Kaerleikshvetjandi blogg

laugardagur, október 29, 2005

PABBI ÞOLIR MIG EKKI
BÖRNUM MISMUNAÐ AF FORELDRUM

Foreldrar gera oftar en ekki upp á milli barna sinn og þá þannig að til vansa er. Að þessu sinni höfum við til umfjöllunar bréf frá ungum strák sem er mjög óánægður með það að vera settur af föður sínum í það hlutverk heima að vera sífellt gagnrýndur af ósekju. Faðir hans mismunar að hans mati, honum og systkinum hans gróflega, eftir því sem hann segir í bréfi sínu og dregur ekkert undan enda hryggur og vonlítill. Hann segir hann bókstaflega ekki þola sig og gera alltaf lítið úr sér.

HRYGGUR OG VONLÍTILL
“Það er svo furðulegt kæra Jóna Rúna að ég skuli þurfa að leita eftir stuðningi þínum í þessu máli, en hvað á ég að gera? Pabbi kemst upp með það að gera stöðugt lítið úr mér og gagnrýna mig sífellt fyrir alls konar hluti sem ég skil ekki af hverju geta verið svona neikvæðir í hans huga,” segir þessi óhamingjusami sextán ára skólastrákur sem kýs að nota dulnefnið Jón. Hann lýsir mjög nákvæmlega samskiptum sínum við föður sinn sem eru ömurleg.

GÓÐ MÓÐIR OG MISHEPPNAÐUR BRÓÐIR
Jón virðist eiga mjög gott með að læra og stendur sig í námi og íþróttum þannig að hvert foreldri mætti vera hreykið af. “Pabbi er mjög góður við bróður minn sem er dálítið yngri en ég og þó hann bæði drekki og sukki um hverja helgi þá er hann allt bestur. Ég get vel viðurkennt að samband mitt við mömmu mína er mjög gott og oftast tekur hún minn málstað í okkar pabba rifrildum. Hún sér hvað hann mismunar mér og bróður mínum og reynir að bæta mér þetta upp,” segir hann og bætir hinu og þessu við sem er tákn þess hvað samskipti feðgana eru óeðlileg. Faðir hans þolir hann ekki og leynir því alls ekki.

ROSALEGAR SÖGUR AF FÁTÆKLEGRI FORTÍÐ
“Ég er kannski ekki fullkominn, en ég er mjög góður í teikningu og spila á gítar og meira að segja er ég í hljómsveit með nokkrum vinum mínu. Það hrósa mér margir og kennararnir mínir eru mjög ánægðir með mig í skólanum, enda er ég með þeim hæstu í bekknum og oftast valinn til að taka þátt í því sem stendur til. Ég drekk ekki og reyki ekki. Pabbi hefur kennt sér allt sem hann kann sjálfur og rekur eigið fyrirtæki og er líka í stjórn ýmsra félaga. Honum finnst hann mjög klár og segir okkur syskinunum rosalega sögur af sinni fátæklegu og erfiðu fortíð, þar sem hann var gerður að þræl fjölskyldunnar undir fermingaraldri,” segir Jón og augljóslega þykir honum sem nóg sé komið af hroka og píslarvætti föðurins.

BROTINN OG BEYGÐUR
Nú það kemur líka fram í bréfinu að pabbi hans vill alls ekki að Jón mennti sig. Hann telur hann geta farið út á atvinnumarkaðinn strax. Jón þráir að læra og vill verða rafvirki eða eitthvað álíka. Pabbi hans virðist þola flesta heima nema hann. Hann virðist aldrei rólegur nema hann hafi tilfinningu þess að Jón sé brotinn og beygður. “Mamma mín er bæði góð, margþætt og andlega hugsandi manneskja og þolir ekki frekar en ég þessa framkomu pabba við mig. Hún getur bara svo lítið gert, enda algjörlega á valdi hans. Hún er heimavinnandi og í kvöldskóla. Ég er frekar óöruggur með mig,” segir Jón.

VANTAR UPPÖRVUN OG VILL BREYTINGAR
Hann tjáir sig jafnframt um eitt og annað sem ekki er rétt að birta hér. “Viltu vera svo góð að uppörva mig og segja mér nákvæmlega þína skoðun á þessum vandræðum mínum. Gæti verið lausn að flytja að heiman? Væri möguleiki fyrir mig að breyta þessu ömurlega áliti sem pabbi minn hefur á mér? Hvað get ég eiginlega gert sem ég geri ekki? Ég les flest sem þú skrifar og hef mikinn áhuga á því. Með fyrirfram þökk.” Ég er Jóni þakklát fyrir þá uppörvun sem hann veitir mér með áhuga sínum og nota innsæi mitt,hyggjuvit og reynsluþekkingu til svaranna.

VÖXTUR RÓSARINNAR OG ÓHENTUGUR JARÐVEGUR
Það er ekkert skrýtið þó Jóni verði alvarlega hugsað til þess hvers vegna í ósköpunum faðir hans getur engan veginn þolað hann þrátt fyrir að Jón leggi sig í líma við að reyna þóknast honum. Ef við ímynduðum okkur að Jón væri rós sem rækta ætti í fallegum garði, þá vitum við það að án réttrar vökvunar og heppilegs jarðvegs sem hentar vaxtarmöguleikum rósarinnar gengur ekki ná fram eiginleikum hennar. Þannig að hún með tíð og tíma bæri þau blóm, fegurð og anga sem í raun eru til staðar blundandi í vaxtarskilyrðum hennar. Vaxtarskilyrðin næðu einfaldlega ekki fram að ganga ef jarðvegurinn væri kolómögulegur og hlutföll ljós og skugga röng og öðrum grundvallarvaxtarskilyrðum ábótavant. Þetta vita allir. Sama á við um börnin okkar þau blómstra ekki ef vaxtarskilyrði þeirra eru vanvirt og gengið er gróflega á mannréttindi þeirra.
ÓTÆPILEG STÓRYRÐI OG VANÞROSKI
Börnin verður að rækta og styrkja með réttum hlutföllum af ást og umhyggju, ekkert síður en með fæði og ytri hlutum. Eiginlega hlú að þeim af nærfærni og elsku og satt best að segja er hyggilegt að spara öll stóryrði og vanþroskaða umfjöllun um manngildi þeirra, ef ekki á illa að fara. Öll framkoma okkar við börnin okkar verður að vera tengd hvers kyns virðingu fyrir þeirra sjónarmiðum og vilja líka. Við verðum að sjá eðliskosti þeirra ekkert síður en mögulega galla og aðra minniháttar vankanta.

MISMUNANDI MANNGERÐIR
Enginn er fullkominn og þar er Jón náttúrlega enginn sértök undantekning, en honum er heldur ekki alls varnað. Pilturinn virðist vera miklum eðliskostum búinn.
Jón talar um að faðir hans mismuni þeim systkinum gróflega og tekur samskipti föður síns við hinn bróðurinn sem dæmi. Vissulega á sá drengur í vanda og virðist hafa leiðst út á einhvers konar glapstigu um tíma. Það er alrangt af foreldrum að mismuna börnunum sínum og ætíð heillavænlegra að umbera og elska þau á sem jafnastan máta. Vitanlega eru börnin okkar mismunandi manngerðir og alls ekki tryggt að börnin okkar falli að okkar lífssýn.

JÁKVÆÐ HREINSKILNI OG MENNTUNAR MÖGULEIKAR
Það er því eðlilegt að hvetja Jón til að benda föður sínum á þetta og ef hann hlustar ekki á sjónarmið hans að velja þá þann kostinn að skrifa honum ítarlegt bréf, þar sem Jón opnar sig við hann og segir honum á jákvæðan hreinskilinn hátt frá því hvernig honum finnst hann koma fram við sig á neikvæðan og ósanngjarnan máta um leið og hann gerir í því að auðvelda erfiðum bróður hans að vera til. Jón á alls ekki að fallast á það að sér sé hafnað og þaðan af síður að taka það í mál að kasta frá sér tæki¬færum til menntunnar, ef hann á kost á slíku.

GÓÐUR NÁMSMAÐUR OG LAUN
Það væri af og frá fyrir hann að láta eins og hann hefði ekki möguleika á slíku, bara af því að pabbi hans átti ekki kost á þannig aðstæðum á meðan hann var að alast upp. Það vantar hvorki fé eða aðstæður inná heimilið til að gera Jóni kleift að fá að láta drauma sína um að menntast rætast. Hann er góður námsmaður og á sem slíkur fyllilega skilið að fá tækifæri til að ljúka þeim skóla sem hann kýs að menntast frá. Iðnnám er það sem freistar. Í iðnnámi er sem betur fer oftast hægt að vinna fyrir einhverjum launum þegar kominn er á samningur.

ANDLEGIR HRAKHÓLAR OG SKILNINGSLEYSI
Ef svo óheppilega vildi til að Jóni yrði endanlega vísað úr föðurhúsi á hann alls ekki að hætta við það að mennta sig, heldur vera enn þá ákveðnari í því en áður. Hann er greindur og framtakssamur og getur örugglega þó erfitt verði unnið til að hafa ofan í sig og á, þrátt fyrir að þurfa að bera ábyrgð á sér sjálfur. Það er náttúrleg ekkert sérlega áhugavert að vera bara sextán ára á tímabundnum andlegum hrakhólum vegna skilningsleysis föður síns, en það er þó bærilegri tilhugsun fyrir heilbrigðan ungan mann, en að upplifa sig vanvirtan.

NEYÐARÚRÆÐI OG ÞRÖNGSÝNI
Jón á ekki að láta föður sinn komast upp með að kúga sig og gera sig óöruggan og vanmáttugan. Það er ein tegund ofbeldis sem er andlegt og ákaflega algengt í samskiptum því miður. Mjög sennilega myndi móðir hans hygla einu og öðru að honum, ef til þessa neyðarúrræðis kæmi, þó ekki sé mælt beint með því að fara að heiman þá gæti slík aðgerð í þessu tilviki Jóns reynst nauðsynleg. Faðir hans þolir hann sýnilega ekki, sem er óréttmæt aflögun í samskiptum.

VILJAFÖST OG METNAÐARGJÖRN
Móðir Jóns er augljóslega þroskuð og góð kona en alltof háð skoðunum og þröngsýnum vilja eiginmannsins og því á hún í mestu erfiðleikum með að rétta sínu eigin barni hjálparhönd, þó full ástæða sé til þess. Hún virðist nokkuð bæld, en þó viljaföst og það metnaðargjörn að hún er sjálf í skóla sem er virkilega gott hjá henni. Hún myndi sýnilega styðja Jón afdráttarlaust við allar aðstæður, jafnvel þó það kæmi sér illa fyrir hana í samskiptum hennar við eiginmann sinn og föður Jóns.

AÐRIR ÓSAMMÁLA FÖÐURNUM
Hitt er annað mál að öll él birtir upp um síðir og það er alls ekki rétt að fórna eigin persónuleika til að þóknast öðrum og það hlutskipti á Jón alls ekki að velja sjálfum sér til handa gangvart föður sínum. Jón verður líka að sjá sjálfur að það gætir algjörs ósamræmis í öllum aðalatriðum á áliti föður hans á honum og svo því áliti sem hann mætir út í frá, frá bæði félögum sínum, móður og kennurum. Það segir auðvitað heilmikið um Jón sem er jákvætt en gefur frekar óþægilega mynd af föður hans. Það er alveg ljóst að vanmat föðursins er gróf og rangt.

KOSTIR OG GALLAR
Jón á ekki að þóknast manni sem hann getur ekki virt, vegna þess að honum fellur ekki við viðhorf hans og sér ásamt öðrum og nánum alvarlega galla og bresti í manngildi hans. Við veljum flest fremur að þiggja leiðsögn þeirra sem við treystum og virðum.Við getum alls ekki þegið leiðbeiningar af fólki sem við vitum að sér ekki mun á réttu og röngu. Jón á enga sérstaka tilraun að gera til að reyna að vera önnur persóna en hann er.

JÁKVÆÐ GAGNRÝNI HENTUG
Ef faðir hans getur ekki sæst á hann eins og hann er, þá verða þeirra samskipti að takmarkast af sem minnstu samneyti myndi maður halda. Vitanlega væri eðlilegra að faðir hans horfði frekar á kosti Jóns, en endalaust og sífellt á óverulega galla, en því er ekki til að dreifa í þeirra samskiptum. Jón getur alls ekki orðið sú persóna sem aðrir vilja gera úr honum, enda á enginn að komast upp með að reyna að breyta honum annar en hann sjálfur. Það er gott að fá jákvæða gagnrýni af og til.Öll óréttlát gagnrýni aftur á móti er óviturleg og niðurrífandi.

SIGRAR OG HÓFÆRÐ
Það er því ráð fyrir Jón að reka nefið um tíma upp í loftið og efla á jákvæðan hátt sjálfstraust sitt með því meðal annars að njóta þeirra sigra sem hann hefur unnið til í skólanum og annars staðar og þakka Guði fyrir að hafa fengið í vöggugjöf alla þessa augljósu kosti sem hann frekar hógvær getur um í bréfinu eins og um galla væri að ræða.Hans mat á eigin manngildi skiptir öllu máli og trú hans á sjálfan sig jafnframt. Eða eins og leiði strákurinn sagði eitt sinn í góðra vina hópi: “Elskurnar mínar, ég er algjörlega eins og nýr maður eftir að mér tókst með réttum stuðningi að velja fremur að uppörva sjálfan mig en rífa mig niður. Það er líka gamaldags að vera fúll og leiðinlegur og sjá ekki fegurðina í sér og öðrum.”

Með vinsemd, JRK
+++
Höf jrk
Óróleiki
Við getum fundið fyrir óróleika af og til af mismiklu tilefni. Flestir kannast við ókyrrð tilkomna vegna væntinga af ýmsum toga. Það er í sjálfum sér ekkert óeðlilegt við það að finna til ókyrrðar, ef eitthvað mjög mikilvægt og spennandi stendur til.Aftur á móti geta umbrot þau sem þannig ástand kallar á valdið okkur hverskyns áhyggjum. Þær taka jafnframt á sig hin ólíkustu gervi tilfinninga. Þær leika síðan lausum hala um sálartetur okkar og valda náttúrlega ennþá frekari óþreyju. Sá sem er spektarlaus og unir sér sjaldan eða aldrei innri kyrrðar finnur fljótlega til streitu. Hún orkar tvímælalaust á þá mögulegu ókyrrð sem upphaflega kom spennunni af stað og veldur auðvitað ennþá frekari streitu. Hvers kyns peningavandamál valda okkur innri umbrotum og eirðarleysi þar til botn er fenginn í málin. Þess vegna er óviturlegt að spenna bogann óþarflega hátt í efnahagsmálunum.Láta fremur ráðdeild og fyrirhyggju ráða ferðinni í þeim málum sem vitanlega flestum öðrum jafnframt.Ef mikið liggur við og ótal verkefni bíða úrlausnar er mjög algengt hjá rólyndu fólki að það finni sig gripið mikilli óværð og finni þá jafnvel til mikillar vanstillu í kjölfarið, sem er afleitt.Eða þar til það hefur lokið við obbann af þeim verkefnum sem hlaðist hafa upp og krefjast úrlausnar. Auðvitað má segja sem svo að varla verði hjá því komist að við finnum að minnsta kosti af og til fyrir eirðarleysi. Það ráð sem oftast dugar þegar þannig árar innra með okkur, er ein­fald­lega að gefa lítillega eftir og skipuleggja nokkuð nákvæmlega það sem bíður úrlausnar. Það er töluverð ókyrrð í mannlífinu yfirleitt og margt sem veldur. Kröfur þær sem nútímafólk gerir t.d. um lífsþægindi, valda því oftar en ekki óværð, vegna þess að fyrir öllu þarf að vinna. Varla eignumst við mikið, ef við leggjum ekki svolítið á okkur til þess arna. Hitt er svo annað mál að allur óþarfa lúxus hvort sem er í húsakosti eða skemmtunum ætti ekki að vera okkur neitt sérstakt keppikefli. Mun frekar og eiginlega allra helst ættum við að miða allan framgang okkar við það að minnsta kosti, að við leggjum ekki svo mikið á okkur að við missum fótanna andlega sem veraldlega. Jafnvel með þeim óskemmtilega hætti að einkalíf okkar hrynur til grunna eins og ekkert sé eðlilegra. Nægusemi og auðmýkt eru hyggnar systur, enda valda þær sjaldnast vanda eða ókyrrð hjá þeim sem þær eiga athvarf hjá.Aftur á móti má segja að ótæpilegt lífsgæðakapphlaup óþreyju­fullra og spektlausra valdi oftar en ekki óþarfa ófriði innra með viðkomandi. Ástand sem skapar auk þess allmikla tilfinningalega óþreyju, sem veldur svo aftur á móti pirringi sem gerir okkur uppnæm og ókyrr af litlu sem engu tilefni. Reynum því að efla innra með okkur frið og andlegt jafnvægi, en látum fjúka sem fyrst alla óværð og annan óþarfa eril hið innra og hana nú.
+++

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home