Kaerleikshvetjandi blogg

laugardagur, október 01, 2005

Höfundur:
Jóna runa

höf jrk
Eftirtektarvert draumlíf
(Svar til Snúlla 16 ára)
Elsku Jóna Rúna! Ég verð að skrifa þér og vona svo sannarlega að þú svarir mér sem fyrst. Ég er 16 ára strákur, sem er gjörsamlega að verða brjálaður, vegna þess að mig dreymir svo rosalega mikið. Frá því að ég var lítill hefur mig dreymt furðulegustu drauma og heilu næturnar nokkurn veginn stanslaust.

Ég er elstur af fjórum systkinum og heima hjá mér er oftast allt á útopnu. Foreldrar mínir eru ágætir, en málið er að þau eru ekki mjög trúuð á dulræna hluti og finnst mér það mjög mikill galli, vegna þess að ég get eiginlega ekkert rætt við þau um þessa sérstöku drauma. Stundum kemur þó fyrir að þau fá áhuga, vegna þess að það hefur sýnt sig að draumarnir mínir gerast næstum nákvæm­lega eins og mig dreymdi þá kannski nokkrum dögum eða vikum seinna.

Ég er þó svolítið hræddur við þetta, því fyrir þó nokkru dreymdi mig að einn vinur minn hefði lent í bílslysi og nokkrum vikum seinna gerðist það, að hann lendir í umferðarslysi alveg á sama stað og mig var áður búið að dreyma. Ég fór alveg í kerfi, vegna þess að ég hafði ekki sagt vini mínum drauminn. Fannst það svo hallærislegt eða eitthvað. Svo þegar hann slasaðist mikið í raunveru­lega slysinu eins og í draumnum, fékk ég svo rosalega bakþanka og einhverja óþægilega tilfinningu innra með mér, sem reyndar er enn þá til staðar.

Ég ræddi þetta við foreldra mína, en þau virðast ekki skilja hvað þetta er óþægilegt fyrir mig. Segja bara að þetta eldist örugglega af mér. Pabbi sagði að enginn geti trúað á drauma, þeir séu ekki tengdir raunveruleikanum. Hann hefur þó sjálfur lent í draumi hjá mér og sá draumur kom fram nákvæmlega eins og mig dreymdi hann. Mig dreymdi að hann væri á spítala og gæti ekki gengið. Tveim mánuðum seinna lenti hann einmitt á spítala, af því að hann gat ekki gengið vegna baksins og það varð að skera hann upp.

Sundum er ég svo hræddur við að sofna, útaf þessum draumum, að ég ligg bara andvaka heilu næturnar. Einu sinni dreymdi mig, að Jesú Krist hann kom til mín og faðmaði mig að sér og setti ljós yfir höfuðið á mér. Ef mig dreymir langa drauma eru þeir eins og heil saga sumir. Stundum finnst mér líka í draumi að ég sé þar sem þeir dánu eru. Það er örugglega rétt hjá mér, vegna þess að stundum hefur afi minn sem er dáinn komið í byrjun draumsins og farið með mig í umhverfi sem er ótrúlega fallegt og friðsælt. Eftir svoleiðis drauma er ég ekkert hræddur, líður bara vel og vildi helst sofa lengur.

Elsku Jóna Rúna hvað á ég að gera? Stundum hef ég á tilfinn­ingunni, að enginn strákur á mínum aldri standi í þessu draumaveseni og það gerir mig svo óvissan, asnalegan og einmanna. Ég hef svo ofboðslega þörf fyrir að tala um þetta. Ég var víst mjög skyggn, þegar ég var undir sex ára aldri og stundum kemur fyrir að ég sé þá sem eru dánir, en ekki oft í seinni tíð. Ég man þó ekki mikið eftir því tímabili sem mest bar á þessari skyggni hjá mér. Sumt man ég þó greinilega.

Viltu hjálpa mér að reyna að skilja, af hverju ég er svona, en ekki t.d. félagar mínir og systkini? Kæra Jóna eru allir miðlar svona skilningsríkir og eins spes og þú? Ekki hætta að svara bréfum í Vikunni, því ég veit að margir félagar mínir liggja í bréfunum sem þú svarar. Það er alveg öruggt mál að við unglingarnir stöndum með þér, þó við og segjum stundum í gríni: " Ætli manneskjan sé alltaf hinumegin?" Eða: " Getur verið að gellan sé göldrótt eða eitthvað?
Þinn einlægur aðdáandi Snúlli

PS. Hvernig gæi heldur þú að ég sé? Viltu aðeins kíkja á manngerðina og kannski hugsanlega möguleika mína? Dreymir þig mikið? Ástarþakkir fyrir allt.

Kæri Snúlli! Mikið var bréfið þitt skemmtilegt. Við skoðum að sjálfsögðu drauma og mögulegt gildi þeirra í svari mínu til þín. Vonandi verður það til að auðvelda þér þetta eitthvað og hugsanlega til að auka skilning þinn á þessum sérstaka hæfileika sem þú sýnilega hefur. Það er gleðilegt að heyra að þið unglingarnir séuð sátt við svörin mín, því ég er mjög "sátt" við ykkur. Sennilega er ég göldrótt á einhvern hátt eins og ykkur hefur svo skynsamlega dottið í hug, ég fer bara vel með það eða þannig. Kærar þakkir fyrir uppörvunina elskan.

Þú spyrð hvort mig dreymi mikið. Sannleikurinn er sá að þetta síðasta ár í lífi mínu hefur mér dreymt ótrúlega nákvæmlega öll aðalatriði í lífi einstaklings, sem hefur verið að kljást við mjög sérkennilegar aðstæður. Þessir mögnuðu draumar hafa ýmist verið berir eða táknrænir, auk þess að hafa innihaldi mjög mikilvæga leiðsögn eða ábendingar fyrir viðkomandi, ýmist í formi hvatningar eða umvöndunar. Ég segi eins og þú, að það getur verið þrautafullt að vera meira en í meðallagi dreymin og ekki síst á dulrænan máta eins og ég og sennilega þú. Við notumst við innsæi mitt, reynslu­þekkingu og hyggjuvit í allri umfjöllun um þig og það sem íþyngir þér.
Draumar nauðsynlegir fólki
Ef við til að byrja með íhugum drauma yfirleitt, þá verð ég að segja, að án þeirra væri tilvera okkar heldur fátækleg a.m.k. stundum. Vísindamenn hafa eytt miklum tíma og fjármunum til þessa að rannsaka draumlíf fólks og gera trúlega enn. Flest í þeim rannsóknum bendir til að draumar séu fullkomlega nauðsynlegir fólki og án þeirra geti skapast hvers kyns sálrænn vandi, sem erfitt getur verið að henda reyður á hvernig kemur fram.

Þær tilraunir sem hafa verið gerðar með tækjum og til þess gerðum útbúnaði á t.d. dýrum hafa gefið mjög mikilvægar vísbendingar. Hafi þau t.d. verið áreitt á byrjunarstigum draumlíf hafa þau brugðist mjög neikvætt við öllu utanaðkomandi áreitt og sérílagi því sem hefur orðið til að vekja þau af svefni, sem inniheldur draumferli á fyrstu stigum. Sum hafa við endurteknar tilraunir fengið tímabundin geðræn vandamál, sem talin eru benda til að í draumi sé einhvers sú útrás nauðsynleg sem ekki fæst í vöku og þá tilfinningaleg og sálræn. Margt í okkar vökulífi okkar er þess eðlis að það samræmist ekki þeim siðgæðiskröfum t.d. sem flest heilbrigt fólk setur sér eða þjóðfélagsstaða þess krefst af því, en kveikir samt ákveðnar þrá og langanir sem við bælum með okkur, af ótta við höfnun eða umvöndu.

Þegar þannig er ástatt fyrir fólki, getur myndast mikil sálræn- og tilfinningaleg spenna, sem verður að fá útrás ef viðkomandi á að halda góðri geðheilsu. Sjálfsvarnar­kerfi þannig ástands virðist vera hvers kyns útrás þessara forboðnu tilfinninga eða langana í draumum sem síðan eru afgreiddir sem rugl, ef eðli þeirra og innihald er óhentugt okkur í vöku. Svokallaðar martraðir eru oftar en ekki af þessum toga. Eins er mannssálin svo margslungi og oftar en ekki hjá ágætasta fólki er eitt og annað sem blundar í sálartetrinu, sem við viljum afneita og horfa framhjá, en krefst samt sem áður einhvers konar léttis eða lausna og eins og áður sagði og af þessum ástæðum er draumlífið oftar en ekki vetvangur tímabundinna úrlausna
okkur til sáluhjálpar.

Berdreymi eða tákdreymi
Mikill eðlismunur er því á þeim draumum sem kallast berir eða táknrænir og áður sögðu draumlífi. Ef við íhugum þitt draumlíf þá ert þú sýnilega það sem kallað er berdreyminn og það meira en í meðallagi, vegna þess að þú virðist eiga nokkuð stöðugt og magnað draumlíf. Draumar sem eru berir koma eins og í þínu tilviki koma nokkuð nákvæmlega fram, mismunandi hratt eftir atvikum þó. Í þannig draumum eru staðhættir, fólk og atburðarrás venjulega nákvæmlega eins og síðar endurtekur sig í raunveruleikanum. Vissulega er á ferðinni í þessum tilvikum forspá sem rætist fyrr eða síðar.

Það er því hægt að fullyrða að þú sér forspár með þessum sérstaka hætti. Aftur á móti er ágætt að að átta sig á, að ekki koma allir draumar fram og sumir þinna drauma geta auðveldlega fallið undir það sem áður sagði eða það sem nauðsynlegt er að fá útrá fyrir. Vissulega getur það verið nokkur áþján, að fá upplýsingar un það sem framtíðin ber í skauti sér með þessum ómeðvitaða hætti.

Tákndreymi mun algengara
Tákndreymi er mun algengara fyrirbæri og mjög marga dreymir fyrir hinu og þessu á táknrænan máta. Þannig draumar eru oftast nokkuð stuttir og fremur skýrir. Í þeim eru oft nöfn mjög mikilvæg og oftar en ekki þarf að ígrunda vel staðhætti, hluti, atburðarás og fólk í tákndraumum og vanda vel alla skoðun og mögulegt gildi þessara tákna.

Sumir verða mjög færir fyrir eða síðar að túlka þannig drauma. Ef okkur dreymir t.d. snjó gæti slíkt verið fyrirboði tímabundinna erfiðleika og þá snjódraumar okkar alltaf vitað á slíkt. Í sumum tilvikum er til fólk sem verður að kallast bæði tákn og berdreymið og dreymir þá jöfnum höndum þessar tvær ólíku tegundir drauma, sem þó hafa svipað gildi og tengjast báðir forspám með þessum sérstaka hætti.

Sálfarir en ekki draumar
Ef við veltum aftur á móti fyrir okkur þessum draumum, sem þér finnst þig vera að dreyma, þar sem afi þinn sækir þig og fer með þig á áður ókunna staði, þar sem þér finnst vera heimkynni þeirra látnu, er ekki um draum að ræða heldur það sem fella mætti undir sálfarir. Vegna þess að sálfarir fólk fara oft fram í tengslum við svefn þá ruglum við þessu tvennu iðulega saman. Sennilegt er að þegar afi þinn birtist þér í svefni, þá sé hann að leiða þig á vit þeirrar veraldar, þar sem hann á heimkynni sín í, en það er ríki Guðs.

Í húsi föðurins eins og Kristur sagði eru margar vistaverur og af þeim ástæðum er ekki ólíklegt að þú kunnir í þessum ferðum með afa, að koma víða við. Hvað varðar það að þú finnir vellíðan og innri frið grípa um sig á hugskoti þínu á meðan og á eftir undirstrikar bara að þú ert á ferðalagi í þessum sálförum þínum á ferð um kærleiksveröld drottins, þar sem við öll eigum vísan sama stað að loknu jarðlífinu enn þó í mismunandi vistar­verum. Nokkuð sem við getum haft áhrif á með breytni okkar hér á jörðinni.

Það er því engin ástæða fyrir þig til að óttast þessa tegund upplifunar í svefnástandi og enn síður þar sem afi þinn leiðir þig og verndar fyrir öllu því sem mögulega gæti valdi þér óþægindum. Það sem virkilega undirstrikar að draumlíf þitt er sérstök náðargáfa, sem þér er ætlað að lifa með og umbera er t.d. draumurinn um Jesú Krist. Hann bendir ákveðið til þess að þú njótir Guðlegrar forsjár, þrátt fyrir eðlilegan ótta þinn og óöryggi vegna alls þessa, en sem komið er.

Sektarkennd og skilningsleysi
Hvað varðar drauminn um vin þinn er þetta að segja. Það er alrangt að fyllast sektarkennd vegna þess sem þú í draumi sást fyrir og síðar varð að veruleika í lífi hans. Þó þú hefðir sagt honum drauminn, er heldur ósennilegt að þú hefðir forðað vanda hans. Það má alveg eins segja í þessu tilviki, að trúlega hafi hann átt að eignast þá reynslu sem slysinu fylgdi. Það er alls ekki víst hvort sem þér líkar að heyra það eða ekki, að vini þínum hefði þótt nokkur þægð í þeim upplýsingu sem þú bjóst yfir vegna vætanlegs slys. Honum eins og þér gæti hafa fundist óviðeigandi að velta sér uppúr þannig möguleika og ekkert óeðlilegt við að gefa sér það að hann hefði hreinlega ýtt þessum möguleika út í hafshauga, þó ekki væri nema vegna ungdóms síns.
Greinilega framsýnn
Hitt er svo annað mál að í þessu tilviki var greinilega um framsýni eða forspá þína að ræða í gegnum þennan bera draum, en hvernig á ungur strákur eins og þú að hafa fullt traust á sérkennilegu draumlífi sínu, þegar hann skortir bæði þekkingu og trú á eigin hæfni á þessu makalausa sviði. Það er elskulegur margra ára fyrirhöfn að þjálfa fullan eigin skilning á því sem tengist draumlífi okkar og þar af leiðandi mjög ósanngjarnt af þér, að refsa sjálfum þér, þó þú hafir séð í draumi fyrir ókomin atburð. Ef þú hefðir verið fullkomlega viss um sannleik þann sem draumurinn innihélt, þá hefðir þú örugglega beitt öllum tiltækum ráðum til að reyna að afstýra slysinu.

Á þessum vangaveltum sérðu, að það er engin ástæða fyrir þig til að vera með sektarkennd. Hún er tilgangslaus núna, vegna þess að slysið hefur átt sér stað og við breytum ekki því sem þegar hefur gerst. Eins veit maður alls ekki nema eins og áður sagði, að það kunni að vera einhver tilgangur á bak við þennan atburð, sem getur orðið til góðs fyrir vin þinn, þegar betur er að gáð og síðar kann að koma í ljós.

Einsemd dreymanda
Þú átt í ákveðnum erfiðleikum vegna þessa draumlífs og ekki síst hvað varðar þína nánustu, vegna þess hvað fráhverf þau eru því yfirskilvitlega og er það hryggilegt sérstaklega með tilliti til þess að það er svo mikilvægt þegar við erum ung og ómótuð, þó við séum ólík foreldrum okkar að eðlisþáttum og upplagi, að þeir beri gæfu til að virða það sem okkur er eiginlegt. Þar sem þau hafa orðið vitni að því að þú hefur reynst sannspár í gegnum drauma, væri eðlilegra að þú gætir rætt þessa sérgáfu þína við þau.

Öll umræða um það sem annars vegar vekur vellíðan okkar eða ótta er mikilvæg og ekki síst til að auka líkur á frekari skilningi okkar sjálfra á fyrirbærinu. Ef útilokað er að vænta skilnings af foreldrum þínum verður þú að finna einhvern, annað hvort skyldan eða óskylda til að tala um þessa þætti í þér um. Vertu viss þú ert örugglega ekki einn um það að þurfa að létta á hjarta þínu hvað varðar drauma. Alla dreymir en fáa þannig að það sé mjög mikils virði, en nógu marga þó, til að einhver þeirra verði á vegi þínum, ef þú ert ófeiminn, við að þreyfa lítilega fyrir þér. Mögulega gæti það bæði orðið gagnlegt fyrir þig og þann sem þess heiður verður aðnjótandi að fá að kynnast því sem þú ert að upplifa á nóttunum.

Manngerð og möguleikar.
Þú spyrð hvernig gæi þú sért og ég segi bara eins og mamma gamla hefði sagt af sinni alkunnu speki: " Góður náttúrlega". Þú virðist mjög marþættur og fellur sennilega undir það sem kalla mætti að skaðlausu fremur flókna manngerð. Styrkur þinn gæti þó fremur legið á sviðum tækni og jafnvel uppgötvana, en öðru. Þú virðist nokkuð skapstiltur, en ert trúlega langrækinn og hefur þörf mikla þörf fyrir athygli og persónulega ást. Metnaður þinn mætti að skaðlausu vera ögn meiri fyrir eigin hönd. Spenna og ósamlyndi á trúlega mjög illa við þig og hætt við að þú leggir á flótta við þannig aðstæður.

Það tímabil í uppvextinum sem virðist hafa haft mest mótandi áhrif á þig, er tímabilið á milli fimm og tólf ára. Á því tímabili kannt þú að hafa eignast mikinn innri styrk, vegna aðstæðna og fólks sem hefur verið þér mikilvægt og náið. Þú verður sennilega einnar konu maður, sem verður að varast ótæpilega eigingirni í tilfinninga­málum. Þú virðist hafa tilheigingu til að slá eign þinn á þann sem þú kemur til með að elska. Þannig stráka eigum við stelpurnar sérlega erfitt með að þola, svona til viðvörunar fyrir þig. Mikilvægasti tími ævi þinnar verður sennilega um eða eftir fertugt. Þar gætu trúlega orðið feikilegar og margþættar breytingar í lífi þínu, sem sennilega munu gjörbreyta viðhorfum þínum til góðs fyrir þig og samferðarfólk þitt.

ÞÚ gætir haft nokkrar leti tilhneigingar og því afar mikilvægt fyrir þig að rækta vel innra líf þitt og aga þig ögn til. Þú virðist fyndinn og skemmtilegur og átt sennilega mjög auðvelt með að sjá spaugilegu hliðar sjálfs þíns og annarra. Þennan eiginleika mætti virkja og leyfa sem flestum að njóta góðs af. Hyggilegt er fyrir þig að krækja þér í starfs,þjálfun vegna þess að þú átt sennilega erfitt með að láta aðra drottna yfir þér og þarft þar af leiðandi að vera sem sjálfstæðastur. Það er jafnframt augljóst að þú ert með sérkennilega dulargáfu, sem gæti síðar á ævinni tekið á sig mun þægilegri myndir en draumarnir gera núna. Best er því að efla sem jákvæðast hugsun að staðaldri og staðfast trú á Guð og tilgangsríkt líf. Eða eins og saklausi sveitagæinn sagði einu sinni af alvarlega gefnu tilefni: " Elskurnar mínar eftir að ég fluttist í blæinn hef ég kynnst ýmsu, en trúlega best sjálfum mér. Ég var nefnilega einmanna um tíma og fékk þá gott tækifæri til að rækta eigið sjálf. Málið er þegar við sitjum ein að reynslu okkar, er eins og við verðum miklu meðvitaðri og vissari í vilja okkar til að halda meiriháttar vörð um það, sem verður að teljast sérstakt í upplagi okkar og manngerð".

Guð gefi þér aukna trú á eigið ágæti og vissu um gildi þess að vera öllum stundum einungis þú sjálfur.
Með vinsemd Jóna Rúna

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home