Kaerleikshvetjandi blogg

þriðjudagur, mars 14, 2006

Mamma misnotar mig kynferðislega
(Svar til Begga sextán ára)
Bréf:
Kæri Jóna Rúna! Það er mjög erfitt að byrja þetta bréf til þín, enda liggur mér við að hætta við það strax.Samt ætla ég að reyna að stynja þess upp, þó mér líði ömurlega áður en ég byrja að skrifa nokkuð.Ef ég væri ekki að niðurlotum kominn andlega, þá myndi ég sennilega gera allt annað en þetta. Ég hef sem betur fer fylgst lengi með bréfunum þínum og smátt og smátt hefur mér fundist að þér gæti ég treyst. Ég veit að það sem ég vil ræða við þig er ótrúlegt en satt því miður. Ég er bara sextán ára og frekar feiminn og óöruggur. Ég bý með móður minni sem er við það að eyðileggja líf mitt held ég.Ég á ekki systkini eða er í neinu sérstöku sambandi við ættingja fjölskyldunnar. Það sem mig langar að tala um við þig er mamma mín og vandamál sem tengist okkar samskiptum.Ég vil biðja þig fyrirgefningar fyrirfram á hvað þetta er ógeðslegt sem ég ætla að segja þér, en ég bara verð. Við mamma höfum búið saman ein síðan pabbi minn yfirgaf okkur vegna annarra konu, fyrir um það bil fimm árum síðan. Síðan hann fór hefur allt breyst hjá okkur og eiginlega er svo komið að ég held að ég sé að geðbilast eða þaðan af verra. Eftir að pabbi fór af heimilinu fór fljótlega allt að breytast. Mamma hefur alltaf verið erfið í skapi, en mjög góð við mig, nema þegar hún missir stjórn á skapi sínu sem gerist þó nokkuð oft. Hún er áfengissjúklingur og fer á það sem ég held að séu kallaðir túrar. Þá verður hún allt önnur og ógeðslegri persóna og það er einmitt það sem ég ætla að segja þér frá, af því að ég afber ekki lengur að lifa einn með þessa skömm innra með mér hvort sem er. Ég hef síðan ég var um fermingu sofið í sama rúmi og hún. Þetta byrjaði mjög fljótlega eftir að við fórum að sofa saman í rúminu hennar. Eina nóttina eftir að hún hafði verið drukkin í tvo daga finn ég þar sem ég er við hlið hennar, að hún er að káfa á kynfærunum á mér. Ég varð algjörlega máttlaus og það sem gerðist á eftir er einmitt það sem mér finnst svo ógeðslegt. Hún lét mig hafa samfarir við sig og gerir enn. Í þrjú ár hefur hún notað mig oft og iðulega og það byrjar alltaf eins. Hún fer á fyllirí og ég sofna og vakna upp við það að hún er að káfa á mér og síðan skipar hún mér að vera með sér. Ég er svo miður mín að skrifa þér þetta að ég verð hvað eftir annað að hætta og jafna mig. Ég hef engum sagt þetta fyrr og ætla engum að segja þetta, því ég skammast mín svo. Mér finnst ég ógeðslegur og hata sjálfan mig svo mikið, að mig langar helst til að drepa mig sjálfan. Þegar hún er ódrukkin, þá hef ég ekki kjark til að segja henni að ég vilji þetta ekki, því ég er hræddur um að hún brjálist og segi mig ljúga þessu til að hefna mín á henni. Hún hefur ekki í mörg ár sagt mér neitt um tilfinningar sínar til mín og hún myndi aldrei láta sér detta í hug að misnota mig svona ódrukkin.Að minnsta kosti hefur hún ekki gert það enn.Við tölum aldrei um þetta eftir á.Það er engu líkara en hún breytist við drykkjuna í ömurlega manneskju sem nýtur þess að svala fýsnum sínum og það með syni sínum, sem er að mínu mati ógeðslegt og ég þoli ekki að það skuli gerast. Hún kúgar mig til þessara hluta og ég virðist vera svo mikil rola eða kannski er ég svona ömurlega hræddur við hana, að ég bara er eins og tuskudúkka í höndunum á henni. Þegar ég er skólanum finnst mér eins og allir viti þetta og að þetta hljóti að sjást utan á mér. Ég hata sjálfan mig og er viss um að ég ætti að fremja sjálfsmorð, þó ekki væri nema til að losna við þessa skömm og komast í burt frá mömmu. Kæra Jóna Rúna hvað á ég að gera? Getur verið eðlilegt að manneskjan geri þetta? Mamma er í góðri vinnu og við höfum það sæmilega gott þannig séð. Ég má varla umgangast vini mína og hún skiptir sér meira að segja í hverju ég geng dags daglega.Ég er algjörlega á valdi hennar. Er ekki hætt við að ég verði eitthvað afbrigðilegur vegna þessa að þetta er svona eins og það er? Ég hef á tilfinningunni að ég geti ekki hugsað mér síðar meir að umgangast konur með þessum hætti.Get ég orðið á móti konum? Heldur þú að það sé mögulegt að ég verði hommi, af því að hún er búin að fara svona með mig? Það hefur hvarflað að mér að tala um þetta allt við prestinn okkar en ég missi alltaf kjarkinn. Ég skammast mín líka svo mikið fyrir þetta, að mér finnst eins og allt mitt líf eyðileggist ef ég segji frá þessu. Viltu segja mér hvort að það geti verið að hún sé brjáluð? Verður mér refsað fyrir þetta hinum megin? Eru til helvíti hinum megin. Getur verið að hún sé að hefna sín á mér með þessu af því að pabbi brást henni?Viltu vera svo góð að svara mér sem fyrst, en passa að breyta bréfinu og alls ekki nota nafnið mitt. Bara dulnefnið sem fylgir hér með.
Með þakklæti og von um svör
Beggi

Elskulegi Beggi! Mikið var gott að fá bréf frá einhverjum sem lætur sér svolítið annt um mig. Þakka þér kærlega fyrir áhuga þinn á því sem ég er að gera og það annað sem kemur fram í bréfi þínu og tengist því hvað mér gæti þótt erfitt að lesa og síðan kannski svara. Veistu það að ég þoli ýmislegt og það er kannski ekkert skrýtið vegna þess að ég hef farið í gegnum heilmikið sem hugsanlega er ekkert síður ógeðslegt en það sem þú hefur farið í gegnum. Málið er að þó þú hafir valið að skrifa mér um þann ömurleika sem þú býrð við mátt þú alls ekki láta þér detta í hug að ég sé ekki fær um að sjá að þú hefur ekki sjálfur komið þessum hrylling af stað, þó þú sért neyddur til að taka þátt í honum á ófyrirleitinn máta. Hafðu því engar áhyggjur af mér þó ég hafi lesið það sem þú skrifaðir mér nokkrum sinnum. Ég veit að þú ert ekki eini strákur landsins í einmitt þessum vanda og er þess vegna viss um að það er heppilegt að við skoðum þínar aðstæður, ef það mætti verða til að auðvelda þér eitthvað ásamt þeim öðrum strákum sem eru í nákvæmlega sömu þrengingum. Ég nota innsæi mitt, hyggjuvit og reynsluþekkingu áfram til leiðsagnarinnar og mögulegra ábendinga. Mitt hlutverk er ekki að leysa neitt, fremur koma með hugmyndir og veita handleiðslu sem gæti hugsanlega orðið vísir að því að hefðbundnar og bókfærðar leiðir vektu áhuga þinn. Því að í þínu máli verða hefðbundnar aðferðir sérfræðinganna að koma þér til hjálpar ef þú átt að ná að uppræta vanda þinn.

Stígamót mikilvæg miðsstöð fórnarlamba sifjaspella
Ég hef áður fjallað um sifjaspell og þá vegna þess sem er gagnstætt því sem er að gerast í þínu tilviki. Þar var það faðir sem misnotaði að mig minnir öll börnin sín, a.m.k. stúlkuna sem skrifaði mér. Við eigum sem betur fer í samfélaginu í dag kröftug samtök sem berjast gegn kynferðislegri misnotkun af hvað tagi sem er og heita þau samtök "Stígamót". Vissulega hefur flest umfjöllun um afbrot af þessu tagi snúist meira eða minna um misnotkun á stúlkum eða konum, en mun minna á drengjum eða körlum. Vitanlega verð ég að viðurkenna að til mín hafa borist þó nokkur bréf álíka þínu og það skelfir mann alltaf meir og meir að annar eins óþrifnaður andlegur sem líkamlegur skuli viðgangast í samfélagi sem á að teljast siðfágað eins og okkar ágæta þjóðfélag, en svona er nú málum samt fyrir komið all víða. Til að byrja með og áður en ég legg útaf bréfi þínu, vil ég skora á þig að snúa þér umsvifalaust til þessara samtaka og síminn hjá þeim er 5626868. Þessi þrautaganga þín er þess eðlis að full ástæða er fyrir þig til að fá hjálp þeirra sem til álíka vanda þekkja, til þess bara hreinlega að missa ekki móðinn endanlega eins og þú ert orðin niðurlægður og brotinn af þessari hrottalegu meðferð mömmu þinnar á þér varnalausum.
Höldum vörð um mannréttindi barna
Eins veistu elskulegur, að þar þarft þú ekki að óttast neitt sem heitir að þér verði hafnað eða vísað frá mögulegri hjálp, þó svo að þú sért kannski einn af fáum af karlkyninu sem hefur sem betur fer vit á að hrópa á hjálp meðal annars með því að skrifa mér núna.Eins vil ég jafnframt skora á alla foreldra sem hafa minnsta grun um að börnin þeirra hafi verið misnotuð að hafa strax samband við starfsfólk "Stígamóta". Það má líka benda öðrum sem hafa grun um að álíka viðurstyggð sé í gangi einhvers staðar, að koma skilaboðum til réttra aðila svo sem þessara samtaka eða hreinlega geta þessa gruns við lögregluyfirvöld. Við verður að halda vörð um mannréttindi lítilmagnans í þessu samfélagi okkar hvað sem raular eða tautar.Það er því miður sennilegt, þó ekki sé það sannanlegt, að aðeins toppur ísjakans í þessum skelfilegu málum sé komin uppá yfirborðið.

Í burtu með heimilisböðlana
Það er jafnframt skylda okkar allra að halda vörð um mannréttindi barna þessa land með þeim hætti, að ef við höfum einhverja vitneskju um að það sé verið að brjóta á þeim kynferðis­lega heima eða heiman, að koma upp um slíkt athæfi þeirra afbrotamanna eða kvenna sem leyfa sér að beita saklaus börn þannig valdníðslu. Öll umfjöllun sem hefur í för með sér möguleika á að gera gerendur þessara sjúku athafna óörugga með sig er af hinu góða. Enda er full ástæða til að gera heimilsböðlum þessa land ókleift að beita áhrifum sínum sem eru í formi svika við börn þeirra. Í stað þess að vernda börnin sín svíkja þeir þau og eyðileggja lífsmöguleika þeirra. Þess vegna segi ég og meina það: "Í burtu með heimilis­böðlana, því þeir ástunda ófyrirgefanleg grimmdarverk á lítilmagnanum.” Á meðan þessir kynferðislegu harðstjórar vaða áfram í skjóli leyndar og ótta fórnarlamba sinna við refsingar frá þeirra hendi segi þeir frá brotinu, þá er hætt við að endalaust bætist við börn í hóp fórnarlambana sem ekki geta varið sjálf sig fyrir ofbeldi sem þessu. Það tjón sem fórnarlömbin verða fyrir er gjörsamlega óbætanlegt eftir því sem komið hefur í ljós. Kannski ekkert skrýtið þar sem ofbeldisverkin eru oftar en ekki í formi sifjaspella sem þeirra nánustu eiga allan þátt í að gera möguleg.Nokkuð sem er með algjörum ólíkindum og á allan hátt ófyrirgefanlegt, auk þess að vera afar grimmdarlegt.
Uppeldi og siðferði
Í foreldrahúsum skyldi maður ætla ættu börn og unglingar að fá að vera í friði fyrir ofbeldi því sem sifjaspell er. Það að misnota barnið sitt með þessum hrottalega hætti er alveg ótrúlega aflagað siðferðislega fyrir utan það hvað þar er gróft og óbætanlegt trúnaðarbrot gagnvart barninu. Hvort um er að ræða hreina geðvillu eða fullkomna siðblindu hjá gerandanum í þessu tilviki, verða sérfræðingar í geðlæknisfræðum að meta en ekki ég. En alla vega er þarna á ferðinni gróft og ómannúðlegt brot á mannréttindum þínum, ásamt fullkomnum trúnaðarbresti milli þín og móður þinnar. Hætt er við þegar um sifjaspell er að ræða, að ekki sé bara um kynferðis­lega þörf að ræða, heldur og kannski ekki síst ófyrir­leitna valdafíkn þess sem nýtur þess að beygja þann sem er sýnilega "minnimáttar" undir sinn vilja með þessu sjúka og ósæmilega atferli. Æska barna okkar á ekki að liggja í ógn þeirri sem svona athæfi alltaf fylgir. Það ætti að vera sjálfsagður óumbeðinn réttur hvers barns að fá að njóta sín í uppvextinum á friðsaman og tryggan máta. Fólk sem vogar sér að fótum troða eðlilegt tilfinningasamband milli fullorðinna og barna með þessu fráleita athæfi, ætti alls ekki að eiga neitt færi á að hafa börn í sinni umsjón. Börnum á ekki að stafa hætta af foreldrum sínum, hvorki heima eða heiman, þó staðreyndin sé því miður oft allt önnur eins og í þínu tilviki óneitanlega.
Brennivínsdrykkja og brjálsemi
Þú talar um að hún framkvæmi þessar viðurstyggilegu athafnir einungis undir áhrifum áfengis og þar með ertu að telja sjálfum þér trú um, að henni sé bara ekki sjálfrátt eða að hún viti ekki hvað hún er að gera þér. Sannleikurinn er auðvitað sá, þó sárt sé að sættast á hann, að hún veit hvað hún er að gera, því ef hún gerir sér grein fyrir því að hún er kynvera undir áhrifum áfengis, þá veit hún jafnframt hvernig þeim hvötum er fullnægt. Hún veit jafnframt að það ert þú sem hún neyðir til að taka þátt í að svala fýsnum hennar og sjúkum tilhneigingum. Það er ekki hægt að fría hana ábyrgð á gjörðum sínum, vegna þess að hún er drukkin. Þá værum við að réttlæta hegðun hennar einungis vegna þess að hún með drykkjunni veikir eitt augnablik vilja sinn og dómgreind. Það er vissulega erfitt að horfast í við þá staðreynd að í móður þinni býr versti óvinur þinn. Í stað þess að vernda þig og uppörva, brýtur hún þig niður og svíkur þig ómannúðlega með því að gera til þín kynferðislegar kröfur sem eru með öllu óréttmætar og óréttlætanlegar.

Sifjaspell er helvíti fórnarlambsins
Það sem er kannski hroðalegast í þessu átakanlega mynstri sifjaspellanna, er að börn sem fá þannig útreið hjá foreldrum sínum, eiga varla undankomu auðið, nema með hjálp þeirra sem standa utan við vandann. Þess vegna verður fórnar­lambið sjálft oftast að leita sér hjálpar þar sem hægt er og með stuðningi sérfróðra að vinna á vandanum.Vegna þess að þú spyrð hvort geti verið eðlilegt að hún geri þér þetta þá segi ég: Nei! Þetta er afbrigðileg hegðun sem er með öllu óskiljanleg þeim sem standa utan við þannig valdníðslu og atferli það sem þessi sérstaka tegund ofbeldis fellur undir. Engin manneskja sem elskar barnið sitt býður því uppá helvíti það sem sifjaspell alltaf er fyrir þann sem fyrir því verður.
Abrigðilegur eða hommi
Vegna ótta þíns við það hvort þú verðir afbrigði­legur vegna þess að mamma þín hefur beitt þig kynferðis­legu ofbeldi er eðlilegt að segja, svo verður sennilega ekki, en þú mátt búast við að þig komi til með að hrylla við kynlífi yfirleitt á meðan þú ert að fá hjálp við að uppræta ranghugmyndir þær sem hlaðist af upp innra með þér og tengjast skökkum aðgerðum mömmu þinnar við þig. Hommi verður þú auðvitað ekki við það eitt að þér hefur verið misboðið gróflega á þennan hátt af einstakling af gagnstæðu kyni og það nánum ástvini. Samkynhneigð er að mínu mati meðfædd kynhegðun sem varla er hægt með ofbeldi eða ranghugmyndum að búa til í okkur.
Flest er hægt að skilyrða
Vissulega er þó hægt að fallast á að flest atferli hvort sem það er í eðli sínu rétt eða rangt er sennilega með til þess gerðum ásetningi og aðgerðum hægt ef löngun er til að skilyrða. Því fer náttúrlega betur á að skilyrða fremur það rétta en ranga í manngerðum og atferli fólks. Kynheigð okkar er meðfædd en hana má örugglega aflaga og skilyrða á ýmsan máta ef vilji er fyrir slíku. Hitt er svo annað má að séum við með vísi af kynhneigð til beggja kynja, er fremur sennilegt eftir að annað kynið hefur brotið af sér við okkur, að við veljum fremur hitt, sem gæti þá verið einstaklingur sem er af sama kyni. Til þess að slíkt gæti hent þig þrátt fyrir andúð á mömmu þinni, þyrftir þú af hafa þannig kynhneigð annað hvort eingöngu eða jafnframt gagnkynhneigð. Svo engar áhyggjur af afbrigðilegheitum eða samkynhneigð, því bara það að þú skulir vera að íhuga slíkt, gefur fremur til kynna að svo sé ekki. Það er að segja, að þú sért fæddur gagnkynhneigður og verðir þannig með réttum aðgerðum þeirra sem þér geta hjálpað út úr tíma­bundnum sálrænum vanda þínum sem kynveru af eðlilega gefnu tilefni.
Sálfræðihjálp og aflöguð samskipti
Auðvitað gæti verið fræðilegur möguleiki á að andúð þín og ótti við móður þína gætu haft áhrif til dæmis á mat þitt á hinu kyninu. Það er þá bara tímabundið og tengist þá fremur slæmum minningum um móður þína, en því að konur verði þér almennt fjötur um fót þegar inní framtíðina er komið. Þú þarft örugglega sálfræðing til að hjálp þér þarna.Þegar svona framferði okkar nánustu er í gangi, veitir ekki af að leita sér sál-eða geðlæknishjálpar og það sem allra fyrst. Mjög sennilega getur þér almennt stafað ótti af konum og átt erfitt með að teysta þeim eftir að mamma þín hefur svona kirfilega brotið við þig trúnaðinn og traustið sem á að vera á milli barns og foreldris. Mamma þín er ekki tákræn fyrirmynd fyrir venjulega konu. Sú fyrirmynd sem hún hefur kosið að vera í huga þér er mjög sjúk og afsiðuð, þar sem hún er kynferðisleg. Enda hegðun hennar langt frá því að getað talist í, lagi eða heilbrigð á einhvern hátt. Hvort hún er brjáluð skal ósagt látið. En mér virðis fátt heilbrigt eða á annan hátt eðlilegt við þá hegðun ofbeldis sem hún hefur undanfarin ár boðið þér uppá. Siðferðisvitund hennar er gjörsamlega í molum og eins afbökuð og hugsast má. En hvort hún telst brjálsemi eða ekki verða sérfróðir að meta en ekki ég.
Hefndir eða ófyrirleitni
Hvað varðar vangaveltur þínar um það hvort hún með því að beita þig kynferðislegu ofbeldi sé að hefna sín á föður þínum sem yfirgaf ykkur vegna trúnaðarbrots í sambúðinni, getur verið erfitt að fullyrða um. Mögulega má svo vera ómeðvitað hjá henni, en þó er furðulegt og með öllu óréttlætanlegt ef hún telur sig getað hefnt sín á föður þínum fyrir svik hans við ykkur með þessum átakanlega hætti. Hver er nákvæmlega sálfræðilega ástæða fyrir þessari ófyrirleitni hennar er ákaflega erfitt að segja til um. Ekki er þó ósennilegt að góður sálfræðingur eða geðlæknir gæti greitt úr því ferli fyrir þig, þó mér sé það með öllu óskiljanlegt. Það er kannski engin furða, þar sem ég hefði satt best að segja alls ekki látið mér til hugar koma yfirleitt að annað eins og það sem þú hefur mátt þola skuli koma til greina sem möguleiki í samskiptum barns og foreldris.
Sjálfsvíg og refsingar hinum megin
Hvað varða hugsun þína um að svipta sjálfan þig lífi er þetta að segja: Það er með öllu alrangt að láta slíkt svo mikið sem hvarfla að sér. Þó uppgjöf þín og andúð á hegðun mömmu þinnar hafi komið þér niður í myrkur tímabundins þunglyndis, er rétt að benda þér á að þú ert ekki betur settur hinum megin. Þú er ekki sá seki í ykkar samskiptum heldur hún. Málið er þó þannig, að vissulega yrði þér ekki refsað í ríki Guðs. Eins er það alveg ljóst að sál þín mun lifa líkamsdauðann og í henni er persónuleikinn og í honum lifir líka allt sem heitir hugsanir og það sem hefur hent okkur. Nokkuð sem segja mun til sín báðum megin grafar. Þú hefur ekkert rangt gert heldur hún eins og ég sagði áðan. Hún hefur með valdníðslu þess sem drottnar yfir afkvæmi sínu, neytt þig til atferlis sem þér finnst rangt og þú telur að sé afbrigðilegt sem það og er. Þú átt ekki að hafa sektakennd og niðurrifstilhneigingu út af þessu. Það er of mikið af því góða verð ég að segja. Allra síst áttu sjálfviljugur að þurrka þig eins og sakamann út úr samfélagi manna.
Martröð þolandans er sök gerandans
Þú átt að leita þér hjálpar og stuðnings til að losna undan valdníðslu og ofbeldi móður þinnar við þig og það ekki seinna en núna. Vertu viss. Snúir þú þér til samtakanna "Stígamóta" mun þeir einstaklingar sem þar starfa gera allt til að auðvelda þér að komast út úr þessari martröð sem mamma þín óneitanlega er fyrir þér þessa dagana. Það er greinilegt helvíti á jörðu sem þú býrð við núna. Hvort slík helvíti eru til hinum megin vil ég leyfa mér að efast um. Aftur á móti eins og Kristur sagði eru margar og ólíkar vistarverue í húsi föðursins á himnum og mjög sennilega ákvörðum við sjálf með breytni okkar á jörðinni í hvaða vistarverum við munum lifa í eftir líkamsdauðann. Kannski gildir það sem stundum er sagt, "líkur sækir líkan heim."
Sjálfshöfnun og eigin útskúfun
Þú finnur hroðalega til þess sem þú lifir við og það er kynferðislegt ofbeldi móður þinnar gegn þér. Það sem þú finnur jafnframt er mikil sjálfsfyrirlitning sem er ósköp eðlilegt, vegna þess sem þú hefur mátt þola. Málið er bara að þessi átakanlegi vandi þinn stendur ekki utaná þér og því mjög ósennilegt að öðrum en þér sé ljóst hvers konar ofbeldi er í gangi heima hjá þér. Þar sem hún neyðir þig til þessara athafna eru varnir þínar frekar ófullkomnar enda varstu bara um fermingu þegar þessi óþrifnaður hennar byrjaði. Vera má elskulegur, að það sem valdi þér jafnframt áhyggjum sé að þú finnur að þú færð vissa útrás líkamlegrar vellíðanar við þessar samfarir við hana. Eitthvað sem vitanlega hlýtur að gerast, þar sem þú átt líkamlega engs undankomu- leið, þegar hún með valdbeitingu neyðir þig til framkvæmda sem tengist kynkirtlum þínum. Þeir náttúrlega vinna á ákveðinn hátt, eins og við vitum öll, hvort sem þeir eru neyddir til starfa af fúsum og frjálsum vilja eða ekki. Þetta atriði held ég að geri þig enn þá óttaslegnari og fylli þig óbærilegri sjálfsútskúfun eftir á sem von er.
Þrautaganga fórnarlambsins
Málið er bara elskulegur að þú ert bitbein sifjaspells, sem er algjört kvalræði fyrir þann sem fyrir verður.Þú ert náttúrlega enginn undantekning í fórnarlamba- hópnum.Þú finnur fyrir þeim ömurleika vanlíðunar sem þessari sálrænu þrautagöngu fylgir og í kjölfar þannig ofbeldis hljóta að koma upp flóknustu og sárustu vandamál. Skaðinn sem af slíkum ofbeldisverkum alltaf hlýst er átakanlegur vægast sagt. Hvað sem öllu líður þá verður þú að hafa í huga að ennþá hefur þú ekkert gert rangt, heldur hún. Þú ert ekkert annað en fórnarlamb siðblindrar eða geðvillutengdrar hegðunar konu sem þar að auki er ofurseld víndrykkju. Ástand áþjánar sem örugglega bætir ekki áður tæpa siðferðiskennd hennar. Vonandi verður þetta svar mitt til að kveikja hjá þér von og trú á að svona hróplegt óréttlæti er hægt að uppræta, ef fórnarlambið fær hugrekki til að leita sér hjálpar. Eitthvað sem þú getur sökum þess, að þú ert ekki fimm ára heldur sextán ára unglingur sem verður að leita réttar þíns því það eru litlar líkur á að hún geri það fyrir þig eins og þú ert farinn að átta þig á sem betur fer.

Eða eins og vonlitli strákurinn sagði eitt sinn í góðra vina hópi."Elskurnar mínar eftir að mér varð ljóst að ég gæti ekki einu sinni treyst mömmu minni, hefur öruyggisgrundvöllur minn fullkomlega hrunið. Ég óttast allt og alla og sé óvini alls staðar. Mér finnst fótunum hafa verið kippt undan tilveru minni. Samt er svo skrýtið að ég finn á mér að til er fólks sem getur hjálpað mér og til þess að það geti orðið verð ég að létta þessu skelfilega leyndarmáli af mér og varpa því sem staðreynd yfir til þeirra sem vinna að því að gera "valdníðingum" þeim sem sifjaspellin ástunda, ófært með að komast upp með þau svik og þau trúnaðarbrot sem þannig framferði alltaf fylgir.Ég ætla sem sagt ekki að þegja lengur og lái mér hver sem er." Gangi þér vel elskulegur að leita þér raunhæfrar hjálpar og Guð styrki þig og leiðbeini þér að góðri framtíð.
Með vinsemd,
Jóna Rúna

Hugarórar Hallgerðar
Hallgerður og bólukremið
Pabbi er eitt stress þessa dagana, vegna þess að hann er svo rosalega spéhræddur. Málið er að hann er með meiriháttar bólu framan á nefinu, sem sést auðveldlega í myrkri. Hann er búin að fara til læknis og allt, en hnappurinn bara vex og vex. Hann hefur ekki mætt í vinnuna í tvær vikur og allir eru að verða brjálaðir hér heima. Mamma fær móðursýkiskast tvisvar til þrisvar á dag. Ég sá greinilega að hann hefur stolist í bólukremið mitt. Við skulum bara athuga það að ég hef ekkert efni á að splæsa tvö þúsund krónum í krem á næstunni. Hann þrætir samt fyrir það sá gamli, en ég sá svo greinilega hvað hann varð flóttalegur í framan, þegar hann áttaði sig á að ég er sko með eigur mínar á hreinu. Ef hann verður heima einn dag í viðbót verð ég að flytja út í garð, ég meina það. Ég er sagði honum að ég gæti auðveldlega leyst þetta mál fyrir hann og gaf honum hvítlaukskrem sem ég hafði búið til úr nokkrum belgjum. Karlinn bar þetta á sig og maður tók ekki lengur feil á honum og appelsínu. Hvað haldið þið að hafi svo gerst í gærkvöld? Jú, gamla gengið fór í bíó og myndin var stoppuð í miðjum klíðum og gömul kona sem sat við hliðina á þeim var borin út í yfirliði. Þegar þau komu heim sagði pabbi að ég væri fáviti að nota hvítlaukinn í þessum tilgangi. Ég sagði honum að það hefði aldrei verið talað um að hann settist hjá óspjallaðri gamalli óhemju, þó hann færi í bíó, auk þess sem ég sæi ekki betur en sveppurinn á nefinu á honum væri horfinn. Gamli forngripurinn hefði bara fengið slag og sennilega af því að myndin hefði verið of djörf fyrir svona slitið lið. Mamma sagði undirförul af sinni alkunnu speki: " Bólan hefur bara horfið við öll lætin og ég man ekki til þess að hafa séð neitt blátt, þó ég hafi litið nokkrum sinnum undan." Pabbi gamli var nú alls ekki á því sem mútta sagði um túttuna og sagði:" Ég reif hana sjálfur af í öllu patinu og stakk henni í vasann." Mér finnst ansi ósanngjarnt að gamla settið sé að eigna sér ráðin manns. Laukurinn virkar. Ég ráðlagði t.d. Jóu vinkonu að nota hann á frunsu og allt gekk upp hjá henni með það sama. Ég veit ekki betur en Kalli kærastinn hennar hafi horfið sporlaust úr meiriháttar kelirí og ekki sést síðan. Jóa var búin að reyna allt til að losna við gaurinn, en viti menn, hvítlaukurinn sá um að aftengja boltann. Hún er með frunsuna ennþá og hún hefur stækkað. En við skulum bara muna það, að Jóa var orðin svo þreytt á Kalla, að það er ekkert skrýtið þó eitthvað stækki á henni. Vonandi verð ég uppgötvuð fljótlega. Ég er meiriháttar, það er á tæru.
JRK

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home