Kaerleikshvetjandi blogg

laugardagur, maí 13, 2006

Tímaritið: Heimsmynd (septemberhefti 1999) Þýðing og samantekt: Nína Rúna Kvaran
RICKY MARTIN
LATNESKA KYNTÁKNIÐ

Það leikur enginn vafi á því að Latnesk-Amerísk tónlist er komin til að vera, enda hafa ungir popptónlistarmenn af þeim uppruna verið að færa út kvíar sínar og treysta sér sess í hinum alþjóðlega tónlistarheimi. Það þekkja allir gamla og góða latneska kvennagullið Julio Iglesias sem átti sitt blómaskeið á 9.áratugnum svo ekki sé minnst Ritchie Valens sem átti smellinn La Bamba á gullöld rokksins nokkrum áratugum fyrr. En nýjasta Suður-Ameríska goðið er án efa Ricky Martin sem átti sumarsmellinn 1999: “Livin´ la Vida Loca”.

SUÐRÆNN OG SEIÐANDI
Ricky Martin er 27 ára gamall og stendur svo sannarlega undir nafni sem einn af þeim allra heitustu um þessar mundir enda suðrænn og seiðandi svo um munar. Hann byrjaði tónlistarferil sinn í unglingahljómsveitinni Menudo, þá aðeins 12 ára gamall. ,,Þegar ég var 6 ára gamall sagði ég við pabba: ,,Pabbi, ég vill verða listamaður”, og pabbi spurði hvernig hann gæti hjálpað mér. Hann var ekki dæmigerður faðir. Að vera í Menudo var eins og vera í hernum. Aginn var gífurlegur, maður lærði að meta áhorfendur og hvort sem þeir voru 250.000 eða 15 talsins þá var alltaf gert eins vel og hægt var. En ég hætti í hljómsveitinni eftir 5 ár, ég þurfti meira frelsi til að tjá mig sem listamaður. Við réðum engu. Þegar móðurafi minn veiktist alvarlega fékk ég ekki frí til þess að vera hjá fjölskyldunni og ég var á tónleikaferðalagi þegar hann lést. Svona lagað er erfitt að sætta sig við.” En sumum finnst latneskir söngvarar vera að svíkja uppruna sinn þegar þeir syngja á ensku í stað spænsku ? ,,Staðreyndin er sú að flest Latneskt-Amerískt ungt fólk er tvítyngd. Mér finnst tónlist vera fyrir alla og ekki skipta máli hver uppruni hennar er, tónlist á að vera eitthvað sem þú annaðhvort hrífst af eða ekki, tungumál skipta ekki máli. Ég vil gefa út plötur á bæði ensku og spænsku, með enskunni næ ég til stærri áhorfendahóps en áður, það er staðreynd.”

KYNTÁKNIÐ
Hvernig er að vera kyntákn? Hvernig tilfinning er það að vera svona eftirsóttur? ,,Kyntákn, kyntákn....ég verð alltaf svolítið órólegur þegar þetta orð er notað. Að vera kynþokkafullur og munúðarfullur er mjög ólíkt. Munúð er meðfædd.” Það er alltaf sagt að Suður-Ameríkubúar séu svo blóðheitir og Ricky tekur heilshugar undir það. ,,Ójá, við erum það. Við erum mjög líkamleg og ölum börnin okkar þannig upp. Við snertumst, við föðmumst, við kyssumst, kyssumst, kyssumst. Ef ég geng inn í hús föður míns og faðma hann ekki, þá gerir hann athugasemd við það. Það sem mér finnst leitt í sambandi við kynferðislega þáttinn í þessum bransa er það, að af einhverjum ástæðum sviptir áhersla á kynþokka mann trúverðugleika. En ég ætla ekki að hugsa um það, ég vil bara vinna í minni tónlist. Ég bara nýt þess að vera sá sem ég er, ef ég reyndi eitthvað annað þá væri ég bara eins og ísklumbur uppi á sviðinu. Ég hugsa ekki, þarf ég að vera kynþokkafullur eða ekki? Ég bara skemmti mér, hlæ og hristi á mér líkamann, það er allt og sumt.

GRAMMY-VERÐLAUNIN
Segja má að að Ricky hafi unnið huga og hjörtu heimsins þegar hann kom fram á Grammy-verðlaunafhendingunni í febrúar. Flutningur hans á “La Copa de la Vida” þótti með eindæmum einlægur og skemmtilegur og að sögn Gloríu Estefan sönggyðju sem afhenti honum verlaunin, er ekkert jafn yndislegt og að sjá karlmann sem kann að hreyfa sig. Ricky segist hafa skemmt sér konunglega þetta kvöld.,,Ég var svolítið kvíðinn fyrir þessu. Ég gerði jógaæfingarnar mínar og sagði við sjálfan mig:,, Heyrðu félagi, þú ert búinn að vera að þessu í 12-15 ár. Komdu þér út á sviðið og hafðu gaman af!” Mig langaði til þess að nýta þetta tækifæri og breyta þessari stöðnuðu poppímynd, mig langaði að koma með eitthvað nýtt, jafnvel eitthvað sem vísaði til framtíðarinnar.”


FJÖLSKYLDAN
,,Fjölskyldan er þungamiðjan í mínu lífi “, segir Ricky sem er einkasonur Enrique Martin III, sálfræðings og Nereidu Morales endurskoðanda en hún aðstoðar son sinn í skipulagningu fjármála hans. ,,Mamma snýr enn þá upp á eyrað á mér ef henni finnst þörf á því. Ég fór að heiman 12 ára gamall og hefði þess vegna auðveldlega getað orðið mjög trylltur krakki..” Um tíma bjó fjölskyldan saman, þar á meðal tveir eldri hálfbræður Rickys frá fyrra hjónabandi móður hans, en foreldrar hans skildu í vinsemd þegar hann var 2 ára. Þrátt fyrir að móðir hans Nereida hefði forræðið, hafði Kiki, eins og hans nánustu kalla hann, frelsi til þess að umgangast báðar fjölskyldur sínar að vild. ,,Á þessum tíma þurfti ég aldrei að taka ávarðanir um hvern ég elskaði meira, ég var alltaf hamingjusamur.” Ricky var meðalgóður námsmaður í tvítyngdum kaþólskum skóla og var þekktur sem alvörugefinn, ábyrgðarfullur drengur sem hneigðist til Pepsidrykkju og hafði lag á stelpunum. En hann hafði líka sál sviðslistamannsins. Hann átti það til að kalla saman nágrannana og flytja leikrit á götunni með vinum sínum. Faðir hans hóf að fara með hann í áheyrnarprufur og þegar hann náði 11 ára aldri hafði hann leikið í 11 auglýsingum fyrir fyrirtæki eins og t.d. Burger King. Hann fékk hlutverk í hvert sinn sem hann fór í áheyrnarpróf. Ef honum var sagt að gera eitthvað gerði hann það umsvifalaust og sýndi mikla hæfni. Eins og áður sagði var Ricky aðeins 12 ára þegar hann slóst í hópinn með hljómsveitinni Menudo. Fyrsta árið hans í hljómsveitinni gerði það að verkum að samband foreldra hans versnaði þar sem þau börðust um tíma með syninum þegar hann átti frí. ,,Það var alltaf verið að spyrja mig hjá hvoru ég vildi vera, það er hræðilegt að spyrja barn að slíku.” Hann kaus að vera hjá móður sinni og honum fannst sú ákvörðun hafa reitt föður sinn til reiði. Þeir sáust sjaldan og töluðust varla við. Eftir því sem tíminn leið óx einnig spenna í samskiptum Rickys við móður sína. ,,Mér fannst á þessum tíma að ferill minn hefði eyðilagt fjölskylduna mína.” Árið 1989 hætti Ricky í Menudo og fluttist til New York-borgar þar sem hann bjó í 3 ár. Árið 1992 fór hann til Mexikóborgar og fékk þar hlutverk í söngleiknum “Mamá Ama el Rock” (Mamma elskar rokk) og í kjölfarið komst hann í sápuóperu. Þetta sama ár gaf Sony útgáfufyrirtækið út fyrsta frumsamda geisladiskinn hans “Me Amarás” (Þú munt elska mig) og náði hann platínusölu, þar með var boltinn farinn að rúlla. Á sama tíma og þetta gerist hafði Ricky náð sáttum við móður sína en sömu sögu var ekki að segja um sambandið við föður hans, Enrique. Það var ekki fyrr en árið 1995, þegar Ricky missti föðurafa sinn, að hann ákvað að hann væri að sóa dýrmætum tíma. ,, Ég bara þoldi ekki lengur þessa fjarlægð. Annar okkar varð að láta fortíðina um lönd leiða og taka af skarið. Hann var faðirinn. Ég vissi að það yrði að vera ég.” Í dag talast þeir feðgar við a.m.k. einu sinni í viku og eftir því sem frægð hans eykst, treystir Ricky meira á nálægðina við fjölskyldu sína.

FRÆGÐIN
Eins og hér kemur fram, treystir Ricky Martin á það að sterk tengsl hans við fjölskylduna haldi honum jarðbundnum enda hefði hann auðveldlega getað dalað uppi montinn, þóttafullur og bitur, örlög sem bíða margra stjarna sem hrapa af himinhvolfi frægðarinnar. ,,Við skulum bara vera alveg hreinskilin; ég hef átt mínar góðu og slæmu stundir en ég er stoltur af því öllu, hverju einasta skrefi.” En hvað er það besta við alla þessa atburðarás frægðar og frama? ,,Tvímælalaust að vera á sviðinu. Adrenalínið er ótrúlegt. Ímyndaðu þér að öll skilningarvitin séu þanin til hins ýtrasta. Þú sérð fólk ganga af göflunum, dansandi og skemmtandi sér við þína tónlist. Það er þitt hlutverk; að láta þau ganga af göflunum. Þess vegna segi ég að tungumál skipti ekki máli í tónlistinni. Það sagði mér eitt sinn alveg stórkostlegur brasilískur tónlistarkennari að þegar Afríkubúar komu fyrst til Ameríku þá hafi þeir ekki allir talað sama tungumálið þannig að þeir tjáðu sig með tónlistinni. Þegar það er trumbusláttur í tónlist þá finnur maður afríkanska andann tjá sig, það skiptir ekki máli hvaðan maður kemur, púlsinn verður hluti af líkamanum og fólk verður að dansa.

(Samantekt þessi er þýdd upp úr viðtölum við Ricky Martin sem birtust í tímaritunum Interview og People Weekly í júní 1999)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home