Kaerleikshvetjandi blogg

mánudagur, október 03, 2005

HöfJrk Slæmur hugur óheppilegur Órétti beitt

Það vill þannig til að mér hafa borist mörg svipuð bréf á liðnum mánuðum frá fólki sem allt spyr hvort slæmur hugur til annarrar manneskju geti reynst þeim sem fyrir verður fjötur um fót eða jafnvel skaðlegur. Af þessum ástæðum leggjum við að þessu sinni útaf þessum aragrúa fyrirspurna og grípum niður í einu bréfanna sem í sjálfu sér er mjög táknrænt fyrir flest hinna. Kona rúmlega tvítug sem kallar sig Rós segist hafa verið beitt órétti. Hún var svipt vinnu fyrirvaralítið og fylltist mikilli heift út í þann sem það gerði, það er að segja fyrirverandi vinnuveitanda sinn."Sannleikur uppsagnar­innar séð frá mér", segir Rós "liggur í því að hann vildi nota mig sem konu og ég hafnaði því náttúrulega þar sem hann hvorki höfðaði til mín né hentaði minni persónu á nokkurn máta. Eins og ég segi þá fylltist ég heift út í hann og hugsaði jafnvel hvernig ég gæti hefnt mín á honum svo hann fengi að finna jafn mikið til og ég gerði þegar ég stóð uppi atvinnulaus og beygð af hans völdum. Skömmu síðar hvort sem það er tilviljun eða ekki gerist það að viðkomandi lendir í bílslysi og skaðast þannig að hann er í hjólastól núna."
Heift og neikvæðar hugsanir
Rós segist hafa verið gripin mikilli sektarkennd í kjölfar þessa atburðar og spyr hvort það geti hugsast að heift hennar út í viðkomandi geti hafa valdið því að þessi átakanlegi atburður átti sér stað í lífi mannsins. Hún veltir líka fyrir sé hvort það geti verið samband á milli þess hvað gerist í lífi þeirra sem ganga á rétt hennar og hugsanlega hugsana hennar. "Engu líkara", segir Rós " er en ef mér er gert eitthvað neikvætt sem mér sárnar verulega enn þá verði sá sem sárindunum veldur innra með mér fyrir einhverjum skakkaföllum eða leiðindum".Eins spyr Rós og er þungt í henni enda er hún áhyggjufull. "Getur það verið tilfellið að hugsanir okkar séu einhvers konar óbeisluð orka sem leysist úr læðingi af ýmsum ástæðum og hefur þá ákveðin áhrif hvort sem er til góðs eða ills?" Sem sagt áhyggjur Rósar eru samnefnarar fyrir áhyggjur fjölda fólks sem hefur skrifað mér og borið undir mig svipaðar vangaveltur. Rós þakkar mér fyrir fyrirfram og óskar bæði mér og mínum Guðs blessunar sem ég vil þakka henni sérstaklega fyrir og vona að hún verði einhvers vísari eftir að ég hef svarað henni. Auðvitað nota ég áfram hyggjuvit mitt, reynsluþekkingu og innsæi til að styrkja svör mín.
Lögmál orsaka og afleiðinga
Við lifum við lögmál sem eru ekkert síður andleg en efnisleg. Hver einast orsök hlýtur alltaf að hafa afleiðingu í för með sér hver svo sem hún verður á endanum. Þar er átt við að við getum ekki hegðað okkur hvernig sem við viljum. Allt sem við segjum eða hugsum hefur í för með sér afleiðingar sem eru ýmist góðar eða slæmar.Allt eftir því hvað það er sem við erum að "sá" til hverju sinni. Sé framkvæmd okkar neikvæð, þá kemur sem afleiðing af henni neikvæð útkoma fyrir okkur ekkert síður en þá sem fyrir verða, jafnvel þó síðar verði það sanna dæmin augljóslega.Þetta gerist vegna þess að það er eitthvað til í mannlegum reynsluheimi sem heitir lögmál orsaka og afleiðinga. Lögmál sem er svo sannarlega virkt og lifandi í okkar daglega lífi.
Ljótur grikkur og kynferðislegt áreiti
Ef við íhugum einmitt þetta sjónarmið, þá var vinnuveitandi Rósar vegna tillitsleysis við hana að skapa henni ómælt erfiði með því að gera henni þann ljóta grikk að undirbúa ekki fyrirfram og útskýrra með aðdragandi ástæðu þess að hann kaus að segja Rós upp störfum.Jafnframt því var hann að skapa sjálfum sér vanda því hann kemst ekki hjá því að þurfa sjálfur fyrr eða síðar að horfast á einhvern máta í augu við þessa óréttmætu ráðstöfun sína á persónu Rósar. Það er mikið mál að missa atvinnu sína fyrirvaralaust og af ástæðulaus að því er virðist í fljótu bragði séð. Mér finnst aftur á móti eins og af því að Rós vildi ekki þýðast þennan einstakling kynferðislega á sínum tíma, að þá hafi viðkomandi brugðist við þeirri augljósu höfnun með þessari ósmekklegu og óvönduðu framkvæmd.Kynlífslöngunum yfirmanna á ekki að fullnægja á vinnustað, jafnvel þó það þýði að maður missi starf sitt eins og Rós ef maður neitar að taka þátt í slíku atferli yfirmanns síns.
Breytt gildismat
Ég lít ekki svo á að neitt samband sé á milli þess slys sem hann lenti svo í síðar og svo aftur framkomu hans við Rós. Aftur á móti stendur hann í mjög erfiðum sporum í dag sem vissulega hafa bæði svipt hann vinnunni og frekari möguleikum til að ráðskast ósæmilega með annað fólk. Slysið sem hann fór í gegnum og afleiðingar þess er ekkert sem Rós hefur vísvitandi kallað yfir hann. Slys bara koma og fara eftir atvikum og eina ráð okkar við þannig vanda er að reyna láta breyttar aðstæður og hvers kyns takmarkanir verða til þess að breyta gildismati okkar og viðhorfum. Bæði til heilbrigðis og svo aftur til þeirra efnislegu gilda sem alltof víða verða til þess að við verðum eins og tillitlausari í samskiptum okkar hvert við annað.
Slys en ekki ásetningur
Aftur á móti má segja að í hverri þraut felist möguleikar á auknum þroska og þess vegna þurfa þannig aðstæður í sjálfum sér alls ekki að gera okkur að ófullkomnara fólki, þrátt fyrir að vera erfiðar í eðli sínu.Auðvitað er alls ekki hægt að gera Rós ábyrga fyrir því slysi sem fyrirverandi vinnuveitandi hennar fór í gegnum og þá náttúrlega alls ekki þeim afleiðingum sem fylgdu í kjölfarið. Slys verða venjulegast að veruleika eins og fyrir röð af tilviljunum, en sjaldnast vegna ásetnings annarra. Við getum reynt að fyrirbyggja þau en alls ekki alltaf komið í veg fyrir þau því miður. Þau bara verða á vegi okkar sumra og þá koma þau okkur venjulegast á óvart.
Getgátur og orsakalögmál
Ótrúlegt er að við dauðlegir menn og ófullkomnir séum þess megnugir nákvæmlega að segja til um hvaða afleiðingar nákvæmlega eru beinlínis afleiðing af fyrri framkvæmdum okkar.Það eru ekkert nema getgátur þegar við erum að reyna að telja okkur trú um að einmitt tiltekin atburðarrás í lífi okkar eða annarra sé afleiðing af nákvæmlega einu afmörkuðu atferli, þó það hafi í eðli sínu verið neikvæð framkvæmd sem mun sem slík fela í sér einhverja afleiðingu samkvæmt lögmáli orsaka og afleiðinga. Þrátt fyrir að svo sé þá er algjörlega ómögulegt að sanna hverjar rætur orsakarinnar eru, þó okkur þyki stundum eins og Rós og fleiri, að það megi sjá ákveðið orsakasamband á milli fyrri framkvæmda og svo aftur þeirra hluta sem eru í gangi í lífi viðkomandi þá stundina. Einmitt með tilliti til þess að hver orsök sem viðkomandi hefur gefið líf hefur sína afleiðingu góða eða slæma, allt eftir atvikum hverju sinni, þá getur eitt og annað hvarflað að viðkomandi sem mögulega gæti skýrt atburðarrás augnabliksins út fyrir honum.
Hugsanir eru lifandi orka
Vissulega eins og hvarflar að Rós, er óhætt að fullyrða að hugsanir okkar eru lifandi orka sem við getum í gegnum stjórntækið heila fylgt eftir með viljafestu og ásetningi. Ef við erum í hefndarhug, þá leysist neikvæð hugsanaorkan úr læðingi og hittir auðvitað einhvern fyrir. Ef við beinum henni að einni tiltekinni persónu, þá segir það sig sjálft að við eigum með því þátt í að skapa óþægindi í kringum viðkomandi, þó ekki sé verið að segja að því fylgi eitthvert tjón endilega fyrir persónuna. Alla vega eykur það ekki á vellíðan neins, ef honum eru að staðaldri sendir skaðlegir orkustraumar sem leika án vitundar viðkomandi lausum hala í kringum hann. Ef vísindamenn eru komnir það langt í rannsóknum sínum á mætti mannshugans að getað sannað að góðar hugsanir í formi kærleiksríkra bæna verið þeim sem þær þiggur ávinningur t.d. á þrauta stundum sjúkdóma, þá hljóta neikvæðar hugsanir að skila sér líka til þeirra sem þær eru ætlaðar og mögulega hafa sínar afleiðingar, þó ekki verið það svo auðveldlega sannað hverjar þær gætu orðið nákvæmlega.
Niðurrif og sigursæld
Síðan má líka benda á, að ef við fyllum hugann af neikvæði, þá takamarkast ekki gildi slíkra hugsana bara við þann sem verið er að senda þær. Þær hafa líka og ekkert síður áhrif á höfund sinn. Þær eru í eðli sínu niðurrífandi og geta aldrei annað en haft slæma eftirmála. Aftur á móti má gefa sér það gagnstæða þegar við eflum innra með okkur jákvæðar hugsanir öðrum til handa ekkert síður en okkur sjálfum, þá hafa þær áhrif og þá auðvitað góð áhrif og eiga beinlínis þátt í að auka sigursæld þess eða þeirra sem verið er að senda þær til eins og okkar sjálfra, þó ekki sé hægt að ganga nákvæmlega úr skugga um hvernig eða hvenær.
Jákvæð lífsýn og góðleikur
Öll hugsun slæm eða góð hefur afleiðingu í för með sér og einmitt vegna þess er eðlilegra að temja sér sem jákvæðasta lífsýn og vera fremur góðgjörn í garð annarra en neikvæð og snúin. Við ættum aldrei að óska öðrum ills og alls ekki þó viðkomandi hafi brotið af sér við okkur. Það er ekki okkar hlutverk að dæma aðra. Ekki einu sinni óvildarmenn okkar. Þeir dæma sig sjálfir með röngum framkvæmdum sínum og verða fyrr eða síðar að taka öllum afleiðingum af rangri breytni sinni hvort sem er. Þannig virka þessi lögmál sem áður var sagt frá. Þessi sérkennilegu andlegu lögmál orsaka og afleiðinga þeirra. Vonbrigði og óréttlæti
Ég hvet því Rós og aðra lesendur sem hafa skrifað mér um andúð sína á óvildarmönnum sínu að beina hugsunum sínum séu þær neikvæðar í jákvæðar áttir og snúa sér að sjálfs síns jákvæðri uppbyggingu eftir þau vonbrigði og óréttlæti sem kann af annarra völdum að hafa dunið yfir þá. Það koma ekki allir dagar í einu en þeir koma hver á eftir öðrum. Þess vegna má segja, að þó erfitt sé að kyngja og sætta sig við ódrengilega framkomu annarra að ósekju í manns garð, þá sé sterkur varnarleikur að forðast alla heift út í skaðvaldinn og láta einfaldlega lífið sjálft kenna viðkomandi að það getur engin komist upp með það til lengdar að fótum troða rétt annarra, án þess að það hitt óþyrmilega gerandann fyrir fyrr eða síðar. Hvernig nákvæmlega varðar okkur ekkert um, enda enginn kominn til með að segja nákvæmlega til um við hvaða aðstæður endanlegt uppgjör verður nema Forsjónin sjálf. Öll afstaða önnur í svona málum er óheppileg og eitrar manngildi okkar en göfgar það ekki.

Eða eins og bitra stelpan sagði einu sinni mjög reið."Elskurnar mínar ég hefni mín aldrei vegna þess að amma sagði mér þegar ég var tveggja ára að Guð launaði fyrir Hrafninn og þar við situr.Hann veit allt, sér allt og lætur engum líðast að fótum troða sín minnstu börn, án þess að verja þau á sinn hátt. Svona hugsaði amma og svona hugsa ég náttúrlega. Amen eftir efninu."
Með vinsemd
Jóna Rúna

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home