Kaerleikshvetjandi blogg

miðvikudagur, mars 15, 2006

Andaglas hættulegt kukl
" Svar til tveggja unglingsstráka í vanda"
Bréf:
,,Kæra Jóna Rúna! Við erum hérna tveir vinir sem höfum mikinn áhuga á öllu sem tengist dularfullum fyrirbærum. Ástæða þess að við skrifum þér er, að við höfum heyrt að þú værir dulræn og sjáandi líka. Við höfum verið á heimavistarskóla í tvö ár og líkar það bara vel. Við erum báðir úr sveit og viljum helst ekki vera á mölinni. Hér í skólanum er mikið talað um líf og dauða. Flestir hafa áhuga fyrir dulrænum málum og oft erum við strákarnir að gera alls konar tilraunir með hugsana­flutning og annað álíka. Aðalástæðan fyrir því að við skrifum þér er, að fyrr í vetur tókum við okkur saman nokkur og fórum að fara saman í andaglas sem okkur fannst til að byrja með mjög skemmtilegt. Það gekk allt vel og við náðum sambandi að við höldum við ástvini okkar sumra sem eru löngu farnir. Svo gerist það smátt og smátt að hinir ýmsu andar fóru að gera vart við sig með mismiklum árangri. Loks fer að koma í glasið andi sem er mjög neikvæður og hrottalega grófur. Okkur stóð ekki á sama en samt héldum við áfram uppteknum hætti. Nú er svo komið að við ásamt ýmsum öðrum hér í skólanum eru dauðhræddir, vegna þess að þegar við erum að þessum leik þá magnast upp einhvers konar óhugur í okkur og á eftir liggur við að við getum ekki gengið einir um. Við erum orðnir það myrkfælnir, að það liggur við að við getum ekki sofið einir í rúmi. Það er líka eins og þessi skemmtun, ef skemmtun skyldi kalla, eins og kalli á okkur. Við erum einhvern veginn eins og helteknir af þessu. Við finnum líka til mikils eirðarleysis á daginn og hugsum nánast ekki um neitt nema þetta. Hvað eigum við að gera Jóna Rúna? Við erum skíthræddir og eiginlega höldum að við séum búnir að koma einhverju af stað sem er ekki hægt að losna við. Eru til illir andar? Er hægt að verða andsetinn? Er hættulegt að fara í andaglas? Hverjir koma eiginlega í svona andaglas? Heldurðu að draugar séu til? Getum við orðið geðveikir af þessu öllu saman? Kæra Jóna Rúna viltu vera svo góð að svara okkur sem fyrst ef það er hægt.”
Tveir unglingsstrákar í vanda.

Svar Jónu Rúnu:
,,Kæru félagar!
Það var virkilega ánægjulegt að lesa bréfið frá ykkur, þó ég verði að viðurkenna að á köflum risu á mér hárin við að lesa lýsingar ykkar á þeim óhugnaði sem þið hafið upplifað í sambandi við andaglasið. Satt best að segja taldi ég ekki ráðlagt vegna annarra og hugsan­lega viðkvæmra lesanda að láta kaflann sem lýsir grófleika þeirrar veru sem komið hefur í glasinu hjá ykkur koma fram. Vonandi virðið þið þá ákvörðun mína og skiljið að það hentar ekki öllum að heyra allar staðreyndir málsins, þó þeir geti auðveldlega getið sér til um þær.
Vissulega er ég með meðfæddar dulargáfur og meðal annars sjáandi eins og þið kallið mig, auk þess að vera búin miðilsgáfum sem ég hef í rólegheitum þjálfað nokkuð stöðugt í á þriðja áratug. Vonandi af því að ég er dulræn og bý yfir þessari miklu og löngu reynslu á sviðum sálrænna fyrirbæra get ég uppfrætt ykkur fóstbræður um eitt og annað sem reynst getur ykkur gagnlegt eins og ykkar málum er háttað í dag. Nú, áfram nota ég jafnframt innsæi mitt til að svara ykkur og öðrum. Innsæi sem á rætur sínar að rekja í meðfæddum dulargáfum mínum, ásamt því að ég notast við reynsluþekkingu og mögulegt hyggjuvit mitt líka.
Nýju föt keisarans
Vissulega má segja að í seinni tíð hafi verið mikil andleg uppsveifla í þjóðarsálinni og vart hafa menn þótt vera með mönnum ef þeir hafa ekki haft einhver tengsl eða óbein afskipti af einhverjum þeim leyndardómum sem fella má undir það yfirskilvitlega í tilverunni. Hvað mikið af nýju fötum keisarans eru í gangi andlega er kannski erfitt að segja til um, þó ljóst sé að keisarinn eigi í umferð þó nokkurn slatta af ósýnilegum fötum sem mismikið er dáðst af. Vera má nefnilega að innan um og saman við föt keisarans sé og hafi einungis verið á ferðinni áhugi sem komið hefur besta fólki á einhvers kona andlegt fyllerí sem tæpast verður fellt undir neitt sérstaklega göfugt andlega séð.
Siðfræði Krists og kenningar hans
Hvað sem öllum fylliríum líður og fataskáp keisarans jafnframt, er sem betur fer margt mjög gott í gangi andlega, þrátt fyrir allt. Það er t.d. mjög ánægjulegt til þess að vita ef fólk eykur við andlega viðleitni sína í dagsins önn af einlægni og heiðarleik. Styrkir jafnvel sjálfs síns manngildi og eflir með sér virðingu og stöðuga trú á það góða í mannsálinni. Eins er mjög jákvætt ef fólk snýr huga sínum til Jesús Krists og hans kenninga í leit að því guðlega í sjálfum sér og öðrum. Yfir okkur vakir nefnilega góður Guð og hans vilji verður að hafa áhrif á allt líf okkar og andlega viðleitni. Annað er með öllu óviðunandi fyrir þann sem vill lifa friðsömu og kærleikshvetjandi kristnu lífi. Sú siðfræði sem okkur stendur opin í kenningum frelsarans er það veganesti andlega sem ætti að nægja okkur raunverulega til að skerpa löngun okkar til að lifa grandvöru og ylríku lífi. Eins ætti öll andleg viðleitni að styrkja tiltrú okkar á bræðralag og jöfn hlutskipti allra.
Kukl og lágþróaðar verur
Unglingar eru ekkert öðruvísi en fullorðnir að því leyti til að innra með þeim blundar mikill áhugi á alls kyns leyndardómum og öðru sem fella má undir yfirskilvitleg fyrirbæri. Það hefur því miður verið algengt meðal ungra að fara í það sem kallað er andaglas. Miðað við það sem ég hef heyrt um af slíku fikti er óhætt að fullyrða að enginn ætti að láta hafa sig útí kukl sem þetta. Mýmörg dæmi er um að fólk hafi þurft á geðlæknishjálp eftir að hafa verið að leika sér í andaglasi, vegna þess að geðheilsa viðkomandi bauð ekki uppá þannig fikt. Við verðum að gera okkur fulla grein fyrir því að hörmulegar og næstum óleysanlegar afleiðingar geta orðið innra með þeim sem fer að stunda það kukl sem andaglas alltaf er. Dulspekingar hafa löngum sagt að allra lágþróuðustu verur hinum megin frá, kæmu í umvörpum í andaglasið, þegar það er sviðsett með tilheyrandi tilþrifum. Á öllum sérsviðum þarf ákveðna þekkingu og það á ekkert síður við þegar verið er að leika sér við það sem virkilega er ókunnugt fólki og stundum er kallaður borðdans og fellur náttúrulega undir það yfirskilvitlega.
Prestar andlegir fræðarar
Þar sem þið strákarnir eruð í miklum vanda vegna andlegs fikts er vissulega mikils virði fyrir ykkur að vita af því að í samfélaginu eru ríkjandi kristileg viðhorf og við eigum bæði ágæta kennimenn þar sem prestar landsins eru og góðan hug vísan okkur til handa innan íslensku þjóðkirkjunnar. Þið ættuð því sem fyrst að fá umsögn prests um það sem þið eruð að takast á við og láta af andaglasinu hið snarasta af alvarlega gefnu tilefni vandræða sem þegar hafa skapast vegna þessa óvarkára andlega kukls ykkar skólasystkinanna. Fikts sem aldrei hefði reyndar átt að fá líf, enda þegar komið í ljós að það er hægara sagt en gert að losna frá afleiðingum og áhrifum þess en ykkur gat órað fyrir. Það er miklu skynsamlegra fyrir ykkur skólasystkinin að leggja leið ykkar í kirkjur landsins fremur en að láta þetta ömurlega ástand halda áfram að valda ykkur vanda og jafnvel síðar hvers kyns skaða. Best er að láta sér segjast og gera ekki fleiri svona barnalegar en stórvarasamar tilraunir til að ná sambandi við þá sem farnir eru af jörðinni.
Andaglas og rafmagn
Það verður að segjast eins og áður hefur verið bent á, að eitt það varhugaverðasta sem við getum tekið okkur fyrir hendur andlega séð er að fara andaglas. Þegar slíkt gerist er venjulegast verið að opna fyrir og leysa úr læðingi einhver öfl sem þeim sem andaglas fara í er ekki kunnugt um hvaða vanda geta valdið. Þið félagarnir spyrjið hvort hættulegt sé að fara í andaglas. Svarið er einfaldlega og af hreinskilni sagt: já, og meira að segja mjög. Af hverju, kann að hvarfla að ykkur elskurnar. Jú, þið eruð að fikta við andleg öfl sem eins og þið hafið upplifað geta verið tvíeggjuð og reyndar stórvarhugaverð í meðförum viðvaninga. Ef þig færuð til samlíkingar að fikta við rafmagn með álíka litla þekkingu á eðli og áhrifamætti þess og þið hafið á dularöflum tilverunnar, gæti farið svo að þið hreinlega biðuð stórtjón af og mögulega aðrir og saklausir líka. Rafmagn má nota til að lýsa húsin okkar upp og hita þau líka. Samt er það staðreynd líka að það er ekkert síður hægt að nota rafmagni í neikvæðum tilgangi. Menn eru stundum deyddir einmitt með rafmagni. Við vitum í sjálfu sér ekkert hvað rafmagn er í raun en rafmagnsfagmenn kunna samt þau skil á möguleikum þess, til að nota það til ýmsra hluta og gera sér grein fyrir því, að ef nákvæmlega og kunnáttusamlega er á málum haldið, er enginn sérstök hætta á skaða eða áföllum vegna þess. Stundum verða slys af völdum rafmagns sem enginn getur komið í veg fyrir. Þau bara gerast allt í einu og engin átti kannski von á þeim. Það segir sig sjálft að ekki þarf minni varkárni við ósýnileg öfl tilverunnar en þau öfl sem sem eru mun efnislegri og afleiðingar notkunar á þeim eru þó öllum sýnileg. Það verður örugglega erfitt í mjög mörgum tilvikum að átta sig á þeim afleiðingum fyrirfram sem geta komið í kjölfar dulræns kukls.
Óþroskaðar andar
Hvað sem öllum efasemdum líður þá lifum við líkamsdauðann og það að deyja breytir ekki persónuleika þess sem af jörðinni fer. Ef við reiknum með því sem vissulega er staðreynd að það deyja ekki allir sáttir eða sérlega jákvæðir með sitt hlutskipti, þá segir það sig sjálft að það hljóta að vera til misgóðir andlegir einstaklingar eða öllu heldur sálir. Sumir jafnvel bitrir og sérlega ósáttir og neikvæðir.
Meðal annars vegna þess að við viðskilnað frá jarðneska líkamanum hverfum við úr efninu mjög mismunandi vel sett í andlegum þroska, er virkilega áríðandi að hleypa ekki hverjum sem er að sér, þó dáinn sé. Við eignumst að vísu andlegan líkama við brottförina af jörðinni en það þýðir ekki endilega að við verðum algóð aðeins við það eitt að deyja. Ef við erum ekki góð fyrir viðskilnaðinn breytumst við ekkert fyrr en við ákveðum það sjálf með tilheyrandi fyrirhöfn hinum megin grafar ekkert síður en hérna megin grafar. Við eignumst eins og áður sagði andlegan líkama sem einungis skyggnir sjá. Það er bara ekki nóg, ef sálin er neikvæð og hugurinn afskræmdur eins og greinilega kemur fram hjá þessum grófa manni sem hefur skelft ykkur vinina upp úr skónum og kemur í glasið hjá ykkur. Sál með mjög ógeðfellda nærveru og tungutak sem ekki einu sinni forhertir glæpamenn myndu leyfa sér að nota nema af alvarlega gefnu tilefni.
Okkar er valið
Eins og ég sagði áður, er það skoðun þeirra sem kynnt hafa sér dulvísindi að oftast séu það mjög óþroskaðar og virkilega neikvæðar verur sem koma fram í andaglasinu. Það er talað um að fólk geti verið jarðbundið eftir dauðann og þar er sennilega á vissan hátt ákveðinn sannleikur. Málið er að það má segja sem svo, að ef að neikvæð persóna vill ekki deyja að hún sæki mjög stíft eftir samskiptum við lifendur hérna megin grafar og þá ekki endilega í neitt sérstaklega jákvæðum tilgangi. Sá sem í eðli sínu er neikvæður verður að teljast andi sem er varhugaverður hvort sem viðkomandi er enn þá hérna megin grafar eða einfaldlega hinum megin móðunnar miklu. Staðsetning verunnar breytir engu heldur einungis eðli og innræti viðkomandi. Það að deyja gerir fólk ekki umsvifalaust algott. Þvert á móti verður engin góður eða göfugur nema hann vilji það sjálfur. Það gilda sömu lögmál báðum megin grafar. Við höfum frjálsan vilja og getum valið sjálf það ástand andlega sem við kjósum okkur þrátt fyrir allt og þetta gengur sumum okkur illa að skilja.
Neikvæð öfl
Það er eðli neikvæðra afla að finna sér líf í aðstæðum sem eru með einhverjum hætti hagstæðar viðkomandi veru. Það er því ekkert skrýtið þegar þið opnið fyrir dularöfl sem þið hafið takmarkaða þekkingu á og leyfið hverjum sem er að heilsa uppá ykkur að eitthvað leiðinlegt geti gerst. Jafnvel að svokallaður slæmur andi verði til að trufla framrás þess sem mögulega gæti reynst jákvætt og bjóði sjálfum sér í heimsókn í glasið á borðinu sem þið eru að fikta með. Ef þið eruð aftur á móti jákvæðir sjálfir getur slíkur andi alls ekki sest að í ykkur heldur forðast fremur samskipti við ykkur til lengdar eins og aðra sem eru jákvæðir. Það þýðir þó ekki að viðkomandi geti ekki valdið ykkur einhverjum vandræðum áður en hann hverfur á braut. Það sanna dæmin því miður. Borðdans er og verður öllum þeim sem hann stunda og vita ekkert um ókunng öfl, virkilega varhuga­verður. Draugagangur svokallaður kemur oft í kjölfar andaglasatilrauna og fólk telur sig oft á tíðum finna mikinn óhugnað magnast upp ef verið er að leika sér við og með ókunnug öfl.
Geðheilsunni telft í tvísýnu
Þið talið um að þið séuð eins og helteknir af þessu og jafnframt að þið séuð mjög hræddir á milli. Eins segist þið finna fyrir eirðarleysi og öðrum áður nánast óþekktum tilfinningum og geðhrifum. Þetta er ekki gott og segir bara það, að borðdansinn verður að hætta og það strax. Jafnframt þessu spyrjið þið hvort þátttaka ykkar í þessum ósóma geti leitt til geðveiki hjá ykkur. Það liggur í augum uppi, að ef þið hættið ekki þessu fikti, þá er ýmislegt miður gott sem getur hlotist af þessu, auk þess sem það bendir flest til að þið hafið ekki geðheilsu til að taka svona djarfa andlega áhættu. Það virðist beinlínis vera ykkur ofviða miðað við þær upplýsingar sem þið gefið. Hvort þið getið orðið geðveikir af öllu fiktinu veit ég ekki í ykkar tilviki. Slíkt fikt hefur kostað fólk geðheilsuna því miður, en við vonum bara að ef þið hættið þessu hið snarasta þá séuð þið þar með komnir úr slíkri hættu, hafi hún þá verið til staðar. Vissulega er verið að tefla geðheilsu sinni í hættu, þegar verið er að fikta við öfl sem þegar hafa reynst vera neikvæð og hafa sett sitt mark á líðan ykkar eftir því sem þið segið. Allt andlegt, sálrænt og tilfinnigalegt áreiti sem veldur stöðugum óttablöndnum óþægindum og taugaveiklunarkenndum getur aflagað geðlheilsu okkar, ef betur er að gáð og er það svo sem ekkert dularfullt, heldur óþægileg staðreynd.
Andsetni getur verið staðreynd
Þess vegna er áríðandi, eins og áður sagði, að koma aldrei framar nálægt neinu sem yfirleitt tengist kukli sem þessu. Þið ættuð að biðja um guðlega vernd og jafnframt biðja Jesús Krist að umvefja ykkur með nálægð sinni og elsku. Þið skuluð jafnframt biðja fyrir þessum ógæfusömu verum og óska eftir því við Guð að þeim verði leiðbeint frá villu síns vegar ef mögulegt er. Eins jafnframt að þeim veitist hvers kyns vellíðan sem mögulega má gefa þeim og þær gætu notað sér til að breyta hugsunum sínum og slæmri framkomu.Ekkert í bréfinu segir til um eða gefur til kynna að þið séuð andsetnir, en vissulega eru til dæmi um slíkt. Um leið og við verðum hrædd og reikul hrynja andlegir varnarveggir okkar og líkur á hvers kyns vandræðum vegna andlegs fikts margfaldast. Þó ekki sé þannig staða algeng, þá er andsetni þó til staðar í fólki en í undantekningartilvikum sem betur fer. Eitt tilvik er reyndar þegar einu tilviki of mikið satt best að segja, vegna þess að andsetni er virkilega óhuggulegt fyrirbæri og ég vildi engum óska að sjá slíkt gerast kannski hjá sínum nánustu.
Mikilvægi raunsæis
Í öllum tilvikum sem varða sammannlega reynsluþætti tilveru okkar og reynast okkur erfið, er ágætt að temja sér að vinna á þeim af raunsæi og hyggindum. Ef við íhugum íbúðir okkar eða líkama, þá er hægt að bera þetta tvennt saman við andlegt fikt á vissan hátt. Við göngum ekki um nakin fyrir framan hvern sem er og myndum sennilega aldrei gera það. Eins er að við vitum að við skiljum íbúðir okkar ekki eftir galopnar. Ef við gerðum það er ekkert eðlilegra en að eitt og annað miður óæskilegt kynni að detta þar inn óboðið. Okkur og öðrum heimilisföstum til mikillar mæðu. Það má því segja að með því að fara að fikta við ókunn öfl eins og það sé ekkert eðlilegra séum við að kalla yfir okkur aðstæður og ástand sem mikið má deila um hvort að sé skaðlegt eða ekki. Við getum flest reiknað út líkur á vandræðum, ef t.d. stigi dettur ofan á höfuð okkar fyrir röð af tilviljunum. Það geta hlotnast af þannig höggi áverkar og mikil vandræði kvilla og sjúkdóma þó síðar verði. Á þessum upplýsingum sést að það er hreinn hálfvitaháttur að gefa löngun sinni í að fara í andaglas líf.Vonandi getið þið félagarnir eitthvað pælt í svörum mínum og hugsanlega áttað ykkur á að það er ekki alltaf þess virði að velta sér uppúr andlegum málefnum eða dulrænum. Sér í lagi ef við þekkum lítið hvernig þau virka eða lifa. Best er fyrir ykkur unga fólkið að velja bara og hafna í þessum efnum sem öðrum með þeim fyrirvara að það er oft því miður alls kyns kukl í gangi, þó erfitt geti verið að átta sig í fljótu bragði á slíku. Innan um og saman við eru svo aftur á móti frábærir hlutir að gerast sem rekja má beint til dulhyggju hvers konar og húrra fyrir því. Eða eins og stóri fermingarstrákurinn sagði um daginn í góðra vina hópi:,, Elskurnar mínar, ég verð ennþá að sofa með bangsa hjá mér, því ég er svo rosalega myrkfælinn síðan ég missti trúnna og fór að pæla svona mikið í dularfullum fyrirbærum. Nú er ég stopp í bili og ætla að hugsa meira um skólann og áhugamálin sem aðallega eru hálf draugaleg. Hvað um það ég er farinn að fara í kirkju á sunnudögum og það er meiriháttar og þar er ég aldrei hræddur.Var einhver að segja að ég ætti áhugamál? Ekki? Nú ég hef þá bara heyrt í draug... eða þannig.”

Með vinsemd
Jóna Rúna.

Hindranir

Andlegar sem líkamlegar torfærur eru liður í lífi margra okkar. Ef við höfum ákveðið að ná árangri í einhverju máli getur okkur þótt ósanngjarnt og fjötrandi að finna til þess að verið sé að tefja framkvæmdir okkar og framgang að ósekju.

Við getum reynt að spyrna á móti og ákveðið að halda okkar striki þrátt fyrir hlekkina. Auðvitað getur það reynst okkur torvelt og aftrandi ef augljósar hömlur og truflanir eru eins og slagbrandar fyrir áætlunum okkar og þrám. Þegar þannig árar skiptir máli að við séum bæði jásýn og hugrökk og veljum fremur að sigrast á viðstöðunum en að gefast upp fyrir höftunum og láta deigan síga.

Við verðum jafnframt að átta okkur á gildi þess sem við kjósum að aðhafast og vera nokkuð viss um að það sé þess virði að berjast fyrir. Við getum ekki verið viss um að allt sem við viljum sjá vaxa og dafna geri það án óþæginda og tálma. Oftast þurfum við að vera ákveðin og stefnuvís ef okkur langar til þess að sjá ákjósanlega uppskeru af því sem við áætlum og sáum

Torveldar aðstæður og afstýrandi geta óneitanlega verið reynslumiklar og þroskaörvandi. Eriðleikar eru til þess að sigrast á þeim og það er ekkert fengið við að allt sem við tökumst á við gangi snuðru- og skakkafallalaust fyrir sig. Við sem viljum hafa fyrir hlutunum vitum að það sem krefst fyrirhafnar og fórna vex oft og eflist í höndunum á okkur þannig að við getum verið bæði hreykin og stolt af.

Hindranir eru margvíslegar og oftar en ekki eru þær fylgifiskar góðra og athyglisverðra markmiða. Best er því að við lítum þær jásýnum augum en ekki neisýnum, jafnvel þó þær séu tímabundið bæði hamlandi og aftrandi. Því er rétt að við eflum með okkur aukna tiltrú á mikilvægi þess að verða ekki sjálf til þess að veikja vinningsvonir okkar með uppgjöf og depurð á tímum tálma og óhagræðis. Við sem viljum vinna til sigurs í sem flestum tilvikum eigum að vera fastákveðin í því að láta ekki augljósar hindranir og skorður draga úr baráttuvilja okkar og vissu um mikilvægi þess sem við erum að vinna að hverju sinni.

Ágætt er að muna að við sem erum ákveðin og stefnustaðföst eigum mun betra með að yfirstíga og vinna bug á truflunum og öftrunum en þau okkar sem eru lingeðja og sérhlífin. Hyggilegt er að við séum vonglöð og kröftug þegar þvergirðingssveifla og útilokunarþytur umlykja markmið okkar og þrár. Höfnum því hindrunum sem fjötrandi og frjálsræðissviptandi afli í lífi okkar og tilveru. Lítum á torveldar aðstæður sem áskorandi aflgjafa og sigurvísandi árangurskveikju frekar en niðurrífandi og neisama tálmagildru sem örðugt er að uppræta og vinna bug á þrátt fyrir góðan vilja.

JRK

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home