Kaerleikshvetjandi blogg

sunnudagur, mars 12, 2006

Lítill drengur í lífshættu
Flest okkar búa yfir ýmsum sálrænum hæfileikum þótt þeir kunni að hafa farið framhjá okkur. Þannig munu ýmsir kannast við nánari umhugsun, að hafa orðið varir við hugboð hjá sér einhvern tímann. Þetta getur lýst sér með ýmsum hætti. Sumir finna t.d. á sér óvænt gestaboð eða þess háttar. Aðrir vita einhvern veginn áður en þeir svara í síma hver vill tala við þá o.s.frv. Önnur skipti geta hugboð verið miklu mikilvægari en þessi. Þannig var hugboð sem ég fékk í eldhúsinu hjá mér fyrir allnokkrum árum. Það var kvöld og ég var við matargerð og alls ekki að hugsa um neitt sérstakt nema náttúrulega pottana og það sem í þeim var að malla. Allt í einu kom yfir mig furðuleg tilfinning sem ég botnaði ekkert í. Það sótti nefnilega á mig sterk löngun til að fara út úr íbúðinni og fram á gang, en á þessum tíma bjó ég á þriðju hæð í blokk. Ég reyndi eins og ég gat að reka þessa vitleysishugmynd úr huga mér. En það blátt áfram tókst ekki. Eftir nokkurn tíma, þegar tilfinningin var orðin nánast óbærileg, ákvað ég að kíkja fram á gang og athuga hvort kannski væri eitthvað að ske. Ekkert virtist þar að finna,en þó jókst ónotatilfinningin að mun þegar fram var komið. Stigagangurinn var langur og voru sex íbúðir á stigapallinum. Í örvæntingu minni gekk ég hröðum skrefum eftir ganginum í átt að stórum svölum sem þar voru. Svalir þessar voru hugsaðar sem neyðarútgangur ef í húsinu yrði bruni. Þegar þangað kom blasti við skelfileg sjón. Á handriði svalanna hékk u.þ.b. 4 ára gamall drengur klofvega, aldeilis laus við að skynja þá gífurlegu hættu sem hann var í. Mér var mjög brugðið og nú voru góð ráð dýr. Ég sá í hendi mér að ekkert mætti raska ró drengsins því þá gæti honum brugðið svo að hann steyptist fram af svölunum, niður þrjár hæðir og biði jafnvel bana af. Fyrir neðan svalirnar var bílastæði og var það malbikað. Ég ákvað að læðast að drengnum og reyna að ná taki á peysunni hans. Ég beið þar til ég taldi öruggt að drengurinn sæi mig ekki og læddist hröðum skrefum að honum. En um leið og ég snerti peysuna hans rak hann upp skaðræðisóp og virtist um tíma ætla að renna úr greipum mér. Ég henti mér þá yfir hann og tókst við illan leik að koma bæði mér og honum ofan af handriðinu og niður á svalagólfið. Þar brast ég í grát með lítinn undrandi dreng þéttingsfast í fangi mér, eins og um mitt eigið barn væri að ræða. Það er ljóst að þarna bjargaði sú ónotalega tilfinning sem mig greip, ókunnugum dreng frá hörmulegum aðstæðum sem enginn veit hvað endi hefðu fengið hefði ég ekki látið stjórnast af hugboðinu sem ég fékk af engu tilefni í eldhúsinu mínu. Gefum því hugboðum okkar jafnan gaum og reynum að fara eftir þeim ef þau benda athöfnum okkar í ákveðnar áttir.
JRK

Manngæska
Eins og við vitum er eðli okkar mannanna mismunandi og eitt af því sem prýðir einstaka mann er manngæska. Það er vitanlega enginn vandi að vera slæmur og neilægur en það getur verið flókið og fyrirhafnarmikið að vera góðgjarn og réttsýnn.
Hjartagæska kemur meðal annars fram í því að vilja öðrum vel við allar aðstæður. Gæska í öllum myndum telst uppbyggilegur, andlegur aflvaki og ætti því að efla járæn og heilbrigð samskipti. Það er mikilvægt að vera öðrum góður. Ekkert launungarmál er að við sem erum þannig innstillt andlega finnum fyrir vellíðan og friði í samskiptum við aðra. Líknarlundin er mannkær og óeigingjörn atferlisstefna sem finnur venjulega sinn vitjunartíma. Hún verður þeim sem njóta hennar venjulega til blessunar og ávinnings. Veglyndi getur verið margs konar en telst þó fyrst og fremst tengjast kærleikshvetjandi, jágjörnum lífsviðhorfum.
Við verðum sjálf að rækta upp og hlúa að þeim eðlisþáttum í innra lífi okkar sem okkur þykja eftirsóknarverðir og heppilegir til að göfga og fága. Góðsemi verður ekki til fyrir tilviljun eða af sjálfu sér. Það þarf að rækta hana og efla eins og annað. Hún fær þó frekar líf í hugskoti okkar og athöfnum ef við skiljum mögulegan tilgang hennar og teljum hana eftirsóknarverðan aflvaka og mikilvægan í samskiptum. Það verður enginn veraldlega ríkur af því einu að ausa aðra kærleika en viðkomandi eignast þess í stað hugþýðan og hamingjuríkan innri auð sem hvorki ryð né mölur fær grandað.
Ágætt er, ef við erum ósátt við aðra, að reyna eftir megni að hugsa fremur jákvætt en neikvætt til viðkomandi. Hyggilegt er að við mildum vísvitandi neigjarna afstöðu til þeirra sem við eigum í erjum við og þá helst með heppilegu, góðgjörnu hugarþeli. Ástúð getur aldrei misst marks þótt að skilyrði einstaka fólks til að meðtaka hana séu óviðunandi. Það að verða mannkær og jágjarn hlýtur að vera eftirsóknanlegt keppikefli fyrir þá sem vilja efla gæskuna í sjálfum sér og öðrum. Við vitum að það er enginn vandi að vera góður við þann sem er elskulegur og viðmótsþýður. Við vitum líka að það þarf heilbrigða, andlega lífssýn til að sætta sig við og hlúa að þeim sem eru óbilgjarnir og neikærir. Göfgi og manngæska ættu að auka líkur á fullkomnari samskiptum vegna þess að þannig afstaða til lífsins og annarra ýta undir það besta sem innra með okkur býr.
Best er að byggja upp og rækta af kostgæfni það andlega atferli í samskiptum sem er gæskuríkt og göfugt en ekki það sem tengist andlegum nöturleika og annarri álíka ógerð. Manngæskan tengist hugfáguðum og hamingjuhvetjandi lífsstíl. Hún eflir okkur sem góðar manneskjur og þess vegna er vel þess virði að rækta hana upp í innra lífi okkar, sé hún af skornum skammti. Það er mikilvægt að vera mannkær og jásýnn; vera þess megnugur að ylja öðrum og þurfandi, af mannúðlegri mýkt og andlegri reisn.
JRK

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home