Kaerleikshvetjandi blogg

mánudagur, febrúar 27, 2006

Skáta- og stúkulíf

Það er margt í fortíð manns sem er áhugavert að rifja upp. Sumt er þess eðlis að það er ekki þörf á því, annað óneitanlega kveikir með manni skemmtilegar minningar sem mögulega koma aldrei aftur nema sem slíkar. Eitt af því sem ég hef áhuga fyrir að fara inn á, til gamans, er að ég stundaði bæði stúkustörf og var skáti. Skátarnir buðu upp á margt sem var eftirsóknarvert. Ég var Ljósálfur að mig minnir, átti minn eigin búning og skundaði til hátíðarhalda á 17.júní í viðlíka uniformi. Það er eini búningurinn sem ég hef haft, því þegar ég lít til baka í barnastúkustörfin, þá voru þar engir búningar heldur eitthvað sett um hálsinn á manni sem undirstrikaði hlutverk manns. Ég til dæmis, var kapilán í barnastúkunni Æskunni og þótti það mikill heiður og sat maður á sérborði með skraut um hálsinn sem sagði til um stöðu manns og var þetta þess eðlis að maður nánast flaug á fundina til þess eins að setjast í stólinn sinn, taka við borðanum um hálsinn og brosa framan í lýðinn sem var óæðri en maður sjálfur. Síðan sat maður stífur sem stöng, nánast allan tímann með smá frávikum, sem lágu í því að maður varð að blása af og til frá sér, til að almúginn gæti tekið við manni aftur eins og tilefni gaf til.

Í Æskunni var gaman að vera því þar voru flutt leikrit, lesin framhaldssaga, þar var flest það veitt og gefið sem börnum þótti eftirsóknarvert og gaman að. Það var td. maður sem stýrði stúkufundunum, sem seinna að ég held varð einhvers konar bæjarráðsmaður. Hann var ótrúlega fáránlegur í vextinum og stór hluti tímans fór í að íhuga og pæla í hvernig í þremlinum viðlíka gerpi hafði gengið út, en hann átti sér konu sem var eftir atvikum nokkuð sæt. Þessi piltur hafði unnið sig upp úr engu að einhverju, þar á meðal að verða yfirmaður í barnastúkunni Æskunni, en raunin var sú að svo gaga var hann að hann gat ekki einu sinni klárað barnaskólann, hvað þá gagnfræðapróf eða eitthvað meira en það. En sem yfirmaður í Æskunni virtist hann töluvert merkilegur þótt forsagan segði til um allt annað. Af tillitsemi við viðkomandi vil ég ekki geta nafns hans þó það væri í raun full ástæða til þess af því að átakanlegri yfirmann var vart hægt að hafa, sem þó skiptir litlu máli þegar um jafn einfalda hlut var að ræða.
Á hverjum sunnudegi árum saman, fór ég og sat fundi og fylgdi félagsskapnum úr gömlu timburhúsi í stórt steinhús sem er mun meira spennandi því í því húsi er í dag spilað bingó og fleira með tilþrifum. Skátastarfið var allt öðruvísi, maður þurfti meira segja að ganga með sérstakt belti til að teljast fullgildur skáti og það vill þannig til að ég á ekki bara mitt eigið belti enn þá í dag, heldur líka þó nokkur önnur og hef ég grun um að þau notist sum hver á karlpeninginn ef betur er að gáð. Hvernig þau komust í mínar hendur er mér óskiljanlegt, en gæti stafað af því að ég átti bróður sem var 14 mánðuðum yngri en ég, og þó hann hafi aldrei náð sömu hæðum í skátunum og stúkunni og ég, þá er ekki ósennilegt að hann hafi átt belti.

Eins og ég talaði um áðan, þá var alltaf viðhöfn á þjóðhátíðardaginn og maður þurfti að mæta eldsnemma til að undirbúa það sem framundan var. Maður fór með fána og gekk í skrúðgöngu uppáklæddur, alveg frá því að maður var lítill þangað til maður varð stór. Stundum voru teknar af manni myndir en stundum ekki, en á þessum árum var Skátaheimilið í bárujárnshúsi sem voru gamlir herkofar sem íslenska ríkið erfði eftir yfirtöku hersins á sínum tíma. Í sambandi við þennan félagsskap þá týndist ýmislegt til og þurfti maður að eiga dálk sem var festur í beltið og notaður af og til, aðallega til að stinga í epli sem voru þó ekki á lausu á þessum árum. Einstaka fólk, sér í lagi þeir sem sigldu áttu viðlíka ávexti. Það var þá um að gera að krækja sér í svona ávexti og skera þá upp á fundum með viðhöfn, en það þótti við hæfi.

Í næsta húsi var stúlka sem átti pabba sem sigldi og mamma hennar hafði það fyrir sið að gefa mér ávöxt um leið og henni áður en við fórum í skólann. Þetta þótti mé rmikið um þar til einn daginn henni varð á að fara í síldartunnuna áður en hún tók á eplinu og annað eins óbragð fer varla sögum af, en ég var heppin því ég fékk alltaf a.m.k. hálft epli stúlkunnar og var alltaf mætt vel í tíma áður en lagt var af stað til að tryggja það að ég fegni ávöxtinn. Þegar ég lít til baka yfir þennan tíma þá get ég ekki annað en glaðst yfir honum. Við höfðum til dæmis húfur höfðinu sem voru eins og bátar í laginu og undirstrikuðu frekar en annað hvað mikilvægar við vorum sem Ljósálfar. Mamma mín hafði þegar ég var aðeins þriggja ára gömul saumað á mig flík úr hvítum hveitipoka, með einmitt svona bát sem ég átti í fórum mínum árum saman. Í dag þætti nú ekki smart að sauma úr hveitipoka flík og höfuðfat, þótt það væri allt útsaumað. Í dag þarf allt að vera svo flott og fínt og helst merkilegra en Gunna í næsta húsi á. Svo hveitipokar til útsaums myndi ekki þykja mjög merkilegar yfirhafnir í dag en þóttu það í den. Mamma mín var viðlíka hannyrðakona að allt sem við vorum í var unnið af henni sjálfri, hvort sem það hét buxur, úlpur, peysur eða annað. Hún saumaði mikið upp úr fötum af öðrum og sat fram á nætur bæði við saumaskap og annars konar hannyrðir, sér í lagi þegar kom að því að hann eitthvað á okkur börnin. Ég get ekki fullþakkað henni þegar ég lít baka og minnist hennar starfa, sérstaklega þegar ég hugsa um slánna og bátinn góða úr hveitipokanum. Svo man ég eftir úlpu sem ég átti á Skátaárunum, sem veitti ekki af að nota, því þótt ekki væri langt að fara á skátafundina, þá þótti gott að eiga úlpu sem hlífði vel og það gerði einmitt flíkin mín sem saumuð var upp úr gamalli úlpu af afa mínum. Þá voru vetrarhörkurnar svo miklar að maður varð að pakka sér inn áður en maður vogaði sér að fara á milli húsa. Búningurinn frægi var þá vöðlaður undir aðrar flíkur, og kom í ljós allur krumpaður, en maður var svo sæll með þetta allt saman þótt það væri notað og margnotað, teygt og togað og þvælt á allrahandamáta. Þá voru þetta manns eigin flíkur þótt tilkomnar væru úr flíkum annarra.

Þegar ég lít til baka og hugsa um alla endurvinnsluna sem fór fram á mínum ungdómsárum í bæði fatnaði og öðru, þá hugsar maður með hlýju til þess tíma þar sem allt skipti máli. Engu var hent, allt var skoðað, skilgreint og úr því reynt að finna bestu leiðina til hagsbóta fyrir okkur sem ekkert áttum í raun því viðlíka var fátæktin. Alltaf vorum við fínustu börnin í götunni því við áttum mömmu sem kunni að nota það sem var gamalt og úr sér gengið, og gerði úr því nýjar flíkur sem gerðu börnin hennar, sem voru langt frá því að vera eins falleg og hún sjálf, eins og kónga og drottningar, gangandi um í gömlum hveitipokum og öðru. Þetta var frábært hjá henni og þótt Æsku og Skátatíminn hafi verið frábær, þá var það ekkert miðað við þann tíma sem ég átti með mömmu þegar hún var að búa til flíkur, því hann sýndi svo ekki var um villst, hve mikill listamaður hún var og hvað henni var umhugað um að börnin hennar væru fín.

Skrifað 27.febrúar 2006

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home