Kaerleikshvetjandi blogg

föstudagur, september 30, 2005

Höf jrk GLÆSILEIKI
Óneitanlega leggjum við mismunandi mikið upp úr hvers kyns glæsimennsku og íburði. Við sem viljum taka okkur vel út og hafa aðstæður okkar sem glæsilegastar eyðum venjulegast miklum tíma í að skreyta bæði okkur sjálf og umhverfi okkar. Það er auðvitað allt í lagi svo fremur sem við vanrækjum ekki manngildi okkar og hugsanir. Það er eðlilegt að við höfum áhuga fyrir því að vera fín og vel til höfð en það er lítið í það varið ef það er á kostnað innri gilda og góðra og velviljaðra samskipti. Best er að það ríki ákveðið jafnvægi á milli innra og ytra lífs okkar. Hugsanir okkar skipta verulegu máli og ef þær skortir fágun og jákvæðan styrk veldur það okkur vandræðum og óþægindum.Ágætt er að við höldum okkur til og að við leggjum einhverja áherslu á að vera glæst og fögur en það má alls ekki vera á kostnað þeirra verðmæta sem ekki sjást en hafa þrátt fyrir það áhrif á líf okkar og tilveru.Ef að við veljum að halda okkur til og leggjum ákveðna vinnu í að vera fönguleg og fín líður okkur óneitanlega betur en ef við erum drusluleg og kæruleysis­lega klædd.Það virkar jafnframt vel á okkur að umhverfi okkar og aðstæður séu heilstæðar og skipulagðar. Það er niðurdrepandi að búa í óskipulagi og upplausn þar sem ríkir ljótleiki og sóðaskapur. Ákveðinn glæsibragur getur verið mikilvægur m.a. vegna þess að hann ýtir á jásaman hátt undir fegurða­rvitund okkar. Fari hann hins vegar út í öfgar og óhóf þá vinnur hann gegn velferð okkar og framgangi á marga vegu.Glæsileiki sem er styrktur af jálægum lífsviðhorfum auk þess að vera íhalds­samur og formfastur er ákjósanlegur því sá sem býr yfir honum er venjulega glæstur og smart án þess að það kosti viðkomandi óþarfa fé og fyrirhöfn. Hvers kyns innihalds­leysi og sýndarmennska veikja glæsileika okkar og sjarma. Skraut­girni og pjatt sem þjónar einungis skammsýnum sjónarmiðum og veraldlegum eða andlega hégóma er ekki til eftir­breytni og gefur hvorki aðstæðum okkar eða okkur sjálfum ferskara og ákjósanlegra yfirbragð.Glæsileiki getur jafnframt legið í góðum og álitlegum árangri í leik eða starfi ekkert síður en í þeim höfðingsskap sem liggur í því að nálgast aðra af velvild og hlýju. Öll samskipti ættu að mótast af einhverju leyti af myndarskap og upp­örvandi viðmiðum sem auðvelda okkur að takast á við okkar daglega líf. Það er fyrirmyndar sjónarmið í sam­skiptum að velja að vera alúðlegur og jákær.Það er glæsi­legt að vera uppör­vandi og meðvitaður um mikilvægi þess að gera öðrum lífið áhugavert og léttbært.Höfnum því þeim glæsileika sem er vanvirðandi og skammsýnn auk þess að vera hlaðin skrumi og óþarfa skrauti.Það er ákjósanlegra að við styrkjum fremur þann myndarskap sem er varfærin og velviljaður og virkar glæsilega vegna þess að hann er látlaus og fagur í eðli sínu og innri uppbyggingu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home