Kaerleikshvetjandi blogg

þriðjudagur, maí 16, 2006

Langholtsskóli
Samfélagsfræði
Kennari: Arna

Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir


José Luis Nunez Altuna
8.LG
Vorönn 2006
Ástæða þess að ég vil skrifa um Jón Sigurðsson og konu hans Ingibjörgu Einarsdóttir er sú að þau voru mjög mikilvægar persónur í sögu Íslands. Jón Sigurðsson var oft kallaður ,,Jón forseti” en hann gegndi þí aldrei forsetaembætti, enda Ísland ekki sjálfstætt land í hans tíð heldur laut stjórn Danaveldis. Jón hlaut þessa heiðursnafnbót vegna þess merkilega starfs sem hann var ábyrgur fyrir varðandi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Hugmyndir hans varðandi hvernig best væri að fara að í baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði voru frábærar og oftar en ekki hafði hann á réttu að standa um flest það sem átti eftir að gerast síðar. Þetta er ástæða þess að ég vil skrifa um hann en hún er líka sú að ég var mjög heillaður af sögu hans og Ingibjargar og hvernig þau náðu saman sem par.

Jón Sigurðsson var fæddur á Hrafneyri við Arnarfjörð þann 17. júní árið 1811. Hann lést þann 7.desember 1879. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson prestur og kona hans Þórdís Jónsdóttir húsmóðir. Ingibjörg Einarsdóttir var fædd 9. október 1804 og lést 16.desember 1879. Foreldrar hennar voru Einar Jónssons og Ingveldur Jafetsdóttir.
Jón gekk menntaveginn og lauk stúdentsprófi árið 1829 í heimaskóli hjá séra Gunnlaugi Oddssyni. Í framhaldi af því stundaði hann verslunarstörf í Reykjavík í eitt ár hjá Einari föðurbróður sínum og á þeim tíma kynntist hann frænku sinni Ingibjörgu. Þau urðu ástfangin og trúlofuðust. Síðan gerðist Jón skrifari hjá Steingrími Jónssyni biskup í Laugarnesi 1830-1833. Á þessum stað hafði Jón aðgang að stóru bókasafni og einu mesta safni handrita og skjala sem Ísland átti á þeim tíma og því er nokkuð ljóst að vera hans hjá biskup mótaði skoðanir hans og lífssýn gífurlega mikið. Sá áhugi sem hann hafði haft á íslenskum fræðum og öllu sem var rammíslenskt jókst til muna á þessum árum og Jón hafði tækifæri til þess að leggja fyrir launin sín.
Þegar veru Jóns lauk í biskupsgarði hélt hann til Kaupmannahafnar og innritaðist í Hafnarháskólann. Þar lagði hann stund á málfræði, sögu, hagfræði og stjórnfræði, en hann þurfti að vinna fyrir sér sjálfur og náði aldrei að ljúka sínu embættisprófi. Önnur ástæða þess að hann lauk aldrei sínum prófum var ef til vill sú að hann varð fljótlega mjög upptekinn af öllu sem tengdist íslenskum þjóðmálum og tók það upp mikinn tíma hans. Það merkilega í þessu öllu er að Jón snéri ekki aftur til Íslands í heil tólf ár og allan þann tíma beið Ingibjörg eftir honum í festum og hlýtur það að þykja ótrúlegt umburðarlyndi og þolinmæði! Það var ekki fyrr en að Jón kom heim árið 1845 til þess að setja á hinu nýendurreista Alþingi að hann og Ingibjörg giftust í Dómkirkjunni. Hún var þá orðin 41 árs en hann 34 ára.
Ingibjörg og Jón bjuggu síðan allan sinn búskap í Kaupmannahöfn og það var einmitt þaðan sem Jón svo að segja stjórnaði sjálfstæðisbaráttu Íslendinga næstu fjörtíu árin. Þrátt fyrir að þau hafi alltaf búið í Danmörku þá ferðuðust þau mjög oft til Íslands eða um 29 sinnum, og það oft á mjög misgóðum skipakostum. Jón var svo ótrúlega vinsæll á meðal landsmanna sinna að það hefur eflaust enginn verið í sambandi við eins marga Íslendinga og hann var, en varðveist hafa yfir 6 þúsun sendibréf sem hann geymdi frá um 870 mismunandi skrifurum. Það er ekki undrandi að hann hafi verið vinsæll og vinmargur því hann veigraði sér ekki við því að hjálpa samlöndum sínum og ganga ýmiss erinda fyrir þá í Kaupmannahöfn. Einnig var hann mjög útsmogin varðandi fjármál og gat oftast liðsinnt blönkum vinum sem þurftu á fjármálaráðgjöf að halda. Jón vann svo fyrir sér og konu sinni með ýmis konar vísindastörfum á Árnasafni þar sem hinn fornu íslensku handrit voru geymd. Sú vinna sem hann sinnti þar er út af fyrir sig frábær enda var hann í alla staði skipulagður við störf sín.
Jón kom skoðunum sínum helst á framfæri í gegnum málgagn sitt, Ný félagsrit, en þar skrifaði hann um þau hugðarefni sem stóðu hjarta hans næst. Hann vildi endilega allt það besta fyrir land sitt og þjóð og taldi Íslendinga eiga rétt á málfrelsi, atvinnufrelsi, stjórnfrelsi, kjörfrelsi og verslunarfrelsi. En hann var þó skynsamur í frelsisskoðunum sínum vegna þess að hann taldi að algjörlega ótakmarkað frelsi væri af hinu slæma og í raun ekkert nema stjórnleysi og agaskortur.
Jón var viss um það að Ísland hefði alla burði til þess að stjórna sér sjálft. Árið 1848 birti hann ritgerð sem hét ,,Hugvekja til Íslendinga” og í henni má segja að finnist stefnuskrá hans. Hann taldi að það væri óhæft að stýra Íslandi frá Danmörku og til þess að þjóðin gæti orðið sjálfstæð þá þyrfti Ísland að eiga aðskilinn fjárhag, fullt löggjafarvald, innlenda stjórn og bara algjört jafnrétti. Það er mikilvægt að gleyma því ekki að Jón var ekki að heimta algjöran aðskilnað frá Danmörku heldur bara aukin réttindi og það er eflaust þess vegna sem Danir tóku sönsum og gáfu Íslendingum smám saman réttindin. Ísland varð ekki fullkomlega sjálfstætt ríki fyrr en 1944 sem er löngu eftir að Jón var dáinn.
Árið 1851 var haldinn þjóðfundur þar sem Danir vildu setja Íslendingum nýja stjórnskipun og var þar tekið mjög lítið tillit til þess sem Íslendingar vildu. Á þessum fundi urðu tímamót í stjórnmálaferli Jóns en það var á þessum fundi þar sem allir íslensku fundarmennirnir stóðu upp og sögðu: ,,Við mótmælum allir!” Jón tók þvílíka forystu á þessum fundi að eftir hann fór það ekkert á milli mála hver var leiðtogi íslensku þjóðarinnar þegar kom að sjálfstæðisbaráttunni. Jón og forysta hans urðu meðal annars til þess að verslun við Íslendinga var gefin öllum frjáls árið 1855 enda taldi hann þetta vera nauðsynlegt til þess að Ísland yrði sjálfstætt land.

Jón var glæsimenni í alla staði, bæði andlega sem líkamlega og gáfnafar hans bar af. Hann var einstakur brautryðjandi og ef hans hefði ekki notið við er óvíst hvað hefði gerst ef hans hefði ekki notið við þegar Íslendingar börðust fyrir sjálfstæði sínu. Hann og Ingibjörg kona hans áttu engin börn en það var víst einn samtímamaður þeirra sem sagði að ,,allir Íslendingar væru börn þeirra”. Jón var forseti Kaupmannahafnar- deildar Bókmenntafélagsins og hlaut af því viðurnefnið forseti. En ég trúi því að hann hafi líka verið kallaður forseti sem einkonar heiðursnafnbót því að ég er viss um að ef Íslendingar hefðu getað haft sinn eigin forseta á þessum tíma, þá hefðu þeir valið Jón frekar en nokkurn annan mann. Þau hjónin létust með mjög stuttu millibili í Kaupmannahöfn, en voru jörðuð í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Seinna meir var afmælisdagur Jóns, 17.júní, gerður að þjóðhátíðardegi Íslendinga þegar lýðveldi var loksins stofnað árið 1944. Ég er líka viss um að Jón átti þann heiður fullkomlega skilinn.

Heimildarskrá

http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=3569
http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=6
www.skólavefurinn.is

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home