunnalegt og ósanngjarnt að verða bitbein fávísra athafna og ósmekklegs framferðis.

Lítillækkandi og vanvirðandi afstaða til annarra er ósæmileg og óréttmæt, alveg sama hver á í hlut. Það er ódrengilegt og vansæmandi að temja sér að gera lítið úr öðrum. Hugsanlega eigum við sem venjum okkur á slíkt framferði í einhverjum örðugleikum með okkur sjálf. Ef svo væri ekki myndum við fremur velja að sýna öðrum tillitsemi og velvilja en óvarkárni og dónaskap.

Best er að hnjóta ekki um þá tálma í samskiptum sem liggja í ókurteisi og heflunarvanköntum. Lítilsvirðandi athafnir veikja vaxtarbrodda mannúðlegra viðmiða í samskiptum. Það á ekki að efla og ýta undir þannig viðhorf manna á milli. Ágætt er að við íhugum gaumgæfilega hvernig við viljum bregðast hvert við öðru. Viturlegt er líka að við venjum okkur á að vanvirða ekki sjónarmið og kringumstæður þeirra sem við umgöngumst heima og að heiman.

Manngildissjónarmið eru verndandi í samskiptum af því að þeim fylgir engin tilhneiging til að gera lítið úr annara manna hlut. Við sem virðum manngildi fólks meira en stöðutákn og aðstæður eigum auðvelt með að sýna öðrum virðingu og jáúð. Það er einmitt vegna þess að við horfum frekar á innri verðmæti fólks en ytri aðstæður. Við gerum okkur líka grein fyrir því að við eigum að reyna að gleðja og örva hvert annað frekar en að rífa niður og vanvirða.

Hyggilegt er að við forðumst eftir fremsta megni að niðurlægja og hrella þá sem treysta okkur og þurfa á okkur að halda. Sama sjónarmið er rétt að hafa í huga gagnvart öðrum og ókunnugum. Einlæg og drengræn sjónarmið í samskiptum eru bætandi fyrir mannlífið en neilæg og öfugsnúin viðmið eru niðurdrepandi og nöturleg.

Við sem viljum efla jásöm samskipti kjósum að vera þægileg og sanngjörn við aðra. Við höfnum því að vera óprúttin og neigjörn, enda sjáum við ekki sýnilegan tilgang í slíkri framkomu og fasi. Við eigum ekki að auðmýkja eða fyrirlíta hvert annað. Eðlilegt er að við ögum og örvum innra líf okkar á siðfágaðan og einlægan hátt. Það er mannbætandi og jákvætt og þannig innstillt erum við að eflast og þroskast sem manneskjur.

Misvirðing veldur vondepurð og reiði en hugfágað og prúðmannlegt fas og framkoma virkar göfgandi á hvern þann sem því mætir. Okkur þykir mikið til þess koma þegar við finnum að tekið er tillit til okkar á nærfærinn og jágjarnan hátt. Höfnum því öllum neisömum og lítilsvirðandi viðhorfum í samskiptum. Verum einlæg og ákveðin og eflum þannig framkomu sem örvar jákær og ylrík samskipti. Farsælt er að við sýnum hvert öðru sem oftast virðingu og sóma.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home