Kaerleikshvetjandi blogg

þriðjudagur, mars 21, 2006

Konur sem nauðga körlum
Þýtt og endursagt af Nínu Rúnu Kvaran

Það er væntanlega ómögulegt að kona nauðgi karli…er það ekki? RANGT, það er ekki bara mögulegt, það er jafnvel algengara en við höldum.
.
Ofsótti nágrannann
Clare er 35 ára smávaxin og lagleg kona sem vinnur í heilbrigðisbransanum. Hún hefur líka setið í fangelsi undanfarna 6 mánuði fyrir kynferðislega árás á karlkyns nágranna. Clare varð ástfangin af hinu ólánsama fórnarlambi, 30 ára gömlum fráskildum karlmanni, aðeins fáeinum vikum eftir að hann flutti í götuna. Hún lét flæða yfir hann heimboðum, bréfum, kortum og gjöfum en hann hafnaði öllu staðfastlega. Síðan fór hún að heimsækja hann í vinnuna og njósna um hann þegar hann var heima. Hún hringdi stanslaust til þess að athuga hvort hann væri einn og hún sagði öðrum nágrönnum að þau væru par. Örvæntingarfullur maðurinn fékk loksins dæmt lögbann á konuna sem skipaði henni að láta hann í friði. Þetta hægði á henni í smá tíma en síðan byrjaði ballið aftur á fullu. Áreitið náði hámarki þegar Clare braust inn í húsið hans, fór inn í svefnherbergi, klæddi sig úr öllum fötunum og hófst handa við að veita sofandi manninum munnmök. Samkvæmt sögu karlsins þá stökk hann fram úr rúminu þegar hann áttaði sig á því sem var að gerast og kallaði til lögreglu.
Clare hefur ekki sömu sögu að segja. ,,Það er satt að hann bauð mér ekki inn eða samþykkti beinlínis að gera eitthvað en þegar hann vaknaði og sá hvað ég var að gera þá henti hann mér ekki úr rúminu. Hann lét mig halda áfram þangað til hann kláraði og þá fyrst hringdi hann á lögregluna.”

Ósjálfráð líkamleg viðbrögð karla
Enn þann dag í dag telur Clare sig hafa verið beitta misrétti og eflaust hafa einhverjir samúð með henni. Það er bara staðreynd að mörgum finnst hugmyndin um að karl geti orðið fyrir grófri kynferðislegri árás af hendi konu vera fáránleg. Konur segja þetta vera óskhyggju og aðrir karlar hlægja að þessu og óska þess að þeir gætu orðið svo heppnir. Flestir skynja hryllinginn þegar konu er nauðgað en erum við ófær um að sýna samúð þegar karlmaður er fórnarlambið? Hvernig getur kona nauðgað karli?
Þar sem flestar konur ættu í mestu erfiðleikum með að yfirbuga karlmann, hvernig fara þær þá að því að taka hann gegn vilja hans? Er hægt að neyða karl til þess að fá reisn ef hann hefur engann áhuga?
Clive Gingell þvagfæralæknir og sérfræðingur í getuleysi og kyngetu karla segir svo vera. ,,Það er alveg hægt að örva lim þannig að hann haldist reistur og sáðfall verði án þess að karlinn sjálfur taki nokkurn þátt í atferlinu líkamlega eða tilfinningalega. Ég hef séð þetta hjá fjölfötluðum og lömuðum sjúklingum sem geta ekki stundað eðlilegt kynlíf með konu en vilja gera maka sinn ófrískan. Þeir hafa enga tilfinningu fyrir neðan mittisstað en hægt er að ná fram ósjálfráðri reisn limsins og sáðláti með því að örva viðkvæma kirtla limsins með vibrador eða hönd. Þetta má líka gera við heilbrigðan karl.”

Svívirtur unglingur
Þrátt fyrir þessar upplýsingar þá eiga karlmenn sem segjast hafa verið nauðgað af konum við mikla fordóma að etja í réttarsalnum og lífinu. Gary er 25 ára kröftugur öryggisvörður sem þrátt fyrir hörkulegt útlit, þjáist enn eftir að hafa upplifað niðurlægjandi kynferðislega árás af völdum kvenna þegar hann var aðeins 16 ára. Hann er skaddaður á sálinni og skammast sín enn þegar hann segir sögu sína: ,,Þetta gerðist á fyrsta vinnustað mínum eftir að ég hætti í skóla. Þetta var verksmiðja sem framleiddi fínar kökur og brauð og meirihluti starfsmanna var konur. Flestar voru þær á fertugs- og fimmtugsaldri og ég sá strax í byrjun að þær höfðu yfirhöndina á staðnum. Það voru nektarmyndir af körlum á öllum veggjum og þær voru alltaf að atast í karlstarfsmönnunum með kynferðislegum bröndurum. Þar sem ég var ungur, karlkyns og nýr þá ofsóttu þær mig strax frá fyrsta degi.” Í fyrstu stríddu þær Gary aðeins með bröndurum um karlmennsku hans, eða skort á henni. En ástandið fór síðan stigversnandi. Gary varð stöðugt fyrir káfi og eitt sinn var hann þvingaður upp að vegg og kysstur nauðugur af mörgum konum í einu. Þær sátu fyrir honum á klósettinu og ræddu um typpastærð hans opinskátt og óhreinar nærbuxur voru ítrekað settar inní skápinn hans.
Gary kvartaði við yfirmenn en árangurslaust þar sem bara var hlegið að honum. Ef hann hefði verið kona þá hefði eflaust einhver komið honum til hjálpar en það gerðist ekki. Ástandið náði hámarki þegar ein konan sagði Gary að hann ætti að mæta til verkstjórans inni á skrifstofu. ,,Þegar ég kom þangað þá biðu 12 konur eftir mér. Þær hrintu mér inn, læstu hurðinni og þvinguðu mig á gólfið. Ég var hávaxinn miðað við aldur og nokkuð sterkur en ég réð ekki við svo margar konur. Þær náðu af mér samfestingnum og ein þeirra greip um liminn á mér og fór að rykkja honum upp og niður á meðan hinar hvöttu hana áfram. Ég öskraði allan tímann og sagði þeim að sleppa mér því mér leið eins og forhúðin væri að rifna af. Þær hættu ekki fyrr en bjallan hringdi á hádegi.”
Þegar Gary kom heim sá hann sár út um allt á typpinu og hann sagði foreldrum sínum frá atvikinu. Þau kvörtuðu en svarið var að þetta væri bara brandari sem hefði gengið of langt. Gary hugsar enn mikið um árásina og fær martraðir.

Ekki sömu reglur…
Vandamálið við kynferðisglæpi framda af konum gegn körlum er að enginn tekur þá alvarlega. Ef 16 ára stúlka hefði verið dregin inn á skrifstofu þar sem 12 karlar héldu henni niðri á meðan ráðist væri á kynfæri hennar þannig að þau rifnuðu, hefði verið hægt að halda því fram að um brandara sem gekk of langt væri að ræða? Þetta kom samt fyrir Gary en lögreglan sagði honum og foreldrum hans að gleyma þessu því að hann yrði bara að athlægi fyrir rétti. Þetta þýðir að hans mál mun aldrei koma inn í neina tölfræði eða rannsóknir og það vekur upp spurninguna hve margir karlar verða fyrir þessu í raun? Ef að karl er of ágengur við konu eða káfar á henni er það greinilegt áreiti en ef kona er sökudólgurinn á karlinn bara að prísa sig sælann því varla getur kvenmannshönd á karlmannslæri verið árás, eða hvað?

Á karlmaður að vera upp með sér?
Hin bandaríska Maria Martinez, viðskiptakona, taldi svo vera þegar hún réði hinn myndarlega 33 ára Sabino Gutierrez til starfa í fyrirtæki sitt. Hún sagði þeim hafa komið vel saman, hann sagði að hún hefði stöðugt kysst sig, káfað á sér og neytt sig til kynmaka. Þegar hann reyndi að mótmæla þá hótaði hún honum. Hann segist hafa verið svo hræddur við að missa starfið að hann gafst upp fyrir henni og svaf hjá henni. Fyrir rétti neitaði 39 ára Maria stöðugt öllum ásökunum en kviðdómurin var ekki sannfærður og Maria varð að greiða Sabino skaðabætur uppá 1 milljón dollara.
Annað frægt tilfelli frá Bandaríkjunum var mál fegurðardrottningarinnar Joyce McKinney og trúboðans Kirk Anderson. Þau áttu í ástarsambandi en Kirk sleit því þegar hann vildi helga sig störfum í mormónakirkju. Joyce var ekki sátt við þetta og ofsótti hann stöðugt og bað um að taka sig aftur. Kirk bað um að vera fluttur til Bretlands til þess að sleppa undan henni en hún elti hann þangað og bað hann enn um að skipta um skoðun. Þegar það virkaði ekki þá leigði hún smábýli í Devon og fékk hjálp frá vini til þess að ræna Kirk. Hún batt hann í hjónarúm og hélt honum föngnum í fleiri daga. Hún grátbað hann um að gera sig ólétta svo hún gæti átt barn þeirra jafnvel þó þau væru ekki saman. Kirk neitaði og þá veitti hún honum nauðugum munnmök og nauðgaði honum hjálparlausum ítrekað. Kirk fór til lögreglunnar um leið og honum var sleppt og Joyce og vinur hennar voru ákærð fyrir mannrán og kynferðisárás. Joyce neitaði öllum ásökunum og sagði Kirk hafa komið af fúsum og frjálsum vilja til hennar og sofið hjá sér sjálfviljugur. Hún viðurkenndi að hafa bundið hann en sagði það bara hafa verið part af kinký kynlífi sem Kirk væri svo hrifinn af. Áður en réttarhöldin hófust stakk Joyce af og flúði til Bandaríkjanna.

Hvers vegna nauðga konur körlum?
Það var löngum talið að karlar nauðguðu vegna þess að þeir fengju ekki nóg kynlíf heima. Í dag er vitað að raunverulega ástæðan er mun óhugnanlegri og hefur oft lítið að gera með kynlíf sem slíkt. Margir nauðgarar lifa eðlilegu kynlífi heima hjá sér. Sálfræðingar segja að það sem sé nauðgararnum mikilvægt sé ekki kynlífið heldur spennan við það að stjórna og hræða fórnarlömbin. Kven-nauðgarar eru ekki svo ólíkir. Valdafíknin er þar að verki líka en með aðeins öðrum formerkjum. Hve oft eru konur í valdastöðum í lífinu? Ekki svo oft. Konur eru miklu oftar valdaminni heima fyrir og í vinnunni og þær geta stundum notað kynlíf sem vopn gegn körlum. Það er mjög sjaldgæft að konur ráfi um strætin í leit að fórnarlambi. Þær velja frekar nágranna, starfsfélaga, fyrrverandi maka og kunningja sem fórnarlömb. Kynferðisáreitið er ekki bara líkamleg yfirráð, þetta er tilfinningalegt mál. Konurnar telja sér oft trú um að þær séu ástfangnar af fórnarlambinu og ef þær nái honum bara einum þá verði lífið eins og draumur í dós og hann verði á sama máli. Þær átta sig oft ekki á því að þær eru að fremja glæp. Þeim finnst þær bara vera nútímakonur að taka frumkvæði.

Eru karlar móðursjúkir?
Það má ekki gleyma því í þessari umræðu að það eru fyrst og fremst karlar sem eru árásarmenn í kynferðisglæpum og það er mun líklegra að karlmanni sé nauðgað af öðrum karli frekar en konu. Það eru margar konur sem telja að nú séu karlar að ganga of langt og þeir séu örugglega bara að blása upp atvik sem konur fara í gegnum stöðugt. Hve oft lendir karl í því sem allar konur upplifa, káf í strætó, flaut, ósæmileg köll eða flassara? Ekki oft miðað við það sem konur ganga í gegnum hvern dag. En samt má ekki hunsa þá staðreynd að karlmenn eru líka fórnarlömb kynferðisglæpa sem stundum eru framdir af konum. Það þarf að breyta viðhorfi fólks til þessara glæpa svo að karlar sjái sér fært að kæra og leita sér aðstoðar ef þeim er nauðgað af konu, án þess að það sé bara hlegið að þeim.

NRK

Hugarórar Hallgerðar
Hallgerður og nýársvandræði
Það er alveg á hreinu, að ég flyt að heiman um áramótin ef ráðin mín verða ekki notuð. Mamma er búin að gera allt brjálað hérna heima, með því að bjóða Tótu frænku í Breiðholtinu í mat á gamlársdag og afa á Grandanum líka. Við skulum bara athuga það, að síðan Óli kærastinn hennar Tótu frænku sást klípa í lærið á tengdamömmu herfunnar sem býr á neðri hæð­inni hjá þeim hefur Tóta gengið með leikhúskíki á sér gjörsam­lega óð af afbrýði. Það vita náttúrlega allir, að afi á Grandanum er hættu­­lega kvensamur, eiginlega kynóður myndi ég segja. Eins og þjóðin veit svo greinilega, þá fara allir inná alla um tólfleytið og ef við eigum ekki að flippa endanlega hérna heima, þá verður meiriháttar mál að gulltryggja það, að þessir kvennabósar týnist ekki. Það verður að plana stórt núna, það er sko á hreinu. Pabbi og mamma verða að flytja úr Hrafna­nesinu ef þeir finnast svo kannski eins og um síðustu áramót á nýársdag heima hjá systrum sem búa hérna í götunni. Þessar laus­látu sogskálar bókstaflega býða eftir að strákarnir láti sjá sig eftir miðnætti einu sinni á ári. Það sleppur enginn frá þeim fyrir en í fyrsta lagi daginn eftir. Þær eru svo rosalega aðþrengdar, enda hafa þær engan séns þar á milli það sjá allir. Önnur er með vörtu á kinnbeininu á stærð við meðal tungl og hin er svo greinilega með skeggrót, alla veganna er eins og hún sé með svartan tvinna allstaðar á hökunni. Þessar lúmsku pipar­bjöllur standa eins og tveir sakleysingjar útiá tröppum með stjörnuljós frá klukkan átta til að missa ekki af neinu. Mamma lofaði Tótu, þessari moldvörpu, að ég og pabbi myndum vakta Óla allt kvöldið ef hún kæmi. Maður finnur svo innilega tilætlunarsemina í þessari ofdekruðu geit. Best væri og minnst þreytandi fyrir okkur pabba, ef við eigum ekki að deyja hægum dauðdaga, að spila af kassettu smá upp­lýsingar fyrir þessa bósa, sem gefa til kynna hvað býður þeirra, ef þeir voga sér út. Maður tekur sko enga sénsa fyrir svona geðsjúkt lið. Ég fæ velgju ef ég sé þá.Báðir með hárkollu takk. Við skulum bara athuga það, að þegar Jóa vinkona þurfti einu sinni á gamlárskvöld að vakta pabba sinn af sömu ástæðum, þá sagði ég henni bara að gleyma því og láta bara tæknina vinna fyrir sig. Guttinn er svo rosalega móðursjúkur, að hún keyrði hann í rúmið á innan við korteri, eftir að hafa sett í gang kassettutæki með nokkrum sæmilega háværum hvellum og smá af grunsamlegum karlmannsskrækjum með. Það fór ekki á milli mála að sá á bandinu hafði orðið fyrir grófu áreiti af konu, sem var svo greinilega siðlaus. Halli bróðir Jóu gargaði þetta inná á kassettu sem hún spilaði stöðugt:" Ég er búin að missa heyrnina.Ég finn hvergi annan þumal­puttann.Ég er búin að vera. Náið í sjúkrabíl í hvelli.Ég er dáinn, ég finn það svo greinilega." Nú það var ekkert mál að halda tappanum heima alla nóttina. Hann ætlar ekki á fætur oftar um áramót. Vonandi verð ég uppgötvuð fljótlega.
JRK

Þetta ljóð er ort til mömmu minnar þegar hún vegna erfðamála breytti um ytri aðstæður og eignaðist höll í orðsins fyllstu merkingu. Ég hafði frá 14 mánaða aldri, td. með því að bera ábyrgð á sjálfri mér þegar bróðir minn fæddist, reynt að gera allt til að auðvelda henni lífið og tilveruna, en því miður auðnaðist mér ekki að gefa henni heilsuna aftur eða leysa allar þær ytri hörmungar sem hún varð að horfast í augu við og Himnafaðirinn varð að hjálpa henni með. Mig skorti hugvit, þrek og getu til að stjórna því sem ekki var á mínu valdi að stjórna. Þar sem ég elskaði hana mjög heitt og hún mig, og samband okkar ekki bara móður og dóttur, var ég trúnaðarvinur hennar og gekk henni að stórum hluta til í móður, ömmu og langömmu stað, þ.e. ég verndaði hana og tók þátt í hennar sorgum og gleði. Menn og Guð verða að meta hvernig til tókst en aðalatriðið er að ég vildi henni allt hið besta. Engin hefur elskað mig á sama hátt og hún nema kannski Nína. En hún kenndi mér að elska og virða Guð, vera góð við þá sem minna mega sín og trúa á tilgangsríkt líf þrátt fyrir þrengingar og mótlæti og missa aldrei sjónar á staðfastri nálægð heilagrar þrenningar, þ.e. Föðurins, Sonarins og Heilags anda. Hún lét mig fara með bænir þangað til ég fór að heiman, alltaf áður en ég sofnaði og þess utan ef eitthvað bar að þakka eða kvarta yfir. Hún sýndi mér með verkum sínum að við eigum að elska náungann eins og sjálfa okkur og okkur ber að styðja hvert annað bæði í meðbyr og mótbyr. Hún var alltaf þrátt fyrir sínar sérstöku og erfiðu aðstæður, undurgóð við alla sem leituðu til hennar og hún beinlínis fann á götunni og studdi , gladdi og hjálpaði . Hún var ekki bara óvenjufögur kona, skipti sérstaklega fallega litum enda af Bergsætt, heldur var hún undurgóð manneksa með risastórt kærleikshjarta, óvenju gáfuð og sérlega víðlesin og í raun þegar ég lít til baka, kenndi hún mér allt sem kann að vera einhvers virði í minni sál í dag. Þessar vísu sem koma hér á eftir eru ákvæðisvísur sem ég orti til hennar þegar hún breytti um aðstæður. Hugsunin er í sterku skyldleikasambandi við bæði ámælis- og ákvæðisvísur stórsénía fortíðarinnr sem höfðu allt fram yfir einfeldninginn JRK nema kannksi fegurðina (haha) en þeir bjuggu til og lögðu á fólk bæði gott og slæmt. Þetta er mitt ákvæðisljóð til hennar og ég trúi því að það hafi yljað henni og verndað. Er hjá Nínu þegar ég skrifa þetta.

Til mömmu

Hver lítil rós hún léttir þér
langa harmagöngu.
Það góða ætíð birtu ber
og breytast kjörin þröngu.

Vonir þínar vafalaust
verma framtíð alla.
Tilfinningin afar traust
og tárin hætta’ að falla.

Þó sálin enn sé hrygg og tóm,
og sárin djúpt í hjarta.
Í fjarlægð heyrir frelsisóm
er framtíð kveikir bjarta.

Sumir kveikja sorgarbál
og sá í lífið meinum.
En þú ert góð og göfug sál
og gleymist aldrei neinum.

Að breyta krossum kannski reynist
kvöl, sem erfið verður þér,
En göfug vinna aldrei gleymist
og góðleikurinn skilar sér.

Bráðum líf þitt breytist allt
burtu forðar harmi sárum.
Höllin fagra hundraðfalt
hjartað fyllir gleðitárum.

Jóna Rúna Kvaran
25. nóvember 1983.

Eftir farandi ljóð orti ég síðan vegna andláts móður minnar

KVEÐJA

Fallin er hjartans fögur rós
og föl er kalda bráin.
Hún sem var mitt lífsin ljós
ljúfust allra er dáin.

Drjúpa hljóðlát tregatár
og tómið fyllir allt.
Ekkert sefar hjartasárin
í sálu andar kalt.

Þögul sorg í sál mér næðir
sár og vonarmyrk.
En Drottinn ætíð af gæsku græðir
og gefur trúarstyrk.

Hnípinn vinur harmi sleginn
hugann lætur reika.
Kannski er hún hinu megin
í heilögum veruleika.

Þú ert laus frá lífsins þrautum
og liðin jarðarganga.
En áfram lifir á andans brautum
ævidaga langa.

Heimur bjartur bíður þar
og bráðum kem ég líka.
Þá verður allt sem áður var
ef veröld finnum slíka.

Drottinn verndar dag og nótt
á dularvegi nýjum.
Aftur færðu aukinn þrótt
í eilífð ofar skýjum.

Þú alltaf verður einstök rós
elsku vinan góða.
Í krafti trúar kveiki ljós
og kveðju sendi hljóða.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home